miðvikudagur, maí 11, 2005

Vika hinna óvæntu uppákoma...

Listagyðjan ríður ekki einteyming þessa vikuna.

Skráði mig óvænt í alvörunám í Söngskólanum í gær eins og þekkt er orðið. Fór í annan söngtíma til Sigga Braga í dag. Tekin sú strategíska ákvörðun að ég syngi "Hættu að gráta hringaná", "Mamma ætlar að sofna" og "Snert hörpu mína" í inntökuprófinu sem ég fer í líklega 27. maí. Eins gott að lifa það af! Þarf líka að læra textana. Má ekki vera með blað. Úff!

Tónleikar hjá Orkuveitukórnum og Kór Landsvirkjunar í gærkvöldi í Grensáskirkju. Mjög ánægjulegt að það var fullt út úr dyrum í kirkjunni, kvöldið mjög notaleg stund og almenn ánægja með tónleikana. Við í Orkuveitukórnum sungum fimm lög, síðan söng Landsvirkjunarfólk sín lög og að lokum söng sameinaður 55 manna kór "Sofðu unga ástin mín" og "Úr útsæ rísa Íslands fjöll", sem er svona testósteron-þjóðrembulag, með miklum glæsibrag og látum. Stórskemmtilegt!

Í dag renndi síðan Guðjón MND-töffari í flasið á mér og spurði hvort Agressobandið yrði ekki örugglega með á DVD disknum "Ljóð í sjóð" sem verður jóladiskurinn í ár. Þarna verða hinir ýmsu tónlistarmenn s.s. Hörður Torfa, Rúni Júl, Gísli Helgason og um fimmtán aðrir og verður tekið upp í Kling og bang fimmtudag og föstudag. "Aaaa....uuuuu.....ég hafði nú eiginlega hugsað mér að aðstoða með því að flytja til dæmis kassa frá einum stað til annars en ekki endilega með því að flytja lög", sagði ég frekar hissa. "Ef þetta verður hræðilegt þá einfaldlega bara sleppum við því að nota þetta", sagði Guðjón galvaski þá og lét hvergi bilbug á sér finna. Hringdi í ofboði í Óskar úrræðagóða og sagðist hann vita af frumsömdu lagi frá öldruðum, rámum frænda sínum. Skynsamlegra að flytja eitthvað sem enginn hefur flutt áður. Þá er ekki hægt að bera okkur saman við hina. Klókt! ;) Æfing á morgun og hugsanlega syngja dæmið inn á DVD disk á föstudaginn. Já engin veit sína æfina....eða kannski bara vikuna...fyrr en öll er! Hvað ætli gerist eiginlega í næstu viku?


Skellti mér á Esjuna í kvöld með slatta af OR starfsfólki. Fínn túr í frábæru veðri. Fyrsta ferðin á Esjuna þetta sumarið og pottþétt ekki sú síðasta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home