fimmtudagur, júní 09, 2005

Ragnheiður Gröndal dugleg í ræktinni en með sára og súra fætur í Álaborg!

Vissi ekki alveg hvernig ég gæti komið þessu í fyrirsögnina....vona að hún móðgist ekki mjög mikið stúlkukindin!

Skellti mér aftur á tónleika í gærkvöldi. Í annað skipti í þessari viku. Geri aðrir betur!!

Ég, Unnur og Ásta renndum semsagt á Næsta bar beint á mót Íslensku óperunni til að hlíða á Ragnheiði Gröndal og félaga. Mikið rosalega voru þetta flottir tónleikar! Var kominn frekar snemma og tók því frá fyrir okkur borðið næst hljómsveitinni. Með henni var kontrabassaleikari sem fór algjörlega á kostum - snilldingur - og gítarleikari sem gerði líka frábæra hluti. Þá mætti óvænt bróðir hennar, Haukur Gröndal, nokkurn veginn beint úr flugvél frá Danmörku og lék á saxafón. Hann vear ekki búinn að æfa með þeim held ég og því voru þau í því að spinna þarna á sviðinu. Þetta var algjört æði og stórkostlega að sjá hvað þessi stelpa er músíkölsk. Það hreinlega rennur tónlist um æðarnar á henni. Þarna söng hún fullt af lögum, mest einhvers konar blöndu af svörtum djass og blús og gerði það af stakri snilld. Það sem var líka athyglisvert var að hún var klárlega leiðtoginn í bandinu og taldi meðal annars inn í öll lögin. Það var því hún sem hafði tilfinninguna fyrir taktinum - hægum en samt hröðum í senn djasstakti. Frábært kvöld og ótrúlega kraftmikil en samt fullkomlega afslöppuð stemning á svona djasstónleikum. Mjög merkilegur suðupottur. Verð þó að koma einu að....mikið rosalega hlakka ég til 1. janúar 2007 þegar reykingar verða bannaðar á börum og skemmtilstöðum!! Fötin mín voru viðbjóður þegar ég kom heim og enn í kvöld, eftir að hafa verið úti í bíl í allan dag, var ógeðsleg reykingafýla af bílnum mínum. Það á skilyrðislaust að banna þetta og kasta því langt út í hafsauga!

Sárir og súrir fætur á óvissufundi
Sárir og súrir fætur hittust í gær á árlegum fundarstað sínum, Súfistanum við Laugaveg. Um er að ræða algerlega frábæran gönguhóp sem fór saman á Hornstrandir í fyrra og er á leiðinni í óvissuferð í Skagafjörðinn í júlí. Það var SVOOO gaman í fyrra að ég bíð þvlíkt spenntur eftir því að komast með liðinu norður. Um er að ræða óvissuferð þannig að við eigum bara að mæta í Varmahlíð á hádegi þann 14. júlí og þá verður lagt af stað. Þangað til fáum við ekkert að vita. Þetta var því athyglisverður fundur þar sem við reyndum að draga upplýsingar upp úr skipuleggjendum og þær reyndu að segja okkur allt sem þurfti að segja okkur án þess að kjafta því sem ekki mátti kjafta. Við vitum að við munum gista í tjaldi fyrstu nóttina einhvers staðar úti á túni nálægt á eða læk. Við vitum síðan að við fáum mat eldaðan fyrir okkur þar sem við verðum annan daginn. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara gengið með gítarinn upp úr bakpokanum. Þarf að skoða þessi trússmál aðeins betur. Hlakka ekkert smávegis til!!!!

"I just felt like it..."
Sagði Forrest Gump þegar hann var spurður af hverju hann hafi hlaupið þvert yfir Bandaríkin og hálfa leið aftur til baka. Hef núna farið í ræktina tvo morgna í röð. Byrja á því að hlaupa á brettinu í ca. 16 mínútur, geng fyrstu 2-3 mín., hleyp síðan á 12-13 km hraða upp í 10 km, 15-16 km. hraða í 2 mín upp í 12 mín markið og 17-18 km hraða í eina mínútu upp í 13 mínútna markið. Síðan róa ég niður næstu 2-3 mínútur. Þetta er ágætissprettur. Seinna mun ég reyna þetta með því að búa til smá halla. Geri það einhvern tímann. Þegar ég er búinn að hlaupa fer ég hring sem ég fékk Pálmar þjálfara í WorldClass í OR húsinu til að setja saman fyrir mig. Fínn strákur Pálmar. Mæli með honum fyrir þá sem ætla að fá sér einkaþjálfara.

Á gulu í Álaborg
Hringdi til Danmerkur í kvöld og talaði við Kristófer og Hönnu. Gaman að heyra í þeim báðum. Við Hanna stilltum af sumarið í grófum dráttum, frá því þau koma til landsins 21. júní og þar til þau fara út aftur þann 29. júlí. Erum annars mjög góð í þessu öllu saman þannig að ég hef engar áhyggjur. Þetta verður bara frábært!

Heyrði síðan í prinsinum. Mikið að gera hjá honum um helgina. Er að fara í ferðalag með skólanum á föstudagsmorguninn til klukkan hálf tvö. Fer síðan í annað ferðalag, nú með skóladagheimilinu, klukkan tvö og verður yfir nótt. Honum fannst þetta nú alveg nóg af því góða. Sérstaklega þar sem hann er síðan að fara að keppa í karate á laugardagsmorguninn og Óttar og Hanna þurfa því að sækja hann í útileguna svo hann komist í keppnina. Tók annars próf um daginn og er nú orðinn formlegur handhafi gula beltisins í karate. Ótrúlega flottur strákur!!!! Sagði að hann hefði þurft að gera eitthvað sem hann kallaði KATA nægilega flott til þess að fá beltið - annars fengju þeir ekki beltið. Var á því að það hefði tekist þar sem hann hafði jú fengið beltið. Síðan er hann að fara í afmæli á sunnudaginn. Var nú víst búnn að biðjast vægðar og óska eftir fríi í skólanum á mánudaginn vegna þessa óvænta álags um helgina. Foreldrarnir voru nú ekki alveg svo líbó og fannst honum það frekar fúlt. Sagðist líka vera búinn að búa til risastóra kónguló úr þremur Bionicle körlum. Hann er semsagt ókrýndur heimsmeistari í Lego Bionicle. Hreint ótrúlega góður!

Á morgun er síðan vorferð starfsmannahaldsins. Þá verður haldið austur fyrir fjall og endað að lokum Við fjöruborðið á Stokkseyri í humarveislu og er von á snilldardegi þar sem víða verður komið við. Já, fullt að gerast þessa dagana. Ótrúlegt hvað margt týnist til!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home