þriðjudagur, maí 31, 2005

Skattmann & Tollmann eiga mikið verk óunnið

Tók mér frí seinni partinn í dag. Maður nennir eiginlega ekki að gera neitt eftir spennufallið þegar launakeyrslan fer úr húsi. Heimsótti meðal annars vin minn Tollstjórann í Reykjavík. Hef heimsótt hann nokkuð reglulega upp á síðkastið þar sem hann hagar sér með mjög sérstökum hætti í mínum málum og mætti nýta starfsfólk verulega betur á þeim bænum með bættri notkun upplýsingatækni.

Dæmi: Við Gunna stofnuðum fyrirtæki í kringum blómabúðina á sínum tíma. Sökum slóðaskapar kláruðum við ekki að ganga frá bókhaldinu fyrir 2003 og 2004 fyrr en um síðustu áramót. Sendum þá inn skattaskýrslu 2004 (rekstrarárið 2003) og barst hún Skattstjóra þann 1. febrúar síðastliðinn.

Þann 7. apríl trítlar Sigginn niður í Tollstjóra og greiðir staðgreiðsluna (tæpar 20 þús. krónur) sem við drógum af þeim launum sem við skrifuðum á okkur og áttum að gera skil á ásamt tryggingargjaldi. M.ö.o. ég gerði upp skattinn og allt átti því að vera fullgreitt.

Stuttu seinna fæ ég bréf um að skattaskuldin upp á rúmlega 800 þús. sé komin í fjárnám. Þetta virkar nefnilega þannig að ef þú skuldar skattinum eitthvað þá áætlar hann bara svolítið ríflega á þig og byrjar síðan bara að rukka þig um þá upphæð þangað til þú sýnir honum fram á að hún sé ekki rétt. Ég átti semsagt að mæta hjá Sýslumanni í byrjun maí vegna ógreiddrar skuldar þar sem áætlunin var rúmlega 800 þús. á skuld sem var í rauninni um 20 þús.

Hefðu þeir bræður Tollstjóri og Skattstjóri nýtt sér upplýsingakerfin sín hefðu þeir komist að því að a) ég var búinn að leggja inn skattaskýrsluna (1. febrúar) og hún var á stafrænu formi þannig að þeir hefðu einfaldlega geta sótt þangað þær lykiltölur úr rekstrinum sem skiptu máli og því ekki þurft að áætla (800 þús.) heldur verið með rauntölur (20 þús.) og hins vegar það b) að ég var búinn að greiða skuldina 7. apríl eða næstum mánuði áður en fjárnámið átti sér stað.

Þess í stað þurfti ég í byrjun maí að fara úr vinnu, niður í Sýslumann og hitta þar tvo aðra fullfríska einstaklinga og þarna sátum við og eyddum tíma í mál sem var í rauninni ekki til. Vegna þess að 800 þús. kr. skuldin var í rauninni 20 þús. kr. skuld og þar á ofan löngu greidd.
Þetta kallar maður að sóa tíma starfsmanna sinna í ekki neitt. Ef ég væri eitthvað einsdæmi þá væri þetta kannski næstum því í lagi en væntanlega eru í gangi þúsundir svona mála í kerfinu og þarna sitja hinir tveir allan daginn alla daga með mismunandi Siggum og ræða mál sem eru í rauninni ekki nein mál. Í stað þess að nota upplýsingatæknina til að frysta áætlanir þeirra sem búin eru að skila skattskýrslum þangað til búið er að fara yfir þær og taka þá einungis fyrir raunverulega skuld þegar og ef hún raunverulega er til staðar þegar loksins er búið að fara yfir skattaskýrsluna. Það var semsagt ekki ennþá búið í dag þegar ég fór niður eftir þó svo hún hafi verið send inn 1. febrúar. Já, það er margt skrítið í kýrhausnum!

Ps. Það ánægjulega er hins vegar að beibstuðullinn virðist eitthvað fara hækkandi meðal þjónustufulltrúa hjá Tollstjóra og gerði það heimsóknina verulega mun ánægjulegri en oft áður. ;)

sunnudagur, maí 29, 2005

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

...sagði Jón Hreggviðsson enda er heimurinn ekki svartur og hvítur heldur oftast nær bara misjafnlega grár. Var að lesa úttekt Fréttablaðsins á sölu bankanna, fyrstu tvo hlutana. Æsispennandi reifari, raunveruleikasjónvarp úr íslenskum samtíma. Það hlýtur að vekja ákveðnar spurningar...

Ein lykilspurninga hvers stjórnanda í fyrirtækjum eða samfélögum er sú hvenær hann eigi að vera við stýrið og stjórna og hvenær hann eigi að fylgjast með úr fjarlægð. Almenna reglan er sú að því stærra og mikilvægara sem verkefnið er þeim mun betri innsýn vill stjórnandinn hafa í framgang og niðurstöðu verkefnisins.

Salan á bönkunum er dæmi um þetta. Klárlega eitt af stóru verkefnum undanfarinna ára. Verkefni sem myndu hafa veruleg efnahagsleg áhrif á íslenskt samfélag næstu áratugina.

Ef ég eða þú hefðum verið í stöðu Dabba og Dóra hefðum við átt að a) blanda okkur í framþróunina sem fulltrúar í stýrihópi (ráðherrahópnum) verkefnisins og hafa þannig áhrif á niðurstöðu þess (samfélaginu til heilla - eða ekki) eða b) láta fyrirframskilgreint ferlið um atburðarásina?

Er eðlilegt eða ekki eðlilegt að þeir sem ráðnir eru sem stjórnendur séu virkir í jafn stórum atburði og sölu bankanna? Er eðlilegt að þeir haldi sig bara þeygjandi á hliðarlínunni? Eru þeir þá að axla ábyrgð sína?

Hvað finnst ykkur?

laugardagur, maí 28, 2005

Vorhátíð Skátakórsins - Útitónleikar & Grill

Útitónleikar og grill við þvottalaugarnar í Laugardal laugardaginn 28. maí kl. 16.

Á morgun laugardaginn 28. maí kl. 16 heldur Skátakórinn vorhátíð í Laugardal, nánar tiltekið við gömlu þvottalaugarnar í nágrenni Skautahallarinnar.

Þungamiðjan í efnisskránni verða létt og skemmtileg skátalög sem kórinn hefur verið að taka upp á disk í vetur og er stefnt að útgáfu í sumar. Kórstjóri er Erna Blöndal og Örn Arnarson leikur undir á gítar.

Mótssöngur landsmóts 2005 - Frumflutningur kórsins
Landsmót skáta 2005 verður haldið að Úlfljótsvatni í 19.-26. júlí. Á tónleikunum frumflytur kórinn mótssönginn en hann hefur ekki verið sunginn af kórnum opinberlega áður. Textinn er eftir Kristján Hreinsson og lagið eftir Hrafnkel Pálsson, gítarleikara hljómsveitarinnar Í svörtum fötum og útsetningu fyrir Skátakórinn annaðist Aðalheiður Þorsteinsdóttir.

Grillað úti í vorinu Eftir tónleikana verður slegið upp grilli og eru tónleikagestir hvattir til að mæta með eitthvað gott á grillið. Höfum gaman saman úti í vorinu í Laugardalnum!

Listir og sólarlag!

Búinn að fá þráðlausa netið mitt til að virka heima. Ekki búið að virka á fartölvunni í 2 mánuði. Núna verður maður því oftar on-line heima.

Tók í inntökupróf í Söngskólanum í dag. Já, alltaf að prófa eitthvað nýtt! Blastaði þar yfir hóp af söngkennurum, Garðari Cortes, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og fullt af öðru liði. Það var líka tónheyrnarpróf sem var nú ekki mjög erfitt. Píanóleikari spilaði tvær og tvær nótur saman og maður átti að syngja annað hvort efri nótuna eða þá neðri. Nokkuð sniðug tónheyrnaræfing. Nokkuð skemmtilegt próf!

Fór síðan með Unni í Loftkastalann í kvöld á Múlan Rús sem FG er að setja þar upp. Flott sýning og aðalleikkonan hreinlega sló í gegn. Var ótrúlega öflug í mjög erfiðu og fjölbreyttu hlutverki. Svaka gleði og drama í bland, söngur, dans og alles. Rosalega öflug stelpa - stal alveg senunni!

Sátum reyndar að 2 bekk fram að hléi. Mæli ekki með því. Sáum reyndar upp undir pilsin hjá tuttugu stelpum eða svo en þar var ekki mikið að sjá enda kappklæddar. Dettur líka svolítið erótíska edge-ið úr þessu þegar maður sér gömlu sumarbúðabörnin sín dansandi uppi á sviði. Þá einhvern veginn hættir þetta að vera sexý og verður bara skemmtilegt í staðinn. :) Vissum líka alveg hver var með fæðingarbletti og í hvernig skóm liðið var. Vantaði hins vegar alveg "breiðtjaldsfídusinn".

Færðum okkur á fjórða eða fimmta bekk eftir hlé og þá fór maður loksins að sjá sýninguna sem varð alltaf betri og betri!

Stóðst ekki mátið eftir leikhúsið þegar ég var búinn að skila Unni heima og renndi út á Seltjarnarnes, settist á stein og horfði á sólina setjast. Var hrikalega flott að horfa yfir Snæfellsnesið og jökulinn og hreint með ólíkindum hvað hún hverfur hratt þegar hún er komin á bakvið fjöllin á annað borð. Þarna var fullt af bílum og fólki í sömu erindagjörðum enda sólarlagið eins og það gerist flottast. Já, synd að segja að þetta hafi ekki verið fjölbreyttur dagur.

föstudagur, maí 27, 2005

Einn og hálfur tími í inntökupróf...

Var sagt að ég þyrfti ekki að fara í inntökupróf í Söngskólann. Það var hins vegar misskilningur og nú gengur það í garð kl. 16:30, eftir einn og hálfan tíma. Spitt spitt...nú er bara að hössla þetta lið og syngja annað hvort svo vel að það vilji mann inn í skólann eða svo illa að það vilji ekki þurfa að hlusta á mann í öðru inntökuprófi á næsta ári. Sjáum til hvort verður!

Í kvöld er það síðan Múlan Rús í Loftkastalanum og á morgun tónleikar og grill með Skátakórnum við Þvottalaugarnar í Laugardalnum. Annars verður þetta vinnuhelgi. Margt sem þarf að klára vegna útborgunar eftir helgi....Action action action!

þriðjudagur, maí 24, 2005

Pólitíkin er skrítin tík...!

Já, Imba Solla kom sá og sigraði hjá Samfylkingunni um síðustu helgi ásamt Gústa litla. Haft var eftir bónda að norðan að þetta helv... væri orðið alveg eins og heima, konurnar og börnin stjórnuðu öllu!!

Álit mitt á Össuri jókst verulega um helgina. Það er ekkert mál að vera sigurvegari en það tekur á að komast vel frá því að tapa. Hann hefði svo auðveldlega getað misst sig í einhver leiðindi, sagt að allir væru vondir við sig og fengið sína menn á eftir sér í einhvern ríg en skildi þess í stað eftir stóran og sameinaðan flokk sem hefur aldrei verið stærri. Hann hefur klárlega sinnt ljósmóðurhlutverkinu af stakri snilld undanfarin ár eftir sameininguna (þótt hörðustu kommarnir hafi reyndar farið í Vinstri græna - sumir kalla Samfylkinguna reyndar Hægri rauða!). Eins og oft vill vera með frumkvöðlana þá var rétt að skipta um manninn í brúnni fyrir átök næstu missera. Svo missti hann mömmu sína strax eftir kveðjuræðuna, blessaður. Sjaldan er ein báran stök í sjö vindstigum. Nú er svo bara að sjá hvort Imba Solla skilar einhverju þannig að maður hafi áhuga á að kjósa þá næst.

Hef aldrei gert það. Hef hins vegar kosið R-listann. Finnst heppilegt að skipta um lið í brúnni á ca. 10 ára fresti. Það er að koma tími á það í borginni en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið algerlega höfuðlaus her síðan Davíð fór og verður það þangað til (og þetta hef ég sagt í líklega 7 ár eða svo) Kristján bæjarstjóri á Akureyri flytur í bæinn og tekur við borginni. Ég er viss um að það gerist fyrr eða síðar. Bíðið bara!

Er ánægður með Davíð og Halldór þegar á heildina er litið. Þeir eru að skila mjög góðu starfi. Auðvitað má alltaf gera enn betur, sérstaklega í velferðarmálunum en það verður líka að eiga fyrir hlutunum þegar hugsað er til langs tíma. Það er hins vegar alltaf spurning í öllum löndum hvort skynsamlegt sé að sömu menn séu við völd í 15 ár eða meira. Þá er embættismannakerfið orðið algerlega gegnsýrt af fólki með sömu skoðanir og svolítið farið að úldna innan frá. Ríkið hefur reyndar verið að taka mjög til í sínum ranni undanfarin ár hvað snertir árangursstjórnun en þó er full ástæða til að hafa varann á. Veit þó ekki hvað ég kýs næst. Það verður bara að koma í ljós hvað verður í boði.

Kaus síðast Framsókn. Hef ekki gert það áður. Það var bara það eina sem var í boði. Samfylkingin var bara barn og hafði nóg með að stjórna sjálfri sér, hvað þá heldur að reyna að stjórna einhverju öðru. Davíð var á hormónaflippi vegna blöðruhálskirtilsins, talaði tóma steypu og tók ennþá fleiri geðþóttaákvarðanir en venjulega; eins og þegar hann tók í bræðiskasti sparnaðinn sinn út úr KB-banka og heimtaði að jafnvel lífeyrissjóðirnir gerðu slíkt hið sama vegna þess að nokkrir menn í bankanum voru með of há laun að hans mati. Það væri náttúrlega hreinn glæpur ef lífeyrir landsmanna væri ávaxtaður á grundvelli launa nokkurra bankastarfsmanna í stað þess að vera ávaxtaður á grundvelli hámarksávöxtunar! Ekki gekk því að kjósa Dabba í það skiptið og ekki fer ég að kjósa Vinstri græna Jesús minn! Þá voru bara tveir möguleikar eftir: Að bjóða fram sjálfur eða kjósa Framsókn. Nennti ekki í framboð þannig að ég valdi hinn möguleikann. Já, hún er skrítin þessi pólitík!

mánudagur, maí 23, 2005

Söngur, dans og Los Sardinos!

Það verður ekki annað sagt en að kórpartý Orkuveitukórsins sem haldið var á föstudagskvöldið hafi farið ansi verulega fram úr væntingum. Átti von á tiltölulega rólegu eldriborgaraboði en bjóst við nokkrum söng. Þess í stað varð úr þessu fimm tíma snilld! Ég mætti með gítar, annar með harmonikku og á staðnum var forláta píanó. Kvöldið hófst á skemmtilegu spjalli þangað til ein af aldursforsetum hópsins, pínulítil kona að verða sjötugt greip nikkuna, spilaði af krafti í þrjú korter eða svo og blés ekki úr nös. Þá tók eigandi nikkunnar við í annan klukkutíma og þegar honum lauk þriðji kórfélaginn. Sá er fagmaður í bransanum, lék og djassaði á nikkuna sem óður væri. Með slíkan snilling á nikkunni stóðst kórstjórinn ekki freistinguna, settist við píanóið (maðurinn er með doktorspróf í píanóleik) og svo var djassað og djammað í bland við hin ýmsu lög, kokkinn og fleira. Þeir héldu áfram fram undir miðnætti og var dansað þarna upp um alla veggi. Eftir ballið fór gítarinn í gang og var sungið með honum og nikkunni fram á nótt. Hreint ótrúlega sprækur hópur og meðalaldurinn líklega hátt á sextugsaldurinn. Já, maður þarf sko ekki að örvænta hvað aldurinn snertir eftir svona partý!

Hafði áður farið í 10 ára afmæli til Teymis þar sem var salsaþema og allar stelpurnar með blóm í hárinu. Stöðug skot á einn starfsmanninn þarna sem í London með okkur í fyrra át eitt blóm eða svo en ákvað að hafa það í hárinu að þessu sinni.

Rólegheita laugardagur. Snatt hér og þar þangað til ég fór upp í vinnu. Vann nú ekki mikið því allur tíminn fór í Skátakórsmál. Ætluðum að halda tónleika uppi við Hvaleyrarvatn en það klikkaði. Ég fór því í tveggja tíma göngutúr um Elliðaárdalinn í leit að tónleikastöðum. Fann tvo og annan sínu betri en hinn. Kannaði í morgun (mánudag) hvort hægt væri að nota hann en svo var ekki. Er því búinn að finna þriðja staðinn og verður vorhátíð Skátakórsins haldin í Laugardalnum við gömlu þvottalaugarnar, næstkomandi laugardag kl. 16. Skemmtilegur staður í hjarta borgarinnar en samt í rólegheitum fjarri ys og þys borgarinnar. Spáð sól og blíðu um næstu helgi þannig að þetta verður gott frábært. Allir mæti með eitthvað á grillið og svo er bara að syngja með!

Sardínurnar héldu æfingu í gærkvöldi. Skemmtilegt. Sardínurnar - Los Sardinos - er laukur út frá Skátakórnum, þeirri merku menningarstofnun og sérhæfir sig í ýmsu með suðrænum blæ. Enduðum niðri í Hinu húsi hjá Hauki og höfðum þar snilldaraðstöðu. Spiluðum og rödduðum þar nokkur lög - skemmtilegt og fín æfing í því að radda. Hef ekki mikið verið í svona hljómsveitum. Stefnum að því að koma lagi á Skátakórsdiskinn og jafnvel ef við verðum í æfingu að koma fram á laugardaginn. Það verður þó að koma í ljós.

föstudagur, maí 20, 2005

Svona fór um sjóferð þá!

Greyið Selma tapaði á náttfötunum í Kiev. Hún og þær stöllur stóðu sig samt með mikilli prýði eins og hennar var von og vísa. Svakalega öflug stelpa og mikill fagmaður. Lagið var líka fínt. Málið var bara að það var fullt af fólki þarna að gera svipaða hluti þannig að lagið stóð ekkert út úr að neinu leyti. Við þurfum gott lag + sérstöðu til að gera einhverja hluti í þessari keppni. Nojararnir komust áfram vegna þess að þeir höfðu sérstöðu og þegar þú varst búinn að heyra öll lögin þá mundir þú ennþá eftir því að þeir höfðu tekið þátt. Selma greyið var gleymd. Hún var bara ein af fjöldanum.

Tillaga: Næst sendum við Jóhönnu Guðrúnu. Öflug stelpa, ca. 14 ára eða svo. Getur sungið, hefði sérstöðu og þetta trikk virkaði síðast með J'aime la Vie þegar Sandra Kim vann 1986. Sérstaða er lykilatriði þegar þú hlustar á tuttugu og fimm lög í röð. Annað hvort hefurðu sérstöðu, hver svo sem hún er, eða gleymist.

Gaman líka að sjá Lovísu og Álfrúnu saman í dansarahópnum. Ég vann með Lovísu í sumarbúðunum á Úlfljótsvatni 1993, rosalega skemmtileg stelpa og strax þá á fullu í dansinum. Einmitt þá var Álfrún sumarbúðabarn hjá okkur Lovísu og fleirum. Frábær krakki. Ein af þessum leikarabörnum sem maður vissi frá upphafi að yrði leikkona. Brilleraði á öllum kvöldvökum og hvar sem hún opnaði munninn.

Gott að Selma varð SOS sendiherra. Hún hefur þá eitthvað að gera í Úkraínu annað en að drekkja sorgum sínum fram yfir helgi. Já, svona fór um sjóferð þá!

fimmtudagur, maí 19, 2005

Út og suður þrumustuð!

Renndi í tjaldútilegu frá laugardegi fram á sunnudag upp að Djúpavatni á Reykjanesi. Þurfti á því að halda að sofa í tjaldi. Mmmm það var svo ljúft! Þurfti líka að lesa yfir RAP. Er í hópi á vegum Bandalags íslenskra skáta sem á að leiða endurskoðun á dagskránni. RAP stendur fyrir Renewed Approach to Programme og er stuðningsefni sem gefið er út af Evrópuskrifstofu skáta. Lá þar í blíðunni og fegurðinni, drakk kakó og Stroh og las yfir RAP-efni. Komst eitthvað af stað en betur má ef duga skal.

Fór síðan í Klink og bank á sunnudagskvöldið. Í meira lagi sérlega athyglisvert hús - og fólkið sem ég því er. Það er einhver stórskrítinn Þjóðverji með sýningu í kjallaranum sem við fórum í gegnum í myrkri - öfugt. Heitir Schliesenbergen eða eitthvað svoleiðis. Er að spá í að kíkja á hana frá réttum enda einhvern daginn. Stórskrítinn og mjög ólíklegt að maður komi út sem sami maður og maður var þegar maður fór inn. Vá! Rosalega voru þetta margir menn í einni setningu!!

Kóræfing á þriðjudaginn þar sem við tókum upp tvö lög fyrir diskinn. Fór síðan á Esjuna eftir vinnu í gær. 56 mínútur á Þverfellshornið. Gæti með látum meikað það á nokkrum mínútum skemmri tíma en þó ekki mikið. Maður verður kominn niður í 50 mín. þegar líða tekur á sumarið. Samt allt í fína að fara þetta rólegheitum líka. Þá leggur maður bara af stað með öðru hugarfari í sólinni.

Eftir Esjuferðina bauð Ásta mér í grill. Lánaði henni gasgrillið mitt um daginn sem ég vann á árshátíð OR síðastliðið haust. Var á því að ég yrði ekki að saddur af grilli sem væri ofan í kassa. Það stóð heima! :) Fór þaðan á 1. stjórnarfund Skátakórsins í Hafnarfirðinum. Komumst yfir mörg mál og skemmtileg. Ef fram fer sem horfir verður næsti vetur verulega skemmtilegur og mun koma mikið á óvart.

Í dag söng Orkuveitukórinn svo í hádeginu og held ég að það hafi bara gengið nokkuð vel. Þetta er orðinn ágætiskór undir stjórn Árna Heiðars sem var sko ekki hægt að segja um hann í haust. Árni hefur lyft Grettistaki í vetur með ótrúlegu æðruleysi, þolinmæði, fagmennsku og hæfni í mannlegum samskiptum. Topp strákur og magnaður píanóleikari.

Teymi er 10 ára á morgun. Mikið partý í uppsiglingu. Þar á eftir kórpartý OR kórsins sem verður örugglega ekki rólegra og mikið sungið með gítar og píanó. Langar síðan í sumarbústað laugardag fram á sunnudag. Vill einhver koma með? Er að spá í að leigja bústaðinn í Svartagili í Borgarfirði. Er víst æðislegur bústaður og var laus í dag. Kanna málið - Kemur í ljós hvernig þetta þróast...

laugardagur, maí 14, 2005

Vegslóðakönnunarárátta!

Er haldinn ákveðinni áráttu þegar kemur að vegaslóðum. Könnunargenið í mér er risavaxið og hafi ég ekki farið einhvern veg eða viti ekki hvert hann liggur kviknar hjá mér óslökkvandi þörf til að kanna hann til hlýtar. Fer ekki alltaf mjög vel saman við að eiga smábíl eins og Ford Fiestu!!! Var reyndar búinn að sannfæra gömlu Fiestuna um að hún væri jeppi. Er að vinna í þeirri nýju.

Byrjaði á leiðnni heim frá Henglinum á því að keyra nýjan veg sem liggur inn að borholustæði við Engidalsánna vestan við Hengilinn. Á leiðinni til baka sá ég annan slóða sem ég hafði ekki prófað. Beygði út á hann og hófst þá nokkur svaðilför. Komst fljótlega að því að þarna var um að ræða línuveg með háspennulínunni. Var hann stundum svolítið grófur - svo ekki sé djúpt í árina tekið - en með þolinmæði, árverkni og hægum akstri komst ég þetta smátt og smátt. Þetta tók hins vegar mun lengri tíma en ég bjóst við.

Þegar ég var búinn að lúsast áfram þarna lengi lengi þá kom ég að brekku sem ég komst varla upp. Prófaði þá aðra leið og endaði inni á krossbraut og var kominn hluta úr hring þegar ég ákvað að mótorkross og Ford Fiesta væri kannski ekki málið og snéri við. Já, svona er maður nú orðinn þroskaður! ;) Fór aftur til baka og lét vaða upp erfiðu brekkuna. Tókst í þriðju tilraun og stækkaði jeppagenið í Fiestunni nokkuð við það. Passaði mig nú samt á því að fara vel með hana greyið og held ég að hún sé alveg sátt við mig eftir daginn.

Vegurinn byrjaði við Kolviðarhól og endaði ekki fyrr en ég kom út á þjóðveg númer 1 stuttu neðan við Bláfjallaafleggjarann löngum tíma og vegi síðar! Var oft búinn að velta þeim slóða fyrir mér. Veit nú hvert hann liggur og svei mér þá held ég að ég láti hann vera þangað til stóri bróðir Fiestunnar verður keyptur eitthvert árið!

Eðaldagur á Hengli!

Já eðaldagur! Var mættur upp í skíðaskála í Hveradölum klukkan tíu í morgun, laugardag. Þar voru mættir á annan tug Orkuveitustarfsmanna og maka á leið í gönguferð um Hengilsvæðið. Markmiðið var að labba yfir Skarðsmýrarfjallið og inn í Innstadal en var ákveðið að hverfa frá því þar sem mjög mikil þoka var á fjallinu og hefðum við því ekki séð nokkurn skapaðan hlut.

Því var keyrt inn fyrir skátaskálanna og síðan gengið sem leið lá inn í Innstdal meðfram Skarðsmýrarfjallinu nokkurn veginn inn í botn og síðan til baka hinum megin í dalnum, gegnum Miðdalinn og niður í Fremstadal. Hengladalsáin var vaðin, borðað nesti og síðan keyrt á bílum að borholum Orkuveitunnar þar sem okkur var sagt frá hinu og þessu. Enn var haldið áfram niður Hellisskarðið þar sem hægt er að sjá eina af elstu veghleðslum á landinu og þar sem nýja stöðvarhúsið á að vera. Þá skoðuðum við pípulager sem er neðan við Hamragilið. Vá!!! Þvílíkt magn af pípum. Skipta örugglega hundruðum! Prófið að fara þarna og sjá. 18 metra langar og nýþungar þannig að hver vörubíll tekur bara 3 stykki í ferð. Ærslabelgirnir í ferðinni; ég, Sigrún og Guðný þurftum auðvitað að prófa að fara í gegnum rörin. Skemmtilegt og ótrúlega magnaður hljómur inni í svona röri!

Síðan var endað aftur við skíðaskálann í Hveradölum. Fararstjórar voru Einar Gunnlaugsson sem er jarðfræðigúrú Orkuveitunnar og Kristinn H. Þorsteinsson sem er gróðurgúrú Orkuveitunnar og þegar þessir tveir koma saman er ekki ýkja margt sem þeir vita ekki. Frábærir fararstjórar! Sólin var meira að segja farin að berjast í gegnum skýin í lokin. Meiriháttar ferð um það svæði sem maður eyddi unglingsárunum á. Af hverju er maður ekki duglegri að fara svona og labba? Þetta er svo æðislegt þegar maður er kominn af stað!

föstudagur, maí 13, 2005

Upptökum frestað um sinn...

Ákveðið var að fresta upptökum á DVD disknum um hálfan mánuð eða svo. Það er ágætt þá höfum við aðeins meiri tíma til að finna okkur lag og læra það. :)

Brjálað að gera í vinnunni...er enn að nú klukkan 2 eftir miðnætti og er á þessu augnabliki að bíða eftir því að ná miklu magni af gögnum út úr blessaðri tölvunni. Hún er semsé að vinna í þessum töluðu orðum og ég dunda mér bara á meðan.

Hvað ætti maður að gera um helgina? Hvítasunnuhelgina! Einhverjar hugmyndir?

Hugsanleg Hengilsganga á laugardaginn með OR...annars bara ekkert planað. Hvað kallar maður svoleiðis: jú, tækifæri!

miðvikudagur, maí 11, 2005

Vika hinna óvæntu uppákoma...

Listagyðjan ríður ekki einteyming þessa vikuna.

Skráði mig óvænt í alvörunám í Söngskólanum í gær eins og þekkt er orðið. Fór í annan söngtíma til Sigga Braga í dag. Tekin sú strategíska ákvörðun að ég syngi "Hættu að gráta hringaná", "Mamma ætlar að sofna" og "Snert hörpu mína" í inntökuprófinu sem ég fer í líklega 27. maí. Eins gott að lifa það af! Þarf líka að læra textana. Má ekki vera með blað. Úff!

Tónleikar hjá Orkuveitukórnum og Kór Landsvirkjunar í gærkvöldi í Grensáskirkju. Mjög ánægjulegt að það var fullt út úr dyrum í kirkjunni, kvöldið mjög notaleg stund og almenn ánægja með tónleikana. Við í Orkuveitukórnum sungum fimm lög, síðan söng Landsvirkjunarfólk sín lög og að lokum söng sameinaður 55 manna kór "Sofðu unga ástin mín" og "Úr útsæ rísa Íslands fjöll", sem er svona testósteron-þjóðrembulag, með miklum glæsibrag og látum. Stórskemmtilegt!

Í dag renndi síðan Guðjón MND-töffari í flasið á mér og spurði hvort Agressobandið yrði ekki örugglega með á DVD disknum "Ljóð í sjóð" sem verður jóladiskurinn í ár. Þarna verða hinir ýmsu tónlistarmenn s.s. Hörður Torfa, Rúni Júl, Gísli Helgason og um fimmtán aðrir og verður tekið upp í Kling og bang fimmtudag og föstudag. "Aaaa....uuuuu.....ég hafði nú eiginlega hugsað mér að aðstoða með því að flytja til dæmis kassa frá einum stað til annars en ekki endilega með því að flytja lög", sagði ég frekar hissa. "Ef þetta verður hræðilegt þá einfaldlega bara sleppum við því að nota þetta", sagði Guðjón galvaski þá og lét hvergi bilbug á sér finna. Hringdi í ofboði í Óskar úrræðagóða og sagðist hann vita af frumsömdu lagi frá öldruðum, rámum frænda sínum. Skynsamlegra að flytja eitthvað sem enginn hefur flutt áður. Þá er ekki hægt að bera okkur saman við hina. Klókt! ;) Æfing á morgun og hugsanlega syngja dæmið inn á DVD disk á föstudaginn. Já engin veit sína æfina....eða kannski bara vikuna...fyrr en öll er! Hvað ætli gerist eiginlega í næstu viku?


Skellti mér á Esjuna í kvöld með slatta af OR starfsfólki. Fínn túr í frábæru veðri. Fyrsta ferðin á Esjuna þetta sumarið og pottþétt ekki sú síðasta.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Lífið getur stundum verið svolítið óútreiknanlegt...

Skellti mér í Söngskólann í vetur. Ákvað bara aðeins að prófa þetta og taka lítið sætt kvöldnámskeið. Gaman að læra svolítið á röddina. Hef löngum þótt nokkuð hávær skratti og því gæti verið skemmtilegt að reyna eitthvað að temja skrímslið.

Fór í söngtíma til Sigga Braga núna í hádeginu í dag. Þar jós maðurinn yfir mig lofi sem aldrei fyrr og ég vissi bara ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið. Hann spurði mig hvað ég ætlaði að gera í haust og sagðist ég hafa áhuga á að taka annað svona lítið og sætt kvöldnámskeið.

Hann leit hins vegar á mig íbygginn á svip og sagði að hann væri með fullt af nemendum á kvöldnámskeiðunum en það væru tveir, ég og einn tenór, sem hann vildi hvetja mjög ákveðið að fara í meira nám en bara kvöldnámskeiðin næsta vetur. Sagði að ég væri með það góða og mikla rödd að það væri synd ef ég færi bara á kvöldnámskeiðið. Með þessa rödd ætti ég fullt erindi í alvörunámið. Þar fengi ég miklu meira út úr þessu, tvo tíma á viku með honum, einn með píanóleikara, tónheyrn og ég-veit-ekki-hvað-og-hvað. "Já", sagði ég bara og ranghvolfdi augunum. Þetta var nú ekkert á döfinni...

Þarna er með betri söngkennurum landsins að halda þessa ræðu yfir Sigga litla skátalingi. Hvað á hann þá að gera? Jú, eins og honum er sagt!

Gott fólk..., ég er bara að spá í að skella mér í alvörunám í Söngskólanum í Reykjavík næsta haust. Ef þið hefðuð spurt mig klukkan hálf tólf í dag hefði mér þótt það fjarstæðukennt. Gæti reyndar flogið hringinn í kringum hnöttinn fyrir skólagjaldið en shit happens... ég get þá alla vega sungið í flugvélinni þegar ég verð búinn með þetta nám! Tek nú samt bara einn vetur í einu. ;) Hef engan metnað til að verða atvinnusöngvari. Það held ég að sé bölvað hark. Þú ert alltaf að selja þig alla daga hér og þar. Fyrirgefiði, ég nenni því ekki. Hins vegar er alltaf gaman að syngja þannig að ég bara kýli á þetta og sé til. Lífið er til þess að gera skemmtilega hluti og dömur mínar og herrar...þetta er skemmtilegt.

Ég skráði mig því áðan í grunndeild Söngskólans í Reykjavík. Inntökupróf 27. maí. Syng þá eitthvað fyrir einhvern og læt kylfu ráða kasti. Ég hlýt að komast fram hjá honum fyrst ég komst fram hjá Sigga.

Já..., "Life is like a box of chocolate. You never know what you get!"

mánudagur, maí 09, 2005

Að vera að vera ekki...

...það er spurningin! Fór með Unni á Be Cool með John Travolta í gærkvöldi. Fór því tvisvar í bíó þessa helgi, samanlagt með u.þ.b. 45 mínútna fyrirvara. Gaman af því. Myndin var svona lala... Eins og við var að búast með mynd sem heitir Be Cool. Fín videómynd ... á mörkunum að vera ástæða til að fara í bíó. Athyglisvert með John Travolta. Hann er svona eins og Hugh Grant. Alltaf eins. Er það sterkur karakter að þótt hann reyni eitthvað að leika þá er hann bara einhvern veginn hann sjálfur og þannig nokkurn veginn alltaf eins. Þeir eru hins vegar báðir mjög skemmtilegar týpur. Travolta var fínn í gær og bar myndina uppi.

Skoðaði síðuna hennar Siggu Víðis sem Steini sendi mér í commentinu. Þetta er stelpa sem er. Hefur staðið upp úr sófanum og gert hluti. http://siggavidis.blogspot.com/. Stórmerkileg stelpa og það að vera nýbúinn að sjá Hotel Rwanda færir svo miklu nær manni allt sem hún er að gera og segja. Öflug stelpa úti í Afríku að skipta máli. Frábært. Hvet ykkur til að kíkja við á blogginu hennar. Ég þekki hana ekkert en um mjög merkilegt framtak að ræða. Hún hefur verið að safna inn á bankareikninginn sinn fyrir ýmislegt á þessu svæði svo fátt eitt sé nefnt.

Tónleikar með Orkuveitukórnum og Landsvirkjunarkórnum í Grensáskirkju klukkan 20:30 annað kvöld. Verður örugglega skemmtilegt.

Er eitthvað hálftuskulegur í dag. Veit ekki af hverju. Brjálað að gera í vinnunni og algjörlega fjarri því að ég sjái fyrir endan á verkefnalistanum. Þarf að fara út og labba aðeins í kvöld. Nauðsynlegt að viðra mann...

sunnudagur, maí 08, 2005

Rólegheita helgi...eins og venjulega!

Tónleikar með Sinfó á föstudaginn þar sem hún töfraði fram rokk og ról að hætti Led Zeppelin, Queen, Pink Floyd og fleiri listamanna. Skellti mér ásamt Birnu systur og ungunum í fjölskyldunni Bergi og Sigrúnu. Sigrún var búin að vera að kvíða fyrir þessum tónleikum í margar vikur bara vegna þess að þarna var Sinfoníuhljómsveitin á ferð. Kom út með aðra skoðun. Gott mál! ;)

Glápti á sjónvarpið með Unni fram eftir nóttu en tók því hins vegar rólega í gær þangað til ég ákvað með 15 mínútna fyrirvara að fara á Hótel Rwanda í Regnboganum klukkkan 15:40. Man ekki eftir því að hafa áður farið í bíó milli þrjú og fjögur á laugardagseftirmiðdegi! Var sýnd í Sal 4 í Regnboganum sem er ca. 50 manna salur og í honum var kannski svona 20-30 manns. Myndin var snilld og ég hvet alla til að fara á þessa mynd...sjá síðasta blogg.

Þá var haldið á Úlfljótsvatn í mat á Norðurlandaráðstefnu radíóskáta þar sem ég fékk gott að borða a la Páll Viggóson og stjórnaði örkvöldvöku eftir matinn. Renndi þvínæst í bæinn aftur og skelltum við Ásta okkur þá á Geirmund á Klúbbnum við Gullinbrú með gamla fólkinu. Já Geirmund!!! Algjör snilld!!! Við vorum komin á gólfið ca. 90 sekúndum eftir að við komum í hús rétt eftir miðnætti og vorum þar til þrjú að undanskildum nokkrum mínútum þegar við skelltum í okkur vatni enda vökvaþörfin veruleg. Brjáluð brennsla og þurfti ég tvisvar að fara inn á klósett og þurrka svitann úr augunum á mér því ég var hættur að sjá. Var svona eins og að horfa út í gegnum sundgleraugu sem eru full af vatni!

Aðstoðaði Sonja Kjartans í nýju íbúðinni í dag við að fara að duttlungum Baldvins Ultima-Thule Víkverja sem er hennar sérlegi ráðgjafi í málningarmálum. Ekki að spyrja af kraftinum í Sonju. Er að gera góða hluti í nýju íbúðinni og ekki von á öðru en að hún verði glæsileg þegar allt er komið. Lánaði Ástu grillið mitt sem ég fékk í verðlaun á árshátíðinni í fyrra. Ástu vantaði grill og ég ákvað að grill í kassa gerði mann ekki saddann. Sátum í sólinni ásamt Guðrúnu þangað til ég renndi í Kringluna, keypti blómvönd handa mömmu í tilefni dagsins og tertur af Kristínu litlu frænku sem er á leiðinni í kórferðalag til Kanada í sumar.

Nú er síðan stefnan á Be Cool í Smárabíó eftir 20 mínútur...

Já, alltaf rólegar helgarnar hans Sigga...!

Ætlir þú að sjá eina mynd á árinu...

...sjáðu Hotel Rwanda í Regnboganum. Algerlega frábær mynd. Myndin segir sögu manns sem rekur alþjóðlegt hótel í Kigali, höfuðborg Rwanda þegar þjóðarmorðin áttu sér stað nú fyrir nokkrum árum síðan. Vesturlöndum var alveg sama vegna þess að ráðamenn töldu ólíklegt að það að senda herlið til "Langtíburtistan-lands" eins og Rwanda halaði inn atkvæðum í næstu kostningum. Í staðinn voru áttahundruð þúsund Tútsar drepnir eins og flugur á nokkrum dögum í þessu annars fallega landi. Þetta er frábær mynd og tekst að vera spennandi, raunsæ án þess að fara yfir strikið og verða að einhverju yfirþyrmandi blóðbaði þannig að manni féllust bara hendur. Henni tekst að vera réttu megin við strikið og mitt í öllu því sem er í gangi hlær maður meira að segja stundum og er það oft svolítið kærkominn hlátur.

Langar alltaf að standa upp og gera eitthvað eftir að hafa horft á svona myndir. Hef lengi velt því fyrir mér að fara t.d. til Afríku á vegum Rauða krossins eða einhverra álíka stofnanna. Held það væri bæði spennandi og þroskandi að fara þangað í nokkra mánuði og gera eitthvað gagn.

Tel mig reyndar hafa gert svolítið gagn í gegnum skátastarfið. Það að ala upp leiðtoga annars vegar og innræta þeim kærleiksrík og uppbyggileg gildi hins vegar er gríðarlega mikilvægt starf og verður ekki ofmetið. Eftir tíu, tuttugu, þrjátíu, fjörtíu ár verða þessi börn farin að stjórna fjölskyldum, fyrirtækjum og stjórnmálaflokkum innanlands og utan og þá verða þær ákvarðanir sem þau taka á hverjum tíma byggðar á þeim grundvallargildum sem þau hafa tileinkað sér í gegnum uppeldið. Það skiptir því máli hvernig þau fræ eru sem sáð er. Seinni heimsstyrjöldin hefði ekki átt sér stað nema vegna þess að sterkur leiðtogi beygði af leið og eins og forystufolinn í stóðinu sem hleypur með fylgismenn sína fram af bjarginu. Páfinn ákveður að banna getnaðarvarnir og á meðan deyja milljónir úr eyðni í Afríku, í þeim löndum sem kaþólskan er að koma hvað sterkast inn í heiminum. Í Rwanda ákváðu menn að það væri réttlætanlegt að hreinsa út eina þjóð Tútsa vegna þess að einhverjir leiðtogar þeirrar þjóðar höfðu gert svipaða hluti við Hútúa nokkrum áratugum áður. Sama var að gerast á Balkanskaganum og sama er að gerast í Palestínu og Ísrael.

Leiðtogum fannst/finnst réttlætanlegt að aðrir létu lífið vegna þess að þeir voru þeim á einhvern hátt ekki samboðnir eða "fittuðu" ekki inn í þá sýn sem þeir höfðu/hafa. Leiðtogarnir selja síðan undirmönnum sínum hugmyndirnar og keyra þær í gegn. Því er ómetanlegt að tryggja að upprennandi leiðtogar meti lífið, náttúruna og fólkið í kringum sig með þeim hætti að það sé ekki í lagi að myrða fólk vegna þess að það er af röngu þjóðarbroti, trú, lit eða öðru. Dæmin sýna okkur að það er ekki heldur sjálfsagt og gerist þar af leiðandi ekki af sjálfu sér. Leiðtogum má heldur ekki vera sama þegar slíkt á sér stað annars staðar. Þar er ekki bara um leiðtogana að sakast heldur einnig okkur sem kjósum þá. Að vera ekki sama er grundvallardrifkraftur allra úrbóta í heiminum. Okkur má ekki vera sama.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Upp á svið og upp á Keili!

Starfsmannafélagið hélt í gær bjór og grillkvöld í nýrri starfsmannaaðstöðu OR sem hefur óformlega hlotið það ágæta nafn - Flöskuháls (stóð undir nafni í gær!) og er staðsett í göngunum milli stóra hússins við Bæjarháls og nýja norðurhússins við Réttarháls. Ákveðið var að Agressobandið myndi troða upp en það skipum við Óskar Jóhann Óskarsson. Þegar ég byrjaði hjá OR starfaði ég með honum að málefnum tengdum Agresso fjárhagsupplýsingakerfinu. Þegar við höfum spilað í partýum o.þ.h. þá hefur orðið til þetta líka fína nafn á bandið - held ég bara nokkurn veginn frá fyrstu tíð. Bandið er reyndar opið í alla enda (er ekki band heldur teygja) og er skipað þeim sem er á staðnum með hljóðfæri hverju sinni.

Við æfðum því á þriðjudagskvöldinu fram yfir miðnætti spilandi og syngjandi í Orkuveituhúsinu öryggisvörðunum til ánægju og yndisauka og tróðum síðan upp við ágætisundirtektir í gærkvöldi. Ég hef mjög sjaldan áður spilað FYRIR fólk á sviði. Hef hingað til almennt verið í því að spila MEÐ fólki, þ.e. stjórna fjöldasöng en ekki verið hljómsveit á sviði. Þetta var hins vegar stórskemmtilegt (fyrir okkur allavegana! :) , fólkið dansaði eins og það ætti lífið að leysa sem við ákváðum að reiknaðist okkur klárlega til tekna! Ótrúleg kvenhylli sem maður nær með svona gítarspili. Verst að allar konurnar eru komnar langt á sextugsaldur eða þaðan af eldri...ég þarf kannski að fara að endurskoða hjá mér lagavalið...hmmm... :)

Uppstigningardagur stóð undir nafni og stigum við Unnur upp úr sófanum og þaðan á Keili í sólinni. Flottur túr, kakó og kleinur á toppnum, sund á eftir og loks American Style í kjúklingasalat. Ég held ég hafi bara ekki komið á Stælinn síðan einhvern tímann í fyrra. Alltaf ljúft og ég mæli með kjúklingasalatinu. Dugar venjulegu fólki lengi...brennsluofninum í mér hins vegar ekki alveg nógu lengi en gott er það meðan á því stendur...og meira að segja hollt!
Þeir sem vilja vera á ég-er-að-fara-upp-á-fjall - sms-listanum eru hvattir til að skrá sig hér í commentunum!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Hitler og Erna...

...eiga ekki annað sameiginlegt en að ég fékk að fylgjast með þeim báðum í kvöld.

Erna Tönsberg var að vinna í Orkuveitunni og að læra japönsku á sama tíma og endaði með að vera send til Japan sem fulltrúi Íslendinga á heimssýningunni Expo 2005 sem fram fer í Japan þessa mánuðina. Komst að því í dag að hún er að sjálfsögðu bloggari og er mjög gaman að heyra um öll Expo-ævintýrin hennar í Japanalandi.

Fór með Árna og Guðbjörgu á Seinustu daga Hitlers (Der Untergang) í kvöld. Mögnuð mynd sem bregður upp mjög mannlegri hlið á stríðinu og því sem gerðist þegar Hitler og félagar voru endanlega að tapa seinni heimsstyrjöldinni. Oftast fær maður að fylgjast með þeim sem sigra stríðin því þeir skrásetja sjálfa sig í bak og fyrir. Það er hins vegar merkilegt að fylgjast með mismunandi viðbrögðum fólks þegar það er í þeim aðstæðum að það er við það að tapa. Stórmerkileg mynd sem ég hvet alla til að sjá.

mánudagur, maí 02, 2005

Jafnvægi!

Það er mikilvægt að gæta jafnvægis í lífinu. Jing og jang; svart og hvítt, hitt og þetta...

Þess vegna ætlum við Árni að skella okkur á "Der Untergang" (Síðustu dagar Hitlers) í kvöld. Tryggir líklega ákveðið jafnvægi á sálinni eftir allt Jesúið undanfarnar vikur. :)

Einkunnirnar komnar út tónfræðinni...

Úr skeytinu frá Söngskólanum...

"Einkunnir þínar í tónfræði:
1. Stig 94/100
2. Stig 94/100 "


...svona er maður nú stundum duglegur strákur...alla vega á meðan efnið er jafn skítlétt og raun ber vitni. Gæti nú farið að halla undan fæti eftir því sem stigunum fjölgar! En...er á meðan er...eins og bóndinn sagði.

Rólegheita helgi...eða hvað?

Athyglisvert hvað hugtakið "upptekinn" er afstætt... Mér finnst ég hafa átt þvílíkt rólega helgi og ekki gert nokkurn skapaðan hlut en þegar málið er skoðað nánar þá hef ég síðan á föstudagskvöld t.d. hlaupið 4-5 km., farið í ræktina, farið í heimsókn til Birnu systur borðað þar á mig gat og lagað tölvuna hennar, setið úti á svölum í sólinni og spjallað, sett saman tertu og seinna borðað hana ásamt familíunni, æft og sungið með Skátakórnum fyrir 40-80 manns, borið vitni fyrir löggunni, farið á rúntinn í Reykjavík og Hafnarfirði, út að hjóla, út að labba, á samkomu í Fíladelfíu, á óperu í Íslensku óperunni og loks horft á mynd með Dirty Harry. Ætlaði alltaf einhvert á fjall en það varð ekkert úr því. Kannski þess vegna sem mér finnst ég ekki hafa gert neitt!

Já, nú halda allir að það sé endanlega búið að Jesúa mig. Önnur samkoman á sumrinu og aðeins búnir 10 dagar af því! Ásta bauð mér á eitthvað sem hét lofgjörðasamkomu þar sem átti að vera ennþá meiri tónlist en venjulega, kórinn og alles. Ég ákvað því að skella mér því kórinn var ekki með um daginn. Þetta var glæsilegt í alla staði og það sem kom mér á óvart var að þetta var algerlega ofstopalaus messa/samkoma/predikun eða hvað á að kalla þetta. Ágætisprestur þessi Vörður og svei mér þá ef ég er ekki búinn að finna einn kór í viðbót sem ég væri meira en til í að syngja með. Þetta er rosalega flott og skemmtileg tónlist og hvet ég fólk til að horfa á messuna á ríkissjónvarpinu á hvítasunnudag. Mjög hresst og skemmtilegt! Ásta sagði reyndar að ég þyrfti að skírast inn í söfnuðinn til að fá að syngja með kórnum. Það hlýtur nú að vera hægt að komast þarna inn bakdyramegin einhvern veginn. Ég er alla vega ekki til í að taka allan pakkann. Er einhvern veginn of mikill efasemdamaður. :) Er svosem með marga aðra kóra sem mig langar að syngja með t.d. Karlakór Reykjavíkur eða Fóstbræður. Glæsilegir og ofurflottir kórar. Mig langar semsagt að prófa alvöru karlakór einhvern tímann, gospelkór einhvern tímann og örugglega einhverja fleiri. Held að gospelkór sé t.d. miklu skemmtilegra en að vera í venjulegum kirkjukór. Það gætu hins vegar verið fordómar.

Fór síðan í óperuna í kvöld á sýningu einhvers apparats sem heitir Óperusmiðjan. Það var frítt inn og þetta er einhvers konar samstarfsverkefni nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík, Listaháskólans og óperunnar til að gefa hljóðfæra- og söngnemendum tækifæri til að reyna sig við óperuhlutverk í alvöru húsi við alvöru aðstæður. Apótekarinn; mjög létt, fyndið og skemmtilegt verk. Ástæðan fyrir því að við fórum þarna var sú að fyrrverandi dagmömmubarn mömmu, Guðbjörg Sandholt var að syngja eitt af hlutverkunum. Já, ótrúlegt hvað litlu börnin eru orðin stór! Hún stóð sig með mikilli prýði og það sama mátti segja um hina söngvarana og hljóðfæraleikarana en nemendur tónlistarskólanna skipuðu heila sinfoníuhljómsveit í gryfjunni.

Jæja, best að fara að lúlla í hausinn á sér. Nú verður maður að standa við stóru orðin og hjóla í vinnuna á morgun. Ég kom þátttökunni í því verkefni af stað í vinnunni þannig að ég verð að hjóla á undan og sýna gott fordæmi! Ótrúlegt hvað maður er alltaf að koma sér í klandur!