miðvikudagur, janúar 05, 2005

Nú árið er liðið...

Árið 2004 var ansi strembið á köflum en þó margir ljósir punktar. Hápunktur ársins var án efa snilldarferð á Hornstrandir með gönguklúbbnum Sárum og súrum fótum. Frábær ferð með frábæru fólki á frábæran stað í ólýsanlega frábæru veðri allan tímann. Stefnum á óvissuferð um Skagafjörðinn næsta ár undir forystu dr. Kristbjargar von Kópasker.

Aðrir hápunktar voru heimsókn okkar Birnu til Danmerkur í vetrarfríi Kristófers. Frábær vika og gaman að sjá hvað Hanna, Óttar og Kristófer eru búin að koma sér vel fyrir í Danaveldi. Það var ólýsanleg tilfinning að sjá kappann úti á horni þegar við renndum í hlað. Í stutt máli krúsuðum við um Jótland, milli dýragarða og Legolands í heila viku. Sáum þarna ljón, fíla og úlfa að borða dádýr svo fátt eitt sé nefnt sem ég átti nú satt að segja ekki von á að maður gæti séð í Danmörku í október.

Ágústmánuður var líka snilld. Í lok júlí var ekki á dagskrá nein ferð í ágúst. Í lok ágúst lágu hátt í 5 þúsund kílómetrar af ferðalögum.

Akureyri var tekin með trompi um verslunarmannahelgina ásamt rúnti í Vaglaskóg á Húsavík og víðar í góðum hópi. Helgina eftir tókum við Birna "Ættingjarassíu 2004" með viðkomu á Skagaströnd, Þórshöfn á Langanesi, úti í ystu víkur á Langanesinu, fyrir Melrakkasléttuna og til Akureyrar með viðkomu í Ásbyrgi. Þegar við komum í bæinn á mánudagskvöldið frá Akureyri var ákveðið með 5 sekúntna fyrirvara að enda ferðina á Esjunni í góða veðrinu. Snilld. 1450 km af akstri og eitt stykki Esja lág þá helgina með glans.

Þriðju helgina í ágúst fórum við Jana síðan aftur norður og var ferðinni nú heitið í Ásbyrgi sem hafði verið draumur Jönu lengi. Þarna fengum við frábært veður, brældum beint í Ásbyrgi á föstudagskvöldinu, tókum því rólega og skoðuðum Ásbyrgi og Hljóðakletta á laugardeginum og að lokum Dettifoss og Mývatn á sunnudeginum á leiðinni suður. ...og það sem meira er, þetta var ekkert mál. Eftir að hafa rennt norður tvær helgar á undan var þetta bara orðið eins og að skreppa heim eða í vinnuna!

Fjórðu helgina stóð ég síðan fyrir ferð Starfsmannafélags Orkuveitunnar að Kárahnjúkum. Þetta var snilldarferð og að stórum hluta vegna þess að við fengum ekki sæti fyrir alla í flugvélinni austur. Við dóum þó ekki ráðalaus heldur slógum saman fjögur hress í bílaleigubíl, renndum á Egilstaði og flugum síðan til baka á sunnudagskvöldið. Hvet alla til að fara þarna og að koma við í kynningarsetri Landsvirkjunar í leiðinni. Þetta er mögnuð upplifun og stærðirnar ótrúlegar!! Ágúst var semsagt tekinn með trompi!

September einkenndist af Lundúnarferð þar sem aðalmarkmiðið var risastór Oracle ráðstefna. Þar var markt athyglisvert og skemmtilegt að djamma svona á kvöldin í boði hinna ýmsu stórfyrirtækja. Hápunkturinn var þó helgin á undan sem ég eyddi með Hirti og Lindsay í nýju íbúðinni þeirra í Richmond. Þetta var voða afslappað enda höfðu þau bara flutt nokkrum dögum áður. Helgin fór í að versla ruslafötur, sjónvarp, skúringargræjur, heimabíó o.fl. auk þess sem við eyddum stórum hluta sunnudagsins úti á svölum við að bæsa skápa í sólinn með einn kaldan í hendinni, röltum um Richmond, borðuðum smokkfisk a la Lindsay og höfum það gott. Frábært að hoppa svona inn í lífið þeirra, vera bara hluti af heimilinu og fá að taka þátt í því þegar þau voru að koma sér fyrir. Ótrúlega afslappað og þægilegt!

Jújú það gerðist nú svosem fjölmargt skemmtilegt á árinu.

2005 lítur vel út og tilvalið að prófa eitthvað nýtt. Það gerist strax á mánudaginn og kem ég að því síðar...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home