laugardagur, maí 28, 2005

Listir og sólarlag!

Búinn að fá þráðlausa netið mitt til að virka heima. Ekki búið að virka á fartölvunni í 2 mánuði. Núna verður maður því oftar on-line heima.

Tók í inntökupróf í Söngskólanum í dag. Já, alltaf að prófa eitthvað nýtt! Blastaði þar yfir hóp af söngkennurum, Garðari Cortes, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og fullt af öðru liði. Það var líka tónheyrnarpróf sem var nú ekki mjög erfitt. Píanóleikari spilaði tvær og tvær nótur saman og maður átti að syngja annað hvort efri nótuna eða þá neðri. Nokkuð sniðug tónheyrnaræfing. Nokkuð skemmtilegt próf!

Fór síðan með Unni í Loftkastalann í kvöld á Múlan Rús sem FG er að setja þar upp. Flott sýning og aðalleikkonan hreinlega sló í gegn. Var ótrúlega öflug í mjög erfiðu og fjölbreyttu hlutverki. Svaka gleði og drama í bland, söngur, dans og alles. Rosalega öflug stelpa - stal alveg senunni!

Sátum reyndar að 2 bekk fram að hléi. Mæli ekki með því. Sáum reyndar upp undir pilsin hjá tuttugu stelpum eða svo en þar var ekki mikið að sjá enda kappklæddar. Dettur líka svolítið erótíska edge-ið úr þessu þegar maður sér gömlu sumarbúðabörnin sín dansandi uppi á sviði. Þá einhvern veginn hættir þetta að vera sexý og verður bara skemmtilegt í staðinn. :) Vissum líka alveg hver var með fæðingarbletti og í hvernig skóm liðið var. Vantaði hins vegar alveg "breiðtjaldsfídusinn".

Færðum okkur á fjórða eða fimmta bekk eftir hlé og þá fór maður loksins að sjá sýninguna sem varð alltaf betri og betri!

Stóðst ekki mátið eftir leikhúsið þegar ég var búinn að skila Unni heima og renndi út á Seltjarnarnes, settist á stein og horfði á sólina setjast. Var hrikalega flott að horfa yfir Snæfellsnesið og jökulinn og hreint með ólíkindum hvað hún hverfur hratt þegar hún er komin á bakvið fjöllin á annað borð. Þarna var fullt af bílum og fólki í sömu erindagjörðum enda sólarlagið eins og það gerist flottast. Já, synd að segja að þetta hafi ekki verið fjölbreyttur dagur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home