sunnudagur, febrúar 13, 2005

Skíði og skemmtilegheit!

Fín helgi!

Kláraði nú kannski ekki allt sem ég setti á listann góða hér að neðan en komst þó áleiðis með flest.

Kláraði reyndar djammið...reyndar seinna en ég bjóst við...sem í tilfelli djammsins er gott öfugt við flest annað. Á föstudagskvöldið var semsagt þetta fína kóradjamm þar sem Skátakórinn hitti þrjá aðra kóra - söngur, grín og gleði. Þar vakti mesta athygli kór sem ber nafnið Raddbandafélag Reykjavíkur. Snilldarhópur og ég legg eindregið til að fólk leggi við hlustir þegar þið heyrið það nefnt. Ef þið heyrið af tónleikum með þeim látið mig vita hið snarasta!

Við þurftum hins vegar að yfirgefa húsið um tvöleytið þegar gleðin var rétt að byrja og því var haldið í partý í Kópavoginn til Möggu Blöndal. Glæsilegt teiti, söngur og fínerí... Kom heim um hálf sjö á laugardagsmorguninn. Ákváðum um kvöldið; ég, Palli Viggós, Ásta Bjarney og Ebbi að skella okkur á skíði morguninn eftir. Um tvöleytið var planið að fara um tíu. - Um sexleytið var tímasetningin orðin....tja....einhvern-tímann-upp-úr-hádeginu-bara! Síðan voru skíðasvæðin lokuð á laugardaginn og stefnan sett á sunnudaginn.

Það gekk eftir. Palli var reyndar með hjálparsveitinni í action og Ebbi að vinna en við Ásta, ásamt Sonju frænku hennar og Kolbrúnu, unganum í hópnum, héldum galvösk upp í Skálafell í dag. Nú verð ég að viðurkenna að ég hafði aldrei farið upp í Skálafell áður á skíði. Hef af einhverjum ástæðum alltaf farið upp í Bláfjöll. Þetta var hins vegar frábær dagur, ég á Telemarkinu niður allar hlíðar. Datt ekki nema svona tíu sinnum þannig að ég er tiltölulega sáttur. Er á þeirri skoðun að það séu bara aumingjar sem detta aldrei. Fólk sem ekki tekst á við nægilega krefjandi verkefni!

Svona Telemark-skíðamennska er þvílíkt púl og vöðvarnir framan á lærunum voru algerlega búnir eftir daginn. Hafði vit á því að teygja vel áður en ég fór inn í bílinn, fór í sjóðandi heitt bað í kvöld og bíð nú spenntur eftir því hvort ég verði fær um að ganga á morgun. Spennandi!

Hitti þarna m.a. Maríu Rúnars. sem var með börn ættarinnar í skíðakennslu. Þarf að fara að standa að fimmtudagshádegishittingi hjá HR liðinu. Það er orðið óheppilega langt síðan síðast.

Stefnum á það!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home