miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Gaui Sig. og ný Fiesta!

Sáuð þið Gauja Sig. og félaga í Ísland í dag í kvöld. Algjör snilld! Það er auðvitað erfitt að segja að eitthvað sem tengist MND sé snilld og vissulega er þetta skelfilegur sjúkdómur en að hlusta á Gauja og vinna með Gauja eins og ég hef fengið tækifæri til að gera er bara algerlega frábært! Æðruleysið, töggurinn og húmorinn eru með ólíkindum svo maður tali nú ekki um miðað við þá stöðu sem hann er í gagnvart þessum skelfilega sjúkdómi. Sama að segja um Höllu og stelpurnar. Þvílík fjölskylda - þvílíkt team! Sjúkdómurinn hefur gert það að verkum að hann er svolítið lengi að tala en maður hefur lært það að það er algerlega þess virði að bíða því yfirleitt kemur eitthvað snilldarpunchline! Alveg æðislegt hvað það er til frábært fólk í þessum heimi.

Jafnskelfilegt að það skuli fá þennan ógurlega sjúkdóm. Það eru svo mikil forréttindi að fá tækifæri til að kynnast svona fólki þótt maður hefði nú viljað að það væri við aðrar aðstæður. Finnist manni eitthvað erfitt eða óyfirstíganlegt þá hugsar maður til Gauja í nokkrar sekúndur og veltir því fyrir sér hvað hann hefði gert í þessari stöðu. Við þetta einhvern veginn gufar vandamálið upp og eftir stendur verkefni til að leysa.

Hvet alla til að leggja inn á reikning hjá MND félaginu. Þú getur jafnvel stillt heimabankann þinn þannig að hann millifæri eitthvað mánaðarlega. Þetta þarf ekki að vera há upphæð, margt smátt gerir eitt stórt, en ég efast stórlega um að þér takist að eyða henni í eitthvað nauðsynlegra eða betra. Fann áðan reikningsupplýsingar á heimasíðu MND félagsins.

Hvet ykkur til að fylgjast með blogginu hans Gauja. Bætti því við hérna á hægri vænginn. Ótrúlega skemmtilegur húmor þótt verið sé að fjalla um eins alvarlega hluti og frekast eru til í þessum heimi.



Fékk nýju Fiestuna afhenta á kvöld. Svona líka falleg...svört og snaggaraleg. Pabbi sagði nú að það væri nú ekkert sérlega skynsamlegt að kaupa svartan bíl. Það sæi svo fljótt á honum skítur. Það gerir það kannski að verkum að ég þvoi oftar bílinn minn!

Athyglisverð annars svona viðskipti. Fékk þarna nýjan bíl og losna við minn gamla án þess að greiða krónu. Slepp reyndar við mánaðarlegu greiðsluna þennan mánuðinn, og byrja því í 20 þús. kr. gróða, því ég byrja ekki að greiða hinn fyrr en um næstu mánaðarmót. Tryggingarnar af þessum eru aðeins 2 þús. kr. hærri en af þeim gamla en mánaðargreiðslurnar ca. 7 þús. krónum hærri. Á móti kemur að bílinn er nýr þannig að viðhald ætti að vera í eins miklu lágmarki og nokkur möguleiki er á ætli maður að eiga bíl yfirhöfuð. Held þetta hafi bara verið nokkuð skynsamlegt...reyni alla vega að telja mér trú um það.

Sakna samt gömlu Fiestunnar minnar. Við vorum vinir. Höfum brallað ýmislegt saman í gegnum tíðina. Frábær bíll og algjör töffari! Þarf að skrifa minningargrein um hana hérna á blogginu einhvern góðan veðurdag. Hún á það skilið.

Skrapp á kóræfingu í kvöld með Skátakórnum. Alltaf jafnskemmtilegt. Erna er frábær kórstjóri. Hefur einstakt lag á því að halda uppi metnaði og aga á æfingum en samt tryggja að aldrei sé langt í hláturinn sem gerir þetta svo skemmtilegt. Hvet fólk til að skella sér í Skátakórinn. Tenórar eru sérstaklega velkomnir. Djamm á föstudaginn. Þá ætla fjórir kórar að hittast, syngja og skemmta sér. Mætum þar með söng og spilerí og ætlum að vera skemmtilegust. Tekst pottþétt!

Semsagt...enn einn skemmtilegur dagur!

2 Comments:

At 9.2.2005, 18:24, Anonymous Nafnlaus said...

"Alveg æðislegt hvað það er til frábært fólk í þessum heimi."
Get a room why don't you...

Allavega, bláu pillurnar þínar virka greinilega öðruvísi en bláu pillurnar mínar sem hafa bara áhrif á blóðflæði til ákveðinna líkamshluta.
Hvaða gleði- og hamingju pillur færð ´þú eiginlega?

E.s. ef ég má vera politically incorrect þá vil ég bæta við að ég hef nú stundum þurft að bíða eftir að þú ljúkir setningu.
Nema reyndar að þú talar svo helvíti hratt að það ber ekki mikið á því hjá þér he he he

=Y=

 
At 9.2.2005, 18:41, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Blóðflæðið var fínt þannig að ég tók bara næstu bláu... :o)

 

Skrifa ummæli

<< Home