þriðjudagur, maí 24, 2005

Pólitíkin er skrítin tík...!

Já, Imba Solla kom sá og sigraði hjá Samfylkingunni um síðustu helgi ásamt Gústa litla. Haft var eftir bónda að norðan að þetta helv... væri orðið alveg eins og heima, konurnar og börnin stjórnuðu öllu!!

Álit mitt á Össuri jókst verulega um helgina. Það er ekkert mál að vera sigurvegari en það tekur á að komast vel frá því að tapa. Hann hefði svo auðveldlega getað misst sig í einhver leiðindi, sagt að allir væru vondir við sig og fengið sína menn á eftir sér í einhvern ríg en skildi þess í stað eftir stóran og sameinaðan flokk sem hefur aldrei verið stærri. Hann hefur klárlega sinnt ljósmóðurhlutverkinu af stakri snilld undanfarin ár eftir sameininguna (þótt hörðustu kommarnir hafi reyndar farið í Vinstri græna - sumir kalla Samfylkinguna reyndar Hægri rauða!). Eins og oft vill vera með frumkvöðlana þá var rétt að skipta um manninn í brúnni fyrir átök næstu missera. Svo missti hann mömmu sína strax eftir kveðjuræðuna, blessaður. Sjaldan er ein báran stök í sjö vindstigum. Nú er svo bara að sjá hvort Imba Solla skilar einhverju þannig að maður hafi áhuga á að kjósa þá næst.

Hef aldrei gert það. Hef hins vegar kosið R-listann. Finnst heppilegt að skipta um lið í brúnni á ca. 10 ára fresti. Það er að koma tími á það í borginni en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið algerlega höfuðlaus her síðan Davíð fór og verður það þangað til (og þetta hef ég sagt í líklega 7 ár eða svo) Kristján bæjarstjóri á Akureyri flytur í bæinn og tekur við borginni. Ég er viss um að það gerist fyrr eða síðar. Bíðið bara!

Er ánægður með Davíð og Halldór þegar á heildina er litið. Þeir eru að skila mjög góðu starfi. Auðvitað má alltaf gera enn betur, sérstaklega í velferðarmálunum en það verður líka að eiga fyrir hlutunum þegar hugsað er til langs tíma. Það er hins vegar alltaf spurning í öllum löndum hvort skynsamlegt sé að sömu menn séu við völd í 15 ár eða meira. Þá er embættismannakerfið orðið algerlega gegnsýrt af fólki með sömu skoðanir og svolítið farið að úldna innan frá. Ríkið hefur reyndar verið að taka mjög til í sínum ranni undanfarin ár hvað snertir árangursstjórnun en þó er full ástæða til að hafa varann á. Veit þó ekki hvað ég kýs næst. Það verður bara að koma í ljós hvað verður í boði.

Kaus síðast Framsókn. Hef ekki gert það áður. Það var bara það eina sem var í boði. Samfylkingin var bara barn og hafði nóg með að stjórna sjálfri sér, hvað þá heldur að reyna að stjórna einhverju öðru. Davíð var á hormónaflippi vegna blöðruhálskirtilsins, talaði tóma steypu og tók ennþá fleiri geðþóttaákvarðanir en venjulega; eins og þegar hann tók í bræðiskasti sparnaðinn sinn út úr KB-banka og heimtaði að jafnvel lífeyrissjóðirnir gerðu slíkt hið sama vegna þess að nokkrir menn í bankanum voru með of há laun að hans mati. Það væri náttúrlega hreinn glæpur ef lífeyrir landsmanna væri ávaxtaður á grundvelli launa nokkurra bankastarfsmanna í stað þess að vera ávaxtaður á grundvelli hámarksávöxtunar! Ekki gekk því að kjósa Dabba í það skiptið og ekki fer ég að kjósa Vinstri græna Jesús minn! Þá voru bara tveir möguleikar eftir: Að bjóða fram sjálfur eða kjósa Framsókn. Nennti ekki í framboð þannig að ég valdi hinn möguleikann. Já, hún er skrítin þessi pólitík!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home