sunnudagur, febrúar 20, 2005

Ofurafmæli!

Jæja þá er það að baki!

Héldum upp á 50 ára afmælishátíð STOR (Starfsmannafélag Orkuveitu Reykjavíkur) á Bæjarhálsinum í gær. Eitthvað í kringum 500 manns mættu og gekk þetta eins og í sögu.

Eyjólfur Kristjánsson spilaði rólegheitarlög þangað til dagskráin byrjaði korter yfir sjö á jarðhæðinni með formlegum ræðum, bæði formanns STOR og Alfreðs stjórnarformanns, og síðan voru fyrrum formönnum félagsins færðir blómvendir að gjöf. Kom upp smá vandamál með hljóðkerfið þarna uppi þar sem hátalararnir dugðu ekki þegar allur þessi fjöldi var kominn í húsið. Munum það næst!

Þá var haldið niður á -1. hæð þar sem mötuneytið er og keyrt upp partý. Þar hafði mötuneytið sett upp fjögur hlaðborð, eitt með frönskum mat, eitt með mexíkönskum mat, eitt með ítölskum mat og eitt með asískum og voru þeim gerð góð skil...enda 500 munna að fæða.

Eyfi hélt áfram og var nú sínu sprækari en áður. Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson mættu um áttaleytið, áttu að vera til hálf níu en gátu ekki hætt og voru til korter í níu. Ótrúlega sprækur karlinn. Hann kann enga texta sjálfur en veit að allir gestirnir kunna þá þannig að hann fær bara stóðið til að syngja með sér. Að sjötugur karl skuli geta rifið upp 500 manns sem þar á ofan er í óða önn að fá sér að borða standandi úti á gólfi er náttúrlega ótrúlega öflugt! Meistari!

Síðan kom Eyfi aftur með allt í botni þangað til lokaatriðið brast á rétt fyrir klukkan níu. Þar var mættur dúettinn Steintryggur, sem var nafn soðið saman á staðnum held ég en það voru þeir Bogomil Font (Sigtryggur Baldursson) og Steingrímur Guðmundsson trommuleikarar (Milljónamæringarnir). Búið var að koma þarna inn í hús stærstu trommum landsins og var þar um að ræða loftnetsparabólur, n.k. gervihnattadiskum, sem þeir höfðu fengið frá einhverju fjarskiptafyrirtæki. Hvor um sig um tveir metrar í þvermál og síðan voru þeir með einhver strítulaga fyrrum loftnet sem hljómuðu hvert með sínu laginu þegar barið var á þau. Þetta börðu þeir eins og bongotrommur. Alveg hrikalega töff og flottasta lokaatriði sem hægt var hugsa sér. Fólk stóð alveg með öndina í hálsinum!

Fyrir utan biðu stætóar sem keyrðu þá sem fara vildu niður á Kringlukrá þar sem Geirmundur Valtýsson byrjaði eitthvað upp úr klukkan tíu. Hafði ætlað að byrja ellefu en var til í að byrja fyrr þar sem þessi stóri Orkuveituhópur var mættur á svæðið. Öflugur karlinn.

Ótrúlega sprækur karlinn. Hann tók sér ekki pásu fyrr en milli tólf og eitt. Keyrði semsagt í hátt í tvo og hálfan tíma pásulaust. Var síðan í pásu í kannski 20 mínútur, kom aftur og hélt áfram í rúma tvo tíma til klukkan þrjú. Svona eiga bönd að vera. Glæsileg frammistaða og ótrúlegt úthald.

Var að vanda kófsveittur á dansgólfinu frá fyrsta til síðasta tóns. 5 tímar lágu frá kl. 22 til 03 og rétt skrapp nokkrum sinnum í 7 mínútur af dansgólfinu til að fá mér vatn. Þetta er SVOOO gaman! Unnur mætti með Ástu vinkonu sína sem kann að dansa. Slíkt er náttúrlega gulls ígildi á svona balli og var dansað alveg út í eitt.

Það var því ljúft að leggjast í rúmið sitt um fjögurleytið eftir að hafa keyrt 500 manna partý og 5 klukkutíma á dansgólfinu með Geirmundi. Í dag er maður síðan... tja, myndi nú líklega ekki velja þennan dag til að fara í maraþon en þó væri aldrei að vita ef einhver kæmi og spyrði! ;)

Mættum síðan upp á Bæjarháls í dag til að taka niður og ganga frá.

Djob vell dönn...nú bíður maður bara spenntur eftir sextugsafmælinu!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home