fimmtudagur, júní 30, 2005

Eiríkur ofurplöggari skilar í kassann!

Fyndið þetta Bubba - Brynju - Eiríksmál!

Íslendingar geta verið á þeirri skoðun að þessi fréttaflutningur sé fullkomlega óeðlilegur, siðlaus og allt saman en á meðan þeir kaupa síðan blaðið þá skiptir álitið engu máli.

Hvorki Heyrt og séð né DV er gefið út af hugsjón. Þetta er viðskiptaáætlun sem snýst um krónur og aura. IE brást við og ákvað að hætta að selja þessi blöð og tel ég það til eftirbreytni. Ef okkur finnst eitthvað um þetta þá þurfa þeir sem reka dæmið að upplifa það í buddunni.

Eiríkur er hins vegar pottþétt að vinna vinnuna sína. Allir vita hvernig blaðamaður Eiríkur er. Hann er búinn að vera í bransanum í 25 ár og fer ekkert í felur með það hvað honum finnst um svona fréttaflutning. Fólk veit að Eiríkur er á DV og les DV og verður síðan voðalega hneykslað þegar það sér vafasama grein eftir hann - í hundraðasta skiptið - í DV. Fyrirgefiði, hvar er það sem kom á óvart? Til hvers keyptirðu DV?

Eiríkur fékk verkefni: Að koma nýju blaði, Heyrt og séð, á koppinn, skapa því sess á markaði.

Eiríkur brilleraði í þessu verkefni með hjálp Bubba. Hann einfaldlega lét vaða í háværan og kjaftforan rokkarann og fékk til baka þrjú viðtöl um blaðið sitt á besta tíma í sjónvarpi, við Eirík sjálfan, Bubba og fleiri plús ótrúlega umfjöllun í öllum fjölmiðlum landsins og umræður á öllum vinnustöðum landsins í marga daga - Frítt! Hann var ekki ráðinn í þetta verkefni vegna þess að hann er svo góður og sannleikskær. Honum er slétt sama þótt fólk sé á því að þetta sé nú svolítið vafasamur fréttaflutningur - HANN SELUR sem er það sem skiptir máli. Halló, vafasamur fréttaflutningur er það sem hann er að markaðssetja. Fólk kaupir DV og Heyrt og séð vegna þess að þar er vafasamar fréttir að finna!

Stutt samtekt yfir árangur Eiríks í starfi á undanförnum vikum með splunkunýtt blað á erfiðum markaði:

  • Er einhver á Íslandi sem ekki veit núna af tilvist þessa nýja blaðs? Nei, alla vega mjög fáir.
  • Er einhver á Íslandi sem veit ekki fyrir hvað blaðið stendur? Að þar sé allt svæsnasta slúðrið að finna? Nei, alla vega mjög fáir.
  • Er blaðið að seljast eins og heitar lummur út á alla þessa umfjöllun? Veit það ekki en er samt algerlega sannfærður um að svo er. Umfjöllun selur. Krassandi umfjöllun selur mikið.

Það er því eins með þetta og stjórnmálamennina: Við fáum það sem við eigum skilið ....og Eiríkur, til hamingju með að hafa heldur betur unnið fyrir kaupinu þínu þennan mánuðinn!

Frítt í Bása um helgina????

Vill einhver koma með mér í Bása um helgina að aðstoða skálaverðina?

Í boði er:

Fallegasti staður landsins, fullt af klósettum að þrífa, frábær félagskapur (ég OG meira að segja fleiri!), traktor að keyra, fullt af rusli að henda, söngur, grín og gleði, grill, frítt í rútuna, frí gisting í tjaldi með mér...eða einhverjum öðrum svona þegar líða tekur á kvöldið. ;)

Rútan fer úr bænum annars vegar klukkan 8:30 í fyrra málið og hins vegar klukkan 17. Ég kemst líklega ekki fyrr en með 17 rútunni.

Áhugasamir hafið samband við undirritaðan í síma 6176821 eða við Lóu á skrifstofu Útivistar í fyrramálið í síma 562 1032 eða í síma 895 1428 til að fá beiðni fyrir rútunni.

Nýtt leikfang!!!

Hey, var að fá nýtt leikfang!

Kiddi frændi í kjallaranum er svolítið í því að panta alls kyns dót af Ebay og héðan og þaðan. Pantaði "flakkara", færanlegan 20 Gb harðan disk með kortalesara. Sá hann hjá honum og ákvað að splæsa í eitt stykki.

Það þýðir að þegar ég fer út úr bænum 8. júlí til 26. júlí eiginlega án þess að koma í bæinn þá get ég einfaldlega tekið kortið úr myndavélinni þegar það fyllist og tappað af því inn á græjuna sem er á stærð við vasadiskó. Síðan hreinsa ég bara út af kortinu og held áfram að taka myndir eins og ekkert sé. Tær snilld!

Borga tæplega 15 þús. kr. fyrir gripinn sem á klárlega eftir að koma sér vel. Síðan er ekkert því til fyrirstöðu að kaupa í hann stærri harðan disk en 20 Gb verði hann of lítill. Á hins vegar ekkert sérstaklega von á því nema náttúrlega ef maður fer til Afríku, í heimsreisu eða eitthvað...sem mun væntanlega gerast á næstu þremur til fimm árum - vonandi.

miðvikudagur, júní 29, 2005

2 dagar í sumarfrí - Jibbbííííí!!!

Nú eru aðeins tveir dagar í sumarfrí. Ætlaði í sumarfrí á föstudaginn en ætli ég vinni hann ekki og fari síðan í frí á mánudaginn í staðinn. Býst við því. Ýmislegt sem liggur fyrir áður en maður fer í frí.


Skemmtilegt kjúklingapartý í gærkvöldi. Birna hafði lofað Kristófer síðbúinni afmælisveislu (hann átti afmæli 30. mars) þegar hann kæmi heim. Hún var semsagt framkvæmd með látum í gær. Stórfín afsökun fyrir að ná fjölskyldunni saman sem er alltaf skemmtilegt.

Enn skemmtilegra var að tvíburarnir Aníta og Viktor, tveir bestu vinir Kristófers frá því í gamla daga af Bakkaborg gátu einnig verið með okkur. Frábært að okkur og foreldrum þeirra er að takast að láta þau halda tengslum þótt Kristófer sé fluttur út. Það sama á reyndar við um Árna, bróður hennar Gunnu, því hún renndi með Kristófer austur til Árna fyrir helgi og hann meira að segja gisti þar aðfararnótt föstudags. Þau sögðu að það hefði verið eins og þær hefðu hisst í gær! Frábært! Það er mikilvægt að halda góðum tengslum við vini sína þótt maður búi langt í burtu.

Við Birna renndum bara á KFC og keyptum 30 kjúklingabita og mesta magn af frönskum sem ég hef séð. Risastóra KFC fötu fulla af frönskum. Ég hélt að þetta myndi duga okkur í tvo mánuði. Korteri seinna var allt búið. Ótrúleg familía þegar kemur að mat!!!

Ásta bauð okkur Unni síðan í burger áðan í tilefni af hennar afmæli sem var í gær. Alltaf gaman að hittast, spjalla og borða saman. Þær vinkonurnar eru á leiðinni til Danmerkur sitt í hvoru lagi en voru að plotta það að mögulega væri hægt að tengja það saman. Ásta er semsagt á leið á dansmót í 10 daga eða hálfan mánuð eða eitthvað svoleiðis. Hlýtur að vera tær snilld. Fara út og dansa í tvær vikur. Ég þarf að gera þetta einhvern tímann! :) Algjörlega útilokað að láta sér leiðast og dansa á sama tíma.

Í kvöld hittust síðan Sardínurnar - Dos Sardinos - eitt af kórböndum Skátakórsins og æfðu aðeins. Skemmtilegur hópur. Komum mögulega tveimur lögum á Skátakórsdiskinn. Kemur þó í ljós. Hinn möguleikinn eru einhverjar uppákomur á landsmótinu.

Talandi um landsmót þá tilkynnti Fríður Finna dagskrárstjóri mér það að það hefði verið ákveðið á mótsstjórnarfundi að ég mætti sofa milli 5 og 10 og síðan aftur milli hálf tvö og 8 á næturna. Þess á milli yrði ég náttúrlega með flekapóstinn og síðan skemmtanastjóri á kaffihúsinu. ...og vitiði hvað!!! Ég sagði NEI!!! Jibbbíííí!!! Ég er að æfa mig - víst þótt þið trúið því ekki. Hefði nú líklega sagt já nema vegna þess að ég verð með Kristófer og get því ekki lofað mér seint á kvöldin öll kvöldin. Þetta gengur svona. Er líka í formannshlutverki Skátakórsins þannig að maður verður svosem ekkert að deyja úr aðgerðarleysi - en fyrst og fremst verður maður bara úti að leika. Rosalega verður þetta skemmtilegt! Ekki dró svo úr gleðinni þegar við fréttum að Aníta og Viktor yrðu á mótinu líka. Foreldrar þeirra duttu inn á landsmótið á Akureyri í nokkra daga og fannst það svo æðislegt að þau ákváðu að koma aftur núna. Eru ekki í neinu skátastarfi en Halla, mamma þeirra var skáti sem krakki.
Taki þetta sér fleiri til fyrirmyndar! Þetta er endalaust skemmtilegt fjölskylduumhverfi og ég mæli eindregið með því að fólk skelli sér, a.m.k. yfir helgina. Mótið er frá þriðjudeginum 19.-26. júlí á Úlfljótsvatni - Allar nánari upplýsingar hér. Sjáumst spræk á landsmóti!!!

mánudagur, júní 27, 2005

Frábær Jónsmessuhelgi í Básum!

Kominn af fjalli eftir algerlega frábæra helgi. Skellti mér semsagt í Jónsmessugöngu Útivistar ásamt Unni og um það bil 300 öðrum. Gengum yfir Fimmvörðuháls aðfararnótt laugardags. Er búinn að fara þarna á hverju ári síðan 1999, þ.e. vera í Básum. Þetta er hins vegar í þriðja skiptið sem ég geng yfir.

Fórum Fimmvörðuhálsinn í þremur hundraðmanna hópum, borðuðum kjötsúpu í Fimmvörðuskála, renndum okkur á rassinum niður Bröttufönn, skáluðum í kampavíni á Heiðarhorninu o.s.frv. o.s.frv. þangað til við komum niður í Bása.

Á laugardagskvöldið var grill, um áttaleytið byrjuðum við nokkrir að spila í matartjaldinu í ca. klukkutíma og svo var kveikt upp í varðeldinum kl. 10.

Þar var líklega um fimmhundruð manns eða svo og feykilega góð stemning! Ég lét liðið taka allt frá drykkjusöngvum yfir í leikskóla-, skáta- og jólaballalög eins og "Höfuð, herðar, hné og tær", "Rúllandi", "Singing in the Rain" og "Sæll, ég heiti Jón" - sem var svolítið skemmtilegt enda liðið þokkalega stirt eftir Fimmvörðuhálsinn.

Þarna komu líka Sirkus Cirkör, sænskur sirkus sem er eitthvað að æfa hér á landi og sýndu listir sínar á varðeldinum. Þau voru bara þarna í útilegu að djamma og ákváðu að leyfa okkur að njóta. Joggluðu með allt upp í 7 bolta og tóku heljarstökk í útilegugallanum; gúmmístígvélum og vélsleðagalla. Fannst það nú nokkuð vel af sér vikið - Flestir eiga nú nóg með að standa upp í þeirri múnderingu!

Eftir varðeldinn var síðan fljótlega haldið áfram að spila, dansa og syngja inn í Strýtunni og ég held ég hafi spilað þar stanslaust frá ca. hálfeitt eða svo til hálfsex! Frábært! Ágætistörn enda hljómaði ég eins og skringileg blanda af karra og unglingi í mútum megnið af deginum í dag. Allt í fína. Hæfilegt hæsi er að sjálfsögðu gæðastimpill á kvöldið!

Kom síðan í bæinn í dag með Ofur-Baldri. Frábær náungi eins og aðrir sem að þessu koma. Við erum þarna fjórir sem höfum spilað saman á Jónsmessuvarðeldinum undanfarin ansimörg ár. Ég, Ofur-Baldur, Halldór Fannar (tannlæknir á daginn en skeggjaður hippi í frístundum) og Hilmar (bókasafnsfræðingurinn kvenholli). Erum þrusuteam og getum spilað lengi og vel þegar sá gállinn er á okkur.

Kristófer var hjá Birnu um helgina. Fóru ásamt mömmu og pabba út í Viðey en Hanna og Óttar komu þangað siglandi á kajökum. Já, fín helgi hjá hele húbben!

Á morgun hefst síðasta vinnuvikan fyrir sumarfrí. Það verður frábært!!!

fimmtudagur, júní 23, 2005

Básar - Here we come!!!

Nú eru bara um það bil 18 klukkustundir þangað til lagt verður í'ann frá BSÍ áleiðis austur að Skógum undir Eyjafjöllum. Þaðan verður síðan arkað, í líklega um það bil 300-500 manna hópi yfir Fimmvörðuháls áleiðis yfir í Bása.

Hérna eru fínar myndir frá því 2003. Í fyrra rigndi eldi og brennisteini þannig að það er varla til mikið af myndum þaðan.

Við göngum um nóttina, flatkökur uppi á vaði, kjötsúpa í 1086 metra hæð í Fimmvörðuskála, skálað í kampavíni á Heiðarhorni, Gammel Dansk og/eða Lýsi í boði þegar komið er niður í Strákagil.

Þá eyðir maður seinustu dropunum af orkunni í það að tjalda og blása upp hátt í fjögurra fermetra dýnuna áður en maður kastar sér flötum í pokann. Sé maður svakalega duglegur fer maður í sturtu.

Sefur fram yfir hádegi. Fer hugsanlega í sturtu þegar maður vaknar (kannski í fyrsta skiptið hafi maður ekki nennt því fyrr um morguninn). Síðan er bara afslappelsi þangað til um kvöldið. Þá er kveikt upp í grillinu og þar á eftir hefst varðeldur með pompi og prakt. Söngur, grín, gítar og gleði fram undir morgun.

Eintóm snilld!!!! Svo skemmtilegt.

Hey, það er hægt að sjá slatta af myndum frá því 2003 á heimasíðu Útivistar - HÉR.

Vonandi að Veðurstofan verði miskunnsöm þetta árið. Veðurstofan hótar þó smá rigningu á Suðurlandi en það er alltaf möguleiki að jöklarnir gleypi hana og myndi þetta líka fína gat í himininn yfir Básum. Gerist oft við þessar aðstæður. Nú krossum við bara fingur og vonum að við sjáum eitthvað á leiðinni.

Sjáumst eldspræk handan helgarinnar!!!!

miðvikudagur, júní 22, 2005

Kristófer mættur á Frónið!


Fékk frábært símtal í dag af Reykjanesbrautinni. Kristófer, Hanna og Óttar á hraðri leið til höfuðborgarinnar.

Stuttu seinna hljóp karlinn í fangið á pabba sínum....oooooo hvað það var ljúft!!!

Best að fara að skella sér í rúmið - enda orðið heitt!


Agressobandið spilaði í kökuboði í tilefni alþjóðadags MND sjúklinga. Frábær stemning leidd af Gauja Sig. ofurleiðtoga. Þvílíkur leiðtogi. Aldrei lognmolla og alltaf endalaust fullt að gerast. Alltaf verkin látin tala.

MND félagið hefur verið að gefa fullt af tækjum og tólum til taugadeildar Landsspítalans. MND-félagið ætlar að kosta ferð læknanema á alþjóðaráðstefnu MND til þess að reyna að kveikja áhuga læknanema á að sérhæfa sig í taugalækningum. "Taugalæknar eru stétt í útrýmingarhættu" sagði Guðjón í dag. Þvílíkur kraftur. Forréttindi að kynnast svona fólki.

Hvet alla til að láta eitthvað pínulítið af hendi rakna til MND samtakanna í tilefni dagsins. Margt smátt gerir eitt stórt!!

mánudagur, júní 20, 2005

Jibbíííí - Karatestrákurinn á leið til landsins!

Kristófer karatestrákur lendir ásamt Hönnu og Óttari á Fróninu annað kvöld, þriðjudagskvöld.

Mikið hlakka ég til að sjá hann. Verða heldur betur fagnaðarfundir.

Hetjan var að taka gula beltið í karate um daginn. Tókst það að sjálfsögðu með glans. Er lengst til hægri á þessari mynd með splunkunýtt beltið og heldur betur til í slaginn!

Fer reyndar Fimmvörðuháls og í Bása um næstu helgi, Jónsmessuhelgina enda verður hann að fá tækifæri til að heilsa upp á fleiri en bara pabba gamla. Síðan er bara farið að styttast í sumarfrí hjá okkur feðgum. Bara skemmtilegt!

Falleg jarðaför

Svava, mamma hennar Gunnu, var jarðsungin í dag. Athöfnin var haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík. Presturinn var Hjörtur Magni fríkirkjuprestur og Anna Sigga tónlistarforkólfur kirkjunnar söng einsöng.

Þetta er líklega ein alfallegasta jarðaför sem ég hef farið í. Tónlistin, andrúmsloftið allt var bara einhvern vegin svo einlægt og fallegt. Gott þegar svo vel tekst til.

laugardagur, júní 18, 2005

Skrítið

Já, það skiptast víst á skyn og skúrir hérna á blogginu eins og í lífinu. Fannst einhvern veginn hálfundarlegt að setja inn 17. júní-kveðju strax á eftir Svövu.

Já, þetta er skrítið líf...

föstudagur, júní 17, 2005

Hæ hó jibbí jei og jibbíííí jei....!

... það er kominn sautjándi júní!

Til hamingju með daginn gott fólk!

fimmtudagur, júní 16, 2005

Svava

Svava, mamma hennar Gunnu er látin. Verður jarðsungin á mánudaginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 13.
Takk Svava mín fyrir alla hjálpina aftur og aftur þegar þú vildir allt fyrir okkur gera. Þakka þér líka fyrir allan góða matinn sem þú töfraðir fram handa okkur með reglulega millibili og lagðir allt þitt í. Takk fyrir að vera alltaf svona góð við Kristófer. Takk fyrir allt og allt.
Sofnar drótt,
nálgast nótt,
sveipast kvöldroða
himinn og sær.
Allt er hljótt,
hvíldu rótt,
Guð er nær.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Launamunur kynjanna konum að kenna!

Ásdís fer mikinn á blogginu sínu vegna launamunar kynjanna enda fullkomlega óeðlilegt að stelpurnar séu með lægri laun en karlarnir, þrátt fyrir það að við séum með typpi.

Munurinn hjá Félagi viðskipta- og hagfræðinga virðist vera 7,6% þegar búið er að taka tillit til annarra breyta. Miðað við að meðallaun voru 519 þús. er þetta um það bil 40 þúsund á mann.

Ef konurnar eiga skilið jafnhá laun og karlar verða þær að hætta að væla og taka málin í sínar hendur. Aumingjanöldur eins og um daginn á einhverju þingi þar sem samþykkt var ályktun gegn launaleynd er náttúrlega bara algjört bull sem enginn á nokkurn tímann eftir að hlusta á.

Þetta er nefnilega fyrst og fremst stelpunum sjálfum að kenna - sorrý stelpur. Þær eru ekki að selja sig jafn dýrt og strákarnir. Sem er auðvitað óþolandi fyrir okkur strákana, að þær hæfileikaríku, vel menntuðu og kláru konur sem eru komnar inn á vinnumarkaðinn séu að undirbjóða sig. Það er bara eins og þegar Tyrkirnir koma inn í Þýskaland og taka störfin af þeim sem fyrir eru með því að undirbjóða markaðinn.

Ef fyrirtæki á kost á því að fá jafnhæfa konu og karl fyrir 100 þús. krónum lægri laun en það þyrfti að greiða karlinum, getur það hækkað laun konunnar eftir þrjá mánuði um 50 þús. og haft í vinnu hjá sér ofsakátan starfsmann fyrir vikið en samt dregið úr launakostnaði sem nemur 50 þús. kr. á mánuði (600 þús. kr. á ári.).

Þið verðið að breyta þessu stelpur. Það gerir það enginn fyrir ykkur. Seljið ykkur eins og þið eigið skilið - á fullu verði eins og við strákarnir. Sorrý aftur, það er ekkert sem Alþingi getur gert í þessu máli.

Einhvern tímann voru auglýsingar í gangi, að ég held frá VR, sem sögðu konum að bæta 50 þús. kr. við þá tölu sem þær töldu eðlilega þegar þær semdu um launin sín. Sniðugt - Líklega nákvæmlega það sem þær þurfa að gera...nema upphæðin eigi kannski að vera hærri!

Ekkert grín að vera svín og vera étinn á jólunum!

Já, nú er búið að sleppa Mikjáli Jackson. Æi blessaður karlinn. Maður vonaði nú alltaf að svona færi. Að þessar ásakanir reyndust ekki á rökum reistar. Voðalega hlýtur hann að vera einmanna. Væri kannski bara málið að bjóða honum að búa á Íslandi. Hvar ætli Bobby Fischer búi? Er ekki laus íbúð einhvers staðar í nágrenni hans? Sæmi rokk gæti örugglega tekið hann að sér.

Alltaf erfið svona barnamál. Barnakarlar eins og ég og Mikjáll eigum þetta alltaf á hættu. Ég á reyndar engan pening til að hafa af mér í réttarhöldum en Mikjáll á þá - eða alla vega átti.

Það er nefnilega mjög auðvelt að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhornum þegar samskipti barna og fullorðinna eru annars vegar. Ein stærsta og blautasta tuska sem ég hef fengið í andlitið í mínu skátastarfi var þegar við Skjöldungar gistum einhvern tímann uppi í skátaheimili yfir nótt, líklega nóttina fyrir sumardaginn fyrsta einhvert árið. Við láum þarna í stóra salnum eins og hráviði út um allt á dýnum og vorum að gera okkur klár til að fara að sofa. Þá rennir ein lítil, ca. 13 ára eða svo, dýnunni sinni upp að minni og hjúfrar sig upp að mér - þurfti einhverja hlýju greyið. Ég legg hendina einhvern veginn yfir hana og fer svo að sofa.

Morguninn eftir kemur einn foringjanna inn og vekur okkur. Stuttu seinna, eftir að við vorum komin á fætur, kallar hann mig inn á skrifstofu til sín og spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir því hvernig þetta hefði litið út. "Ha?", sagði ég, "hvað?". "Þegar ég kom inn í salinn lást þú, hálfþrítugur maðurinn, og hélst utan um 13 ára stelpu." "Ha, já", sagði ég og var nú farinn að sjá heildarmyndina. "Ég þekki þig og hafði engar áhyggjur. Hefði ég hins vegar t.d. verið foreldri sem kom þarna inn og ekki þekkt aðstæður hefði verið mjög auðvelt að sjá þetta í öðru ljósi."

Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Síðan ég var einn af krökkunum hef ég legið í hrúgu með þeim hér og þar og alls staðar og ekki þótt það neitt athugavert - hvar sem er - hvenær sem er. Allt í einu þurfti ég að fara að spá í það hvernig hlutirnir litu út, alveg burtséð frá því hvort það væri satt eða ekki. Bara vegna þess að nokkur ár höfðu liðið. Þetta fannst mér erfitt að kyngja.

Það er gríðarlega mikilvægt að vera vel á verði gagnvart alls kyns ógeðum sem elta uppi börn. Hins vegar geta mörkin oft verið ansi óljós og það sem einum finnst fullkomlega eðlilegt, finnst öðrum fullkomlega óeðlilegt. Það þarf því ekki mikið til þess að maður lendi í sömu aðstöðu og Mikjáll. Hvað þá heldur þegar um er að ræða einhverja bilaða konu sem vill ná af manni fé yfir allt saman. Þá er mjög auðvelt að vekja grunsemdir og hreinlega jarða mann því það hlýtur að vera mjög erfitt að má þennan stimpil af manni hafi maður einu sinni fengið hann.

Mikjáll barnakarl var sýknaður að þessu sinni. Vonandi mun hann einhvern tímann geta treyst fólki aftur og einhvern tímann geta haft óþvinguð samskipti við annað fólk, börn og fullorðna. Ég veit að ég get ekki annað en hugsað mig tvisvar um leggi ég hendina yfir skátabörnin mín áður en við förum að sofa, þrátt fyrir að mér finnist það beinlínis vera mitt hlutverk að bæta og auka hjá þeim öryggistilfinningu og þ.a.l. að vera til staðar fyrir þau þegar þau þurfa á því að halda.

Þetta er stundum erfiður og fólkin heimur!


Valdi Esjuna fram yfir kvöldverð á Einari Ben í kvöld í boði Agresso í Noregi. Sé ekkert eftir því. Borðaði góðan mat á föstudagskvöldið fyrir austan. Naut hverrar mínútu á Esjunni í kvöld. Við skelltum okkur ég, Birna systir, Unnur sem hafði verið á leiðinni á Esjuna í fyrsta skipti mánuðum saman og Jóhann sem er sumarstarfsmaður á framleiðslusviði OR og fór með mér á Móskarðshnjúka um daginn. Allt tókst þetta að lokum. Frábært að fara á Esjuna og rasa aðeins út eftir svona sólardag inni. Var fastur inni í fundarherbergi frá klukkan 13 til 17 í dag og þurfti því á einhverju drastísku að halda í lok vinnudags. Bara snilld!!!!

mánudagur, júní 13, 2005

Eldspræk helgi!

Velkominn í bloggheima Steini! Sérstaklega gaman að skoða myndirnar þínar. Hérna á blogginu getur maður masað og fjasað og hvað sem manni dettur í hug. Dagbókarfærsla í dag...enda nóg að gerast!

Búin að vera spræk og fjölbreytt helgi. Fórum vinnan í vorferð á föstudaginn í rútu austur fyrir fjall að skoða ýmsa hluta fyrirtækisins með samlokur og bjór í lestinni. Enduðum í humarveislu á Stokkseyri og loks í partýi í bænum fram eftir nóttu. Frábært!

Fór síðan í gær á þriðju tónleikana í vikunni. Nokkuð ánægður með frammistöðuna undanfarna viku. Fór á Jómfrúna í Lækjargötunni. Það eru held ég vikulegir tónleikar þar í bakgarðinum. Hitti þar Birnu systur, Unni og Ástu. Mjög gaman, gott veður, fullt af fólki og skemmtileg stemning. Fór á stuttbuxunum á hjólinu og hélt síðan áfram í góða veðrinu alveg út á Seltjarnarnes eins langt og ég komst út að Gróttu, fyrir endan og aftur til baka sunnanmegin. Elti ströndina alla leið fram hjá Nauthólsvíkinni, áfram upp Fossvogsdalinn og Elliðaárdalinn í sund í Árbæjarlaug. Hjólaði síðan heim. Fattaði það ekki fyrr en núna áðan þegar ég fór að skoða þetta að þessi hringur var 30 km langur! Þetta var ekkert mál - var ekkert að flýta mér - það var svo gott veður. Tók ca. tvo tíma. Þurfti varla nokkurn tíma að fara yfir götu. Algjör snilld!

Fór niður á Ingólfstorg í dag. Ásta dansar með "Komum og dönsum" og þau voru að dansa á Ingólfstorgi í dag. Gaman að fylgjast með þeim. Sum mjög góð. Einn dansaði við þrjár í einu og stjórnaði þeim öllum með glans. Verð kannski einhvern tímann svoleiðis... ;)

Endaði náttúrlega með því að hún dró mig með sér í einhvern hringdans, skildi mig svo eftir og ég var því allt í einu farinn að dansa tangó við fimmtuga konu sem ég þekkti ekki neitt á miðju Ingólfstorgi. Alltaf gaman að dansa! Túristarnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Hafa örugglega haldið að Reykvíkingar dönsuðu í miðbænum í tíma og ótíma! :)

Hitti seinni partinn Dos Sardinos, hirðhljómsveit Skátakórsins. Æfðum okkur aðeins. Erum að setja tvö lög á disk sem kórinn er að fara að gefa út. Alltaf gaman að syngja og spila með skemmtilegu fólki.

Skellti mér síðan á Star Wars í kvöld með Palla Viggós. Er svona must-see mynd. Annars er ég vægast sagt lítill áhugamaður um einhverjar geimmyndir en Star Wars er eins og Bond og fleiri - klassík sem maður bara verður að sjá. Hún var líka mjög skemmtileg og hnýtti saman nýju og gömlu seríuna sem maður man eftir síðan maður var krakki.

Jamm, fín helgi að baki. Þá er bara málið að gera vikuna jafn skemmtilega!

fimmtudagur, júní 09, 2005

Ragnheiður Gröndal dugleg í ræktinni en með sára og súra fætur í Álaborg!

Vissi ekki alveg hvernig ég gæti komið þessu í fyrirsögnina....vona að hún móðgist ekki mjög mikið stúlkukindin!

Skellti mér aftur á tónleika í gærkvöldi. Í annað skipti í þessari viku. Geri aðrir betur!!

Ég, Unnur og Ásta renndum semsagt á Næsta bar beint á mót Íslensku óperunni til að hlíða á Ragnheiði Gröndal og félaga. Mikið rosalega voru þetta flottir tónleikar! Var kominn frekar snemma og tók því frá fyrir okkur borðið næst hljómsveitinni. Með henni var kontrabassaleikari sem fór algjörlega á kostum - snilldingur - og gítarleikari sem gerði líka frábæra hluti. Þá mætti óvænt bróðir hennar, Haukur Gröndal, nokkurn veginn beint úr flugvél frá Danmörku og lék á saxafón. Hann vear ekki búinn að æfa með þeim held ég og því voru þau í því að spinna þarna á sviðinu. Þetta var algjört æði og stórkostlega að sjá hvað þessi stelpa er músíkölsk. Það hreinlega rennur tónlist um æðarnar á henni. Þarna söng hún fullt af lögum, mest einhvers konar blöndu af svörtum djass og blús og gerði það af stakri snilld. Það sem var líka athyglisvert var að hún var klárlega leiðtoginn í bandinu og taldi meðal annars inn í öll lögin. Það var því hún sem hafði tilfinninguna fyrir taktinum - hægum en samt hröðum í senn djasstakti. Frábært kvöld og ótrúlega kraftmikil en samt fullkomlega afslöppuð stemning á svona djasstónleikum. Mjög merkilegur suðupottur. Verð þó að koma einu að....mikið rosalega hlakka ég til 1. janúar 2007 þegar reykingar verða bannaðar á börum og skemmtilstöðum!! Fötin mín voru viðbjóður þegar ég kom heim og enn í kvöld, eftir að hafa verið úti í bíl í allan dag, var ógeðsleg reykingafýla af bílnum mínum. Það á skilyrðislaust að banna þetta og kasta því langt út í hafsauga!

Sárir og súrir fætur á óvissufundi
Sárir og súrir fætur hittust í gær á árlegum fundarstað sínum, Súfistanum við Laugaveg. Um er að ræða algerlega frábæran gönguhóp sem fór saman á Hornstrandir í fyrra og er á leiðinni í óvissuferð í Skagafjörðinn í júlí. Það var SVOOO gaman í fyrra að ég bíð þvlíkt spenntur eftir því að komast með liðinu norður. Um er að ræða óvissuferð þannig að við eigum bara að mæta í Varmahlíð á hádegi þann 14. júlí og þá verður lagt af stað. Þangað til fáum við ekkert að vita. Þetta var því athyglisverður fundur þar sem við reyndum að draga upplýsingar upp úr skipuleggjendum og þær reyndu að segja okkur allt sem þurfti að segja okkur án þess að kjafta því sem ekki mátti kjafta. Við vitum að við munum gista í tjaldi fyrstu nóttina einhvers staðar úti á túni nálægt á eða læk. Við vitum síðan að við fáum mat eldaðan fyrir okkur þar sem við verðum annan daginn. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara gengið með gítarinn upp úr bakpokanum. Þarf að skoða þessi trússmál aðeins betur. Hlakka ekkert smávegis til!!!!

"I just felt like it..."
Sagði Forrest Gump þegar hann var spurður af hverju hann hafi hlaupið þvert yfir Bandaríkin og hálfa leið aftur til baka. Hef núna farið í ræktina tvo morgna í röð. Byrja á því að hlaupa á brettinu í ca. 16 mínútur, geng fyrstu 2-3 mín., hleyp síðan á 12-13 km hraða upp í 10 km, 15-16 km. hraða í 2 mín upp í 12 mín markið og 17-18 km hraða í eina mínútu upp í 13 mínútna markið. Síðan róa ég niður næstu 2-3 mínútur. Þetta er ágætissprettur. Seinna mun ég reyna þetta með því að búa til smá halla. Geri það einhvern tímann. Þegar ég er búinn að hlaupa fer ég hring sem ég fékk Pálmar þjálfara í WorldClass í OR húsinu til að setja saman fyrir mig. Fínn strákur Pálmar. Mæli með honum fyrir þá sem ætla að fá sér einkaþjálfara.

Á gulu í Álaborg
Hringdi til Danmerkur í kvöld og talaði við Kristófer og Hönnu. Gaman að heyra í þeim báðum. Við Hanna stilltum af sumarið í grófum dráttum, frá því þau koma til landsins 21. júní og þar til þau fara út aftur þann 29. júlí. Erum annars mjög góð í þessu öllu saman þannig að ég hef engar áhyggjur. Þetta verður bara frábært!

Heyrði síðan í prinsinum. Mikið að gera hjá honum um helgina. Er að fara í ferðalag með skólanum á föstudagsmorguninn til klukkan hálf tvö. Fer síðan í annað ferðalag, nú með skóladagheimilinu, klukkan tvö og verður yfir nótt. Honum fannst þetta nú alveg nóg af því góða. Sérstaklega þar sem hann er síðan að fara að keppa í karate á laugardagsmorguninn og Óttar og Hanna þurfa því að sækja hann í útileguna svo hann komist í keppnina. Tók annars próf um daginn og er nú orðinn formlegur handhafi gula beltisins í karate. Ótrúlega flottur strákur!!!! Sagði að hann hefði þurft að gera eitthvað sem hann kallaði KATA nægilega flott til þess að fá beltið - annars fengju þeir ekki beltið. Var á því að það hefði tekist þar sem hann hafði jú fengið beltið. Síðan er hann að fara í afmæli á sunnudaginn. Var nú víst búnn að biðjast vægðar og óska eftir fríi í skólanum á mánudaginn vegna þessa óvænta álags um helgina. Foreldrarnir voru nú ekki alveg svo líbó og fannst honum það frekar fúlt. Sagðist líka vera búinn að búa til risastóra kónguló úr þremur Bionicle körlum. Hann er semsagt ókrýndur heimsmeistari í Lego Bionicle. Hreint ótrúlega góður!

Á morgun er síðan vorferð starfsmannahaldsins. Þá verður haldið austur fyrir fjall og endað að lokum Við fjöruborðið á Stokkseyri í humarveislu og er von á snilldardegi þar sem víða verður komið við. Já, fullt að gerast þessa dagana. Ótrúlegt hvað margt týnist til!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Nemandi!

Já, nú er strákurinn bara orðinn nemandi.

Fékk bréf frá söngskólanum þess eðlis að ég hefði lifað þetta inntökupróf af. Jibbbíííí!!!!

Þetta verður snilldarvetur!

þriðjudagur, júní 07, 2005

Bjargræðiskvartettinn brilleraði!

Við mæðginin skelltum okkur á tónleika í kvöld. Fórum að sjá endurkomu Bjargræðiskvartettsins sem saman stendur af Erni Arnarsyni, öðrum af kórstjórum Skátakórsins; Önnu Siggu tónlistarprímusmótor í Fríkirkjunni í Reykjavík; Aðalheiði Þorsteinsdóttur (Öllu) píanóleikara sem útsett hefur mikið fyrir Skátakórinn og er að spila út um allt og Gísla Magnasyni sem hefur einnig útsett fyrir Skátakórinn og ég veit ekkert meira um!

Vissi ekkert á hverju ég átti von en bjóst við líflegum tónleikum enda á ferðinni vægast sagt líflegt fólk. Hópurinn tók 19 lög og var einu orði sagt frábær.

Ótrúlega fjölbreytt lög þar sem þau rödduðu af algjörri snilld enda á ferðinni mikið fagfólk, grínuðust og spiluðu á allt sem fyrir var. Tóku meðal annars "Jón var kræfur karl og hraustur" sem mig minnir að Utangarðsmenn hafi gert frægt hér um árið. Þar átti Anna Sigga stórleik þegar hún spilaði á koffort og teppabankara sem ásláttarhljóðfæri. Kom það verulega mun betur út en nokkrum gæti dottið í hug! Tóku einnig lög eins og fyrrnefnt lag með Utangarðsmönnum, Jóa útherja með Ómari Ragnarsyni, Riddara götunnar með HLH, Leyndarmál eftir Þóri Baldursson, Ég á mig sjálf (gamla hippalagið) og enduðu síðan á Harðsnúnu Hönnu.

Öll voru frábærlega rödduð og hvergi slegið af kröfunum þótt grínið væri allsráðandi og lögin í algjörum snilldarútsetningum sem manni hafði aldrei dottið í hug að setja saman. Þá spiluðu þau á glös, bongótrommur, gítar og andaflautu svo fátt eitt sé nefnt um leið og þau svissuðu milli hinna ýmsu búninga en Anna Sigga mætti þarna gölluð sem sjóræningi og stuttu síðar sem 7 ára strákur í "Lok, lok og læs og allt í stáli" sem var hrikalega fyndið.

Ótrúlega skemmtilegur hópur meiriháttar fagfólks sem fór algjörlega á kostum og kom á óvart í hverju lagi. Frábært kvöld og endalaust gaman að skella sér á svona tónleika öðru hverju.

Nú er bara að vinna í að plögga þeim á árshátíðina í haust. Fer að vinna í því máli... :)

mánudagur, júní 06, 2005

Fyrsti sólbrunin - Útilífshelgi

Já, það er svo sannarlega komið sumar. Helgin var nefnilega bara með þeim sprækari.

Jóhann, vinnufélagi minn kom til mín seinni partinn á föstudaginn og spurði hvort ég vildi koma með á Móskarðshnjúka (austast í Esjunni). Ég hélt það nú og eftir vinnu renndum við uppeftir og borðuðum m.a. á toppnum það sem eftir var af afmælistertu Sólrúnar, einnig vinnufélaga míns, en hún hélt kökupartý í vinnunni í föstudaginn í tilefni af því að vera orðin "dirty too".

Þegar ég var hálfnaður niður hringdi Unnur í mig og var á leið í útilegu með Jónínu, litlu frænku sinni 16 ára, á Þingvelli, ætlaði að vera þar um nóttina og spurði hvort ég vildi koma með. Auðvitað vildi ég það þannig að ég var ekki í bænum í nema 20 mínútur eftir að ég kom af fjalli og þá renndum við austur. Þar var svakafínt veður og á laugardagsmorguninn brann ég meira að segja! Jibbííí, fyrsti sólbruninn þetta árið. Klárlega vorboði.

Renndum í bæinn á laugardeginum og ég skellti mér í brúðkaup. Sú sem var að gifta sig heitir Dagmar Ásmundsdóttir og giftist hún Geir Hagalínssyni. Dagmar var dagmömmubarn hjá mömmu í gamla daga áður en hún fór í sex ára bekk og var því "litla systir" mín um tíma. Mér hlýnaði alla vega um hjartaræturnar í gær þegar hún kallaði mig stóra bróður! :) Heljarinnar veisla og mikil gleði þangað sem komu m.a. danshópur frá Færeyingafélaginu og dreif alla út á gólf í færeyska hringdansa. Stórskemmtilegt!!!

Frænkurnar voru enn sprækar eftir veisluna og var því ákveðið að skella sér bara í aðra örútilegu. Nú renndum við upp í Heiðmörk og sváfum þar, kannski eins gott að við fórum ekki austur því þar var 4 stiga frost í nótt!

Kom síðan heim í dag, tók því rólega yfir daginn og skellti mér svo út, hljóp 5 km og fór í sund.

Fór í kvöld á æfingu með Los Sardinos, kórbandi Skátakórsins og loks í bíltúr með Ástu og Guðrúnu sem ég hafði ekki séð í hálfan mánuð eða svo og var því kominn tími til.

Já, svei mér þá ef strákurinn hefur ekki bara tekið lit um helgina! Það er svo sannarlega komið sumar!

En hvað gerðir þú skemmtilegt um helgina?

föstudagur, júní 03, 2005

Austur-Evrópa here we come!

Söng með Orkuveitukórnum í Elliðaárstöðinni í kvöld. Stóðum okkur nokkuð vel. Allt blaðalaust og án kórstjórans! Rosalega hefur Árni Heiðar unnið gott starf. Það að kórinn geti komið svona fram skammlaust án hans ber vott um algerlega frábæra kórstjórn! Sungum fyrir stjórn dótturfyrirtækis OR frá Slóvakíu. Guðjón Magnússon ofurplöggari kom þeirri hugmynd af stað að þeir biðu okkur að syngja í Slóvakíu að ári. "Lítið mál" sögðu þeir þannig að við erum líklega á leiðinni næsta vor til Slóvakíu. Fyrst það er planið hví ekki að fara til Prag og Búdapest líka. Borgarstjórinn í Búdapest hefur eitthvað verið að vinna með OR líka. Já, það eru endalaust skemmtilegir hlutir sem detta inn á borð hjá manni.

Skemmtileg mánaðarmót. Næ líklega að greiða niður skuldirnar mínar um meira en 150 þús. kr. Svona er að búa á hótel mamma og pabbi. Þá gengur þetta hratt og örugglega! Rumpum þessu af og komum okkur síðan í framhaldsnám. Hvert á maður að fara? Hvað á maður að gera? Langar svo margt. Býst samt við því að svona upplýsingakerfi eða uppbyggingu information structure einhvern veginn verði fyrir valinu. Finnst það svolítið skemmtilegt. Þekking, upplýsingar og það hvernig þetta flæðir um fyrirtækið. Allt mjög spennandi. Síðan eru markaðsmálin alltaf bakvið eyrað. Gallupgenið er enn á sínum stað. Langar líka alltaf svolítið í fjármálin. Held það sé skemmtilegur leikur. Já, það er svo margt skemmtilegt hægt að gera!!! Kannski maður ætti bara að læra þetta allt! Upplýsinga, fjármála og markaðsverkfræði. Já, þá væri maður nú flottur - eða farinn yfir um, annað hvort!

miðvikudagur, júní 01, 2005

Laun, línuskautar, maraþonkóræfing og næsti vetur!

Jæja, nú er strangri törn lokið í launadeildinni. Alltaf action fyrir mánaðarmótin og núna sínu meiri en áður þar sem ég þurfti að taka svolítið í gegn ofurleiðréttingarexcelskjalið mitt frá því um síðustu mánaðarmót þar sem við leiðréttum 300 manns 2 1/2 ár aftur í tímann. Þess utan erum við að ráða um 250 sumarstarfsmenn þannig að það er nóg að gera á Bæjarhálsinum þessa dagana.

Fórum nokkur úr starfsmannahaldinu á línuskautanámskeið í kvöld. Stórskemmtilegt. Vorum í skautahöllinni í Laugardalnum þar sem það rigndi svolítið úti. Auðvitað var maður alveg eins og belja á svelli en komst þó merkilega áfram og datt bara einu sinni. Komst að því að ég er líklega svolítið útskeifur. Kannski ástæðan fyrir því að ég vel yfirleitt bæði hafi ég um tvennt að velja!

Fór síðan á seinustu skátakórsæfingu vetrarins. Þetta var maraþon æfing, haldin í safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði þar sem Erna og Örn sjá um tónlistarstarfið. Fyrst æfðum við svolítið og svo fluttum við okkur yfir í kirkjuna og tókum upp hvorki meira né minna en fjögur lög. Ótrúlega duglegur hópurinn í kvöld. Þá er þessi sérlega skemmtilegi vetur á enda. Frábær hópur og hvet ég alla til að slást í hópinn. Sérstaklega ef þú ert tenór. Okkur vantar fleiri tenóra. Eru bara 3-4 yfirleitt á æfingum. Þyrftu að vera ca. helmingi fleiri.
Munum hittast næst á landsmóti skáta, laugardaginn 23. júlí á Úlfljótsvatni og syngja hér og þar um svæðið okkur og vonandi fleirum til ánægju og yndisauka.

Skátakórinn hefur löngum farið ótroðnar slóðir í lagavali. Við njótum náttúrlega þeirrar sérstöðu að syngja skátalög sem engir aðrir kórar gera. Ætlum að halda þeirri sérstöðu næsta vetur með því að syngja popplög. Erum búin að skoða efni með Bee Gees, Beach Boys, Queen og fleiri hljómsveitum. Næsti vetur gæti því orðið verulega skemmtilegur og öðruvísi, en jafnfram mjög krefjandi. Hlakka til!