þriðjudagur, maí 31, 2005

Skattmann & Tollmann eiga mikið verk óunnið

Tók mér frí seinni partinn í dag. Maður nennir eiginlega ekki að gera neitt eftir spennufallið þegar launakeyrslan fer úr húsi. Heimsótti meðal annars vin minn Tollstjórann í Reykjavík. Hef heimsótt hann nokkuð reglulega upp á síðkastið þar sem hann hagar sér með mjög sérstökum hætti í mínum málum og mætti nýta starfsfólk verulega betur á þeim bænum með bættri notkun upplýsingatækni.

Dæmi: Við Gunna stofnuðum fyrirtæki í kringum blómabúðina á sínum tíma. Sökum slóðaskapar kláruðum við ekki að ganga frá bókhaldinu fyrir 2003 og 2004 fyrr en um síðustu áramót. Sendum þá inn skattaskýrslu 2004 (rekstrarárið 2003) og barst hún Skattstjóra þann 1. febrúar síðastliðinn.

Þann 7. apríl trítlar Sigginn niður í Tollstjóra og greiðir staðgreiðsluna (tæpar 20 þús. krónur) sem við drógum af þeim launum sem við skrifuðum á okkur og áttum að gera skil á ásamt tryggingargjaldi. M.ö.o. ég gerði upp skattinn og allt átti því að vera fullgreitt.

Stuttu seinna fæ ég bréf um að skattaskuldin upp á rúmlega 800 þús. sé komin í fjárnám. Þetta virkar nefnilega þannig að ef þú skuldar skattinum eitthvað þá áætlar hann bara svolítið ríflega á þig og byrjar síðan bara að rukka þig um þá upphæð þangað til þú sýnir honum fram á að hún sé ekki rétt. Ég átti semsagt að mæta hjá Sýslumanni í byrjun maí vegna ógreiddrar skuldar þar sem áætlunin var rúmlega 800 þús. á skuld sem var í rauninni um 20 þús.

Hefðu þeir bræður Tollstjóri og Skattstjóri nýtt sér upplýsingakerfin sín hefðu þeir komist að því að a) ég var búinn að leggja inn skattaskýrsluna (1. febrúar) og hún var á stafrænu formi þannig að þeir hefðu einfaldlega geta sótt þangað þær lykiltölur úr rekstrinum sem skiptu máli og því ekki þurft að áætla (800 þús.) heldur verið með rauntölur (20 þús.) og hins vegar það b) að ég var búinn að greiða skuldina 7. apríl eða næstum mánuði áður en fjárnámið átti sér stað.

Þess í stað þurfti ég í byrjun maí að fara úr vinnu, niður í Sýslumann og hitta þar tvo aðra fullfríska einstaklinga og þarna sátum við og eyddum tíma í mál sem var í rauninni ekki til. Vegna þess að 800 þús. kr. skuldin var í rauninni 20 þús. kr. skuld og þar á ofan löngu greidd.
Þetta kallar maður að sóa tíma starfsmanna sinna í ekki neitt. Ef ég væri eitthvað einsdæmi þá væri þetta kannski næstum því í lagi en væntanlega eru í gangi þúsundir svona mála í kerfinu og þarna sitja hinir tveir allan daginn alla daga með mismunandi Siggum og ræða mál sem eru í rauninni ekki nein mál. Í stað þess að nota upplýsingatæknina til að frysta áætlanir þeirra sem búin eru að skila skattskýrslum þangað til búið er að fara yfir þær og taka þá einungis fyrir raunverulega skuld þegar og ef hún raunverulega er til staðar þegar loksins er búið að fara yfir skattaskýrsluna. Það var semsagt ekki ennþá búið í dag þegar ég fór niður eftir þó svo hún hafi verið send inn 1. febrúar. Já, það er margt skrítið í kýrhausnum!

Ps. Það ánægjulega er hins vegar að beibstuðullinn virðist eitthvað fara hækkandi meðal þjónustufulltrúa hjá Tollstjóra og gerði það heimsóknina verulega mun ánægjulegri en oft áður. ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home