sunnudagur, janúar 16, 2005

Homo Islandicus - Sinfonía & söngur

Sæl og bless!!!

Ef ég ætti að lýsa þessari helgi með einu orði þá væri það Verzlókönnun! Ligg semsagt í henni upp yfir axlir og pressa á að skila niðurstöðum á þriðjudagsmorgun - já sjúr! 100 spurninga könnun! Jæja, kosturinn við tímaþröng er að hún lætur mann framkvæma hluti á nokkrum dögum sem undir eðlilegum aðstæðum væru gerðir á nokkrum vikum. Þetta er að sjálfsögðu hið alíslenska viðhorf gagnvart verkefnum. - Fínt, þá getur maður notað þær vikur í eitthvað annað!

Sáuð þið "Há dú jú læk Æsland?" þáttinn áðan á RÚV. Stórskemmtilegur! Hef lengi haft gaman af því að stúdera Íslendinga, álit útlendinga á okkur og öfugt.

Spurði einu sinni vin minn Ian Caunt sem dvaldi hérna í 6 mánuði á meðan á undirbúningi fyrir landsmót skáta 1999 stóð, hvað honum finndist um Íslendinga. Við ræddum það hvort hann fengi með sér Íslendinga í hópinn ef hann yrði beðinn um að stjórna "stærsta skátamóti í heimi". Ian hugsaði sig um og sagðist ekki endilega velja Íslendinga með sér í skipulagsnefndina, þeir væru ekkert sérstaklega skipulagslega sinnaðir. Hins vegar vildi hann ólmur hafa til taks eins og einn gám af þeim og ef eitthvað færi úrskeiðis gæti hann einfaldlega opnað gáminn og þá flæddu Íslendingarnir stjórnlaust um svæðið og "redduðu" öllu. Við væru bestu troubleshooterar í heimi og hefðum það mikið frumkvæði að við þyrftum ekki skipulag...við bara æddum í verkefnin, kláruðum þau, leituðum sjálfvirkt uppi næsta verkefni og svo koll af kolli. Auðvitað svolítið ýkt dæmi en samt nokkuð til í þessu.

Mér fannst athyglisvert þegar gaurinn hjá Karen Miller sagði að hann sæktist í að vinna með Íslendingum vegna þess að hlutir sem aðrir litu á sem höft eða "ljón í veginum" heftu okkur ekki. Þarna hefðum við einhvern veginn önnur viðmið en aðrir sem hann hafði unnið með.

Fannst líka athyglisvert þegar einhver minntist á það frjálsræði sem einkenndi það umhverfi sem íslensk börn alast upp í. Þetta gerði það að verkum að börnin hafa meiri möguleika á að kanna heiminn á eigin spýtur án þess að hafa foreldra sína alltaf andandi ofan í hálsmálið á sér. Ef þú byggir á Manhattan þá gætir þú aldrei farið út úr húsi sem barn, hvað þá heldur gengið einn niður götuna. Á Íslandi þykir ekkert tiltökumál þótt tiltölulega ung börn (á alþjóðlegan mælikvarða) hjóli langar leiðir án þess að vera í fylgd með fullorðnum, fari hjólandi í Kringluna o.s.frv. Þetta væri afleiðing þess að við búum í frekar öruggu samfélagi og hefði þau áhrif að við værum áræðnari þegar kæmi að því að fara okkar eigin leiðir í okkar störfum eða einkalífi seinna meir. Við værum búin að vera "kannandi heiminn" frá unga aldri og það að fara ótroðnar slóðir væri eðlilegt framhald af uppeldi okkar. Held að þetta sé rétt, skipti gríðarlega miklu máli og að í þessu séu fólgin óendanleg verðmæti.

Sama held ég að sé með takmarkaðri virðingu okkar fyrir yfirvaldi, strúktúr og reglum. Smæð samfélagsins gerir það að verkum að við köllum forsetann okkar Óla en ekki Mr. Grímsson. Mætti honum annars í Mál og menningu á Laugaveginum um daginn - frábært - dæmigert fyrir Ísland að hitta forsetann í bókabúðinni!

Einhver sagði að munurinn á okkur og Skandinövum væri sá að "í Svíþjóð og Noregi væri allt bannað nema það væri leyft, í Danmörku væri allt leyft nema það væri bannað og á Íslandi væri allt gert þó svo það væri bannað".

Við viðurkennum ekki reglur reglanna vegna heldur þurfum alltaf að fá að vita - af hverju? Þetta er náttúrlega þjóðareinkenni sem hefur þróast í þúsund ár. Upphaflega flúðu allir smákóngar Noregs sem ekki vildu segja já og amen við kónginn til Íslands. Af þessum mönnum erum við komin. Við erum ólátabelgir að eðlisfari og hikum ekki við að skora hindranir á hólm séu þær fyrir okkur. Samfélagið agar okkur ekki heldur við sjálf, aðstæðurnar og veðrið. Á Íslandi er svolítið "nauðsyn brýtur lög" stemning og er afleiðing veðurs og aðstæðna. Við hikum ekkert við að keyra upp Laugaveginn ef það er það sem þarf að gera.

Á landsmótinu 1999 ræddi ég einnig við annan Breta eða Bandaríkjamann og við ræddum hvað myndi gerast ef top 30 manns á mótinu (mótsstjórn og lykilstjórnendur) færu allt í einu á þriðja degi. Myndu bara yfirgefa svæðið. Væru ekki til staðar þegar liðið vaknaði einn morguninn. Hans skoðun var sú að í hans heimalandi myndi mótið koðna niður og fljótlega yrði pakkað saman og farið heim. Hann var hins vegar á þeirri skoðun að á Íslandi kæmi ákveðið hik í mótið en fljótlega upp úr hádegi yrði komin ný mótsstjórn og fljótlega upp úr því væri verkefnið í stórum dráttum komið "back on track". Uppgjöf kæmi aldrei til greina.


Kíkti ásamt Birnu systur á sinfoníutónleika í Grafarvogskirkju í gær. Þessir tónleikar voru einn af þessum gimsteinum sem finnast á tilkynningasíðum Moggans, engin veit af og eru í gangi út um alla borg. Þarna var mætt hvorki meira né minna en 70 manna Sinfoníuhljómsveit Taft háskóla í Boston sem ásamt Öldu Ingibergsdóttur söng og lék af mikilli list. Krakkar á aldrinum 18-22 ára.

Aðeins voru um 25 gestir mættir og stemningin því á persónulegu nótunum, svolítið eins og að vera á einkatónleikum. Magnað að sjá hvernig Alda "blastaði" húsið - Grafarvogskirkju sem er nú ekkert smá hús! Það suðaði fyrir eyrunum á manni þegar hún fór upp á háu tónana. Ótrúlegt hvernig hægt er að ná öllu þessu hljóði úr þessum litla hálsi!!! Alltaf gaman að skella sér á tónleika. Skemmtileg tilbreyting í skammdeginu!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home