þriðjudagur, júní 14, 2005

Ekkert grín að vera svín og vera étinn á jólunum!

Já, nú er búið að sleppa Mikjáli Jackson. Æi blessaður karlinn. Maður vonaði nú alltaf að svona færi. Að þessar ásakanir reyndust ekki á rökum reistar. Voðalega hlýtur hann að vera einmanna. Væri kannski bara málið að bjóða honum að búa á Íslandi. Hvar ætli Bobby Fischer búi? Er ekki laus íbúð einhvers staðar í nágrenni hans? Sæmi rokk gæti örugglega tekið hann að sér.

Alltaf erfið svona barnamál. Barnakarlar eins og ég og Mikjáll eigum þetta alltaf á hættu. Ég á reyndar engan pening til að hafa af mér í réttarhöldum en Mikjáll á þá - eða alla vega átti.

Það er nefnilega mjög auðvelt að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhornum þegar samskipti barna og fullorðinna eru annars vegar. Ein stærsta og blautasta tuska sem ég hef fengið í andlitið í mínu skátastarfi var þegar við Skjöldungar gistum einhvern tímann uppi í skátaheimili yfir nótt, líklega nóttina fyrir sumardaginn fyrsta einhvert árið. Við láum þarna í stóra salnum eins og hráviði út um allt á dýnum og vorum að gera okkur klár til að fara að sofa. Þá rennir ein lítil, ca. 13 ára eða svo, dýnunni sinni upp að minni og hjúfrar sig upp að mér - þurfti einhverja hlýju greyið. Ég legg hendina einhvern veginn yfir hana og fer svo að sofa.

Morguninn eftir kemur einn foringjanna inn og vekur okkur. Stuttu seinna, eftir að við vorum komin á fætur, kallar hann mig inn á skrifstofu til sín og spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir því hvernig þetta hefði litið út. "Ha?", sagði ég, "hvað?". "Þegar ég kom inn í salinn lást þú, hálfþrítugur maðurinn, og hélst utan um 13 ára stelpu." "Ha, já", sagði ég og var nú farinn að sjá heildarmyndina. "Ég þekki þig og hafði engar áhyggjur. Hefði ég hins vegar t.d. verið foreldri sem kom þarna inn og ekki þekkt aðstæður hefði verið mjög auðvelt að sjá þetta í öðru ljósi."

Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Síðan ég var einn af krökkunum hef ég legið í hrúgu með þeim hér og þar og alls staðar og ekki þótt það neitt athugavert - hvar sem er - hvenær sem er. Allt í einu þurfti ég að fara að spá í það hvernig hlutirnir litu út, alveg burtséð frá því hvort það væri satt eða ekki. Bara vegna þess að nokkur ár höfðu liðið. Þetta fannst mér erfitt að kyngja.

Það er gríðarlega mikilvægt að vera vel á verði gagnvart alls kyns ógeðum sem elta uppi börn. Hins vegar geta mörkin oft verið ansi óljós og það sem einum finnst fullkomlega eðlilegt, finnst öðrum fullkomlega óeðlilegt. Það þarf því ekki mikið til þess að maður lendi í sömu aðstöðu og Mikjáll. Hvað þá heldur þegar um er að ræða einhverja bilaða konu sem vill ná af manni fé yfir allt saman. Þá er mjög auðvelt að vekja grunsemdir og hreinlega jarða mann því það hlýtur að vera mjög erfitt að má þennan stimpil af manni hafi maður einu sinni fengið hann.

Mikjáll barnakarl var sýknaður að þessu sinni. Vonandi mun hann einhvern tímann geta treyst fólki aftur og einhvern tímann geta haft óþvinguð samskipti við annað fólk, börn og fullorðna. Ég veit að ég get ekki annað en hugsað mig tvisvar um leggi ég hendina yfir skátabörnin mín áður en við förum að sofa, þrátt fyrir að mér finnist það beinlínis vera mitt hlutverk að bæta og auka hjá þeim öryggistilfinningu og þ.a.l. að vera til staðar fyrir þau þegar þau þurfa á því að halda.

Þetta er stundum erfiður og fólkin heimur!


Valdi Esjuna fram yfir kvöldverð á Einari Ben í kvöld í boði Agresso í Noregi. Sé ekkert eftir því. Borðaði góðan mat á föstudagskvöldið fyrir austan. Naut hverrar mínútu á Esjunni í kvöld. Við skelltum okkur ég, Birna systir, Unnur sem hafði verið á leiðinni á Esjuna í fyrsta skipti mánuðum saman og Jóhann sem er sumarstarfsmaður á framleiðslusviði OR og fór með mér á Móskarðshnjúka um daginn. Allt tókst þetta að lokum. Frábært að fara á Esjuna og rasa aðeins út eftir svona sólardag inni. Var fastur inni í fundarherbergi frá klukkan 13 til 17 í dag og þurfti því á einhverju drastísku að halda í lok vinnudags. Bara snilld!!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home