föstudagur, janúar 14, 2005

Tertudagurinn mikli!

Gærdagurinn var tertudagurinn mikli. Einhvern veginn hittist svo á að ég var borðandi tertur allan daginn og fram á kvöld. Svakalegt!

Skýrr bauð upp á tertu og við sköffuðum gos með á fundi um morguninn. Tilefnið var ærið því verið var að fagna því að Skýrr tókst að leysa villu í mannauðskerfinu sem hefur verið að pirra okkur síðan í sumar og Oracle út um allan heim hefur verið að vinna í. Þetta var svolítill tappi sem losnaði úr verkefninu, líka andlega hjá hópnum, og frábært að sjá hann fara. Ákváðum að halda upp á viðburðinn með kökupartýi. Seinasta kökupartý var reyndar líka haldið út af villu en það var í vor þegar villan var búin að vera til staðar í nokkrar vikur. Þá ákváðum við að hópurinn þyrfti að uppörvun að halda og héldum upp á það að villan var að pirra okkur. Snilld!

Það sem ég hef lært af innleiðingunni á Oracle mannauðskerfinu hjá OR er að ekkert kerfi er betra en fólkið sem vinnur við það. Mannlegi þátturinn í svona verkefni verður ekki ofmetinn, allt stendur og fellur með því að hann sé í lagi og að samkomulagið milli kaupanda og seljanda sé eins og best verður á kosið. Það tekur stundum á og hvessir eins og í öðrum hjónaböndum en nauðsynlegt að geta tæklað það sem upp kemur og haldið áfram sátt.

Einhverjar leyfar voru af kökunni og tók ég þær með á starfsmannafélagsfund strax á eftir í því skyni að reyna að klára kökuna góðu. Tilraun var gerð en enn var hluti eftir.

Næsta kökupartý var 50 ára og 40 daga afmælisveisla Steinars fræðslustjóra. Við náðum ekki að halda upp á afmælið hans í desember þannig að við gerðum það bara núna. Gaman að setjast niður með vinnufélögunum og gleðjast yfir tímamótum í lífi fólks.

Næsta kökupartý þar á eftir var kveðjupartý Ásdísar Nýjasjálandsfara, en ég ákvað í kjölfar hinna að líta á þetta sem félagslega skemmtun en ekki matarboð og sleppti því að borða enda kökur farnar að fljóta út um eyrun á mér.

Um kvöldið fór ég svo á starfsráðsfund og var ráðlagt af vinnufélögunum að taka afgangana með mér. Gerði það. Ekki var allt búið enn og því fór ég heim með afganginn.
Jesús minn...ótrúlegur dagur! Ég verð að fara að koma mér í ræktina. Rosalegt að fá þetta svona allt á einum degi!

Vann síðan svolítið heima um kvöldið auk þess sem ég vann við úrvinnslu á Verzlókönnuninni fram eftir nóttu.

Nú hlýtur fólk að halda að geri ekkert í vinnunni heldur sé bara í einhverjum kökuboðum. Það er nú kannski ekki alveg svo en líklega hefur farið 1-2 klst. í þetta samanlagt í gær - enda tertudagurinn mikli! Maður verður bara að vinna það upp...

Dagurinn í dag einkennist af vinnu og Verzlókönnun fram eftir kvöldi. Er hins vegar með nokkra miða á sinfoníutónleika með amerískri sinfoníuhljómsveit í Grafarvogskirkju á morgun laugardag kl. 16. Á nokkra miða þannig að þið getið haft samband og komið með!

Until then...

1 Comments:

At 16.1.2005, 22:52, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Sæl Helga Rós, velkomin í heimsókn og gaman að heyra í þér!!!

Nei, skátakórinn var einu sinni tveir kórar (Reykjavík og Hafnarfjörður) en var síðan sameinaður í einn öflugan kór. Telur í dag um 40 manns. Hvet þig og aðra til að slást í hópinn. Ótrúlega sprækur og skemmtilegur hópur!

 

Skrifa ummæli

<< Home