þriðjudagur, júní 07, 2005

Bjargræðiskvartettinn brilleraði!

Við mæðginin skelltum okkur á tónleika í kvöld. Fórum að sjá endurkomu Bjargræðiskvartettsins sem saman stendur af Erni Arnarsyni, öðrum af kórstjórum Skátakórsins; Önnu Siggu tónlistarprímusmótor í Fríkirkjunni í Reykjavík; Aðalheiði Þorsteinsdóttur (Öllu) píanóleikara sem útsett hefur mikið fyrir Skátakórinn og er að spila út um allt og Gísla Magnasyni sem hefur einnig útsett fyrir Skátakórinn og ég veit ekkert meira um!

Vissi ekkert á hverju ég átti von en bjóst við líflegum tónleikum enda á ferðinni vægast sagt líflegt fólk. Hópurinn tók 19 lög og var einu orði sagt frábær.

Ótrúlega fjölbreytt lög þar sem þau rödduðu af algjörri snilld enda á ferðinni mikið fagfólk, grínuðust og spiluðu á allt sem fyrir var. Tóku meðal annars "Jón var kræfur karl og hraustur" sem mig minnir að Utangarðsmenn hafi gert frægt hér um árið. Þar átti Anna Sigga stórleik þegar hún spilaði á koffort og teppabankara sem ásláttarhljóðfæri. Kom það verulega mun betur út en nokkrum gæti dottið í hug! Tóku einnig lög eins og fyrrnefnt lag með Utangarðsmönnum, Jóa útherja með Ómari Ragnarsyni, Riddara götunnar með HLH, Leyndarmál eftir Þóri Baldursson, Ég á mig sjálf (gamla hippalagið) og enduðu síðan á Harðsnúnu Hönnu.

Öll voru frábærlega rödduð og hvergi slegið af kröfunum þótt grínið væri allsráðandi og lögin í algjörum snilldarútsetningum sem manni hafði aldrei dottið í hug að setja saman. Þá spiluðu þau á glös, bongótrommur, gítar og andaflautu svo fátt eitt sé nefnt um leið og þau svissuðu milli hinna ýmsu búninga en Anna Sigga mætti þarna gölluð sem sjóræningi og stuttu síðar sem 7 ára strákur í "Lok, lok og læs og allt í stáli" sem var hrikalega fyndið.

Ótrúlega skemmtilegur hópur meiriháttar fagfólks sem fór algjörlega á kostum og kom á óvart í hverju lagi. Frábært kvöld og endalaust gaman að skella sér á svona tónleika öðru hverju.

Nú er bara að vinna í að plögga þeim á árshátíðina í haust. Fer að vinna í því máli... :)

1 Comments:

At 7.6.2005, 17:50, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta hljómar bara vel.....

 

Skrifa ummæli

<< Home