miðvikudagur, september 28, 2005

Til hamingju Sonja!

Hitti Sonju, Gísla og hin fimm fræknu í gær. OR veitir árlega styrki til kvenna í verk- og tæknifræði annars vegar og í iðngreinum hins vegar á sviðum sem nýst geta Orkuveitunni.

Í ár voru fjórar konur valdar úr og ein þeirra var Sonja sem er að læra byggingatæknifræði við HR. Önnur var reyndar Berglind nokkur sem vinnur hjá OR og býr í Vallarhúsi við hliðina á Öldu systur.

Það var sérstaklega skemmtilegt að koma inn í salinn og sjá hvernig Sonja og fylgdarlið tók næstum allan fremsta bekkinn (held það hafi vantað 2 sæti upp á). Þarna voru mætt Sonja og Gísli, allir krakkarnir, mamma og tengdó. Ótrúlega flottir krakkar...og auðvitað mamman!

Rosalega gaman að hitta ykkur - Long time no see.

Það er reyndar skemmtilegt frá því að segja að Sonja og fyrrnefnd Berglind eiga fleira sameiginlegt en að vera hinar útvöldu meðal kvenna. Þær eru nefnilega einnig hinar útvöldu þegar kemur að börnum. Berglind á nefnilega stelpu fædda ´93 og síðan eiga þau hjónin tvenna tvíbura fædda ´97 og 2001, alls fimm í allt. Heldur betur happy hour þarna!

Krakkarnir þeirra voru ekki mætt í gær en hefði verið mjög skemmtilegt ef öll strollan, 10 börn, hefði verið á staðnum. Það hefði vissulega vakið athygli! Glæsilegur hópur!


Annars allt geðveikt að gera í vinnunni. Erum að gera áætlanir fyrir næsta ár. Hlaupa náttúrlega á milljörðum í svona stóru fyrirtæki. Þetta verða svo eitthvað-út-úr korti tölur í svona stóru fyrirtæki og maður þarf að klípa sig reglulega í handarbökin og minna sig á að eitt prósent til eða frá SKIPTIR MÁLI því það hleypur á tugum milljóna. Skemmtilegt að hafa eitthvað fyrir stafni! :)

Fékk aðrar fréttir í dag: Verð með tónleika í Söngskólanum 25. október klukkan 20 ásamt öðrum nemendum sem eru að læra hjá Sigurði Bragasyni söngkennara. Já, í ýmsu lendir maður! En ætli maður massi þetta ekki. Vandamálið er auðvitað hjá hlustandanum en ekki flytjandanum komi þetta illa út. Ég verð búinn að æfa það mikið að ég verð orðinn samdauna þessu. Hlýtur samt að sleppa! :)


Hey, ert þú strákur og langar að skipta ærlega um umhverfiog syngja með skemmtilegu og spræku fólki einu sinni í viku. Skátakórinn getur bætt við sig röddum, sérstaklega tenórum. Aðrar raddir velkomnar líka. Endalaust skemmtilegt prógramm í gangi í vetur. Erum að syngja ýmiss popplög með Bee Gees (Tragety), Bítlunum, Steve Wonder og t.d. lögin Puttin' on the Ritz og You've got a Friend svo eitthvað sé nefnt. Þetta verður verulega skemmtilegur vetur!

fimmtudagur, september 08, 2005

Nóg að gera...

Þessa dagana er nóg að gera og því lítill tími til að blogga mikið.

Helstu fréttir síðustu vikna eru þær að við Inga Jóna búum nú saman í íbúðinni hennar við Miklubraut 70, hurðin við hliðina á hárgreiðslustofunni við hliðina á blómabúðinni á horni Miklubrautar og Hringbrautar. Klárlega miðdepill alheimsins enda leitun að stað sem fleiri kjósa að leggja leið sína um á hverjum degi.

Aðrar fréttur eru þær að vikuna 21. - 28. ágúst gekk ég með Útivist frá Sveinstindi við Langasjó suður Eldgjá (gist í Skælingum, Álftavatnakrók og Strút) að Mýrdalsjökli, áfram í Emstrur (Botna) og enduðum loks í heljarpartýi í afmælisveislu Útivistar í Básum. Algerlega frábær 108 km löng ferð sem verður lengi í minnum höfð.

Nóg að gera í vinnunni. Oracle ráðstefna á morgun sem endar með djammi á Grand hótel ásamt hinum tölvunördunum. Þessa dagana erum við að uppfæra úr Oracle Discoverer í Oracle Discoverer Plus auk þess sem við erum í óða önn að tengja saman upplýsingar úr hinum ýmsu upplýsingakerfum fyrirtækisins. Þá erum við að vinna í því að koma starfslýsingum, starfsmannasamtölum, handleiðslu og mörgu öðru inn í mannauðskerfið. Mjög spennandi og endalaus verkefni framundan.

Er byrjaður í fullu námi í Söngskólanum í Reykjavík. Hörku vinna og miklar kröfur sem innihalda tvö skipti í viku með söngkennara, einu sinni í viku með undirleikara, klukkutíma á viku í tónheyrn, klukkutíma í tónfræði og klukkutími í það sem kallað er opin grunndeild. Þar er blandað saman tónlistarsögu, leiklist auk þess sem við syngjum eitthvað hvert fyrir annað og fáum feedback á frammistöðuna. Svo þarf ég að æfa mig heima. Hefur nú aldrei verið mín sterka hlið.

Þá er ég að vinna í verkefninu Ljóð í sjóð með MND félaginu. Þar erum við að safna ljóðum, málverkum og tónlist sem gefin verður út í glæsilegri ljóðabók sem einnig mun innihalda myndir af málverkunum. Með henni mun svo fylgja diskur með tónlist og upplestri ljóða. Fjölmargir af þekktustu ljóðskáldum, myndlistar- og tónlistarmönnum þjóðarinnar munu taka þátt í því verkefni og er stefnt að útgáfu næsta vor í kringum sumardaginn fyrst. Allir listamennirnir gefa MND-félaginu vinnu sína til rannsókna á þessum svakalega sjúkdóm.

Er svo auðvitað formaður Skátakórsins og einnig í kór Orkuveitu Reykjavíkur. Það þýðir að ég mun syngja í skólanum á mánudögum, Skátakórnum á þriðjudögum, skólanum og með ORkórnum á miðvikudögum og í skólanum á fimmtudögum. Þetta verður því söngmikill vetur í meira lagi.


Á laugardaginn næsta ætlum við að skella okkur á "Hörður Torfa lengi lifi" sem eru heiðurstónleikar í Borgarleikhúsinu tilefni af 60 ára afmæli Harðar þar sem hinir ýmsu tónlistarmenn munu taka lögin hans. Um næstu helgi á eftir förum við síðan á hausttónleikana hans sjálfs auk þess sem ég fer á Úlfljótsvatn með RAP-hópi Bandalags íslenskra skáta en við erum hópur sem erum að vinna að endurskoðun skátadagskrárinnar, þ.e. þess starfs sem skátarnir okkar fara í gegnum á sínum skátaferli. Þar er ég með góðu og öflugu fólki og erum við meðal annars á leið til Danmerkur í nóvember. Stefni að því að kíkja við hjá Kristófer í Álaborg í leiðinni.

Um þar næstu helgi ætlar stjórn STOR austur í sumarbústað, þrífa bústaðina, ganga frá eftir sumarið og fá sér loks öl og gott að borða á eftir. Er þar eldhress hópur á ferð. Um mánaðarmótin verður síðan heilsað upp á tengdó á Akureyri í fyrsta skiptið. Verður örugglega mjög skemmtilegt því mér hefur heyrst þetta vera hið skemmtilegasta fólk.

Já, lífið er náttúrlega bara að komast á full-swing eftir sumarið. Svo þarf maður að reyna að vera duglegur að læra heima og reyna að koma sér í ræktina öðru hverju svo maður hafi nú þrek til að gera þetta allt saman.

Já, best að fara að koma sér heim strauja jakkaföt og skyrtur fyrir morgundaginn og...úúúú það verður ljúft að koma til yndislegu konunnar sinnar.

Já lífið er ljúft...

þriðjudagur, september 06, 2005

Magnað viðtal við borgarstjóra New Orleans!

Magnað viðtal við borgarstjóra New Orleans. Þarna talar þreyttur maður sem er hættur að skafa utan af hlutunum og hættur að hlusta á PR-ráðgjafana. Hamfarasvæðið er á stærð við Stóra-Bretland. Rosalegt!

http://www.atypical.net/mm/nagin.mp3