Súrir pungar og puð!
Nú er heldur betur langt um liðið. Búinn að vera gjörsamlega á kafi í Verzlókönnuninni sem náði hámarki sínu fimmtudag til föstudag þegar stuttur vinnudagurinn á fimmtudaginn endaði með sólarhrings könnunarsession fram á miðjan dag á föstudag. Síðan voru SMÁviðbætur í gær frá hádegi til fjögur í nótt og loks í nokkra klukkutíma í dag, sunnudag. Fór síðan í vinnuna í kvöld að vinna upp syndir. Jæja, maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni. Örugg og gulltrygg leið gegn skammdegisþunglyndi!
Annars kom fjölskyldan saman á föstudagskvöldið hjá Birnu og hélt þorrablót sem hér eftir verður pottþétt árlegur viðburður. Alltaf jafn skemmtilegt þegar þessi hópur, sem fer sífellt stækkandi með fjölgun tengdabarna, kemur saman. Aldrei dauð stund og meiriháttar að sjá unglingana ráðast til atlögu við hákarlinn og hreðjarnar með hræðsluglampa í augum og allar taugar þandar. Þau gáfust hins vegar ekki upp heldur horfðust í augu við óttann, náðu yfirhöndinni að lokum og átu kvikindin. Mögnuð upplifun! Líka skemmtilegt að sjá hvernig sumir borðuð hákarlinn til að halda niðri brennivíninu og aðrir drukku brennivínið til að halda niðri hákarlinum! Sem mark um gæði kvöldsins þá þurfti að fara sérstaka ferð út í Nóatún eftir aukahákarl. Maður gæti því lyktað öðruvísi eitthvað fram eftir vikunni!
Söngur á morgun eftir sönglausa síðustu viku. Það verður fínt!
Ps. Sandra frænka á Skagaströnd er komin með bloggsíðu...smellti henni hérna á hægri kantinn!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home