laugardagur, febrúar 05, 2005

Af Framadögum, loftbyssum og 192 lítrum af vatni í Fiestunni!

Leiddi þátttöku OR í Framadögum í gær. Um er að ræða vettvang þar sem fyrirtæki kynna sig sem vinnustað fyrir háskólanemum annars vegar og þar sem háskólanemar kynna sig fyrir fyrirtækjunum hins vegar. Skemmtilegur dagur og góður andi í hópnum. Þarna voru á þriðja tug fyrirtækja og þekkti maður hresst fólk hér og þar.

Í fyrra vorum við með DeGraf rafalinn í básnum. Það er kúla sem fólk tekur utan um, maður hleypir á hana rafmagni og smám saman hleðst fólk upp og hárið á því byrjar að standa stríðrafmagnað út í allar áttir. Mjög skemmtilegt. Þessa græju má finna í Rafheimum Orkuveitunnar, í Elliðaárdal. Þar ræður ríkjum Stefán Pálsson spurningaséní, herstöðvaandstæðingur og snillingur og galdrar fram forvitni og skemmtun fyrir grunnskólabörn og fleiri sem koma í heimsókn, læra um rafmagn, eðlisfræði o.fl. á virkan og skemmtilegan hátt.

Í ár höfðum við einnig samand við félaga Stefán þar sem hann er endalaus uppspretta skemmtilegra leikfanga. Hann olli okkur ekki vonbrigðum og bauð okkur loftbyssu eina vígalega. Um er að ræða græju sem lítur út eins og ruslafata með handfangi og vakti mikla athygli enda með miðara og öllum græjum. Opinbera verkefnið var að skjóta á logandi kerti og slökkva í því sem var svosem skemmtilegt en enn skemmtilegra var þó að skjóta á mann og annan sem leið átti hjá. Græjan er semsagt loftbyssa og skapar töluverðan þrýsting og svolítið lofthögg og getur maður skotið því allt að 5-6 metra. Skutum við á gesti og gangandi og verð ég líklega aldrei litinn sömu augum af fulltrúa VR á staðnum sem var nágranni okkar og ég skaut á. Brá henni nokkuð verulega þegar hún fékk lofthöggið alls óviðbúin. Mjög skemmtilegt! Hvenær ætli maður fullorðnist? Vonandi aldrei!

Að degi loknum settum við allt draslið í Fiestuna mína og Toyotu Þórarins í Hönnun og renndum með þetta uppeftir. Þarna var um að ræða heilt sýningarkerfi (bakgrunnur fyrir bás), ein borðtölva, ein fartölva, tveir stórir skjáir, nokkur hundruð bæklinga og 16 kassar (384 flöskur = 192 lítrar) af vatni. Næstum öll fyrirtækin gáfu vatn þannig að það fór aðeins minna út af vatni en búist var við. Fiestan flutti því næstum tvö hundruð lítra af vatni auk annars farangurs og fór létt með það!!! Varð mönnum að orði að ótrúlegt væri hvað kemst mikið fyrir í þessum litla bíl. Þetta er sko ekki í fyrsta skiptið sem hún fær þann dóm blessunin!

Um kvöldið var síðan brennt á Póstbarinn í Framadagapartý og þaðan á Hressó og loks Pravda í smá stund. Ágætisdjamm og vorum við meðal annars á spjallinu við Marcus Orlovsky sem kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur á Framadögum. Um er að ræða frumkvöðul sem hefur látið mikið að sér kveða í Bretlandi og byggt þar upp heilu borgarhlutana. Mjög hress náungi.

Haldið ekki að það hafi verið búið að sekta mig þegar ég náði í bílinn í morgun niðri við Austurvöll? Eiga þessir andsk... aldrei frí!?!?

3 Comments:

At 6.2.2005, 01:09, Anonymous Nafnlaus said...

Hvenær eigum við að fá okkur í tána?

= Y =

 
At 7.2.2005, 10:16, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Hef tíu tær og tíu fingur og þau eru öll ávallt viðbúin!

Finndu bara tíma sem hentar þér og sjáum svo til!

 
At 8.2.2005, 01:45, Anonymous Nafnlaus said...

Say hello to Bjork

 

Skrifa ummæli

<< Home