laugardagur, maí 14, 2005

Eðaldagur á Hengli!

Já eðaldagur! Var mættur upp í skíðaskála í Hveradölum klukkan tíu í morgun, laugardag. Þar voru mættir á annan tug Orkuveitustarfsmanna og maka á leið í gönguferð um Hengilsvæðið. Markmiðið var að labba yfir Skarðsmýrarfjallið og inn í Innstadal en var ákveðið að hverfa frá því þar sem mjög mikil þoka var á fjallinu og hefðum við því ekki séð nokkurn skapaðan hlut.

Því var keyrt inn fyrir skátaskálanna og síðan gengið sem leið lá inn í Innstdal meðfram Skarðsmýrarfjallinu nokkurn veginn inn í botn og síðan til baka hinum megin í dalnum, gegnum Miðdalinn og niður í Fremstadal. Hengladalsáin var vaðin, borðað nesti og síðan keyrt á bílum að borholum Orkuveitunnar þar sem okkur var sagt frá hinu og þessu. Enn var haldið áfram niður Hellisskarðið þar sem hægt er að sjá eina af elstu veghleðslum á landinu og þar sem nýja stöðvarhúsið á að vera. Þá skoðuðum við pípulager sem er neðan við Hamragilið. Vá!!! Þvílíkt magn af pípum. Skipta örugglega hundruðum! Prófið að fara þarna og sjá. 18 metra langar og nýþungar þannig að hver vörubíll tekur bara 3 stykki í ferð. Ærslabelgirnir í ferðinni; ég, Sigrún og Guðný þurftum auðvitað að prófa að fara í gegnum rörin. Skemmtilegt og ótrúlega magnaður hljómur inni í svona röri!

Síðan var endað aftur við skíðaskálann í Hveradölum. Fararstjórar voru Einar Gunnlaugsson sem er jarðfræðigúrú Orkuveitunnar og Kristinn H. Þorsteinsson sem er gróðurgúrú Orkuveitunnar og þegar þessir tveir koma saman er ekki ýkja margt sem þeir vita ekki. Frábærir fararstjórar! Sólin var meira að segja farin að berjast í gegnum skýin í lokin. Meiriháttar ferð um það svæði sem maður eyddi unglingsárunum á. Af hverju er maður ekki duglegri að fara svona og labba? Þetta er svo æðislegt þegar maður er kominn af stað!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home