mánudagur, júní 06, 2005

Fyrsti sólbrunin - Útilífshelgi

Já, það er svo sannarlega komið sumar. Helgin var nefnilega bara með þeim sprækari.

Jóhann, vinnufélagi minn kom til mín seinni partinn á föstudaginn og spurði hvort ég vildi koma með á Móskarðshnjúka (austast í Esjunni). Ég hélt það nú og eftir vinnu renndum við uppeftir og borðuðum m.a. á toppnum það sem eftir var af afmælistertu Sólrúnar, einnig vinnufélaga míns, en hún hélt kökupartý í vinnunni í föstudaginn í tilefni af því að vera orðin "dirty too".

Þegar ég var hálfnaður niður hringdi Unnur í mig og var á leið í útilegu með Jónínu, litlu frænku sinni 16 ára, á Þingvelli, ætlaði að vera þar um nóttina og spurði hvort ég vildi koma með. Auðvitað vildi ég það þannig að ég var ekki í bænum í nema 20 mínútur eftir að ég kom af fjalli og þá renndum við austur. Þar var svakafínt veður og á laugardagsmorguninn brann ég meira að segja! Jibbííí, fyrsti sólbruninn þetta árið. Klárlega vorboði.

Renndum í bæinn á laugardeginum og ég skellti mér í brúðkaup. Sú sem var að gifta sig heitir Dagmar Ásmundsdóttir og giftist hún Geir Hagalínssyni. Dagmar var dagmömmubarn hjá mömmu í gamla daga áður en hún fór í sex ára bekk og var því "litla systir" mín um tíma. Mér hlýnaði alla vega um hjartaræturnar í gær þegar hún kallaði mig stóra bróður! :) Heljarinnar veisla og mikil gleði þangað sem komu m.a. danshópur frá Færeyingafélaginu og dreif alla út á gólf í færeyska hringdansa. Stórskemmtilegt!!!

Frænkurnar voru enn sprækar eftir veisluna og var því ákveðið að skella sér bara í aðra örútilegu. Nú renndum við upp í Heiðmörk og sváfum þar, kannski eins gott að við fórum ekki austur því þar var 4 stiga frost í nótt!

Kom síðan heim í dag, tók því rólega yfir daginn og skellti mér svo út, hljóp 5 km og fór í sund.

Fór í kvöld á æfingu með Los Sardinos, kórbandi Skátakórsins og loks í bíltúr með Ástu og Guðrúnu sem ég hafði ekki séð í hálfan mánuð eða svo og var því kominn tími til.

Já, svei mér þá ef strákurinn hefur ekki bara tekið lit um helgina! Það er svo sannarlega komið sumar!

En hvað gerðir þú skemmtilegt um helgina?

2 Comments:

At 7.6.2005, 17:49, Anonymous Nafnlaus said...

Sumt fólk er skrýtnara en annað :-)

 
At 14.6.2005, 01:42, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Til hamingju Helga Rós og gaman að sjá þig!

Hvert varstu að flytja?

 

Skrifa ummæli

<< Home