laugardagur, maí 14, 2005

Vegslóðakönnunarárátta!

Er haldinn ákveðinni áráttu þegar kemur að vegaslóðum. Könnunargenið í mér er risavaxið og hafi ég ekki farið einhvern veg eða viti ekki hvert hann liggur kviknar hjá mér óslökkvandi þörf til að kanna hann til hlýtar. Fer ekki alltaf mjög vel saman við að eiga smábíl eins og Ford Fiestu!!! Var reyndar búinn að sannfæra gömlu Fiestuna um að hún væri jeppi. Er að vinna í þeirri nýju.

Byrjaði á leiðnni heim frá Henglinum á því að keyra nýjan veg sem liggur inn að borholustæði við Engidalsánna vestan við Hengilinn. Á leiðinni til baka sá ég annan slóða sem ég hafði ekki prófað. Beygði út á hann og hófst þá nokkur svaðilför. Komst fljótlega að því að þarna var um að ræða línuveg með háspennulínunni. Var hann stundum svolítið grófur - svo ekki sé djúpt í árina tekið - en með þolinmæði, árverkni og hægum akstri komst ég þetta smátt og smátt. Þetta tók hins vegar mun lengri tíma en ég bjóst við.

Þegar ég var búinn að lúsast áfram þarna lengi lengi þá kom ég að brekku sem ég komst varla upp. Prófaði þá aðra leið og endaði inni á krossbraut og var kominn hluta úr hring þegar ég ákvað að mótorkross og Ford Fiesta væri kannski ekki málið og snéri við. Já, svona er maður nú orðinn þroskaður! ;) Fór aftur til baka og lét vaða upp erfiðu brekkuna. Tókst í þriðju tilraun og stækkaði jeppagenið í Fiestunni nokkuð við það. Passaði mig nú samt á því að fara vel með hana greyið og held ég að hún sé alveg sátt við mig eftir daginn.

Vegurinn byrjaði við Kolviðarhól og endaði ekki fyrr en ég kom út á þjóðveg númer 1 stuttu neðan við Bláfjallaafleggjarann löngum tíma og vegi síðar! Var oft búinn að velta þeim slóða fyrir mér. Veit nú hvert hann liggur og svei mér þá held ég að ég láti hann vera þangað til stóri bróðir Fiestunnar verður keyptur eitthvert árið!

1 Comments:

At 15.5.2005, 11:20, Anonymous Nafnlaus said...

Ég held ég geti bara ekki toppað þetta comment hér á undan....hehe

 

Skrifa ummæli

<< Home