Nýja Sjáland & fleiri tilviljanir
Tilviljanir eru skemmtilegar. Maður fattar að eitthvað tengist...eða tengist ekki algjörlega án þess að maður hafi eitthvað ætlað sér að fara í þessa áttina eða hina.
Dæmi um þetta er þegar ég kynntist tveimur stelpum frá Serbíu á IMWe í Þýskalandi. Ári seinna fór ég til Kandersteg í Sviss í alls ótengdri ferð. Þar vann þriðja serbneska stelpan. Ekkert athugavert við það enda alþjóðleg skátamiðstöð með allra þjóða kvikindum. Ári seinna fæ ég póstkort frá serbnesku stelpunni í Sviss og annari stelpunni sem ég kynntist í Þýskalandi. Þær reyndust þá vera bestu vinkonur, samlokur sem höfðu búið hlið við hlið og umgengist hvora aðra megnið af ævinni. Ótrúlega lítill heimur!
Hér ofar á Hólsveginu bjó lengi eldri maður, Siggeir ásamt fjölskyldu sinni. Systur mínar þekktu krakkana hans að einhverju leyti þótt þau væru eitthvað eldri en þær. Ég þekkti þetta lítið, var bara eitthvað að spjalla við gamla manninn og familíuna sem barn. Þegar ég fór í Verzló kynntist ég þar meðal annarra Siggeiri sem reyndist vera barnabarn öldungsins á horninu. Við brölluðum ýmislegt saman og sváfum meðal annars saman í hálfan mánuð (!) á Kýpur í útskriftarferð... Þegar við Gunna fluttum inn í Eskihlíðina komst ég fljótlega að því að leigusalinn okkar var einmitt Vilhjálmur, pabbi Siggeirs Verzlings og sonur Siggeirs á horninu. Ótrúleg tilviljun...nema að núna milli jóla og nýárs var hringt í símann minn úr númerinu hans Vilhjálms. Ég hugsaði: "Hvað er hann að hringja í mig núna?". Þetta var hins vegar ekki Vilhjálmur heldur dóttir hans Sesselja(systir Siggeirs - dóttir Vilhjálms) sem orðin er ritstjóri Verzlunarskólablaðsins og ég hafði hitt fyrr í haust vegna könnunarinnar. Hörkustelpa sem er að standa sig eins og hetja í þessu ritstjórastarfi. Svo virðist sem ég tengist óvart inn í þessa fjölskyldu frá öllum hugsanlegum hliðum.
Nýja Sjáland
Fyrir nokkrum mánuðum, eiginlega vikum, þekkti ég engan á Nýja Sjálandi og hafði í raun ekki mikið hugsað um það land. Tengdi það þó við Lord of the Rings og risarækju auk þess sem ég vissi að það er n.k. "Ísland suðursins" og því skemmtilegt og spennandi land með miklu af bjór og útivistartækifærum. Næsta föstudag verða hvorki meira né minna en sex vinir mínir á Nýja Sjálandi í tveimur ólíkum hópum, þarna hinum megin á hnettinum.
Ásdís (sjá tengilinn hérna hægra megin), Hilmar, Svava og Birna Dís sem voru með mér á Hornströndum í sumar eru flutt eða að flytja þarna út til náms og fer Ásdís í loftið í nótt. Gylfi og Óli súperskátar eru í mánaðarferð í kringum hnöttinn og líta á Nýja Sjáland sem aðaláfangastað, þar sem þeir ætla að dvelja lengst. Mæli með ferðasögunni...sjá tengilinn hérna hægra megin.
Maður ferðast með þeim í huganum í bili...minn tími mun koma. Í augnablikinu þarf maður að sjá bankakerfinu fyrir styrkjum svo aumingja Björgúlfur geti hætt að selja fötin sín.
Fékk annars sólarhringsfrest á Verzlókönnunina. Komst því ekki á skíði í dag í sólinni. Svekkjelsi! Er loksins núna að ná einhverjum niðurstöðum út úr dæminu. Alltaf ótrúlegt hvað það tekur langan tíma að koma gögnunum á koppinn, tækla "what can go wrong will go wrong"-vesenin, finna villur, kóða opnar spurningar o.fl. áður en hægt er að fara að ná einhverju út úr þessu drasli. Verð því að eitthvað fram eftir nóttu og kemst ekki á Skátakórsæfingu fyrir vikið. - Bömmer - lítið um söng í þessari viku.
Kveðja,
Siggi Úlfars. gagnarýnir og hugarferðalangur
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home