mánudagur, nóvember 28, 2005

Er Guð til eða ekki?

Ég fékk póst frá Úlfari Viktori, 12 ára systursyni mínum. Hann hafði fengið tölvupóst og lesið þar sem einhver hafði sest niður og rökstutt það að Guð væri ekki til. Úlfar hafði lesið þetta yfir og fannst þetta bara meika nokkuð góðan sens. Svo góðan að hann sendi þetta á nánustu fjölskyldu og fjölmarga vini sína sem líklega eru á svipuðum aldri og hann.

Þegar ég las þetta fannst mér þarna vera á ferðinni nokkuð alvarlegt mál. Þarna var komin fram ein skoðun sem gat haft mikil áhrif á gildismat barnanna og þeirri spurningu hvort Guð væri til. Mér fannst því mikilvægt að hann fengi úr einhverju meiru að moða áður en hann myndaði sér skoðun. Það heitir víst að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur að setjast niður og rökstyðja af hverju Guð sé til. Ég lét samt vaða og þar sem maður tekst ekki á við slíkar grundvallarspurningar á hverjum degi smelli ég bæði bréfinu sem var upphafið af þessu öllu saman hingað inn í bloggið mitt og þar fyrir neðan svarinu mínu.

Þetta bréf veitir okkur kannski svolitla innsýn inn í það hversu flókið það er að vera 12 ára núna á tímum internets og endalauss flæðis upplýsinga sem vilja hafa áhrif á mann og á það hvað manni eigi að finnast um lífið og tilveruna. Þetta sýnir líka hversu mikilvægt það er að ræða alvöru mál við börn vegna þess að þau eru svo sannarlega að spá í alvörumálum en ekki bara tölvuleikjum og tísku.



Frá Úlfari...


#####################################

LESIÐ ÞETTA!!!!


veistu!.. þegar ég fór að lesa þetta fyrir neðan byrjaði ég aðeins að hugsa.. er Guð ekki bara plat?.. hvað getur fólk sagt að hann sé til ef það getur hvort eð er ekki snert hann né séð hann???.. lestu þetta og prufaðu svo að velta vöngum fyrir þér..??

kv.Úlfar



---------------------------------------------------------------------------------


Hæ, ég er kallaður Nonni!

Ég er 8 ára. Ég trúi ekki á Guð.

Ég veit að margir krakkar trúa á Guð. En mörg þeirra þora ekki að segja að þau trúi ekki á Guð því þá verða þau skömmuð.

Í mínum bekk er ég sá eini sem þori að viðurkenna að ég trúi ekki á Guð.

Þegar ég var 6 ára þá trúði ég á Guð. Það var af því að kennarinn og allir krakkarnir sem ég þekki sögðu að hann væri til. Þá vissi ég ekki að hann var bara í þykjustunni. Þá hugsaði ég ekki sjálfur um Guð heldur trúði bara því sem allir sögðu. Mér var sagt að ég ætti að trúa þótt enginn gæti sýnt mér að Guð væri til. Mér var sagt að ég ætti bara að trúa, því þá sýndi ég Guði að ég væri góður.

Það er eins og að ljúga að sjálfum sér.

Pabbi og mamma trúa ekki á Guð en þau segja að ég verði sjálfur að hugsa um Guð og ákveða hvort ég vill trúa á hann.

Og það var einmitt það sem ég gerði og nú skal ég segja þér hvað gerðist.

Fyrst fór ég að hugsa um hvernig við getum vitað hvort Guð er til eða ekki. Til að vita hvort eitthvað er til er best að geta snert það og séð. En það er ekki hægt að snerta eða sjá Guð.
Þeir sem trúa á Guð segja að hann sé ósýnilegur og ekki hægt að snerta hann. Hvernig vita þeir þá að hann er til?

Þegar ég var í sex ára bekk þá trúðum við krakkarnir öll á ósýnilega álfa og tröll. Nú vitum við að álfar og tröll eru bara til í þykjustunni og sögurnar um þau voru búnar til af fullorðna fólkinu. Í gamla daga þegar eitthvað týndist þá sagði fólkið að álfar hefðu stolið því sem týndist. Þannig voru þykjustu álfar búnir til til að útskýra eitthvað sem fólkið skildi ekki. Guð var líka búinn til til að útskýra margt sem fólk skildi ekki í gamla daga. Þá hélt fólk að Guð stjórnaði rigningunni, rokinu, þrumum og eldingum og mörgu öðru sem fólk vissi ekki hvernig var til komið. Í dag eru vísindamenn búnir að útskýra allt það sem fólk bjó Guð til til að útskýra í gamla daga.

Það gerðist vegna þess að vísindamennirnir hugsuðu sjálfir um vandamálin og gerðu tilraunir sem gátu sannað að það var ekki ósýnilegur Guð sem stjórnaði.

Stundum spurja krakkarnir mig hvernig allt varð til ef Guð bjó það ekki til. Þau segja að ekkert geti orðið til nema einhver búi það til. Þá spyr ég oft fyrst: "hver bjó þá til Guð"? Þá segja þau að Guð hafi alltaf verið til og ég svara með því að segja að ég haldi líka að heimurinn hafi alltaf verið til.

Stundum reyna krakkarnir að hræða mig til að trúa. Þau segja að ef ég trúi ekki verði Guð vondur við mig og ég fari til Helvítis þegar ég dey. Þar er eldur. Þá segi ég að ef Guð geti verið svona vondur við lítið barn þá vil ég ekki fara til hans hvort sem er.

Þá spurja þau ekki meira.

Fólkið í gamla daga bjó til alls konar Guði. Sumir Guðirnir voru menn, sumir konur og sumir voru dýr.
Sumir voru meira að segja bæði menn og dýr. Sumir Guðir voru ósýnilegir en aðrir voru sýnilegir. Sumir voru góðir og sumir voru vondir. Fólkið bjó til alls konar sögur um Guðina. Alveg eins og hér á Íslandi voru búnar til margar sögur um ósýnilega álfa. Í öllum löndum var það allaf Guðinn sem var búinn til í hverju landi sem fólkinu þar fannst vera bestur. Guðinn var alltaf sérstakur vinur þjóðarinnar sem fann hann upp en óvinur hinna þjóðanna sem voru með aðra Guði. Mjög mikið af fólki hefur verið drepið vegna þess að það trúir ekki á sama Guðinn og einhverjir aðrir. Í dag er fólk enn að drepa hvert annað í styrjöldum út af mismunandi trú á Guð.

Sögurnar sem fólkið bjó til um Guðinn sinn voru svo settar í sérstakar bækur. Þar voru skrifaðar reglur um hvað Guðinn vildi að fólkið gerði. Þar var einnig sagt frá öllu því sem Guðinn ætlaði bara að gera fyrir þjóðina sem fann hann upp.

Á Íslandi eru flestir kristnir. Bókin sem hefur allar sögurnar um Guð hjá okkur heitir Biblían. Alveg eins og í álfasögum, eru sagðar sögur í Biblíunni sem ekki geta hafa gerst í alvörunni, t.d. sagan af Nóaflóðinu. Þú hefur örugglega lesið um Nóa í skólanum. Í dag vita allir að það var ekki til nógu mikið vatn fyrir svona flóð og að ekki var nóg pláss á bátnum hans Nóa nema fyrir pínulítið brot af dýrunum. Svo passar það ekki að segja að Guð sé góður fyrst hann lét öll litlu börnin í heiminum drukkna í Nóaflóðinu.

Svona fór ég að hugsa sjálfur um Guð og Biblíuna. Enginn hefur séð Guð og enginn getur sýnt að hann sé til með myndum eða neinum tilraunum.

Amma mín sem trúði á Guð, og sagði að hann hlutstaði alltaf á bænirnar mínar, var oft að biðja bænir. Þegar ég var 6 ára bað ég Guð um að láta ekki litlu börnin í Afríku deyja úr hungri. Þau dóu samt. Nú er ég búinn að sjá að ef einhver þarf mat er betra að ein manneskja fari heim til hans með mat heldur en að láta hundrað manns í kirkju biðja bæn fyrir hann. Ég veit þetta af því að ég hugsaði sjálfur um málið.

Nú veit ég að Guð er bara í þykjustunni. Eins og álfar og tröll.

Nú læt ég engan segja mér eitthvað án þess að hugsa fyrst sjálfur um málið.

Ég er trúleysingi. Trúleysingjar eru þeir sem trúa ekki á Guð eða ósýnilegar verur.

Þegar við fæðumst erum við öll trúleysingjar. Það þarf að læra að trúa á Guð. Þegar pabbi og mamma, allir vinir þínir og kennarinn í skólanum segja að Guð sé til þá fer maður að trúa á Guð án þess að hugsa sjálfur um málið. Þegar ég fór sjálfur að hugsa um málið sá ég að Guð er bara í þykjustunni. Nú líður mér betur því mér finnst vont að trúa einhverju sem mér finnst vera bara plat.

Mér finnst allt í lagi þótt hinir krakkarnir trúi á Guð en það væri skemmtilegra ef þau myndu reyna að skilja mig og hugsa sjálf um Guð.

Ég vil ekki ljúga að sjálfum mér.





SVARIÐ MITT....

Sæll Úlfar frændi,

Já, þetta eru athyglisverðar vangaveltur Úlfar og já mennirnir hafa oft klúðrað Guðinum sínum og notað hann sem afsökun til að gera alls konar slæma hluti.

Á sama hátt er hægt að nota góða hluti eins og t.d. verkfæri eða bíla til að gera slæma hluti eins og að keyra á einhvern eða fremja ofbeldisglæpi með því að lemja þá í hausinn með annars saklausum hamri. Það er alltaf hægt að taka hluti úr samhengi og gera eitthvað vont þegar fólk missir sjónar á því sem skiptir máli. Hvað er það sem skiptir máli? Það sem skiptir máli er kærleikurinn og lífið.

Hver er þá þessi Guð?
Fyrir mér er Guð kærleikurinn og lífið. Hvað í ósköpunum er það er eðlilegt að spyrja? Skiptum þessu í tvennt.

Byrjum á kærleiknum: Hann er þetta ósýnilega afl sem fær mann til að gera eitthvað gott fyrir aðra, hvort sem það er að taka eitthvað upp sem einhver missti í götuna, aðstoða einhvern eða yfir höfuð gera eitthvað fyrir einhvern sem maður, strangt til tekið, þarf ekki að gera.
Af hverju gerir maður það? Af því það er betra að lifa í heiminum ef fólk hjálpast að. En ég gæti sjálfur komist miklu hraðar yfir og gert mikið fleira ef ég væri ekki alltaf að eyða tíma í að hjálpa öðrum. Samt stoppa ég og hjálpa fólkinu í kringum mig, hrósa fólkinu í kringum mig og reyni að skapa þetta ósýnilega en góða andrúmsloft sem fær mann til að líða vel. Fyrir mér er Guð það andrúmsloft og það ósýnilega afl sem fær mig til að gera þetta. Þetta afl heitir kærleikur og fyrir mér er Guð kærleikurinn. Það er ekki til nein mynd af Guð. Það eru til myndir af Jesús sem var maður sem gat gert alls kyns góða hluti en hann var maður. Sagt er að Guð hafi notaði Jesús til að kenna okkur að við getum komið mörgu góðu til leiðar með því að gera öðrum gott. Hann kenndi okkur á kærleikann, þetta ósýnilega afl sem fær okkur til að breyta rétt og vera góð við aðra.

Hinn hlutinn sem ég nefndi var "lífið". Þegar maður skoðar alla náttúruna, þar með talið mannslíkamann er maður ekki lengi að komast að því að þarna er eitthvað magnað í gangi. Það er alveg ótrúlegt hvernig þetta spilar allt saman og virkar eins og ein heild. Þegar maður er úti í náttúrunni og sér hvað hún er falleg og magnað kraftaverk. Fólk lifir og fólk deyr og lífið heldur áfram á endalausri leið. Einhvers staðar kviknaði lífið og það er rangt í greininni hérna fyrir neðan að vísindamennirnir séu búnir að komast að þessu öllu. Þeir eru bara búnir að fatta lítið brot af öllu þessu samspili og því hvernig líf kviknaði í upphafi. Það eru til alls kyns kenningar en það eru bara hugmyndir og kenningar og í alvörunni hafa menn ekki hugmynd um það, vita það ekki með neinni vissu. Þeir bara halda þetta og halda hitt. Eftir situr ráðgátan um það hvernig náttúran lifnaði við og hvernig hún getur verið svona fullkomin og mögnuð þótt enginn (maður alla vega) sé í rauninni að stjórna henni. Sumir eiga hins vegar erfiða daga, verða veikir, slasast, missa mömmur sínar og pabba eða eitthvað (Jesús átti til dæmis erfiða daga en missti aldrei sjónar á því sem var mikilvægast - kærleikanum). Margir þeirra sem hafa það erfitt eru þó ótrúlega duglegir þótt þeir eigi erfiða daga og (eins og Jesús) kenna okkur hinum að gefast ekki upp og að vera þakklát fyrir lífið sem við höfum fengið í vöggugjöf. Fyrir mér hlýtur að vera til eitthvað ósýnilegt afl sem heldur þessu öllu gangandi.
Hins vegar þarf ekkert endilega að vera hægt að snerta allt eða skilgreina. Ef manni þykir vænt um einhvern eða eitthvað er ekkert hægt að snerta væntumþyggjuna. Hún er samt þarna - við finnum það alveg og efumst ekkert um það.

Já, þetta er allt svolítið skrítið og erfitt að henda reiður á því af því það er ekki hægt að koma við það, teikna það eða horfa á það. Fyrir mér er Guð hins vegar með því að kenna okkur kærleika og sýna okkur hvað náttúran er mögnuð að láta áttavita í hendurnar á okkur. Við vitum að við erum á réttri leið ef við erum á leiðinni að kærleikanum eða að fara vel með það sem í kringum okkur er. Við vitum líka að ef við erum ekki að þessu þá erum við ekki á réttri leið og þurfum að beygja aftur inn á réttu brautina. Þannig leiðbeinir Guð okkur í lífinu.

En heyrir Guð bænirnar manns? Ég veit það ekki? Kannski, kannski ekki. Manni líður alla vega vel að hafa einhvern, hvort sem það er Guð eða ég sjálfur, til að tala við um alls kyns hluti, sérstaklega þegar ég þarf að stilla áttavitann minn. Það er því ekki ólíklegt að Guð og kærleikurinn sé að koma þar einhversstaðar nærri.

Kannski er Guð líka bara eins og jólasveinninn. Allir vita að hann er ekki til...allir vilja samt hafa hann hjá sér og hafa bara ákveðið, þvert á öll vísindi, að bjóða kallinn bara velkominn! Það sem skiptir máli varðandi jólasveinninn er andinn og gleðin (kærleikurinn) sem fylgir honum alls staðar þar sem hann er, ekki í hvernig fötum hann er eða hvort hann sé stór, lítill, feitur eða mjór. Ég held að Guð sé eins. Það skiptir ekki máli hvort hægt sé að snerta hann eða hvernig hann lítur út. Það skiptir bara máli að finna fyrir honum í hjartanu á sér með því að finnast kærleikurinn og lífið skipta máli í því sem maður tekur sér fyrir hendur.

Eitt er þó rétt í bréfinu hérna að neðan. Það er sú fullyrðing að það sé mikilvægt að strákar eins og þú veltir þessum málum fyrir sér og myndi sér eigin skoðanir á þessum hlutum, útbúi sér sinn eigin áttavita og passi að fara eftir honum. Nú hefur þú skoðanir mínar á þessu efni og skoðanir þess sem skrifaði bréfið hér að neðan. Nú er komið að þér að nota skoðanir okkar og ýmislegt annað sem þú heyrir, lest og upplifir til að búa til þína eigin skoðun. Gangi þér vel með það.

Kær kveðja,


Siggi frændi

Ps. Það er líka athyglisvert að öll trúarbrögð hvaða nafni sem þau nefnast, hvort sem það er kristnin, islam (Múhameðstrú), Hindúismi, Búddismi eða hvað þetta heitir allt saman leggja höfuðáherslu á kærleikann og lífið. Í grundvallaratriðum eru þau eins. Síðan er bara mjög mismunandi hvernig mennirnir kjósa að túlka þau oft í ansi skrítnar áttir.

1 Comments:

At 14.11.2006, 11:28, Anonymous Nafnlaus said...

Ótrúleg handleiðsla hér á ferð. Ég fór á google.com og sló inn "er guð til" þetta er síðan sem ég datt inn á og spáðu í það,, þetta er skrifað í gær. Svona virkar Guð í mínu lífi. Leiðir mig áfram ef ég hef opin huga og tek fagnandi á móti lífinu. Englavinakærleikakveðja

 

Skrifa ummæli

<< Home