sunnudagur, maí 08, 2005

Ætlir þú að sjá eina mynd á árinu...

...sjáðu Hotel Rwanda í Regnboganum. Algerlega frábær mynd. Myndin segir sögu manns sem rekur alþjóðlegt hótel í Kigali, höfuðborg Rwanda þegar þjóðarmorðin áttu sér stað nú fyrir nokkrum árum síðan. Vesturlöndum var alveg sama vegna þess að ráðamenn töldu ólíklegt að það að senda herlið til "Langtíburtistan-lands" eins og Rwanda halaði inn atkvæðum í næstu kostningum. Í staðinn voru áttahundruð þúsund Tútsar drepnir eins og flugur á nokkrum dögum í þessu annars fallega landi. Þetta er frábær mynd og tekst að vera spennandi, raunsæ án þess að fara yfir strikið og verða að einhverju yfirþyrmandi blóðbaði þannig að manni féllust bara hendur. Henni tekst að vera réttu megin við strikið og mitt í öllu því sem er í gangi hlær maður meira að segja stundum og er það oft svolítið kærkominn hlátur.

Langar alltaf að standa upp og gera eitthvað eftir að hafa horft á svona myndir. Hef lengi velt því fyrir mér að fara t.d. til Afríku á vegum Rauða krossins eða einhverra álíka stofnanna. Held það væri bæði spennandi og þroskandi að fara þangað í nokkra mánuði og gera eitthvað gagn.

Tel mig reyndar hafa gert svolítið gagn í gegnum skátastarfið. Það að ala upp leiðtoga annars vegar og innræta þeim kærleiksrík og uppbyggileg gildi hins vegar er gríðarlega mikilvægt starf og verður ekki ofmetið. Eftir tíu, tuttugu, þrjátíu, fjörtíu ár verða þessi börn farin að stjórna fjölskyldum, fyrirtækjum og stjórnmálaflokkum innanlands og utan og þá verða þær ákvarðanir sem þau taka á hverjum tíma byggðar á þeim grundvallargildum sem þau hafa tileinkað sér í gegnum uppeldið. Það skiptir því máli hvernig þau fræ eru sem sáð er. Seinni heimsstyrjöldin hefði ekki átt sér stað nema vegna þess að sterkur leiðtogi beygði af leið og eins og forystufolinn í stóðinu sem hleypur með fylgismenn sína fram af bjarginu. Páfinn ákveður að banna getnaðarvarnir og á meðan deyja milljónir úr eyðni í Afríku, í þeim löndum sem kaþólskan er að koma hvað sterkast inn í heiminum. Í Rwanda ákváðu menn að það væri réttlætanlegt að hreinsa út eina þjóð Tútsa vegna þess að einhverjir leiðtogar þeirrar þjóðar höfðu gert svipaða hluti við Hútúa nokkrum áratugum áður. Sama var að gerast á Balkanskaganum og sama er að gerast í Palestínu og Ísrael.

Leiðtogum fannst/finnst réttlætanlegt að aðrir létu lífið vegna þess að þeir voru þeim á einhvern hátt ekki samboðnir eða "fittuðu" ekki inn í þá sýn sem þeir höfðu/hafa. Leiðtogarnir selja síðan undirmönnum sínum hugmyndirnar og keyra þær í gegn. Því er ómetanlegt að tryggja að upprennandi leiðtogar meti lífið, náttúruna og fólkið í kringum sig með þeim hætti að það sé ekki í lagi að myrða fólk vegna þess að það er af röngu þjóðarbroti, trú, lit eða öðru. Dæmin sýna okkur að það er ekki heldur sjálfsagt og gerist þar af leiðandi ekki af sjálfu sér. Leiðtogum má heldur ekki vera sama þegar slíkt á sér stað annars staðar. Þar er ekki bara um leiðtogana að sakast heldur einnig okkur sem kjósum þá. Að vera ekki sama er grundvallardrifkraftur allra úrbóta í heiminum. Okkur má ekki vera sama.

1 Comments:

At 9.5.2005, 09:45, Anonymous Nafnlaus said...

Fullur orku? Tékkaðu á þessari dömu: http://siggavidis.blogspot.com Hún er ótrúleg. Búin að byggja skóla á Indlandi í gegnum pening sem hún safnar inn á bankareikninginn sinn, framlög koma frá þeim sem lesa bloggið hennar. Hún er líka góður penni og skrifar blogg frá ferðum sínum - hún er núna staðsett í Afríku á löngu ferðalagi.
Stelpa, aðeins yngri en við - en búin að framkvæma alveg hreint ótrúlega hluti.

Ég skora á þig að lesa 1-2 mánuði af blogginu hennar. Sjáðu hvort þig langar ekki enn meira að láta gott af þér leiða eftir það - algerlega frábær fyrirmynd.

= Y =

 

Skrifa ummæli

<< Home