mánudagur, júní 27, 2005

Frábær Jónsmessuhelgi í Básum!

Kominn af fjalli eftir algerlega frábæra helgi. Skellti mér semsagt í Jónsmessugöngu Útivistar ásamt Unni og um það bil 300 öðrum. Gengum yfir Fimmvörðuháls aðfararnótt laugardags. Er búinn að fara þarna á hverju ári síðan 1999, þ.e. vera í Básum. Þetta er hins vegar í þriðja skiptið sem ég geng yfir.

Fórum Fimmvörðuhálsinn í þremur hundraðmanna hópum, borðuðum kjötsúpu í Fimmvörðuskála, renndum okkur á rassinum niður Bröttufönn, skáluðum í kampavíni á Heiðarhorninu o.s.frv. o.s.frv. þangað til við komum niður í Bása.

Á laugardagskvöldið var grill, um áttaleytið byrjuðum við nokkrir að spila í matartjaldinu í ca. klukkutíma og svo var kveikt upp í varðeldinum kl. 10.

Þar var líklega um fimmhundruð manns eða svo og feykilega góð stemning! Ég lét liðið taka allt frá drykkjusöngvum yfir í leikskóla-, skáta- og jólaballalög eins og "Höfuð, herðar, hné og tær", "Rúllandi", "Singing in the Rain" og "Sæll, ég heiti Jón" - sem var svolítið skemmtilegt enda liðið þokkalega stirt eftir Fimmvörðuhálsinn.

Þarna komu líka Sirkus Cirkör, sænskur sirkus sem er eitthvað að æfa hér á landi og sýndu listir sínar á varðeldinum. Þau voru bara þarna í útilegu að djamma og ákváðu að leyfa okkur að njóta. Joggluðu með allt upp í 7 bolta og tóku heljarstökk í útilegugallanum; gúmmístígvélum og vélsleðagalla. Fannst það nú nokkuð vel af sér vikið - Flestir eiga nú nóg með að standa upp í þeirri múnderingu!

Eftir varðeldinn var síðan fljótlega haldið áfram að spila, dansa og syngja inn í Strýtunni og ég held ég hafi spilað þar stanslaust frá ca. hálfeitt eða svo til hálfsex! Frábært! Ágætistörn enda hljómaði ég eins og skringileg blanda af karra og unglingi í mútum megnið af deginum í dag. Allt í fína. Hæfilegt hæsi er að sjálfsögðu gæðastimpill á kvöldið!

Kom síðan í bæinn í dag með Ofur-Baldri. Frábær náungi eins og aðrir sem að þessu koma. Við erum þarna fjórir sem höfum spilað saman á Jónsmessuvarðeldinum undanfarin ansimörg ár. Ég, Ofur-Baldur, Halldór Fannar (tannlæknir á daginn en skeggjaður hippi í frístundum) og Hilmar (bókasafnsfræðingurinn kvenholli). Erum þrusuteam og getum spilað lengi og vel þegar sá gállinn er á okkur.

Kristófer var hjá Birnu um helgina. Fóru ásamt mömmu og pabba út í Viðey en Hanna og Óttar komu þangað siglandi á kajökum. Já, fín helgi hjá hele húbben!

Á morgun hefst síðasta vinnuvikan fyrir sumarfrí. Það verður frábært!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home