föstudagur, janúar 28, 2005

Ekki með öllum mjalla - Gestabók & myndir!

Sæl og bless!

Eyddi töluverðum tíma í gær í að koma mér upp gestabók og myndasíðu. Yahoo er með ótakmarkað rými fyrir myndir svo lengi sem maður fer inn á hann á að minnsta kosti 6 mánaða fresti. Ótakmarkað er nú svolítið mikið magn svona þegar maður vistar fyrir allan heiminn. Væri athyglisvert að heyra hversu mikið magn þeir eru að geyma í heild sinni!

Setti þarna inn nokkrar myndir af Kristófer í gegnum tíðina sem ég átti við hendina. Skemmtilegar myndir af skemmtilegum strák. Set meira inn síðar héðan og þaðan....fylgist með!

Endilega kíkið í gestabókina og kvittið fyrir komu ykkar...sá sem er fyrstur að skrifa sig vinnur!!!

Rosalega getur maður samt stunum verið kalkaður! Var í þessu í gærkvöldi í lengri tíma og komst síðan að því rétt eftir að ég hafði slökkt á tölvunni að ég hafði gleymt að blogga...jæja sh...happens!

Fór áðan í heimsókn í kvöld til Fúsa, Sigfúsar Bjarnasonar skólabróður míns úr HR. Á leiðinni til Fúsa (sem ég hef oft komið heim til) ruglaðist ég á húsum og dinglaði á kjallaradyrnar tveimur húsum frá honum. Þar kom til dyranna maður sem ég hef aldrei séð og fattaði ég þá að ég var í röngu húsi. Sá auðvitað rétta húsið sem ég þekkti vel um leið og ég kom út á götuna aftur...maður getur stundum verið alveg hreint ótrúlegur!

Fúsi rekur annars fyrirtækið Bókhald og þjónusta og þið getið fundið hann á www.bokhaldogthjonusta.is vanti ykkur að láta gera skattframtalið fyrir ykkur. Toppmaður! Hann sér um bókhaldið fyrir okkur Gunnu og var að klára að gera upp blómabúðina og allt sem henni fylgir. Eitthvað þarf maður að styðja við bakið á Geir Haarde fyrir vikið en við skulum vona að hann eyði peningnum í eitthvað af viti.

Skrapp í gær úr vinnunni og aðstoðaði Sigrúnu Birnu, litlu frænku, í að flytja rúm sem hún var að kaupa í íbúðina sem hún er að fara að leigja í Seljahverfinu. Ótrúlega dugleg, 18 ára og svo sjálfstæð að manni verður um og ó stundum. Á hennar aldri var maður nú ekki alveg farinn að leigja sjálfstætt heldur einbeitti sér að ferðalögum um heiminn, skóla og skátum. Vona bara að hún komi sér í skóla fyrr en síðar. Það hlýtur að koma með kalda vatninu.

Er í stjórn starfsmannafélags Orkuveitunnar með alveg hreint ótrúlega spræku og skemmtilegu fólki. Fólki sem að grípur alls kyns verkefni og keyrir þau í gegn að því er virðist algerlega áreynslulaust. Til dæmis erum við nú að skipuleggja 50 ára afmælishátíð STOR sem haldin verður að kvöldi 19. febrúar í aðalstöðvum Orkuveitunnar. Líklega svona 500-800 manna partý. Við stefnum að því að umturna nýja Orkuveituhúsinu og gera það með stæl. Vonum að arkitektinn komist ekki að því og sjái aldrei myndirnar...væri reyndar fyndið að bjóða honum sérstaklega og hafa bara hjartastuðtæki við hendina ef hann hrekkur uppaf.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home