mánudagur, febrúar 28, 2005

Barnið mitt á baksíðu Moggans í dag...

Brjálað að gera... Maður er því alveg búinn að vanrækja litla bloggbarnið sitt undanfarna daga.

Heyrði hins vegar í Kristófer fyrir helgi. Æi það er alltaf svo ljúft að heyra í honum karlinum. Hann á fullu að verða karatetöffari í Danaveldi. Kannski pabbi hans ætti bara að skella sér í austurlenskar bardagaíþróttir. Hef í alvöru verið að velta fyrir mér Thai Kwon Do (held það sé skrifað svona). Þetta er svona snerpu action íþrótt, maður þarf að mæta á ákveðnum tímum og svo er þetta svona hæfilega framandi og skrítið til að geta hugsanlega haldið einbeitingu minni í einhvern tíma. Skoða málið...!

Stutt dagbók síðustu daga...

Fimmtudagur...fórum starfsmannahaldið á vínsmökkunarnámskeið hjá Eðalvínum og þaðan heim til Sólrúnar um kvöldið.

Frábært námskeið þar sem maður draup á góðu víni, smakkaði síðan eitthvað salt og draup aftur á og þá smakkaðist vínið allt öðruvísi. Smakkaði síðan smá sætan mat og aftur bragðaðist vínið allt öðruvísi. Smakkaði síðan sterkan mat og enn og aftur bragðaðist vínið allt allt öðruvísi. Mjög athyglisvert. Vissuð þið t.d. að ef þið eruð með vínber með ostabakkanum ykkar þá "drepið" þið rauðvínið. Ef þið prófið það þá næstum því hverfur bragðið af víninu þegar maður fær sér vínber. Mjög sniðugt að salt eyðir út stemmubragðinu af rauðvíni. Stemmubragðið er þetta ramma sem mörgum er í nöp við. Ef þið kaupið vín með matnum og ykkur finnst vera of mikið stemmubragð af því, saltið þá einfaldlega kartöflurnar aaaðeins meira og þá hverfur stemmubragðið af víninum. Snilld!!!

Fórum síðan heim til Sólrúnar þar sem Snævar ofureiginmaður töfraði fram dýrindis ostabakkaveitingar sem aldrei fyrr. Ótrúlega öflugur maðurinn!

Á föstudaginn var uppskeruhátíð STOR þar sem "fólkinu á bakvið tjöldin" var verðskuldað boðið út að borða. Skemmtilegt kvöld sem hófst á minjasafni OR í Elliðaárdal, fórum síðan niður á Rauðará þar sem Food & Fun matseðillinn var innbyrtur. Magnað hvað hægt er að búa til góðan mat. Bragðlaukarnir fengu alveg sjokk í hverjum bita.
Áfram var haldið á Thorvaldsen bar þar sem við vorum að eitthvað frameftir og hitti ég meira að segja félaga Þorlák Karlsson og frú - í action á dansgólfinu eins og öflugum mönnum er lagið! Urðu þar fagnaðarfundir. Dönsuðum aðeins þar, síðan skruppum við Ásta og Unnur yfir á Dubliners, dönsuðum aðeins þar, aftur yfir á Thorvaldsen og heim. Frábært kvöld. Hafði reyndar byrjað aðeins fyrr þar sem ég mætti í vísindaferð stærðfræði- og eðlisfræðinema upp í OR og var síðan skilin eftir með það dæmi í fanginu þar sem hinir OR starfsmennirnir voru á leið á djammið. Tæklaði það og enginn dó.

Flott sýning í 100°, sýningarsal OR á Bæjarhálsinum bæðevei. Hvet fólk til að kíkja við. Meðal annars húsamyndir frá Ólafi Elíassyni...nokkuð töff. Einnig þessi líka glæsilegi rass uppi á vegg. Vissulega töff en hefur farið fyrir brjósið á sumum. :)

Laugardagur og sunnudagur fóru í vinnu (action fyrir launakeyrslu) og úrvinnslu úr skoðanakönnuninni frægu. Frægu er ekkert ofsagt því hún var á baksíðu Moggans í dag. Það hefði nú mátt lesa greinina aðeins betur yfir en skilaboðin komust til skila. Glæsilegt!

Síðan tókum við nokkur því rólega á laugardagskvöldið heima hjá Ástu í videó. Ágætt eftir ólæti föstudagskvöldsins.

Siggi söngkennari veikur í dag. Það er eiginlega ágætt þar sem ég var að skoðanakannast til fjögur í nótt og líklega ekki sérlega raddfagur í dag.

Kvöldið fer í skoðanakönnunina. Nú fer þessu vonandi að linna þegar líða tekur á vikuna. Held ég muni samt ekki ná að klára þetta alveg fyrr en um næstu helgi. Það passar. Þá er ég að taka að mér aðra! :) Maður verður að hafa eitthvað að gera. Hún verður hins vegar meðfærilegri heldur en þessi...famous last words!

föstudagur, febrúar 25, 2005

Það er komið sumar - sól í heiði skín!!!

Mmmmm..... fór út í ísbúð og náði í ís fyrir okkur í vinnunni.

Mmmm....ÆÐISLEGT!

mánudagur, febrúar 21, 2005

Í Hólminn með Herði!

Við systkinin, ég og Birna, erum að spegúlera í að renna í Stykkishólm þann 10. mars á tónleika með Herði Torfa.

Af hverju? Jú, það er alltaf gaman að skella sér í ferðalag, ekki verra en hvað annað að fara í Stykkishólm og Hörður er náttúrlega meistari.

Það eru 170 kílómetrar í Stykkishólm þannig að við þurfum að gera ráð fyrir ca. 2-3 tímum á leiðinni ef færðin er í lagi (sem hún er auðvitað alltaf fyrir Ford Fiestu!). Tónleikarnir byrja væntanlega átta eða hálfníu þannig að þá þurfum við að fara úr bænum um fimmleytið. Tónleikarnir verða til ca. tíu/ellefu þannig að þá erum við komin í bæinn aftur um tvöleytið. Þetta er á fimmtudegi þannig að mönnum er bent á að sofa bara nóttina áður í staðinn (svo geta þeir örugglega sofið á leiðinni líka ef þeir nenna ekki að syngja með okkur).

Það eru allir velkomnir með! Fínt að fá fleiri til að deila bensín og gangakostnaði sem og gleði og söng! Svo bætum við bara við bílum ef okkar fyllist.

Þetta verður þrusutúr...er það undantekningalaust þegar við systkinin leggjum land undir hjól!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Ofurafmæli!

Jæja þá er það að baki!

Héldum upp á 50 ára afmælishátíð STOR (Starfsmannafélag Orkuveitu Reykjavíkur) á Bæjarhálsinum í gær. Eitthvað í kringum 500 manns mættu og gekk þetta eins og í sögu.

Eyjólfur Kristjánsson spilaði rólegheitarlög þangað til dagskráin byrjaði korter yfir sjö á jarðhæðinni með formlegum ræðum, bæði formanns STOR og Alfreðs stjórnarformanns, og síðan voru fyrrum formönnum félagsins færðir blómvendir að gjöf. Kom upp smá vandamál með hljóðkerfið þarna uppi þar sem hátalararnir dugðu ekki þegar allur þessi fjöldi var kominn í húsið. Munum það næst!

Þá var haldið niður á -1. hæð þar sem mötuneytið er og keyrt upp partý. Þar hafði mötuneytið sett upp fjögur hlaðborð, eitt með frönskum mat, eitt með mexíkönskum mat, eitt með ítölskum mat og eitt með asískum og voru þeim gerð góð skil...enda 500 munna að fæða.

Eyfi hélt áfram og var nú sínu sprækari en áður. Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson mættu um áttaleytið, áttu að vera til hálf níu en gátu ekki hætt og voru til korter í níu. Ótrúlega sprækur karlinn. Hann kann enga texta sjálfur en veit að allir gestirnir kunna þá þannig að hann fær bara stóðið til að syngja með sér. Að sjötugur karl skuli geta rifið upp 500 manns sem þar á ofan er í óða önn að fá sér að borða standandi úti á gólfi er náttúrlega ótrúlega öflugt! Meistari!

Síðan kom Eyfi aftur með allt í botni þangað til lokaatriðið brast á rétt fyrir klukkan níu. Þar var mættur dúettinn Steintryggur, sem var nafn soðið saman á staðnum held ég en það voru þeir Bogomil Font (Sigtryggur Baldursson) og Steingrímur Guðmundsson trommuleikarar (Milljónamæringarnir). Búið var að koma þarna inn í hús stærstu trommum landsins og var þar um að ræða loftnetsparabólur, n.k. gervihnattadiskum, sem þeir höfðu fengið frá einhverju fjarskiptafyrirtæki. Hvor um sig um tveir metrar í þvermál og síðan voru þeir með einhver strítulaga fyrrum loftnet sem hljómuðu hvert með sínu laginu þegar barið var á þau. Þetta börðu þeir eins og bongotrommur. Alveg hrikalega töff og flottasta lokaatriði sem hægt var hugsa sér. Fólk stóð alveg með öndina í hálsinum!

Fyrir utan biðu stætóar sem keyrðu þá sem fara vildu niður á Kringlukrá þar sem Geirmundur Valtýsson byrjaði eitthvað upp úr klukkan tíu. Hafði ætlað að byrja ellefu en var til í að byrja fyrr þar sem þessi stóri Orkuveituhópur var mættur á svæðið. Öflugur karlinn.

Ótrúlega sprækur karlinn. Hann tók sér ekki pásu fyrr en milli tólf og eitt. Keyrði semsagt í hátt í tvo og hálfan tíma pásulaust. Var síðan í pásu í kannski 20 mínútur, kom aftur og hélt áfram í rúma tvo tíma til klukkan þrjú. Svona eiga bönd að vera. Glæsileg frammistaða og ótrúlegt úthald.

Var að vanda kófsveittur á dansgólfinu frá fyrsta til síðasta tóns. 5 tímar lágu frá kl. 22 til 03 og rétt skrapp nokkrum sinnum í 7 mínútur af dansgólfinu til að fá mér vatn. Þetta er SVOOO gaman! Unnur mætti með Ástu vinkonu sína sem kann að dansa. Slíkt er náttúrlega gulls ígildi á svona balli og var dansað alveg út í eitt.

Það var því ljúft að leggjast í rúmið sitt um fjögurleytið eftir að hafa keyrt 500 manna partý og 5 klukkutíma á dansgólfinu með Geirmundi. Í dag er maður síðan... tja, myndi nú líklega ekki velja þennan dag til að fara í maraþon en þó væri aldrei að vita ef einhver kæmi og spyrði! ;)

Mættum síðan upp á Bæjarháls í dag til að taka niður og ganga frá.

Djob vell dönn...nú bíður maður bara spenntur eftir sextugsafmælinu!

föstudagur, febrúar 18, 2005

Allt í gangi! ! !

Nú er allt á fullu...

...500-600 manna afmælisveisla starfsmannafélagsins á morgun laugardag. Verður tær snilld! Síðan verður liðinu smalað upp í strætó og brælt á Kringlukránna þar sem meistari Geirmundur mun virkja á okkur svitann fram eftir nóttu.

Ekki hlaupið að því að fara út að skemmta sér með 200 vinum sínum. Hringdi í nokkra skemmtistaði og sagðist vera á leiðinni út að skemmta mér á laugardaginn og ætlaði að taka ca. 200 vini mína með mér. Það voru bara einhverjir örfáir staðir sem gátu tekið við því og enn færri sem ekki voru fullir. Viðskiptatækifæri!

Ætlum að skreyta Orkuveituhúsið hátt og lágt að innan þannig að arkitektinn mun ekki þekkja það sem sama hús. Við erum með heilan birkiskóg í laufgun inni í geymslu og verða trén sett upp á víð og dreif um svæðið, sellófan hæðanna á milli svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Þetta á pottþétt eftir að koma verulega á óvart!


Fengum annars þráðlaust net á Hólsveginn í gær. Virkaði ekki alveg nægilega vel. Ákváðum að taka þetta í samvinnu við þá bræður Kidda og Hjört í kjallaranum og hafa tenginguna þeim mun vígalegri. Þetta verður vonandi farið að virka á næstu dögum þannig að við getum tekið í gagnið nýju tölvuna sem þau gömlu hjónin voru að versla sér. Þrusugræja. 3,2 Ghz á móti 300 Mhz (=0,3 Ghz) sem gamla tölvan er. Þetta er semsagt u.þ.b. ellefuföldun á afli síðan 1998. Magnað!


Búið að vera brjálað að gera í kjarasamningaveseni í vikunni. Var á fundum í 9 klukkutíma straight á þriðjudaginn og síðan megnið af deginum bæði á mánudaginn og miðvikudaginn líka. Úff, ótrúlegt hvað maður getur orðið þurrausinn af svona! Síðan er kvöldvinna í því að klára fyrirtækjaskýrslurnar í skoðanakönnuninni.

Já, actionvika í gangi og allt að gerast!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Kraftaverk!

Átti leið í gegnum bloggsíðuna hennar Guðrúnar Davíðs áðan. Þau voru að eignast litla prinsessu á fimmtudaginn. Meiriháttar! Þetta er svo stórkostlegt. Hugsið ykkur, lítill einstaklingur verður til. Þetta er svo magnað. Allt í einu birtist bara heilt barn! (Stelpur, svona er þetta frá sjónarhóli okkar strákanna...púff!...undanfarinn er líklega aðeins raunverulegri og áþreifanlegri ykkar megin...).

Man þegar Kristófer fæddist. Var eiginlega ekki að ná gleðinni fyrr en eftir sólarhring eða tvo. Var auðvitað glaður en ég var fyrst og fremst bara uppfullur af rosalega S T Ó R U M tilfinningum. Svo stórum að mér fannst hjartað vera að springa. Þær komust ekki alveg fyrir. Þarna var kominn heill einstaklingur - Vá! - barn - sem að ég átti! Þetta var eitthvað svo yfirþyrmandi...og magnað á sama tíma! Síðan róaðist maður aðeins og fór að njóta augnabliksins. Ferlega merkileg upplifun...svolítið eins og að fara á milli borða í tölvuleiknum, The Life of Siggi. Algerlega nýr heimur, maður hugsar öðruvísi, annað gildismat og...og...og..., allt öðruvísi þó svo maður sé náttúrlega ennþá í sama leiknum....og síðan verður þetta bara skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem þau eldast og verða skemmtilegri og skemmtilegri.

Tær snilld!

--//Sé einhver í vafa bendi ég á albúmið af Kristófer undir linknum myndir hér hægra megin. Þetta er bara skemmtilegt!

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Skíði og skemmtilegheit!

Fín helgi!

Kláraði nú kannski ekki allt sem ég setti á listann góða hér að neðan en komst þó áleiðis með flest.

Kláraði reyndar djammið...reyndar seinna en ég bjóst við...sem í tilfelli djammsins er gott öfugt við flest annað. Á föstudagskvöldið var semsagt þetta fína kóradjamm þar sem Skátakórinn hitti þrjá aðra kóra - söngur, grín og gleði. Þar vakti mesta athygli kór sem ber nafnið Raddbandafélag Reykjavíkur. Snilldarhópur og ég legg eindregið til að fólk leggi við hlustir þegar þið heyrið það nefnt. Ef þið heyrið af tónleikum með þeim látið mig vita hið snarasta!

Við þurftum hins vegar að yfirgefa húsið um tvöleytið þegar gleðin var rétt að byrja og því var haldið í partý í Kópavoginn til Möggu Blöndal. Glæsilegt teiti, söngur og fínerí... Kom heim um hálf sjö á laugardagsmorguninn. Ákváðum um kvöldið; ég, Palli Viggós, Ásta Bjarney og Ebbi að skella okkur á skíði morguninn eftir. Um tvöleytið var planið að fara um tíu. - Um sexleytið var tímasetningin orðin....tja....einhvern-tímann-upp-úr-hádeginu-bara! Síðan voru skíðasvæðin lokuð á laugardaginn og stefnan sett á sunnudaginn.

Það gekk eftir. Palli var reyndar með hjálparsveitinni í action og Ebbi að vinna en við Ásta, ásamt Sonju frænku hennar og Kolbrúnu, unganum í hópnum, héldum galvösk upp í Skálafell í dag. Nú verð ég að viðurkenna að ég hafði aldrei farið upp í Skálafell áður á skíði. Hef af einhverjum ástæðum alltaf farið upp í Bláfjöll. Þetta var hins vegar frábær dagur, ég á Telemarkinu niður allar hlíðar. Datt ekki nema svona tíu sinnum þannig að ég er tiltölulega sáttur. Er á þeirri skoðun að það séu bara aumingjar sem detta aldrei. Fólk sem ekki tekst á við nægilega krefjandi verkefni!

Svona Telemark-skíðamennska er þvílíkt púl og vöðvarnir framan á lærunum voru algerlega búnir eftir daginn. Hafði vit á því að teygja vel áður en ég fór inn í bílinn, fór í sjóðandi heitt bað í kvöld og bíð nú spenntur eftir því hvort ég verði fær um að ganga á morgun. Spennandi!

Hitti þarna m.a. Maríu Rúnars. sem var með börn ættarinnar í skíðakennslu. Þarf að fara að standa að fimmtudagshádegishittingi hjá HR liðinu. Það er orðið óheppilega langt síðan síðast.

Stefnum á það!

föstudagur, febrúar 11, 2005

Söngur + Djamm = Söngdjamm!

Vitlaust að gera í vinnunni eins og venjulega. Ótrúlegt hvað hægt er að búa til mikið af verkefnum í kringum svona starfsmannahald. Reyndar eru þetta 500-800 hausar eftir árstíðum í 20 stéttarfélögum sem þarf að gera kjarasamninga við hvert og eitt og ...og....og.... en maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni! Það er lykilatriði!

Er á leiðinni á djammið í kvöld. Skátakórinn ætlar að hitta nokkra aðra kóra í Valsheimilinu einhvers staðar og verður þar væntanlega sungið og djammað fram eftir nóttu. Glæsilegt! Er alveg til í það.

Skemmtilegur þessi snjór. Þá birtir svo yfir öllu.

Fjögur verkefni fyrir helgina:
1) Klára að útbúa gögn í "Excelskjali dauðans" vegna kjarasamninga við Eflingu
2) Klára fyrirtækjaskýrslurnar úr Verzlókönnuninni góðu
3) Skrifa í gestabækur víðs vegar um heim hvatningarromsu um að mæta á landsmót skáta í sumar
4) Lesa yfir þarfagreiningu vegna starfsmannalista sem setja á upp á www.or.is og verður beintengdur inn í kerfin og voða fínt.
5) Stunda einhverja útiveru - fara á skíði, út að labba eða eitthvað svoleiðis.
...plús náttúrlega djammið í kvöld.

Kemur í ljós hverju mér tekst að ljúka af þessum pakka. Ef þið eruð að spá í útiveru látið þá vita. Ég er til í allt - Alltaf!

Adios Amigos!

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Nýja Fiestan virkar vel!

Ekki mikið að frétta í dag... nema það að nýja svarta snaggaralega Fiestan mín stendur sig með prýði. Nú er búið að keyra hana hátt í 50 kílómetra og sér ekki á henni. Í kvöld þegar ég skrapp aðeins út sást nú reyndar varla í hana heldur þar sem ég hafði geymt hana úti í dag til að geta kíkt á hana út um gluggann. Það hafði snjóað 10-15 cm ofan á hana þegar ég kom út og ég ekki búinn að fjárfesta í snjósköfu/kúst! Fór og fjárfesti í snjókúst/sköfu. Jæja, hún verður stór og sterk af þessu. Komst að því að snjór er frekar kaldur svona alla vega í þessu magni.

Kvöldið fór annars í vinnu. Kjarasamningaútreikningar sem ég var búinn að ýta á undan mér í einhvern tíma. Skrapp líka á kóræfingu í dag sem var kærkomin útrás á milli verkefna.

Maður ætti kannski að skella sér eitthvað á skíði um helgina. Hvað segið þið um það?

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Gaui Sig. og ný Fiesta!

Sáuð þið Gauja Sig. og félaga í Ísland í dag í kvöld. Algjör snilld! Það er auðvitað erfitt að segja að eitthvað sem tengist MND sé snilld og vissulega er þetta skelfilegur sjúkdómur en að hlusta á Gauja og vinna með Gauja eins og ég hef fengið tækifæri til að gera er bara algerlega frábært! Æðruleysið, töggurinn og húmorinn eru með ólíkindum svo maður tali nú ekki um miðað við þá stöðu sem hann er í gagnvart þessum skelfilega sjúkdómi. Sama að segja um Höllu og stelpurnar. Þvílík fjölskylda - þvílíkt team! Sjúkdómurinn hefur gert það að verkum að hann er svolítið lengi að tala en maður hefur lært það að það er algerlega þess virði að bíða því yfirleitt kemur eitthvað snilldarpunchline! Alveg æðislegt hvað það er til frábært fólk í þessum heimi.

Jafnskelfilegt að það skuli fá þennan ógurlega sjúkdóm. Það eru svo mikil forréttindi að fá tækifæri til að kynnast svona fólki þótt maður hefði nú viljað að það væri við aðrar aðstæður. Finnist manni eitthvað erfitt eða óyfirstíganlegt þá hugsar maður til Gauja í nokkrar sekúndur og veltir því fyrir sér hvað hann hefði gert í þessari stöðu. Við þetta einhvern veginn gufar vandamálið upp og eftir stendur verkefni til að leysa.

Hvet alla til að leggja inn á reikning hjá MND félaginu. Þú getur jafnvel stillt heimabankann þinn þannig að hann millifæri eitthvað mánaðarlega. Þetta þarf ekki að vera há upphæð, margt smátt gerir eitt stórt, en ég efast stórlega um að þér takist að eyða henni í eitthvað nauðsynlegra eða betra. Fann áðan reikningsupplýsingar á heimasíðu MND félagsins.

Hvet ykkur til að fylgjast með blogginu hans Gauja. Bætti því við hérna á hægri vænginn. Ótrúlega skemmtilegur húmor þótt verið sé að fjalla um eins alvarlega hluti og frekast eru til í þessum heimi.



Fékk nýju Fiestuna afhenta á kvöld. Svona líka falleg...svört og snaggaraleg. Pabbi sagði nú að það væri nú ekkert sérlega skynsamlegt að kaupa svartan bíl. Það sæi svo fljótt á honum skítur. Það gerir það kannski að verkum að ég þvoi oftar bílinn minn!

Athyglisverð annars svona viðskipti. Fékk þarna nýjan bíl og losna við minn gamla án þess að greiða krónu. Slepp reyndar við mánaðarlegu greiðsluna þennan mánuðinn, og byrja því í 20 þús. kr. gróða, því ég byrja ekki að greiða hinn fyrr en um næstu mánaðarmót. Tryggingarnar af þessum eru aðeins 2 þús. kr. hærri en af þeim gamla en mánaðargreiðslurnar ca. 7 þús. krónum hærri. Á móti kemur að bílinn er nýr þannig að viðhald ætti að vera í eins miklu lágmarki og nokkur möguleiki er á ætli maður að eiga bíl yfirhöfuð. Held þetta hafi bara verið nokkuð skynsamlegt...reyni alla vega að telja mér trú um það.

Sakna samt gömlu Fiestunnar minnar. Við vorum vinir. Höfum brallað ýmislegt saman í gegnum tíðina. Frábær bíll og algjör töffari! Þarf að skrifa minningargrein um hana hérna á blogginu einhvern góðan veðurdag. Hún á það skilið.

Skrapp á kóræfingu í kvöld með Skátakórnum. Alltaf jafnskemmtilegt. Erna er frábær kórstjóri. Hefur einstakt lag á því að halda uppi metnaði og aga á æfingum en samt tryggja að aldrei sé langt í hláturinn sem gerir þetta svo skemmtilegt. Hvet fólk til að skella sér í Skátakórinn. Tenórar eru sérstaklega velkomnir. Djamm á föstudaginn. Þá ætla fjórir kórar að hittast, syngja og skemmta sér. Mætum þar með söng og spilerí og ætlum að vera skemmtilegust. Tekst pottþétt!

Semsagt...enn einn skemmtilegur dagur!

mánudagur, febrúar 07, 2005

96 bollur lágu!!!

Hæ hó!

Heyrði í Steina í dag. Alltaf gott að heyra í Steina. Hann spurði hvort ég hefði áhuga á að hafa skoðanir á Flugleiðavefnum. Jú auðvitað - alltaf gaman að hafa skoðanir! Sérstaklega gaman að geta haft skoðanir og síðan bara gengið í burtu og látið aðra um að vinna úr málinu. Þægilegt! Engar líkur á því að einhver segi...jæja, gerðu það þá! Þá er maður alltaf komin í vond mál.

Í gær var fjölskyldubollukaffi hjá mömmu. Við erum búin að vera nokkuð dugleg fjölskyldan að hittast upp á síðkastið. Jólin, blesspartý Kristófers, þorrablótið og nú bollukaffi. Alltaf matur innifalinn...og mikið af honum! Valdimar Birnuson hringdi í ömmu sína fyrir helgi og rukkaði hana um hið árlega bollukaffi. Sú gamla var nú ekki lítið glöð. Að fá upphringingu frá barnabarninu sem jafnframt er síðhærður rokkari og vera beðin um bollukaffi með börnum og barnabörnum. Hún hefði ekki orðið glaðari þótt hann hefði gefið henni hundraðþúsundkall! Enda hittingar sem þessar náttúrlega priceless eins og Mastercard segir! Ég er ekki viss um að þið trúið því en það lágu 96 bollur í bollukaffinu. 96 stykki. Reyndar frekar smávaxnar bollur en samt...96 stykki!!! Ofan í 15 manns. Geriði betur...ég skora á ykkur!

Síðan voru fiskibollur í hádeginu í dag í vinnunni, rjómabolluútkall klukkan tvö og loks kjötbollur og bollurnar fimm sem eftir voru eftir partýið í gær í kvöldmat. Ég er eiginlega farinn að skilja af hverju það er síðan eitthvað rammíslenskt, sykurlaust og þjóðlegt daginn eftir...á sprengidaginn.

Kíkti í söngtíma til nafna míns Bragasonar. Gaman að heyra muninn á röddinni núna og síðast þegar ég mætti svefnlaus í tíma. Þá hljómaði ég eins og rjúpa en nú var allt komið í lag aftur. Merkilegt hvað þetta hefur mikil áhrif! Komst líka að því að upptökutæki leynast víða. Vildi muna hvernig lagið var sem ég var að syngja, hafði gleymt myndavélinni minni heima (var með hana síðast þar sem hún er líka hljóðupptökutæki) en mundi allt í einu mér til mikillar gleði að síminn minn getur tekið upp 3 mínútur af hljóði sem ég get síðan skutlað yfir á tölvuna á morgun. Ótrúlega sniðugt hvernig þessar græjur eru allar farnar að geta allt!

laugardagur, febrúar 05, 2005

Af Framadögum, loftbyssum og 192 lítrum af vatni í Fiestunni!

Leiddi þátttöku OR í Framadögum í gær. Um er að ræða vettvang þar sem fyrirtæki kynna sig sem vinnustað fyrir háskólanemum annars vegar og þar sem háskólanemar kynna sig fyrir fyrirtækjunum hins vegar. Skemmtilegur dagur og góður andi í hópnum. Þarna voru á þriðja tug fyrirtækja og þekkti maður hresst fólk hér og þar.

Í fyrra vorum við með DeGraf rafalinn í básnum. Það er kúla sem fólk tekur utan um, maður hleypir á hana rafmagni og smám saman hleðst fólk upp og hárið á því byrjar að standa stríðrafmagnað út í allar áttir. Mjög skemmtilegt. Þessa græju má finna í Rafheimum Orkuveitunnar, í Elliðaárdal. Þar ræður ríkjum Stefán Pálsson spurningaséní, herstöðvaandstæðingur og snillingur og galdrar fram forvitni og skemmtun fyrir grunnskólabörn og fleiri sem koma í heimsókn, læra um rafmagn, eðlisfræði o.fl. á virkan og skemmtilegan hátt.

Í ár höfðum við einnig samand við félaga Stefán þar sem hann er endalaus uppspretta skemmtilegra leikfanga. Hann olli okkur ekki vonbrigðum og bauð okkur loftbyssu eina vígalega. Um er að ræða græju sem lítur út eins og ruslafata með handfangi og vakti mikla athygli enda með miðara og öllum græjum. Opinbera verkefnið var að skjóta á logandi kerti og slökkva í því sem var svosem skemmtilegt en enn skemmtilegra var þó að skjóta á mann og annan sem leið átti hjá. Græjan er semsagt loftbyssa og skapar töluverðan þrýsting og svolítið lofthögg og getur maður skotið því allt að 5-6 metra. Skutum við á gesti og gangandi og verð ég líklega aldrei litinn sömu augum af fulltrúa VR á staðnum sem var nágranni okkar og ég skaut á. Brá henni nokkuð verulega þegar hún fékk lofthöggið alls óviðbúin. Mjög skemmtilegt! Hvenær ætli maður fullorðnist? Vonandi aldrei!

Að degi loknum settum við allt draslið í Fiestuna mína og Toyotu Þórarins í Hönnun og renndum með þetta uppeftir. Þarna var um að ræða heilt sýningarkerfi (bakgrunnur fyrir bás), ein borðtölva, ein fartölva, tveir stórir skjáir, nokkur hundruð bæklinga og 16 kassar (384 flöskur = 192 lítrar) af vatni. Næstum öll fyrirtækin gáfu vatn þannig að það fór aðeins minna út af vatni en búist var við. Fiestan flutti því næstum tvö hundruð lítra af vatni auk annars farangurs og fór létt með það!!! Varð mönnum að orði að ótrúlegt væri hvað kemst mikið fyrir í þessum litla bíl. Þetta er sko ekki í fyrsta skiptið sem hún fær þann dóm blessunin!

Um kvöldið var síðan brennt á Póstbarinn í Framadagapartý og þaðan á Hressó og loks Pravda í smá stund. Ágætisdjamm og vorum við meðal annars á spjallinu við Marcus Orlovsky sem kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur á Framadögum. Um er að ræða frumkvöðul sem hefur látið mikið að sér kveða í Bretlandi og byggt þar upp heilu borgarhlutana. Mjög hress náungi.

Haldið ekki að það hafi verið búið að sekta mig þegar ég náði í bílinn í morgun niðri við Austurvöll? Eiga þessir andsk... aldrei frí!?!?

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Námskeið, afslöppun og bílavesen

Búinn að vera á Oracle Discoverer Administration námskeiði hjá Teymi undanfarna þrjá daga, þ.e. mánudag til miðvikudag. Hörkunámskeið og mikil yfirferð. Námskeiðið endaði síðan í dag með rauðvíni og ostum. Alltaf gaman að heimsækja Teymi. Hresst fólk og skemmtilegur andi í húsinu. Fór með tveimur þeirra til London í haust og náðum við þar vel saman.

Hitti Gunnu á mánudaginn og fjarlægði restina af því sem ég átti í geymslunni í Eskihlíðinni. Freyja er að flytja út og þær þurftu að skila af sér íbúðinni núna um mánaðarmótin. Eskihlíðin var ágæt og fínt að búa þarna. Eins og reyndar á Hafnarbrautinni þar sem við bjuggum í lítilli stúdíóíbúð í ljótasta húsi í Kópavogi! Var skelfilegt að utan en ósköp notalegt að innan.

Var í vinnunni framundir morgun á aðfararnótt mánudagsins. Þurfti því að hafa mig allan við til að lifa af námskeiðið á mánudaginn og síðan söngskólann á eftir. Gekk ekki eins vel og síðast...augljós þreyta og svefnleysi í röddinni. Maður verður að reyna að passa sig að sofa almennilega aðfararnætur næstu mánudaga, a.m.k. lengur en 3 tíma. Mamma var síðan með saumaklúbb um kvöldið. Ákvað að taka það rólega. Fékk lánaða DVD diska hjá Kidda frænda í kjallaranum, fór inn í herbergi og horfði á DVD í tölvunni. Hafði það þvílíkt þægilegt.

Gærdagurinn var síðan þéttsetinn; námskeiðið til hálf fimm, þaðan til Fúsa að ganga frá bókhaldinu, starfsráðsfundur klukkan sex og Sardínu- og skátakórsæfing hálfátta til hálfellefu. Við kórbandið Sardínurnar hittumst fyrir æfinguna til að æfa fyrir djamm þann 11. febrúar. Þá ætla fjórir kórar að hittast, djamma, syngja og skemmta sér. Verður glæsilegt!

Ætlaði með bílinn minn í söluskoðun í dag. Þeir sögðust lána mér bíl á meðan. Komst ekki fyrr en rétt fyrir sex og spurði hvort þeir gætu ekki bara tekið bílinn þá, lánað mér bíl yfir nóttina og þeir síðan rennt honum í gegn í fyrramálið. Nei, þá var það ekki hægt þar sem ekki mátti lána út bílinn yfir nóttina. Óþolandi leiðindi. Hvaða máli skiptir hvort bílinn stendur fyrir utan Brimborg eða Hólsveginn í nótt? Hvaða máli skiptir hvort ég fæ hann lánaðan fá klukkan 8 til 16 eða yfir nótt. Asnalegt og illa farið með tilvonandi viðskiptavin. Maður ætti eiginlega að gefa skít í þá. Þetta þýddi að ég þurfti að fara aftur heim og þarf síðan að fara aftur til þeirra í fyrramálið. Óþolandi svona óþarfavesen.

Alvöruvinna á morgun, ekki námskeið, í fyrsta skiptið í vikunni. Fullt að gera því í viðbót við ýmislegt annað þarf ég að undirbúa þátttöku Orkuveitunnar í Framadögum Háskólans á föstudaginn, nánar tiltekið á Hótel Sögu. Var fenginn til að stýra því dæmi eins og í fyrra. Gaman þegar manni er hennt í einhver svona verkefni. Sérverkefni eru alltaf skemmtileg því þau eru í eðli sínu fjölbreytt og mismunandi... meira um það á föstudaginn.