miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Námskeið, afslöppun og bílavesen

Búinn að vera á Oracle Discoverer Administration námskeiði hjá Teymi undanfarna þrjá daga, þ.e. mánudag til miðvikudag. Hörkunámskeið og mikil yfirferð. Námskeiðið endaði síðan í dag með rauðvíni og ostum. Alltaf gaman að heimsækja Teymi. Hresst fólk og skemmtilegur andi í húsinu. Fór með tveimur þeirra til London í haust og náðum við þar vel saman.

Hitti Gunnu á mánudaginn og fjarlægði restina af því sem ég átti í geymslunni í Eskihlíðinni. Freyja er að flytja út og þær þurftu að skila af sér íbúðinni núna um mánaðarmótin. Eskihlíðin var ágæt og fínt að búa þarna. Eins og reyndar á Hafnarbrautinni þar sem við bjuggum í lítilli stúdíóíbúð í ljótasta húsi í Kópavogi! Var skelfilegt að utan en ósköp notalegt að innan.

Var í vinnunni framundir morgun á aðfararnótt mánudagsins. Þurfti því að hafa mig allan við til að lifa af námskeiðið á mánudaginn og síðan söngskólann á eftir. Gekk ekki eins vel og síðast...augljós þreyta og svefnleysi í röddinni. Maður verður að reyna að passa sig að sofa almennilega aðfararnætur næstu mánudaga, a.m.k. lengur en 3 tíma. Mamma var síðan með saumaklúbb um kvöldið. Ákvað að taka það rólega. Fékk lánaða DVD diska hjá Kidda frænda í kjallaranum, fór inn í herbergi og horfði á DVD í tölvunni. Hafði það þvílíkt þægilegt.

Gærdagurinn var síðan þéttsetinn; námskeiðið til hálf fimm, þaðan til Fúsa að ganga frá bókhaldinu, starfsráðsfundur klukkan sex og Sardínu- og skátakórsæfing hálfátta til hálfellefu. Við kórbandið Sardínurnar hittumst fyrir æfinguna til að æfa fyrir djamm þann 11. febrúar. Þá ætla fjórir kórar að hittast, djamma, syngja og skemmta sér. Verður glæsilegt!

Ætlaði með bílinn minn í söluskoðun í dag. Þeir sögðust lána mér bíl á meðan. Komst ekki fyrr en rétt fyrir sex og spurði hvort þeir gætu ekki bara tekið bílinn þá, lánað mér bíl yfir nóttina og þeir síðan rennt honum í gegn í fyrramálið. Nei, þá var það ekki hægt þar sem ekki mátti lána út bílinn yfir nóttina. Óþolandi leiðindi. Hvaða máli skiptir hvort bílinn stendur fyrir utan Brimborg eða Hólsveginn í nótt? Hvaða máli skiptir hvort ég fæ hann lánaðan fá klukkan 8 til 16 eða yfir nótt. Asnalegt og illa farið með tilvonandi viðskiptavin. Maður ætti eiginlega að gefa skít í þá. Þetta þýddi að ég þurfti að fara aftur heim og þarf síðan að fara aftur til þeirra í fyrramálið. Óþolandi svona óþarfavesen.

Alvöruvinna á morgun, ekki námskeið, í fyrsta skiptið í vikunni. Fullt að gera því í viðbót við ýmislegt annað þarf ég að undirbúa þátttöku Orkuveitunnar í Framadögum Háskólans á föstudaginn, nánar tiltekið á Hótel Sögu. Var fenginn til að stýra því dæmi eins og í fyrra. Gaman þegar manni er hennt í einhver svona verkefni. Sérverkefni eru alltaf skemmtileg því þau eru í eðli sínu fjölbreytt og mismunandi... meira um það á föstudaginn.

2 Comments:

At 3.2.2005, 11:40, Anonymous Nafnlaus said...

takk takk Siggi.. var að lesa comment á minni síðu... og hey þú átt að láta þá hjá brimborg heyra það... toyota hefur alveg lánað okkur bíl yfir nótt... nætur meira að segja...og hana nú... kv. Sonja

 
At 3.2.2005, 13:21, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Segi það...þetta eru aular.

Hafiði séð heimasíðuna þeirra. Prófið að fara inn á www.brimborg.is og þaðan inn á notaða bíla og skoða leitarvélina. Staðfest ljótasta leitarvél (og yfirhöfuð heimasíða) norðan alpafjalla!

 

Skrifa ummæli

<< Home