mánudagur, maí 23, 2005

Söngur, dans og Los Sardinos!

Það verður ekki annað sagt en að kórpartý Orkuveitukórsins sem haldið var á föstudagskvöldið hafi farið ansi verulega fram úr væntingum. Átti von á tiltölulega rólegu eldriborgaraboði en bjóst við nokkrum söng. Þess í stað varð úr þessu fimm tíma snilld! Ég mætti með gítar, annar með harmonikku og á staðnum var forláta píanó. Kvöldið hófst á skemmtilegu spjalli þangað til ein af aldursforsetum hópsins, pínulítil kona að verða sjötugt greip nikkuna, spilaði af krafti í þrjú korter eða svo og blés ekki úr nös. Þá tók eigandi nikkunnar við í annan klukkutíma og þegar honum lauk þriðji kórfélaginn. Sá er fagmaður í bransanum, lék og djassaði á nikkuna sem óður væri. Með slíkan snilling á nikkunni stóðst kórstjórinn ekki freistinguna, settist við píanóið (maðurinn er með doktorspróf í píanóleik) og svo var djassað og djammað í bland við hin ýmsu lög, kokkinn og fleira. Þeir héldu áfram fram undir miðnætti og var dansað þarna upp um alla veggi. Eftir ballið fór gítarinn í gang og var sungið með honum og nikkunni fram á nótt. Hreint ótrúlega sprækur hópur og meðalaldurinn líklega hátt á sextugsaldurinn. Já, maður þarf sko ekki að örvænta hvað aldurinn snertir eftir svona partý!

Hafði áður farið í 10 ára afmæli til Teymis þar sem var salsaþema og allar stelpurnar með blóm í hárinu. Stöðug skot á einn starfsmanninn þarna sem í London með okkur í fyrra át eitt blóm eða svo en ákvað að hafa það í hárinu að þessu sinni.

Rólegheita laugardagur. Snatt hér og þar þangað til ég fór upp í vinnu. Vann nú ekki mikið því allur tíminn fór í Skátakórsmál. Ætluðum að halda tónleika uppi við Hvaleyrarvatn en það klikkaði. Ég fór því í tveggja tíma göngutúr um Elliðaárdalinn í leit að tónleikastöðum. Fann tvo og annan sínu betri en hinn. Kannaði í morgun (mánudag) hvort hægt væri að nota hann en svo var ekki. Er því búinn að finna þriðja staðinn og verður vorhátíð Skátakórsins haldin í Laugardalnum við gömlu þvottalaugarnar, næstkomandi laugardag kl. 16. Skemmtilegur staður í hjarta borgarinnar en samt í rólegheitum fjarri ys og þys borgarinnar. Spáð sól og blíðu um næstu helgi þannig að þetta verður gott frábært. Allir mæti með eitthvað á grillið og svo er bara að syngja með!

Sardínurnar héldu æfingu í gærkvöldi. Skemmtilegt. Sardínurnar - Los Sardinos - er laukur út frá Skátakórnum, þeirri merku menningarstofnun og sérhæfir sig í ýmsu með suðrænum blæ. Enduðum niðri í Hinu húsi hjá Hauki og höfðum þar snilldaraðstöðu. Spiluðum og rödduðum þar nokkur lög - skemmtilegt og fín æfing í því að radda. Hef ekki mikið verið í svona hljómsveitum. Stefnum að því að koma lagi á Skátakórsdiskinn og jafnvel ef við verðum í æfingu að koma fram á laugardaginn. Það verður þó að koma í ljós.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home