miðvikudagur, janúar 12, 2005

Söngur & skoðanir!

Mætti galvaskur í Söngskólann á mánudagskvöldið. Þar fann ég Sigurð nafna minn Bragason, mikinn og háværan snilling inni í litlu herbergi (ca. 3x5m). Það sem var magnað við þetta litla herbergi er að inni í því var forláta flygill sem ég get með engu móti skilið hvernig komist hefur þangað inn. Maður gæti haldið að húsið hefði verið byggt utan um flygilinn.

Við röbbuðum, kappinn lét mig syngja eitthvað, spurði hvað ég hefði verið að syngja í gegnum tíðina o.s.frv. Ég sagðist náttúrlega vera uppalinn á skátakvöldvökum úti á túni þar sem enginn nennti að setja upp hljóðkerfi. Öpgreitaði síðan upp í 600-1200 manna varðelda í Básum þar sem ekki heldur var hljóðkerfi! Þá hefði ég einnig sérhæft mig í að taka 8 klukkustunda partýsessionir í Básum og víðar. Hann hlustaði á mig og úrskurðaði seinna í tímanum að röddin hefði nú bara komið óskemmd út úr þessum ósköpum. Ég hef því ákveðið að röddin mín sé ofurtöffari og hörkutól og mun halda áfram að halda henni við efnið þannig að hún breytist ekki í eitthvað blúnduverkfæri!

Skrítið, þegar ég fór til Gunnar Eyjólfssonar í stamþjálfun (þjálfun í stami - Not!) þá var mér kennt að tala með þindinni. Maður andar að sér og alla leið niður í þind (og bumban þennst út) og talar síðan á útönduninni (þannig að bumban koðnar niður smám saman áður en maður fyllir á aftur með nýju lofti). Þindin er vöðvi þannig að ef það myndast loftlás í hálsinum þá andar maður og notar þindina til að sprengja haftið. Hef alltaf notað sömu aðferð við sönginn með ágætisárangri. Sigurður sagði mér að snúa þessu við. Í staðinn fyrir að bumban(þindin) fari út og svo smám saman inn aftur á ég að halda bumbunni úti allan tímann á meðan ég syng, vera síðan snöggur að skipta út lofti og þrykkja bumbunni aftur út. Vá! Þetta virkaði! Allt miklu betra og hreinna. Þetta er hins vegar massa magavöðvaæfing þannig að ég verð örugglega kominn með magavöðva sem aldrei fyrr í lok námskeiðsins!

Fór síðan beint í nótna og tónfræðitíma. Þetta var svona "sex ára stemning", algjörlega byrjenda byrjenda. Byrjaði á því að kennarinn benti á lítinn hring á töflunni og sagði: "Þetta er nóta". Er þó örugglega lognið á undan storminum!

Gærdagurinn, þriðjudagurinn var síðan action dagur. Þá keyrðum við skoðanakönnunina í gegn í Verzló. 1.100 manns tóku 101 spurninga könnun. Seinnipartinn var síðan smalað hátt í 50 manns í tvær tölvustofur í Verzló og svörin slegin inn í voðafína Accessgrunninn minn með macróum og öllu sem ég hafði sett saman á sunnudags- og mánudagskvöld. Virkaði vonum framar. 1.100 spurningalistar sinnum 101 spurning telur um 111.100 spurningar að slá inn. Ég missti því af Skátakórsæfingu um kvöldið og var uppi í Verzló framundir miðnætti að slá inn. Um 10 manns var enn í action þegar við kláruðum og verð ég að segja að framtíðin er björt fyrir íslensku þjóðina eigandi vinnuþjarka eins og þennan hóp sem aðstoðaði okkur í gær. Glæsileg frammistaða!

Nú tekur síðan við margra vikna vinna í að komast í gegnum þessar 111.100 spurningar og ná út úr þeim niðurstöðum. Þarf hins vegar helst að klára það fyrir þriðjudaginn í næstu viku, alla vega það sem fara á í Verzlunarskólablaðið. Guð, ef þú átt kraftaverk á lager handa mér þá væri fínt að fá það núna takk! :o)

Já, maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home