Rólegheita helgi...eða hvað?
Athyglisvert hvað hugtakið "upptekinn" er afstætt... Mér finnst ég hafa átt þvílíkt rólega helgi og ekki gert nokkurn skapaðan hlut en þegar málið er skoðað nánar þá hef ég síðan á föstudagskvöld t.d. hlaupið 4-5 km., farið í ræktina, farið í heimsókn til Birnu systur borðað þar á mig gat og lagað tölvuna hennar, setið úti á svölum í sólinni og spjallað, sett saman tertu og seinna borðað hana ásamt familíunni, æft og sungið með Skátakórnum fyrir 40-80 manns, borið vitni fyrir löggunni, farið á rúntinn í Reykjavík og Hafnarfirði, út að hjóla, út að labba, á samkomu í Fíladelfíu, á óperu í Íslensku óperunni og loks horft á mynd með Dirty Harry. Ætlaði alltaf einhvert á fjall en það varð ekkert úr því. Kannski þess vegna sem mér finnst ég ekki hafa gert neitt!
Já, nú halda allir að það sé endanlega búið að Jesúa mig. Önnur samkoman á sumrinu og aðeins búnir 10 dagar af því! Ásta bauð mér á eitthvað sem hét lofgjörðasamkomu þar sem átti að vera ennþá meiri tónlist en venjulega, kórinn og alles. Ég ákvað því að skella mér því kórinn var ekki með um daginn. Þetta var glæsilegt í alla staði og það sem kom mér á óvart var að þetta var algerlega ofstopalaus messa/samkoma/predikun eða hvað á að kalla þetta. Ágætisprestur þessi Vörður og svei mér þá ef ég er ekki búinn að finna einn kór í viðbót sem ég væri meira en til í að syngja með. Þetta er rosalega flott og skemmtileg tónlist og hvet ég fólk til að horfa á messuna á ríkissjónvarpinu á hvítasunnudag. Mjög hresst og skemmtilegt! Ásta sagði reyndar að ég þyrfti að skírast inn í söfnuðinn til að fá að syngja með kórnum. Það hlýtur nú að vera hægt að komast þarna inn bakdyramegin einhvern veginn. Ég er alla vega ekki til í að taka allan pakkann. Er einhvern veginn of mikill efasemdamaður. :) Er svosem með marga aðra kóra sem mig langar að syngja með t.d. Karlakór Reykjavíkur eða Fóstbræður. Glæsilegir og ofurflottir kórar. Mig langar semsagt að prófa alvöru karlakór einhvern tímann, gospelkór einhvern tímann og örugglega einhverja fleiri. Held að gospelkór sé t.d. miklu skemmtilegra en að vera í venjulegum kirkjukór. Það gætu hins vegar verið fordómar.
Fór síðan í óperuna í kvöld á sýningu einhvers apparats sem heitir Óperusmiðjan. Það var frítt inn og þetta er einhvers konar samstarfsverkefni nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík, Listaháskólans og óperunnar til að gefa hljóðfæra- og söngnemendum tækifæri til að reyna sig við óperuhlutverk í alvöru húsi við alvöru aðstæður. Apótekarinn; mjög létt, fyndið og skemmtilegt verk. Ástæðan fyrir því að við fórum þarna var sú að fyrrverandi dagmömmubarn mömmu, Guðbjörg Sandholt var að syngja eitt af hlutverkunum. Já, ótrúlegt hvað litlu börnin eru orðin stór! Hún stóð sig með mikilli prýði og það sama mátti segja um hina söngvarana og hljóðfæraleikarana en nemendur tónlistarskólanna skipuðu heila sinfoníuhljómsveit í gryfjunni.
Jæja, best að fara að lúlla í hausinn á sér. Nú verður maður að standa við stóru orðin og hjóla í vinnuna á morgun. Ég kom þátttökunni í því verkefni af stað í vinnunni þannig að ég verð að hjóla á undan og sýna gott fordæmi! Ótrúlegt hvað maður er alltaf að koma sér í klandur!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home