laugardagur, janúar 29, 2005

Úlfar frændi

Var að bæta Úlfari frænda inn á hægri vænginn... Velkominn á svæðið frændi!

Fiesta 2.0

Kíkti við í Brimborg í dag. Hef verið að bíða eftir því að þeir fengju Fiestur í húsið. Er að spá í að uppfæra. Búinn að skoða og prófa fullt af öðrum bílum en fíla Fiestuna langbest. Lítil, snörp, fersk og snaggaraleg! Var kominn með samning af Focus í hendurnar fyrir mánuði en ákvað að downgreida niður í Fiestu. Sé ekkert eftir því. Prófaði nefnilega nýju Fiestuna í dag. Meiriháttar! Kom algerlega á óvart.

Prófaði 1,6 bílinn, sjálfskipta útgáfu. Átti nú ekki von á miklum frískleika í sjálfskiptum bíl en þegar ég botnaði hann þá hreinlega stökk hann af stað. Glæsileg frammistaða af sjálfskiptum bíl. Ég er að skoða 1,4 l. beinskiptan en mér skilst að það sé mjög lítill munur á þeim þótt minn verði líklega lítið eitt slakari beinskiptur en 1,6 bíllinn sjálfskiptur. Pantaði því einn svartan, álfelgur á gripinn og verður málið skoðað betur á miðvikudaginn næsta. Jibbííí!!!!

Ætla mér að leigja gripinn. Skrítinn heimur. Ef maður á engan pening í útborgun er eiginlega ekkert hærra mánaðargjald með því að leigja nýjan bíl í stað þess að kaupa gamlan.

Það er með nokkrum trega sem ég segi skilið við Fiestuna mína. Fyrsti bíllinn minn. Keypti hann sem einhvern ódýran kerlingabíl haustið 2000 með það fyrir augum að eiga hana í eitt til tvö ár. Síðan hefur hún komið mér og mun fleirum verulega á óvart. Frábær bíll. Höfum farið víða saman og lent í ýmsum ævintýrum. Ég hef farið á honum upp og niður fjöll, yfir ár og eftir vegum og slóðum sem var klárlega ekki gert ráð fyrir að hann færi þegar hann var hannaður. Á Úlfljótsvatn smekkfullur af mat fyrir 50 manns í brjálaðri hríð, Fiestan í fararbroddi og foreldrarnir á jeppum. Hún stóð sig eins og hetja! Fór meira að segja einu sinni Þúsundvatnaleiðina uppi á Hellisheiði á henni. Þá er farið meðfram Skarðsmýrarfjallinu, áfram inn í Fremstadal og síðan 15 sinnum fram og til baka yfir Hengladalsánna og að lokum aftur út á veg. Það var reyndar frekar lítið í ánni þennan dag og ég fór MJÖG varlega en hún fór létt með þetta. Usss... ekki segja henni að hún sé ekki jeppi. Ég er búinn að telja henni trú um það í mörg ár, hún er löngu orðin sannfærð og maður kemst ýmislegt á sannfæringunni.

Hún er hins vegar komin á aldur þrátt fyrir að hún beri aldurinn með miklum sóma. Er við það að hoppa yfir í sexstafatölu þannig að ætli maður þurfi ekki að skipta henni út fyrir yngri systur. Sorrý stelpur, harður heimur! Set upp svona In Memorium albúm um Fiestuna 1.0 á næstunni. Þarf að safna saman myndum....

Maður verður því kannski bara kominn á nýjan bíl fyrir næstu helgi!!! Glæsilegt!

Sjáið nýju Fiestuna mína í action hér. Þarf nokkuð góða tengingu til að skoða videóið.

Danmörk komin á línuna...

Hanna sendi fréttabréf í dag frá Danmörku. Kristófer er kominn aftur á fullt í skólann eftir jólafrí og byrjaður í karate. Úff, þar hlýtur hann að fíla sig.

Þau eru komin með blogg...setti það upp hérna á hægri vænginn.

Fullkomin perla frá Óttari af blogginu þeirra...

"Litli prinsinn er snillingur. Eitt kvöldið vorum við að labba heim og máninn glotti yfir okkur. "Heyrðu!" sagði hann allt í einu. "Minnkar tunglið hraðar en ég get hlaupið?". "Ha" sagði ég og skildi ekkert hvað hann átti við. Hann útskýrði málið betur fyrir mér. "Já, ef ég er á tunglinu og það er að minnka, get ég þá hlaupið hraðar en það minnkar eða dett ég út af því?" Ég verð að viðurkenna að mér hefur aldrei dottið svona í hug. En þetta gaf okkur tækifæri til að spekúlera heilmikið í stjörnufræði þar sem ljósastaur var sólin, ég var jörðin og hann hljóp í kring um mig sem tunglið."


Já, mikið óskaplega er ég lánsamur maður að ...a)... eiga svona frábæran strák og ...b) ... vita af honum í svona góðum höndum.

Þetta er svo sannarlega stórfínt líf!

Hornstrandir, heitt vatn, hitt og þetta!

Skemmtilegur dagur.

Mikið að gera í vinnunni þar sem Skúli samdi við stéttarfélag korter fyrir útborgun og það þarf að koma því inn í kerfið. Um er að ræða að endurreikna launin þeirra aftur til 1. desember 2002 og nota ég við það Excelskjal dauðans! Er búinn að nota það á fleiri stéttarfélög lítið breytt. Mögnuð græja þótt ég segi sjálfur frá þar sem aldrei þarf að breyta sama atriðinu nema einu sinni. Þá sækist það í öll hin 30 sheetin! VLOOKUPað í bak og fyrir. Þeir sem ekki kunna að nota VLOOKUP í Excel og vinna með lista hvet ég til að öðlast þekkingu á þessu falli hið snarasta!

Guðmundur forstjóri hélt starfsmannafund í hádeginu þar sem hann kynnti hvað stendur til næsta árið. Fyrirtækið mun fjárfesta fyrir 12 MILLJARÐA á árinu. Úff, maður er ekki alveg að ná utan um þessar tölur. Hann taldi upp ljósleiðarann og fleiri liði sem kostuðu ca. hálfan milljarð hver og síðan Hellisheiðarvirkjun sem verður fjárfest í upp á 6 milljarða á árinu. Skyndilega varð hálfi milljarðurinn bara klink! Sveitarfélögin í kringum Reykjavík selja OR veiturnar sínar í löngum bunum, mörg til þess að eiga möguleika á að fá til sín ljósleiðarann í nánustu framtíð. Mögnuð græja - Ótrúleg bylting - Ótrúlegir möguleikar.

Orkuveitan á líka hlut í fyrirtækinu ENEX sem sérhæfir sig í markaðssetningu á hæfileikum Íslendinga tengdum virkjunum um víða veröld. ENEX er nú að fara að vinna verkefni tengd virkjanagerð í Kína, Þýskalandi, Perú og víðar. Mjög spennandi dæmi. Þarna erum við að selja einstakt hugvit.

Orkuveitan á líka hluta í Djúpborun sem er að rannsaka hvort hægt er að bora mun dýpra eftir vatni og fá það kannski 500 gráðu heitt, margfaldan þrýsing, margfalda orku o.s.frv. pr. borholu. Þetta er svona framtíðarmúsík og verður kannski farið að skila einhverju eftir ca. 10 ár. Það ánægjulega er hins vegar að þarna eru Íslendingar að leiða mjög merkilegt verkefni á heimsvísu með samvinnu við rannsóknarstofur víða um heim sem mun hafa grundvallaráhrif á heitavatnsöflun um allan heim á komandi áratugum.

Heilsaði upp á Gunnu í smá stund í dag svo hún gæti skrifað upp á ársreikningana vegna blómabúðarinnar. Gott að sjá hana aftur.

Setti myndir inn í myndasafnið frá því á Hornströndum í sumar. Algerlega framúrskarandi ferð þar sem allt lék saman...einstakur hópur, einstakt umhverfi og veðrið engu líkt. Ferð sem fékk tíu af tíu mögulegum. Hlakka ekkert smávegis til næsta sumars þegar ferðinni er heitið í Skagafjörðinn. Þarf reyndar að sleppa hálfu landsmóti vegna þessa en það verður að hafa það. Kíkið á...!

Félagi Árni var fyrstur til að kvitta í gestabókina. Hvet ykkur til að koma þar við. Alltaf gaman að heyra í góðu fólki!

föstudagur, janúar 28, 2005

Ekki með öllum mjalla - Gestabók & myndir!

Sæl og bless!

Eyddi töluverðum tíma í gær í að koma mér upp gestabók og myndasíðu. Yahoo er með ótakmarkað rými fyrir myndir svo lengi sem maður fer inn á hann á að minnsta kosti 6 mánaða fresti. Ótakmarkað er nú svolítið mikið magn svona þegar maður vistar fyrir allan heiminn. Væri athyglisvert að heyra hversu mikið magn þeir eru að geyma í heild sinni!

Setti þarna inn nokkrar myndir af Kristófer í gegnum tíðina sem ég átti við hendina. Skemmtilegar myndir af skemmtilegum strák. Set meira inn síðar héðan og þaðan....fylgist með!

Endilega kíkið í gestabókina og kvittið fyrir komu ykkar...sá sem er fyrstur að skrifa sig vinnur!!!

Rosalega getur maður samt stunum verið kalkaður! Var í þessu í gærkvöldi í lengri tíma og komst síðan að því rétt eftir að ég hafði slökkt á tölvunni að ég hafði gleymt að blogga...jæja sh...happens!

Fór áðan í heimsókn í kvöld til Fúsa, Sigfúsar Bjarnasonar skólabróður míns úr HR. Á leiðinni til Fúsa (sem ég hef oft komið heim til) ruglaðist ég á húsum og dinglaði á kjallaradyrnar tveimur húsum frá honum. Þar kom til dyranna maður sem ég hef aldrei séð og fattaði ég þá að ég var í röngu húsi. Sá auðvitað rétta húsið sem ég þekkti vel um leið og ég kom út á götuna aftur...maður getur stundum verið alveg hreint ótrúlegur!

Fúsi rekur annars fyrirtækið Bókhald og þjónusta og þið getið fundið hann á www.bokhaldogthjonusta.is vanti ykkur að láta gera skattframtalið fyrir ykkur. Toppmaður! Hann sér um bókhaldið fyrir okkur Gunnu og var að klára að gera upp blómabúðina og allt sem henni fylgir. Eitthvað þarf maður að styðja við bakið á Geir Haarde fyrir vikið en við skulum vona að hann eyði peningnum í eitthvað af viti.

Skrapp í gær úr vinnunni og aðstoðaði Sigrúnu Birnu, litlu frænku, í að flytja rúm sem hún var að kaupa í íbúðina sem hún er að fara að leigja í Seljahverfinu. Ótrúlega dugleg, 18 ára og svo sjálfstæð að manni verður um og ó stundum. Á hennar aldri var maður nú ekki alveg farinn að leigja sjálfstætt heldur einbeitti sér að ferðalögum um heiminn, skóla og skátum. Vona bara að hún komi sér í skóla fyrr en síðar. Það hlýtur að koma með kalda vatninu.

Er í stjórn starfsmannafélags Orkuveitunnar með alveg hreint ótrúlega spræku og skemmtilegu fólki. Fólki sem að grípur alls kyns verkefni og keyrir þau í gegn að því er virðist algerlega áreynslulaust. Til dæmis erum við nú að skipuleggja 50 ára afmælishátíð STOR sem haldin verður að kvöldi 19. febrúar í aðalstöðvum Orkuveitunnar. Líklega svona 500-800 manna partý. Við stefnum að því að umturna nýja Orkuveituhúsinu og gera það með stæl. Vonum að arkitektinn komist ekki að því og sjái aldrei myndirnar...væri reyndar fyndið að bjóða honum sérstaklega og hafa bara hjartastuðtæki við hendina ef hann hrekkur uppaf.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Passið ykkur, andvökunætur geta verið dýrar!

Lá andvaka fyrir helgi. Dýrt spaug því fljótlega var ég farinn að skipuleggja heimreisu. Já, ferðagenið er á stærð við bowlingkúlu og tekur heljarstökk við að lesa frásagnir eins og hjá Gylfa, Óla og Ásdísi á Nýja Sjálandi.

Ég væri alveg til í að kýla á svoleiðis pakka sem fyrst. Er alveg farinn að þurfa á ferðalagaskammtinum mínum að halda. Þarf hins vegar að bíða með það eitthvað lengur. Nauðsynlegt að halda áfram að styðja við bakið á bankakerfinu svo aumingja Björgúlfur þurfi nú ekki að selja fötin sín aftur!

Alvöru ferðalög þurfa því að bíða fram á þarnæsta ár, 2007. Hins vegar gæti meira en verið að veturinn og vorið 2007 kæmi sterkt inn. Er búinn að reikna það út að með þokkalegri fjármálastjórn verð ég búinn að sarga af mér halann í lok árs 2006 eða þar um bil. Þá væri nú hreint ekki slæm hugmynd að renna hringinn...þ.e. kringum hnöttinn. Hægt að fá hérna fargjöld á 100-200 þús. allan hringinn og má maður þá lenda ákveðið oft og fljúga ákveðið langt. Síðan væri bara ódýr gisting og action. Væri örugglega hægt að sleppa með ca. 400 þús. allan hringinn.
Númer eitt væri að komast til Kúbu. Þaðan væri Ríó de Jainero og Buenos Aires áhugaverðir áningarstaðir sem og Amazon - ekki bókabúðin!

Svo gæti maður komið við á einhverjum Kyrrahafseyjum, Tahiti eða Páskaeyjum á leiðinni til Nýja Sjálands að heimsækja Ásdísi, Svövu og Hilmar og Ástralíu í öl og óbyggðir. Þaðan er það svo Kína sem heillar.

Kína og Kúba eru þau lönd sem mig langar mest til. Daginn eftir að Kastró geyspar golunni verður Kúba eins og hún er í dag fokin út í veður og vind og orðin að úthverfi í Florida. Kína er svipaður pakki. Að breytast alveg ótrúlega hratt þannig að fari maður núna og síðan aftur eftir 10 ár verða það tvö ólík lönd sem við blasa. Væri til í að skoða stíflurnar á Yangtze fljóti, Peking og Hong kong. Ekki væri heldur amalegt ef maður kæmist einhvern veginn yfir til Mongólíu í nokkra daga. Langar svolítið mikið þangað. Alltaf heillast af þeim. Slava vinur minn í Rússlandi á vin í Mongólíu. Gæti hugsanlega náð tengingu þannig og reynt að komast í útreiðartúr um slétturnar og jafnvel gista einhvers staðar úti í buska. Mjög merkileg þjóð Mongólar.

Frá Kína væri síðan ferðinni heitið til norðurhluta Indlands. Delhí eða þar um bil, skoða Taj Mahal. Tíbet væri líka heillandi. Væri hugsanlega hægt að koma þar við um leið með innanlandsflugi eða einhverju svoleiðis. Athugandi.

Frá Norður-Indlandi væri ég til í að enda í Kenía og klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. Það er ekkert óyfirstíganlegt og örugglega mögnuð upplifun. Þekki menn sem hafa verið þarna uppi og lýsa ferðinni sem einstakri. - Afríka er náttúrlega einstök hvert sem maður fer.

Já, heimurinn er snilld. Ráðlegg ykkur að kíkja á "Nammipoka ferðamannsins" hérna hægra megin á síðunni. Topp 100 staðir í heiminum. Ég hef komið á 16 plús að þrír eru svona á gráu svæði þar sem ég stoppaði ekki nægilega lengi við eða komst ekki alveg alla leið. Hef til dæmis komið í Versali en bara um garðana - ekki inn í höllina. Garðarnir eru reyndar full ástæða til að komast á þennan lista!

Já, 2007 væri flott ár til að ferðast fyrri hlutann og jafnvel skella sér erlendis í framhaldsnám um haustið. Hvað á maður að læra? Það er til svo mikið af skemmtilegum hlutum í heiminum. Á maður að taka markaðsmálin, tölvu og upplýsingatæknimálin, almenna stjórnun eða hvað?

Allt er þetta mjög spennandi. Maður þarf að líta í kringum sig.

Jæja, þetta var svona draumórablogg. Þó ekki meira draumóra en svo að allir þessir staðir eru spurning um hvenær ekki hvort. Vonandi tekst það sem fyrst.

Góða nótt...zzzzzzzz

sunnudagur, janúar 23, 2005

Súrir pungar og puð!

Nú er heldur betur langt um liðið. Búinn að vera gjörsamlega á kafi í Verzlókönnuninni sem náði hámarki sínu fimmtudag til föstudag þegar stuttur vinnudagurinn á fimmtudaginn endaði með sólarhrings könnunarsession fram á miðjan dag á föstudag. Síðan voru SMÁviðbætur í gær frá hádegi til fjögur í nótt og loks í nokkra klukkutíma í dag, sunnudag. Fór síðan í vinnuna í kvöld að vinna upp syndir. Jæja, maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni. Örugg og gulltrygg leið gegn skammdegisþunglyndi!

Annars kom fjölskyldan saman á föstudagskvöldið hjá Birnu og hélt þorrablót sem hér eftir verður pottþétt árlegur viðburður. Alltaf jafn skemmtilegt þegar þessi hópur, sem fer sífellt stækkandi með fjölgun tengdabarna, kemur saman. Aldrei dauð stund og meiriháttar að sjá unglingana ráðast til atlögu við hákarlinn og hreðjarnar með hræðsluglampa í augum og allar taugar þandar. Þau gáfust hins vegar ekki upp heldur horfðust í augu við óttann, náðu yfirhöndinni að lokum og átu kvikindin. Mögnuð upplifun! Líka skemmtilegt að sjá hvernig sumir borðuð hákarlinn til að halda niðri brennivíninu og aðrir drukku brennivínið til að halda niðri hákarlinum! Sem mark um gæði kvöldsins þá þurfti að fara sérstaka ferð út í Nóatún eftir aukahákarl. Maður gæti því lyktað öðruvísi eitthvað fram eftir vikunni!

Söngur á morgun eftir sönglausa síðustu viku. Það verður fínt!

Ps. Sandra frænka á Skagaströnd er komin með bloggsíðu...smellti henni hérna á hægri kantinn!

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Nýja Sjáland & fleiri tilviljanir

Tilviljanir eru skemmtilegar. Maður fattar að eitthvað tengist...eða tengist ekki algjörlega án þess að maður hafi eitthvað ætlað sér að fara í þessa áttina eða hina.

Dæmi um þetta er þegar ég kynntist tveimur stelpum frá Serbíu á IMWe í Þýskalandi. Ári seinna fór ég til Kandersteg í Sviss í alls ótengdri ferð. Þar vann þriðja serbneska stelpan. Ekkert athugavert við það enda alþjóðleg skátamiðstöð með allra þjóða kvikindum. Ári seinna fæ ég póstkort frá serbnesku stelpunni í Sviss og annari stelpunni sem ég kynntist í Þýskalandi. Þær reyndust þá vera bestu vinkonur, samlokur sem höfðu búið hlið við hlið og umgengist hvora aðra megnið af ævinni. Ótrúlega lítill heimur!

Hér ofar á Hólsveginu bjó lengi eldri maður, Siggeir ásamt fjölskyldu sinni. Systur mínar þekktu krakkana hans að einhverju leyti þótt þau væru eitthvað eldri en þær. Ég þekkti þetta lítið, var bara eitthvað að spjalla við gamla manninn og familíuna sem barn. Þegar ég fór í Verzló kynntist ég þar meðal annarra Siggeiri sem reyndist vera barnabarn öldungsins á horninu. Við brölluðum ýmislegt saman og sváfum meðal annars saman í hálfan mánuð (!) á Kýpur í útskriftarferð... Þegar við Gunna fluttum inn í Eskihlíðina komst ég fljótlega að því að leigusalinn okkar var einmitt Vilhjálmur, pabbi Siggeirs Verzlings og sonur Siggeirs á horninu. Ótrúleg tilviljun...nema að núna milli jóla og nýárs var hringt í símann minn úr númerinu hans Vilhjálms. Ég hugsaði: "Hvað er hann að hringja í mig núna?". Þetta var hins vegar ekki Vilhjálmur heldur dóttir hans Sesselja(systir Siggeirs - dóttir Vilhjálms) sem orðin er ritstjóri Verzlunarskólablaðsins og ég hafði hitt fyrr í haust vegna könnunarinnar. Hörkustelpa sem er að standa sig eins og hetja í þessu ritstjórastarfi. Svo virðist sem ég tengist óvart inn í þessa fjölskyldu frá öllum hugsanlegum hliðum.

Nýja Sjáland
Fyrir nokkrum mánuðum, eiginlega vikum, þekkti ég engan á Nýja Sjálandi og hafði í raun ekki mikið hugsað um það land. Tengdi það þó við Lord of the Rings og risarækju auk þess sem ég vissi að það er n.k. "Ísland suðursins" og því skemmtilegt og spennandi land með miklu af bjór og útivistartækifærum. Næsta föstudag verða hvorki meira né minna en sex vinir mínir á Nýja Sjálandi í tveimur ólíkum hópum, þarna hinum megin á hnettinum.

Ásdís (sjá tengilinn hérna hægra megin), Hilmar, Svava og Birna Dís sem voru með mér á Hornströndum í sumar eru flutt eða að flytja þarna út til náms og fer Ásdís í loftið í nótt. Gylfi og Óli súperskátar eru í mánaðarferð í kringum hnöttinn og líta á Nýja Sjáland sem aðaláfangastað, þar sem þeir ætla að dvelja lengst. Mæli með ferðasögunni...sjá tengilinn hérna hægra megin.

Maður ferðast með þeim í huganum í bili...minn tími mun koma. Í augnablikinu þarf maður að sjá bankakerfinu fyrir styrkjum svo aumingja Björgúlfur geti hætt að selja fötin sín.


Fékk annars sólarhringsfrest á Verzlókönnunina. Komst því ekki á skíði í dag í sólinni. Svekkjelsi! Er loksins núna að ná einhverjum niðurstöðum út úr dæminu. Alltaf ótrúlegt hvað það tekur langan tíma að koma gögnunum á koppinn, tækla "what can go wrong will go wrong"-vesenin, finna villur, kóða opnar spurningar o.fl. áður en hægt er að fara að ná einhverju út úr þessu drasli. Verð því að eitthvað fram eftir nóttu og kemst ekki á Skátakórsæfingu fyrir vikið. - Bömmer - lítið um söng í þessari viku.

Kveðja,

Siggi Úlfars. gagnarýnir og hugarferðalangur

mánudagur, janúar 17, 2005

...allt á fullu og ekkert sungið!

Nú er allt á fullu í Verzlókönnunarverksmiðjunni Hólsvegi 10. Þessi pakki verður afgreiddur á nýju Íslandsmeti og svei mér þá ef það er ekki fræðilegur möguleiki á því að þetta verði klárt á morgun. ("Fræðilegur möguleiki" er það þegar maður gefur sér þá staðreynd að morgundagurinn komi og veit að maður þarf einfaldlega að sníða sér stakk eftir vexti og skila á morgun einhverjum pínulitlum snöggsoðnum niðurstöðum). Þær eru kannski bara bestar þannig.

Nafni minn Bragason var lasinn í dag og því féll söngtíminn niður. Hentaði mér svosem ágætlega. Renndi þó í tónfræðitíma og viti menn...hefur ekki oft gerst í minni skólasögu...ég mætti lærður í tíma!!!!!!!!!!! Var sem sagt búinn að læra heima. Þetta gerðist nú ekki mjög oft á tíunda áratugnum en mögulega nokkrum sinnum á þeim níunda. Þá var maður ungur og saklaus...nú er maður bara...tja...heyrumst á morgun!

sunnudagur, janúar 16, 2005

Homo Islandicus - Sinfonía & söngur

Sæl og bless!!!

Ef ég ætti að lýsa þessari helgi með einu orði þá væri það Verzlókönnun! Ligg semsagt í henni upp yfir axlir og pressa á að skila niðurstöðum á þriðjudagsmorgun - já sjúr! 100 spurninga könnun! Jæja, kosturinn við tímaþröng er að hún lætur mann framkvæma hluti á nokkrum dögum sem undir eðlilegum aðstæðum væru gerðir á nokkrum vikum. Þetta er að sjálfsögðu hið alíslenska viðhorf gagnvart verkefnum. - Fínt, þá getur maður notað þær vikur í eitthvað annað!

Sáuð þið "Há dú jú læk Æsland?" þáttinn áðan á RÚV. Stórskemmtilegur! Hef lengi haft gaman af því að stúdera Íslendinga, álit útlendinga á okkur og öfugt.

Spurði einu sinni vin minn Ian Caunt sem dvaldi hérna í 6 mánuði á meðan á undirbúningi fyrir landsmót skáta 1999 stóð, hvað honum finndist um Íslendinga. Við ræddum það hvort hann fengi með sér Íslendinga í hópinn ef hann yrði beðinn um að stjórna "stærsta skátamóti í heimi". Ian hugsaði sig um og sagðist ekki endilega velja Íslendinga með sér í skipulagsnefndina, þeir væru ekkert sérstaklega skipulagslega sinnaðir. Hins vegar vildi hann ólmur hafa til taks eins og einn gám af þeim og ef eitthvað færi úrskeiðis gæti hann einfaldlega opnað gáminn og þá flæddu Íslendingarnir stjórnlaust um svæðið og "redduðu" öllu. Við væru bestu troubleshooterar í heimi og hefðum það mikið frumkvæði að við þyrftum ekki skipulag...við bara æddum í verkefnin, kláruðum þau, leituðum sjálfvirkt uppi næsta verkefni og svo koll af kolli. Auðvitað svolítið ýkt dæmi en samt nokkuð til í þessu.

Mér fannst athyglisvert þegar gaurinn hjá Karen Miller sagði að hann sæktist í að vinna með Íslendingum vegna þess að hlutir sem aðrir litu á sem höft eða "ljón í veginum" heftu okkur ekki. Þarna hefðum við einhvern veginn önnur viðmið en aðrir sem hann hafði unnið með.

Fannst líka athyglisvert þegar einhver minntist á það frjálsræði sem einkenndi það umhverfi sem íslensk börn alast upp í. Þetta gerði það að verkum að börnin hafa meiri möguleika á að kanna heiminn á eigin spýtur án þess að hafa foreldra sína alltaf andandi ofan í hálsmálið á sér. Ef þú byggir á Manhattan þá gætir þú aldrei farið út úr húsi sem barn, hvað þá heldur gengið einn niður götuna. Á Íslandi þykir ekkert tiltökumál þótt tiltölulega ung börn (á alþjóðlegan mælikvarða) hjóli langar leiðir án þess að vera í fylgd með fullorðnum, fari hjólandi í Kringluna o.s.frv. Þetta væri afleiðing þess að við búum í frekar öruggu samfélagi og hefði þau áhrif að við værum áræðnari þegar kæmi að því að fara okkar eigin leiðir í okkar störfum eða einkalífi seinna meir. Við værum búin að vera "kannandi heiminn" frá unga aldri og það að fara ótroðnar slóðir væri eðlilegt framhald af uppeldi okkar. Held að þetta sé rétt, skipti gríðarlega miklu máli og að í þessu séu fólgin óendanleg verðmæti.

Sama held ég að sé með takmarkaðri virðingu okkar fyrir yfirvaldi, strúktúr og reglum. Smæð samfélagsins gerir það að verkum að við köllum forsetann okkar Óla en ekki Mr. Grímsson. Mætti honum annars í Mál og menningu á Laugaveginum um daginn - frábært - dæmigert fyrir Ísland að hitta forsetann í bókabúðinni!

Einhver sagði að munurinn á okkur og Skandinövum væri sá að "í Svíþjóð og Noregi væri allt bannað nema það væri leyft, í Danmörku væri allt leyft nema það væri bannað og á Íslandi væri allt gert þó svo það væri bannað".

Við viðurkennum ekki reglur reglanna vegna heldur þurfum alltaf að fá að vita - af hverju? Þetta er náttúrlega þjóðareinkenni sem hefur þróast í þúsund ár. Upphaflega flúðu allir smákóngar Noregs sem ekki vildu segja já og amen við kónginn til Íslands. Af þessum mönnum erum við komin. Við erum ólátabelgir að eðlisfari og hikum ekki við að skora hindranir á hólm séu þær fyrir okkur. Samfélagið agar okkur ekki heldur við sjálf, aðstæðurnar og veðrið. Á Íslandi er svolítið "nauðsyn brýtur lög" stemning og er afleiðing veðurs og aðstæðna. Við hikum ekkert við að keyra upp Laugaveginn ef það er það sem þarf að gera.

Á landsmótinu 1999 ræddi ég einnig við annan Breta eða Bandaríkjamann og við ræddum hvað myndi gerast ef top 30 manns á mótinu (mótsstjórn og lykilstjórnendur) færu allt í einu á þriðja degi. Myndu bara yfirgefa svæðið. Væru ekki til staðar þegar liðið vaknaði einn morguninn. Hans skoðun var sú að í hans heimalandi myndi mótið koðna niður og fljótlega yrði pakkað saman og farið heim. Hann var hins vegar á þeirri skoðun að á Íslandi kæmi ákveðið hik í mótið en fljótlega upp úr hádegi yrði komin ný mótsstjórn og fljótlega upp úr því væri verkefnið í stórum dráttum komið "back on track". Uppgjöf kæmi aldrei til greina.


Kíkti ásamt Birnu systur á sinfoníutónleika í Grafarvogskirkju í gær. Þessir tónleikar voru einn af þessum gimsteinum sem finnast á tilkynningasíðum Moggans, engin veit af og eru í gangi út um alla borg. Þarna var mætt hvorki meira né minna en 70 manna Sinfoníuhljómsveit Taft háskóla í Boston sem ásamt Öldu Ingibergsdóttur söng og lék af mikilli list. Krakkar á aldrinum 18-22 ára.

Aðeins voru um 25 gestir mættir og stemningin því á persónulegu nótunum, svolítið eins og að vera á einkatónleikum. Magnað að sjá hvernig Alda "blastaði" húsið - Grafarvogskirkju sem er nú ekkert smá hús! Það suðaði fyrir eyrunum á manni þegar hún fór upp á háu tónana. Ótrúlegt hvernig hægt er að ná öllu þessu hljóði úr þessum litla hálsi!!! Alltaf gaman að skella sér á tónleika. Skemmtileg tilbreyting í skammdeginu!

föstudagur, janúar 14, 2005

Tertudagurinn mikli!

Gærdagurinn var tertudagurinn mikli. Einhvern veginn hittist svo á að ég var borðandi tertur allan daginn og fram á kvöld. Svakalegt!

Skýrr bauð upp á tertu og við sköffuðum gos með á fundi um morguninn. Tilefnið var ærið því verið var að fagna því að Skýrr tókst að leysa villu í mannauðskerfinu sem hefur verið að pirra okkur síðan í sumar og Oracle út um allan heim hefur verið að vinna í. Þetta var svolítill tappi sem losnaði úr verkefninu, líka andlega hjá hópnum, og frábært að sjá hann fara. Ákváðum að halda upp á viðburðinn með kökupartýi. Seinasta kökupartý var reyndar líka haldið út af villu en það var í vor þegar villan var búin að vera til staðar í nokkrar vikur. Þá ákváðum við að hópurinn þyrfti að uppörvun að halda og héldum upp á það að villan var að pirra okkur. Snilld!

Það sem ég hef lært af innleiðingunni á Oracle mannauðskerfinu hjá OR er að ekkert kerfi er betra en fólkið sem vinnur við það. Mannlegi þátturinn í svona verkefni verður ekki ofmetinn, allt stendur og fellur með því að hann sé í lagi og að samkomulagið milli kaupanda og seljanda sé eins og best verður á kosið. Það tekur stundum á og hvessir eins og í öðrum hjónaböndum en nauðsynlegt að geta tæklað það sem upp kemur og haldið áfram sátt.

Einhverjar leyfar voru af kökunni og tók ég þær með á starfsmannafélagsfund strax á eftir í því skyni að reyna að klára kökuna góðu. Tilraun var gerð en enn var hluti eftir.

Næsta kökupartý var 50 ára og 40 daga afmælisveisla Steinars fræðslustjóra. Við náðum ekki að halda upp á afmælið hans í desember þannig að við gerðum það bara núna. Gaman að setjast niður með vinnufélögunum og gleðjast yfir tímamótum í lífi fólks.

Næsta kökupartý þar á eftir var kveðjupartý Ásdísar Nýjasjálandsfara, en ég ákvað í kjölfar hinna að líta á þetta sem félagslega skemmtun en ekki matarboð og sleppti því að borða enda kökur farnar að fljóta út um eyrun á mér.

Um kvöldið fór ég svo á starfsráðsfund og var ráðlagt af vinnufélögunum að taka afgangana með mér. Gerði það. Ekki var allt búið enn og því fór ég heim með afganginn.
Jesús minn...ótrúlegur dagur! Ég verð að fara að koma mér í ræktina. Rosalegt að fá þetta svona allt á einum degi!

Vann síðan svolítið heima um kvöldið auk þess sem ég vann við úrvinnslu á Verzlókönnuninni fram eftir nóttu.

Nú hlýtur fólk að halda að geri ekkert í vinnunni heldur sé bara í einhverjum kökuboðum. Það er nú kannski ekki alveg svo en líklega hefur farið 1-2 klst. í þetta samanlagt í gær - enda tertudagurinn mikli! Maður verður bara að vinna það upp...

Dagurinn í dag einkennist af vinnu og Verzlókönnun fram eftir kvöldi. Er hins vegar með nokkra miða á sinfoníutónleika með amerískri sinfoníuhljómsveit í Grafarvogskirkju á morgun laugardag kl. 16. Á nokkra miða þannig að þið getið haft samband og komið með!

Until then...

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Karl R. Emba

Einhverjir hafa kannski velt því fyrir sér hvað ég sé að spá með að hafa blóm og rúsínupoka með hnetum sem titil á síðunni hjá mér. Um er að ræða snilldarviðlag úr lagi Harðar Torfa um Karl Ragnar Embu, höfuð Embufjölskyldunnar frá Ælandi.

Þeir gleggstu hafa líklega þegar tekið eftir því hvað verður til úr nafninu Karl R. Emba þegar því er skellt saman í eitt orð. Snilldar texti frá snilldarlistamanni. Kíkið í heimsókn til Harðar hér hægra megin á síðunni og síðan á tónleika hjá honum við fyrsta tækifæri. Þeir eru alltaf frábærir og hægt að taka frá fyrsta föstudag í september fyrir hausttónleika ár hvert.

Ef þið fréttið af tónleikum með Herði bjallið í Sigga vin ykkar og dragið hann með. Eintóm skemmtun!

...og hér er textinn í fullri lengd!

Karl R. Emba
Hörður Torfa
Ég er fæddur hjá frjálsri þjóð, í ljómandi fallegu landi,
sem laust er við heimskingja, afætur, gula og svarta.
En nú sækir stíft að oss aríum mikill voði og vandi,
þessi vesældarlýður hefur birst hér að betla og kvarta.

Mér finnst ekki rétt þegar heimurinn hagar sér svona.
Hefnd vofir yfir. - Jafnvel forsetinn sjálfur var kona !
Í örvænting minni ég hrópaði á alvaldsins herra:
Hvað get ég gert ! - Svarið það minnti á hnerra.

Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm ! ?
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

Því miður er fluttur í götuna okkar kornúngt kynvillingsgrey.
Karlmönnum, einsog mér, verður illt við það eitt að sjá’ann.
Ég spurð’ann útí búð svo allir heyrðu hvort’ann væri hrein mey.
Helvítis auminginn roðnaði og mig langaði langmest að slá ‘ann.
Hann dillar sér alv’einsog graðnaut með grettum og hlær.
Ég greip hann hér niðrá horni í myrkrinu í gær.
Þegar ég ætlaði að berja ‘ ann duglega og kýl’ann í klessu.
Þá kallaði til mín þessi rödd eins og prestur við messu:

Gefð ’onum blóm.
Gef ’onum blóm! ?
Já, gefð ‘onum blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

Ég er ekki með neina fordóma eða fornaldarviðhorf í neinu.
Aðeins frábrugðinn mönnum sem þora ekki að taka af skarið.
Mér finnst það sjálfgefið viðhorf að halda landinu hreinu,
hreinsa burt mannlífssorann svo við föllum ekki í sama farið
og stórþjóðir margar sem vandann vilja ekki sjá.
Slík viðhorf mega aldrei hérlendis fótfestu ná.
En ef maður segir eitthvað gegn þessum múhameðs durtum og dóti
þá drynur þessi rödd fyrir ofan alltaf á móti.

Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm!?
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Ofur-Baldur, þorrablót, landsmót og meiri söngur!

Brjálað að gera í vinnunni í dag og kóræfing með Orkuveitukórnum á eftir. Alltaf gaman að syngja! Fínt að æfa sig fyrir mánudaginn þar sem ég er nú frægur fyrir flest annað en að læra heima! ;-)

Ofur-Baldur, sá mikli harmonikkusnillingur og altmuligtmand kíkti á mig í vinnuna í dag. Hvatti til þess að við fjölmenntum á þorrablót Útivistar sem haldið verður í lok mánaðarins í Landssveit einhvers staðar. Stefnan tekin þangað. Alltaf gaman að spila með Baldri! ...og auðvitað eru allir velkomnir í gleðina!

Þá hringdi Andrea landsmótsframkvæmdarstýra og rukkaði mig um mál sem við ræddum á balli á öðrum í jólum. Það er að heimsækja allar hugsanlegar skátaheimasíður sem ég kemst í tæri við og skrifa í gestabækur "auglýsingu" um landsmót skáta næsta sumar. Been there - Done that! Þannig náði ég 300 manns til Íslands árið 2000. Allir sem til eru í þetta verkefni með mér, hafið endilega samband eða bara látið vaða á einhverjar heimasíður. Fínt að gera nokkur stutt skilaboð og geyma þau í wordskjali. Síðan bara afritar maður þau inn í gestabækurnar - tekur skemmri tíma! Fínt að taka t.d. eitt land í einu og troða sér inn á allar mögulegar síður. Guð blessi spamið!

Ps. Frábært að sjá að þið eruð farin að commentera. Þá sér maður að maður [er hægt að segja þetta? ...þá sér maður að maður...] er kannski ekki algerlega sjálfhverfur að tala við spegilinn. Alltaf gaman að fá gott fólk í heimsókn!

Söngur & skoðanir!

Mætti galvaskur í Söngskólann á mánudagskvöldið. Þar fann ég Sigurð nafna minn Bragason, mikinn og háværan snilling inni í litlu herbergi (ca. 3x5m). Það sem var magnað við þetta litla herbergi er að inni í því var forláta flygill sem ég get með engu móti skilið hvernig komist hefur þangað inn. Maður gæti haldið að húsið hefði verið byggt utan um flygilinn.

Við röbbuðum, kappinn lét mig syngja eitthvað, spurði hvað ég hefði verið að syngja í gegnum tíðina o.s.frv. Ég sagðist náttúrlega vera uppalinn á skátakvöldvökum úti á túni þar sem enginn nennti að setja upp hljóðkerfi. Öpgreitaði síðan upp í 600-1200 manna varðelda í Básum þar sem ekki heldur var hljóðkerfi! Þá hefði ég einnig sérhæft mig í að taka 8 klukkustunda partýsessionir í Básum og víðar. Hann hlustaði á mig og úrskurðaði seinna í tímanum að röddin hefði nú bara komið óskemmd út úr þessum ósköpum. Ég hef því ákveðið að röddin mín sé ofurtöffari og hörkutól og mun halda áfram að halda henni við efnið þannig að hún breytist ekki í eitthvað blúnduverkfæri!

Skrítið, þegar ég fór til Gunnar Eyjólfssonar í stamþjálfun (þjálfun í stami - Not!) þá var mér kennt að tala með þindinni. Maður andar að sér og alla leið niður í þind (og bumban þennst út) og talar síðan á útönduninni (þannig að bumban koðnar niður smám saman áður en maður fyllir á aftur með nýju lofti). Þindin er vöðvi þannig að ef það myndast loftlás í hálsinum þá andar maður og notar þindina til að sprengja haftið. Hef alltaf notað sömu aðferð við sönginn með ágætisárangri. Sigurður sagði mér að snúa þessu við. Í staðinn fyrir að bumban(þindin) fari út og svo smám saman inn aftur á ég að halda bumbunni úti allan tímann á meðan ég syng, vera síðan snöggur að skipta út lofti og þrykkja bumbunni aftur út. Vá! Þetta virkaði! Allt miklu betra og hreinna. Þetta er hins vegar massa magavöðvaæfing þannig að ég verð örugglega kominn með magavöðva sem aldrei fyrr í lok námskeiðsins!

Fór síðan beint í nótna og tónfræðitíma. Þetta var svona "sex ára stemning", algjörlega byrjenda byrjenda. Byrjaði á því að kennarinn benti á lítinn hring á töflunni og sagði: "Þetta er nóta". Er þó örugglega lognið á undan storminum!

Gærdagurinn, þriðjudagurinn var síðan action dagur. Þá keyrðum við skoðanakönnunina í gegn í Verzló. 1.100 manns tóku 101 spurninga könnun. Seinnipartinn var síðan smalað hátt í 50 manns í tvær tölvustofur í Verzló og svörin slegin inn í voðafína Accessgrunninn minn með macróum og öllu sem ég hafði sett saman á sunnudags- og mánudagskvöld. Virkaði vonum framar. 1.100 spurningalistar sinnum 101 spurning telur um 111.100 spurningar að slá inn. Ég missti því af Skátakórsæfingu um kvöldið og var uppi í Verzló framundir miðnætti að slá inn. Um 10 manns var enn í action þegar við kláruðum og verð ég að segja að framtíðin er björt fyrir íslensku þjóðina eigandi vinnuþjarka eins og þennan hóp sem aðstoðaði okkur í gær. Glæsileg frammistaða!

Nú tekur síðan við margra vikna vinna í að komast í gegnum þessar 111.100 spurningar og ná út úr þeim niðurstöðum. Þarf hins vegar helst að klára það fyrir þriðjudaginn í næstu viku, alla vega það sem fara á í Verzlunarskólablaðið. Guð, ef þú átt kraftaverk á lager handa mér þá væri fínt að fá það núna takk! :o)

Já, maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni!

mánudagur, janúar 10, 2005

Einn og hálfur tími í söngskólann...

Núna er einn og hálfur tími þangað til ég á að mæta í Söngskólann! Mér líður eins og barni á aðfangadag! Þetta verður þvílíkt skemmtilegt! Tell you all about it...

sunnudagur, janúar 09, 2005

Djamm, söngur og skíði

Don Alfredo risarækjubóndi bauð starfsmönnum til árlegs þrettándafagnaðar í gærkvöldi en hefð er fyrir því að stjórnarformaðurinn bjóði í partý helgina eftir þrettándann. Þetta var að sjálfsögðu glæsilegt eins og alltaf þegar Maggi kokkur og félagar galdra fram uppákomur sem þessar.

Hápunktur kvöldsins var þegar Karlakór Reykjavíkur raðaði sér upp á neðstu brúna í glerbyggingunni og á tvær hæðir í hringstiganum og "blastaði" húsið. Magnað! Ótrúlega flottir!!! Það var eins og lenda undir foss þegar þeir byrjuðu að syngja. Ég átti von á því að hljóðið færi allt einhvert út í buskann en þetta var meistaraverk. Seinasta lagið var svo djúpt niðri að bassinn ég dauðskammaðist mín. Ég er náttúrlega bara eins og pínulítill austurískur kórdrengur við hliðina á þessu liði. Það er semsagt komið á verkefnalistann, þennan langa, að prófa einhvern tímann svona karlakór. Rosalega flottir!

Við Ásdís Nýsjálendingur gerðumst áskrifendur af Sushi og tælenskum mat sem og konfekti og rauðvíni. Voða gott enda bæði áhugafólk um mat - og nóg af honum! Nokkur lög voru rödduð þegar líða tók á kvöldið upp úr þurru í góðra vina hópi úti á miðju gólfi sem var mjög skemmtilegt. Lenti á "full-langri" kjaftatörn við ofuráhugasaman skátaforingja með glampa í augunum. Þegar maður er í skátaletikasti eins og ég þessi misserin er gaman að geta blásið fólki smá kapp í brjóst í baráttunni.

Enduðum heima hjá Helgu Ívars og hélt Agressobandið uppi stemningu þar þangað til flestir voru annað hvort farnir, meðvitundarlausir nema hvort tveggja væri.
Skiluðum Hrefnu til vinar hennar sem við höfðum Isovottað á leiðinni og er hann því vottaður elskhugi samkvæmt ISO69 staðlinum. Nei, kemur ekki nálægt Orkuveitunni nema vera ISO vottaður!

Og ekki var þetta búið ónei! Nú héldum við Óskar í Akoges salinn. Þar hafði hann frétt af einhverju balli galdrafólks af Hornströndum. Stoppuðum stutt við þar en spjölluðum síðan í hátt í tvo tíma fyrir utan Hólsveginn áður en kvöldið var úti. Topp maður Óskar! Flott kvöld!

Vaknaði í morgun tilbúinn að skella mér á skíði í Bláfjöll eða eitthvert. Fattaði ekki fyrr en ég var kominn út og með skíðin í höndunum að bíllinn var uppi í Orkuveituhúsi. Ansk... Skipti snögglega um plan og labbaði á gönguskíðunum upp í Orkuveitu í gegnum Laugardalinn og Elliðaárdalinn með viðkomu í barnabrekkunni í telemarksveiflu.
Verkefni vikunnar: Endurnýja skíðastafina mína og áburðinn

Hanna og Kristófer komu til Álaborgar um ellefuleytið í gærkvöldi eftir hátt í 18 tíma ferðalag í vitlausu veðri og látum. Allt er gott sem endar vel.

23 klukkutímar og 30 mínútur í Söngskólann. Hlakka ekkert smá til! Meira um það á morgun.

laugardagur, janúar 08, 2005

Njáll er aumingi!!!

Hef ekki riðið feitum hesti frá flugeldamálum þessi áramótin. Gerði mér ferð inn í Skjöldungaheimili og ákvað að styrkja Skjöldunga og HSSR með vígalegu framlagi þetta árið þar sem maður hefur lítið komið nálægt starfinu í ár.

Keypti svakatertu sem heitir því þjóðlega nafni Njáll á Bergþórshvoli. Ætlaði síðan að fara að skjóta henni upp á miðnætti en, nei ó nei, ekkert gerðist. Kveiknaði bara ekki í nokkrum sköpuðum hlut. Steindauð. Var í lengri tíma að beita öllum hugsanlegum aðferðum til að kveikja í helv... tertunni. Endaði með því að troða hverju logandi stjörnljósinu ofan í hana á fætur öðru og ekkert gerðist. Ekki bofs.

Fór með hana upp í hjálparsveit eftir áramót og fékk henni skipt fyrir aðra eins. Skaut henni upp í gærkvöldi. Byrjunin var mjög flott en síðan - dó hún líka!!!! Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Það kveiknaði á ca. 20% tertunnar. OFURSVEKKJELSI!!!! Veit ekki hvort ég nenni með hana aftur. Enda tilgangslaust nema þá til að láta HSSR vita af þessu. Kannski er ég bara óheppnasti flugeldakaupandi ársins - það gæti verið!

föstudagur, janúar 07, 2005

Viðburðaríkur dagur!

Var í fríi í dag þar sem Kristófer heldur af landi brott í nótt áleiðis til Danaveldis.

Hef tekið að mér að gera stóra skoðanakönnun fyrir Verzlunarskólablaðið í fjórða skiptið. Er eiginlega orðinn áskrifandi að þessu. Var plataður í þetta vorið 1995 þegar ég var enn í skólanum. Verzlunarskólablaðsmenn hringdu í Gallup sem nenntu þessu ekki en bentu á mig þar sem ég vann hjá þeim og var í Verzló. Síðan var þetta endurtekið 1997, árið 2000 átti að gera þetta en var hætt við og árið 2003 var könnunin framkvæmd í þriðja skiptið.

Um er að ræða 101 spurningu á 11 blaðsíðum og verður hún lögð fyrir alla nemendur skólans í kennslustund á þriðjudaginn næsta.
Kláraði yfirferð yfir spurningalistann í dag og var hann sendur í prentun. Næsta skref er að setja upp eitthvað innsláttarform í Access. Kann það svona mátulega en hlýtur að reddast.
101 spurning x 1.100 nemendur = 111.100 spurningar sem þarf að slá inn. Veruleg vinna. Síðan tekur við úrvinnslan. Æði!

Höfðum það svo gott saman feðgarnir, sóttum mömmu á spítalann (hún er semsé komin heim) og skruppum síðan í sund upp í Breiðholtslaug.
Fékk óvænt símtal frá Ebba þar sem hann vantaði aukahendur í að skipta út ísskápnum hjá sér. Lítið mál, við feðgar mættum á svæðið og höfðum gaman af. Alltaf gaman þegar vinir manns leita til manns eftir aðstoð og maður getur verið þeim innan handar og létt þeim lífið.

Milli 18 og 21 var síðan kveðjuveisla mikil fyrir Kristófer og mætti megnið af familíunni, alls 15 manns. Skipulagningin var í mínum höndum og Birnu systur. Gerðum ofurinnkaup á KFC, 30 kjúklingabitar og böns af frönskum. Fór síðan í ísbúðina í Faxafeni og bað um 6 STÓRA bragarefi. Bað reyndar fyrst um stóran bragðaref fyrir 14 manns og hélt það myndi líða yfir stelpuna. Stórskemmtilegt kvöld - alltaf gaman að hittast - ofurhress hópur. Sigrún Birna mætti með nýjan meðlim í fjölskylduna, Einar, fínn strákur og fær prik fyrir að þora að mæta í svona fjölskylduboð til ömmu!!!

Sporðrenndum öllu gumsinu og síðan valt hver til sýns heima.

Við Birna fórum loks með Kristófer til Hönnu sem gisti hjá Ástu Bjarney. Gekk illa að sofna blessuðum en vonandi tekst það í flugvélinni. Nú hlakkar maður bara til vorsins þegar þau koma aftur til landsins. Kemur í ljós hvort maður fer eitthvað út í millitíðinni.

Heyrði líka í Gunnu í dag frá Brussel. Gott að heyra í henni. Þótt okkur hafi ekki verið ætlað að vera saman til framtíðar þá er ómetanlegt að eiga hana og Kristbjörn að sem vini. Allt er gott sem endar vel segir máltækið.

Semsagt stórskemmtilegur fjölskyldudagur. Magnað að eiga svona mikið af góðu fólki í kringum sig!

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Söngur, sjúkrahús og hús uppi í tré!

Já Scala er málið!!! Bókaði mig í gær á söngnámskeið í Söngskólanum í Reykjavík. Verður mjög skemmtilegt! Ekkert svakalegt nám bara 7 vikna námskeið, alla vega til að byrja með. Tókst meira að segja að plata Ragga rakara með mér.

Verðum hjá Sigurði Bragasyni og skiptist þetta í einn söngtíma og einn tíma í tónfræði og nótum á viku. Mjög spennandi. Gaman að læra kannski svolítið að beita röddinni rétt sem maður hefur verið að þruma yfir mann og annan í áraraðir. Merkilegt hvað hún hefur þó enst blessunin. Venjan í Básum var nú að maður hélt kvöldvöku á laugardagskvöldinu þar sem maður "blastaði" yfir nokkur hundruð manns og var síðan raddlaus í tvo daga á eftir...síðan byrjaði hringurinn aftur næsta laugardag.

Tók mér annars frí í vinnunni eftir hádegi í dag til að vera með Kristófer. Hann kom um miðjan desember og fer núna á laugardagsmorguninn 8. janúar. Er því búinn að fá frí á morgun líka. Við eigum því heilan dag á morgun saman feðgarnir. Stefnum á að komast svolítið lengra í Ævintýrahöllinni eftir Enid Blyton áður en hann fer út. Efast þó um að við náum að klára hana. Tókst þó að klára Ævintýraeyjuna um daginn og megum því vel við una. Blesspartý fyrir Kristófer á annað kvöld, mæting milli 18 og 19. Allir velkomnir!

Komum við á Bústaðaveginum í Blómasmiðjunni hjá Gísla og keyptum blóm og litla gjöf áður en við feðgar heilsuðum upp á mömmu á Landsanum. Viðhald í gangi og von á henni heim á morgun. Sáum meiriháttar flott hús uppi í tré í húsi við hliðina á Landspítalanum. Held það heiti Barónstígur. Mæli með bíltúr þangað!

Bless í bili...

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Sumar og söngur!

Hæ hó allesammen...ef það er einhver sem sér þetta yfirhöfuð. Kemur kannski að því...!

Gleymdi nokkrum áhugaverðum punktum af árinu 2004.

Söngur

Árið einkenndist nefnilega svolítið af söng. Fyrri hluta ársins var ég í Borgarkórnum og héldum við stórskemmtilega tónleika í Neskirkju sem ég er svo heppinn að eiga inni á tölvunni minni og hlusta oft á. Tær snilld!

Hleypti þó heimdraganum í haust og hélt á vit annars kórs. Þó ekki nýs kórs því Skátakórinn varð fyrir valinu og var gaman að slást aftur í þann góða hóp. Mikið endalaus skemmtileg grúbba af fólki sem staðráðið er í að hafa gaman af þessu. Getur ekki klikkað.

En það var ekki nóg...Ásdís bardagahetja og tilvonandi Nýsjálendingur króaði mig af í matartímanum einn daginn og fékk mig með SÉR í Orkuveitukórinn. Tveimur vikum síðar var hún hætt en skyldi mig eftir. Kórinn tók þó miklum framförum eftir því sem líða tók á haustið þrátt fyrir brotthvarfið og varð þetta alltaf skemmtilegra og skemmtilegra.

Skátinn söng því í tveimur kórum í allt haust og leiddist það ekki neitt.


Hlaup & labb
Kom sjálfum mér nokkuð á óvart með dugnaði tengdri hreyfingu í sumar og átti þar veður stóran þátt. Fór töluvert oft á Esjuna, nokkrum sinnum á Úlfarsfell, þrisvar á Keili, á Ingólfsfjall og einhverja fleiri hóla sem ég urðu á vegi mínum.

Prófaði að fara út að hlaupa einu sinni og þegar ég lifði af 8,5 km skráði ég mig í 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu. Hljóp síðan nokkrum sinnum og þá alltaf í kringum 10 km. Þetta var mjög skemmtilegt og skemmtileg stemning að hlaupa í þessu hlaupi þar sem það ríkir svona karnival stemning í götunum sem við hlupum í gegnum. Náði ágætistíma þótt hann væri ekki skráður af tæknilegum orsökum, 50 mínútur og 30 sekúntur eða þar um bil sem var langt umfram væntingar. Mæti galvaskur á næsta ári.


Meiri söngfréttir á næstunni... nú er stefnan tekin á Scala!

Nú árið er liðið...

Árið 2004 var ansi strembið á köflum en þó margir ljósir punktar. Hápunktur ársins var án efa snilldarferð á Hornstrandir með gönguklúbbnum Sárum og súrum fótum. Frábær ferð með frábæru fólki á frábæran stað í ólýsanlega frábæru veðri allan tímann. Stefnum á óvissuferð um Skagafjörðinn næsta ár undir forystu dr. Kristbjargar von Kópasker.

Aðrir hápunktar voru heimsókn okkar Birnu til Danmerkur í vetrarfríi Kristófers. Frábær vika og gaman að sjá hvað Hanna, Óttar og Kristófer eru búin að koma sér vel fyrir í Danaveldi. Það var ólýsanleg tilfinning að sjá kappann úti á horni þegar við renndum í hlað. Í stutt máli krúsuðum við um Jótland, milli dýragarða og Legolands í heila viku. Sáum þarna ljón, fíla og úlfa að borða dádýr svo fátt eitt sé nefnt sem ég átti nú satt að segja ekki von á að maður gæti séð í Danmörku í október.

Ágústmánuður var líka snilld. Í lok júlí var ekki á dagskrá nein ferð í ágúst. Í lok ágúst lágu hátt í 5 þúsund kílómetrar af ferðalögum.

Akureyri var tekin með trompi um verslunarmannahelgina ásamt rúnti í Vaglaskóg á Húsavík og víðar í góðum hópi. Helgina eftir tókum við Birna "Ættingjarassíu 2004" með viðkomu á Skagaströnd, Þórshöfn á Langanesi, úti í ystu víkur á Langanesinu, fyrir Melrakkasléttuna og til Akureyrar með viðkomu í Ásbyrgi. Þegar við komum í bæinn á mánudagskvöldið frá Akureyri var ákveðið með 5 sekúntna fyrirvara að enda ferðina á Esjunni í góða veðrinu. Snilld. 1450 km af akstri og eitt stykki Esja lág þá helgina með glans.

Þriðju helgina í ágúst fórum við Jana síðan aftur norður og var ferðinni nú heitið í Ásbyrgi sem hafði verið draumur Jönu lengi. Þarna fengum við frábært veður, brældum beint í Ásbyrgi á föstudagskvöldinu, tókum því rólega og skoðuðum Ásbyrgi og Hljóðakletta á laugardeginum og að lokum Dettifoss og Mývatn á sunnudeginum á leiðinni suður. ...og það sem meira er, þetta var ekkert mál. Eftir að hafa rennt norður tvær helgar á undan var þetta bara orðið eins og að skreppa heim eða í vinnuna!

Fjórðu helgina stóð ég síðan fyrir ferð Starfsmannafélags Orkuveitunnar að Kárahnjúkum. Þetta var snilldarferð og að stórum hluta vegna þess að við fengum ekki sæti fyrir alla í flugvélinni austur. Við dóum þó ekki ráðalaus heldur slógum saman fjögur hress í bílaleigubíl, renndum á Egilstaði og flugum síðan til baka á sunnudagskvöldið. Hvet alla til að fara þarna og að koma við í kynningarsetri Landsvirkjunar í leiðinni. Þetta er mögnuð upplifun og stærðirnar ótrúlegar!! Ágúst var semsagt tekinn með trompi!

September einkenndist af Lundúnarferð þar sem aðalmarkmiðið var risastór Oracle ráðstefna. Þar var markt athyglisvert og skemmtilegt að djamma svona á kvöldin í boði hinna ýmsu stórfyrirtækja. Hápunkturinn var þó helgin á undan sem ég eyddi með Hirti og Lindsay í nýju íbúðinni þeirra í Richmond. Þetta var voða afslappað enda höfðu þau bara flutt nokkrum dögum áður. Helgin fór í að versla ruslafötur, sjónvarp, skúringargræjur, heimabíó o.fl. auk þess sem við eyddum stórum hluta sunnudagsins úti á svölum við að bæsa skápa í sólinn með einn kaldan í hendinni, röltum um Richmond, borðuðum smokkfisk a la Lindsay og höfum það gott. Frábært að hoppa svona inn í lífið þeirra, vera bara hluti af heimilinu og fá að taka þátt í því þegar þau voru að koma sér fyrir. Ótrúlega afslappað og þægilegt!

Jújú það gerðist nú svosem fjölmargt skemmtilegt á árinu.

2005 lítur vel út og tilvalið að prófa eitthvað nýtt. Það gerist strax á mánudaginn og kem ég að því síðar...

Þar kom að því...!

Loksins kom karlinn því í verk að verða hluti af bloggurum heimsins. Þetta hefur verið á döfinni um nokkurt skeið. Man ég sérstaklega frá því sumar þegar fjölmiðlamálið stóð sem hæst og mig vantaði tilfinnanlega vettvang til tappa af mér lausnunum á öllum heimsins vandamálum. Til þess þurfti þó 2005 árgerðina af Sigganum en tókst þó að lokum.

...og líkur þannig fyrsta bloggi Siggans.