laugardagur, apríl 30, 2005

...og vika

Vikan fór í brjálaða vinnu þar sem lífið var eiginlega bara söngur, stuttur svefn og vinna frá 8/9 á morgnanna til 2/3/4 á næturna við afturvirkar launaleiðréttingar 300 manna og kvenna 2 1/2 ár aftur í tímann. Þetta gekk þó allt að lokum og var mikið spennufall í starfsmannahaldinu á hádegi á föstudag þegar launaskráin var send til Reiknistofu bankanna og launaseðlarnir í prentun.

Seinni hluta föstudags fór stjórn STOR (starfsmannafélag Orkuveitunnar) austur í Úthlíð eftir hádegi að kíkja á sumarbústaðarlóðir. Ákváðum að nýi bústaðurinn okkar færi þangað á mikið fína lóð sem okkur stendur til boða. Hittum þar einnig óðalbóndann Björn bónda í Úthlíð. Alltaf gaman að hitta svona karla. Alvöru karl um sjötugt sem hefur byggt upp þarna heilt sumarbústaðaþorp af miklum stórhug undanfarna áratugi. Glæsilegur árangur hjá glæsilegum stórhuga karli. Sýndi okkur nýjasta stolltið sitt; þriggja bursta glæsihús sem hann hafði meira að segja teiknað sjálfur. Mjög flott hús og aðstaða, heitur pottur með DVD og margt fleira.

Skellti mér út að hlaupa í gær, hljóp stífluhringinn í Elliðaárdalnum, lyfti svolítið og endaði í heimsókn hjá Birnu systur fram yfir miðnætti. Rólegur dagur í dag. Úti á svölum í sólinni. Setti saman tertu úr tertubotni og Betty Crocker. Ótrúlegt hvað maður er myndalegur og gott að eiga góðar vinkonur eins og Betty! :)

Skátakórinn kemur síðan fram í kvöld á Landsþingi St. George skáta (eldri skátar) í Kópavogi. Það verður skemmtilegt...alltaf gaman að syngja.

Öllu rólegri helgi núna en síðast...sem er kærkomið eftir vikuna!

föstudagur, apríl 29, 2005

Action helgi...

Síðasta helgi var nokkuð í fyllri kantinum, í alla vega tveimur mismunandi merkingum.

Fór með Unni og innheimtudeildinni í óvissuferð á föstudagskvöldinu. Fórum í Gvendarbrunna og skoðuðum dælustöðina þar. Stórglæsilegt. Man þegar við settum evrópuráðstefnu skáta þar í fyrra. 600 útlendingar sem áttu ekki orð yfir þessum stað! Þá var haldið austur á Stokkseyri og snæddur humar af miklum móð, spilað á gítar og haldið heim á leið í dúndrandi gítaraction megnið af leiðinni. Þaðan var farið í eftirpartý í Grafavogi sem aldrei þessu vant var bara mjög skemmtilegt - sem er nú ekki alltaf málið með eftirpartý.

Kóræfing á laugardagsmorguninn. Var aðeins "þreyttur" svona svolítið frameftir degi. Æfðum nokkur lög og fórum síðan yfir í Fríkirkjuna í Hafnarfirði þar sem lögin voru tekin upp. Gekk ágætlega og alltaf gaman enda eldsprækur hópur.

Um kvöldið var aðalfundur og hittist hópurinn í sal uppi í Mjódd. Allir mættu með eitthvað á hlaðborð og úr varð þessi líka rosalega veisla. Flottara en nokkur veitingastaður, algjörlega óskipulagt en algjör snilld! Borðuðum, héldum aðalfund þar sem mál voru afgreidd hratt og örugglega, kosið í stjórn, nefndir og ýmislegt lauslegt. Síðan var djammað af krafti fram eftir nóttu...aðra nóttina í röð! Raggi lét af störfum sem formaður en var varandlega skipaður forseti og fær að halda þeim titli eitthvað fram eftir öldinni. Raggi hefur náttúrlega staðið sig feykilega vel sem formaður kórsins undanfarin 9 ár. Það var hann sem kom skátakórnum í Reykjavík á koppinn sem síðar var sameinaður skátakór Hafnarfjarðar í það sem heitir í dag einfaldlega Skátakórinn. Hann hefur leitt hópinn allan þennan tíma af mikilli snilld. Verðskuldað rigndi því yfir hann og Kiddý heiðursmerkjum, þökkum og gjöfum fram eftir öllu kvöldi.

Já, það er þetta með litla puttann og handlegginn. Ég bauð mig fram í stjórnina fyrir einhverjum vikum en endaði sem formaður kórsins á laugardaginn. Já, það er ekkert grín að taka við af Ragga. Maður verður bara að reyna að standa sig. Gleði - Söngur - Árangur eru lykilþættirnir þrír sem mér finnst vera í starfi kórsins. Ekkert þessara þriggja atriða getur án hins verið. Frábær hópur og alltaf skemmtilegt.

Við Ásta Bjarney, sem á laugardaginn var kosin sérlegur prótókollmeistari hópsins sem og skemmtinefndarfulltrúi, mættum síðan á sunnudaginn og gengum frá. Mjög lítið var eftir því við gengum frá næstum öllu áður en við fórum heim á laugardagskvöldið. Skrapp í vinnuna seinni partinn og þaðan á tónleika.

Fór á tónleika með Borgarkórnum. Mjög skemmtileg tónlist og alltaf jafn innilegur og hlýr hópur. Var í Borgarkórnum veturinn 2003 til 2004 og á þaðan góðar minningar. Tónleikarnir voru skemmtilega blandaðir og gaman af þeim. Sigvaldi kórstjóri og stofnandi kórsins er að hætta sem kórstjóri en ætlar í staðinn að færa sig yfir í bassann og syngja þar. Það er nú ekki lítill fengur fyrir bassana.

Sunnudagskvöldið fór síðan í próflestur fyrir tónfræðipróf 2. stig, þangað til ég datt inn í Dirty Harry með Clint Eastwood. Það gerði það að verkum að ég las megnið af efninu til prófs á 20 mínútum á bílastæðinu fyrir utan Söngskólann á mánudaginn. Komst að því að ég hafði fengið eitthvað milli 9 og 10 í 1. stigsprófinu hálfum mánuði áður. Held mér hafi gengið ágætlega í þessu prófi. Lítið og auðvelt efni. Finnst samtlíklegt að úr þessu fari málin að flækjast svolítið meira. Þarf líka að öðlast meiri þjálfun en ekki bara raða inn stigum og taka próf.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ætli nokkur nenni að tefla við páfann næstu árin!

Magnað með þetta páfakjör. Þarna er kosinn maður sem er svo út úr kú að það hálfa væri nóg. Hann er algjörlega úr tengslum við samfélagið eins og reyndar kaþólska kirkjan sem stofnun. Fólkið náttúrlega finnur sem betur fer sínar leiðir en þó ekki nægilega.

Ein vel valin samsæriskenning er sú að vegna þess að kaþólska kirkjan sé ekki tilbúin í breytingar (Ekki tilbúin að skipta á lífi nokkurra milljóna alnæmissjúklinga og smokknum...fóstureyðingar...hommar...kvenprestar og aðrir skelfingarþættir sem ógnað gætu heiminum...) þá hafi verið fenginn þarna háaldraður ofurharðlínumaður sem mun þess vegna haga sér extra ansalega næstu árin og fá alla upp á móti sér.

Fyrsta skrefið í breytingastjórnun er að sannfæra lýðinn um að það sé yfirhöfuð nauðsynlegt að breyta einhverju. Þetta tryggi vonandi að þegar hann geyspar golunni (sem væntanlega verður eftir skikkanlega stuttan tíma þar sem hann er jú 78 ára gamall) þá verði kaþólska kirkjan búin að fá endanlega nóg af þessari vitleysu og verði loksins til í breytingar.

Hann olli ekki heldur vonbrigðum í fyrstu messunni sinni þegar hann hvatti alla kristna menn á sinn ofurdiplómatíska máta til að sameinast. Það eina sem þeir þyrftu að gera væri að hugsa eins og hann sjálfur og safnast allir undir hans eigin stjórn. Vá! ...og svei mér þá ef manninum var ekki bara alvara!

Næring!

Já, þetta er nú orðin frekar löng nótt frá því síðasta vetrardag þegar ég sagðist koma inn aftur daginn eftir... skamm Siggi...en það hefur reyndar ýmislegt borið á góma síðan þá.

Sumardagurinn fyrsti var fínn og fjölbreyttur dagur frá upphafi til enda - einkenndist af næringu ýmiss konar.

Byrjaði með kórsöng í skátamessu í Hallgrímskirkju. Þurfti reyndar að yfirgefa samkvæmið áður en yfir lauk því kokkalandsliðið hafði boðið mér í hádegismat. Uuuummmmm.... þvílík dýrð!!! Forrétturinn var búinn að vera í þróun í 6 ár!!! Spáið í það! ...og ég verð að segja þeim tíma hefur verið ágætlega varið. Forrétturinn var semsagt ýmislegt tengt humri, hörpudisk í samblandi við mangó frauð og ýmislegt fleira ásamt hvítvíni. Hrein dásemd! Aðalrétturinn var kálfa og nautalund, græn kartafla (stórmerkileg), brjóst og bris. Já, ég er ekki að grínast...brjóst og bris. Ekki slæmt að fá brjóst í hádegisverð, ha! Þetta rann náttúrlega niður, meirt og stórkostlegt ásamt dýrindis rauðvíni...mmmm....
Herlegheitin enduðu síðan með skyrrétti, súkkulaði, karamellu, kanil og ég veit ekki hvað og hvað. Mmmmm.... Matarmaðurinn Siggi var algjörlega að fýla þetta hádegisboð!

Nýtti það sem eftir var dagsins með Ástu og Guðrúnu, ýmist heima í rólegheitum eða úti á rúntinum. Fínt í sólinni, afslappað og þæilegt!

Um kvöldið gerði ég síðan eitthvað sem ég hef aldrei gert. Skellti mér á samkomu í Fíladelfíu með mæðgunum og Unni. Nokkuð merkilegt. Var búinn að vera á leiðinni nokkuð lengi og ákvað að skella mér þarna. Þetta var bara skemmtilegt. Helsti munurinn sem ég upplifði var sá að mér fannst þeir komnir lengra í boðskiptafræðinni en þjóðkirkjan. Það sem sagt er þarna og gert felur í sér mun meiri þátttöku, meiri söng (þú syngur - ekki bara einhver kór), það er talað mun persónulegar við þig og á mannamáli á meðan "venjuleg messa" er mun uppskrúfaðri og fjarlægari manni sem gerir það að verkum að það sem sagt er þar verður hálfgerð síbylja sem maður tekur ekki til sín. Manns trúarupplifun kemur eiginlega frá manni sjálfum. Ræddi þetta reyndar við kirkjunnar mann um helgina og sú upplifun sem ég hef af "venjulegum messum" sagði hann að væri reyndar nokkuð á undanhaldi. Ég sé að ég þarf að fara að prófa að fara í kirkjur víðar og komast að því hvort þetta er eitthvað að lagast.
Ég var ekkert sammála öllu því sem predikarinn sagði en ég er það ekki heldur í venjulegri messu. Munurinn er sá að mér er eiginlega alveg sama í venjulegu messunni því hlutirnir eru einhvern veginn fjarlægari. Vissulega var þarna fólk sem fýlaði þetta svolítið öflugar en ég en það var ekkert meiri múgæsing en maður sér á tónleikum með Jónsa í Svörtum fötum eða Birgittu. Hún var bara að degi til og fólk almennt edrú.

Er ég á leiðinni í Fíló? Neeiii varla. Er hins vegar alveg til í að fara þarna aftur og hlusta á skemmtilega tónlist. Langar að upplifa alvöru gospelmessu með kór, feitri kerlingu (helst svartri) og alles. Það væri glæsilegt! Þarf reyndar líka að heilsa upp á Örn og Ernu, vini mína í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, en þau eru að gera góða hluti þar í tónlistarmálum.

Já þrusudagur í upphafi sumars. Jesúnæring um morguninn, maganæring og vinanæring um miðjan daginn og aftur Jesúnæring um kvöldið. Maður verður nú ekki öllu nærðari!

Læt þetta duga í bili... Helgin var síðan stútfull (í fleiri en einni merkingu). Meira um það seinna!

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Hrútar, plussklæddir veggir og himnaríki!

Það er sumt fólk sem er alveg ótrúlega fært í mannlegum samskiptum. Svo gott að vinna með því og umgangast það að maður þarf algjörlega að setja sig í verulega stellingar til að geta sagt nei við það. Lenti í því á fundi í dag. Er reyndar kominn í svolitla æfingu með þessa. Maður stillir sig í mjúka "líka ofurgóður í mannlegum samskiptum"-gírinn og segir síðan undurblítt - "Nei".

Viðkomandi er hins vegar eldklár og MJÖG fylgin sér þannig að þessi einstaklingur heldur áfram og kemur sínu máli eins langt og fræðilega er mögulegt. En maður segir bara aftur undurblítt - "Nei"....og svo aftur "Nei, það er því miður ekki hægt"... og þarna sitjum við bæði haus í haus eins og hrútar sem lenda á vegg...sem þrátt fyrir það að vera bæði bólstraður og plussklæddur er ekki að færast sentimeter!

Maður þarf að vera mjög vel undirbúinn fyrir svona fólk og vera með möguleg ágreiningsmál og forsendur ansi vel skilgreindar því annars getur maður ekki annað en lent undir valtaranum. Stórskemmtilegt og mjög þroskandi að fylgjast með svona fólki að störfum.


Sem betur fer er skoðanakönnunin búin. Nú fer púlsinn í vinnunni að hækka all verulega. Tvö samkomulög við sitt hvort stéttarfélagið sem bæði á að borga út um mánaðarmótin og enn ekki búið að skrifa undir annað þeirra. Innihalda launaleiðréttingar aftur til desember 2002, samanlagt til handa næstum þrjú hundruð manns. Er reyndar kominn töluvert af stað með þetta í Excel. Við erum að tala um Excelskjöl dauðans...! 30 sheet hvort skjal, þúsundir og jafnvel tugþúsundir lína og VLOOKUPPUÐ í bak og fyrir. Já, sjaldan er ein báran stök í sjö vindstigum!


Sumardagurinn fyrsti á morgun. Mæti klukkan 9 í skátamessu í Hallgrímskirkju. Messan byrjar klukkan 11 en kórinn þarf að undirbúa sig svolítið áður. Gaman en síðan tekur enn meiri hamingja við!

Klukkan tólf er ég nefnilega boðinn í matveislu aldarinnar!!!!! Hlakka ekkert smávegis til! Hvorki meira né minna en æfing hjá kokkalandsliðinu...ég er ekki að grínast, gott fólk! Við erum að tala um hreint himnaríki fyrir Sigurð matmann! Segi ykkur meira frá því á morgun!

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Takk fyrir afmæliskveðjurnar!

Vildi bara þakka ykkur innilega fyrir afmæliskveðjurnar sem rigndi yfir mig í gær á öllum mögulegum og ómögulegum formum. Alltaf ljúft til þess að vita einhver sé einhvers staðar að hugsa vel til manns! :)

Afmæliskveðja,

Siggi 1 árs....nei...þrjátíu og eins árs

Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jibbbíííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jei!!!!!


Ég er búinn með skoðanakönnunina!

Mikið var ...að beljan bar í buxurnar á Valdimar!

Búinn að vera að síðan í janúar með tvær stórar skoðanakannanir og var alveg orðinn til í að losna við þetta af bakinu. Kláraði fyrri könnunina í sumarbústaðnum um páskana og byrjaði um leið á þeirri seinni.

Er búinn að vera að til tvö / þrjú á næturna í á aðra viku og var til hálfsex í morgun og kláraði!!!

Var mættur galvaskur á verkefnastjóranámskeið klukkan 9 í morgun. Hélt ég myndi ekki lifa það af en leiðbeinandinn, Dr. Helgi Þór Ingason, var það góður að það reyndist ekkert mál.

Nú er bara út í sólina, kóræfing á eftir og síðan heim að lúlla. Action dagur á morgun!

Æi mikið er ljúft að vera til!!!!

föstudagur, apríl 15, 2005

Allt að gerast!!!

Nú kemst maður betur inn á fertugsaldurinn á mánudaginn. Aldrei hefði ég trúað því fyrir 10 árum síðan að maður yrði ekki orðinn gamall og gugginn kominn á fertugsaldurinn...eða er maður það? Neeeeiii, ég held ekki. Nú er bara að halda dampi næstu 50 árin eða svo!

Minnir mig á textann góða eftir Sverri Stormsker...

Jón Jónsson lést í gær 85 ára að aldri.
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska!

Er annars á seinustu metrunum í Verslókönnun númer tvö í ár. Klára hana vonandi á sunnudaginn eða mánudaginn. Er þá búinn að vera í þessum skoðanakannanbransa síðan í janúar. Jesú minn, hvað ég verð feginn að geta um frjálst höfuð strokið!

Skátaþing um helgina. Leiðum hópavinnu allan laugardaginn. Verður action og mjög skemmtilegt. Er annars að segja mig úr starfsráði. Verð nú að viðurkenna að það veldur nú smá trega í hjartanu. Á samt von á því að það gangi hratt yfir. Slagar samt í þriðjung ævinnar sem ég hef verið í ráðinu, 9 ár, frá 1996! Kominn tími á að hleypa öðrum að. Búinn að læra fullt og koma ýmsu í verk. Vildi alltaf hafa gert meira en svona er þetta bara. Maður mun þurfa aðeins að raða upp á nýtt.

Held það sé reyndar að takast... :) Sýnist ég vera á leiðinni að taka við af Ragga rakara í Skátakórnum. Stóð nú ekki til. Bauð mig fram í stjórnina en ekki formanninn. Síðan er ekki að takast að fá formann þannig að ætli ég tækli það ekki bara. Getur nú varla verið svo rosalegt...famous last words! Hvenær læri ég?

Tók 1. stig í tónfræði í söngskólanum í mánudaginn, veit ekki hvernig gekk en held það hafa bara verið fínt. Hef nú reyndar alltaf haldið það eftir próf og áður en ég hef fengið einkunnirnar! :o) Tek svo líklega 2. stigið 25. apríl eða þar um kring. Ætla alla vega að reyna það. Athuga hvort mér tekst að renna yfir þetta efni á þeim tíma. Maður hefur nú svosem tæklað stærri bækur um flóknara efni á skemmri tíma fyrir próf. Þetta er tiltölulega einfalt svona til að byrja með...vona ég alla vega!

Heyrumst eftir helgina og vonandi EFTIR skoðanakönnun!

mánudagur, apríl 11, 2005

Nei, ég er ekki...

...horfinn af yfirborði jarðar...ennþá!

Verkefni dagsins eru hins vegar svo eitthvað sé nefnt...

...spila fyrir gamla fólkið í hádeginu
...vinna
...tónfræðipróf, 1. stig
...byrja að læra fyrir tónfræðipróf 2. stig sem ég held að verði 25. apríl
...lesa yfir eitthvað á annað hundrað blaðsíður í nokkrum skýrslum og koma þeim frá mér (skoðanakönnun 2)
...ætlaði að skreppa og dansa aðeins í kvöld...en er ekki viss um að það gangi eftir...

...læt þetta örblogg því duga í dag.

Skemmtið ykkur í sólinni.

Sigginn

mánudagur, apríl 04, 2005

Úlfarsfell, afmæli og óvænt veisla!

Við systkinin og Ásta Bjarney skelltum okkur á Úlfarsfell á föstudaginn eftir vinnu. Lítið mál - Tekur ca. 2 tíma með því að labba á báða tindana. Ekkert erfitt, fyrst og fremst fín útivera í góðum hópi. Fór beint úr vinnunni með bindið á toppinn. "Svolítið villt en samt snyrtimennskan ávallt í fyrirrúmi" sögðu Stuðmenn á sínum tíma og ákvað ég að gera þau orð að mínum, nú eins og svo oft áður!

Renndi austur á Selfoss á laugardaginn í afmæli til Guðbjargar hans Árna. Alltaf gott að hitta þau. Borðin svignuðu undan kræsingunum og við var að búast á þeim bænum.

Kom við í Holtablóminu á leiðinni. Gaman að koma þangað inn. Orðið bara nokkuð flott og þau með flottar vörur, mikið frá Sia. Svo er þetta vinnustofa líka og gallerí því þær eru listamenn sem eru með búðina núna og selja munina sína í búðinni. Litu vel út. Gaman að sjá að þetta gengur. Sakna þess nú ekki að vera ekki eigandi að blómabúð. Úff, þvílík binding! Ekki fyrir "út um allt" fólk eins og okkur.

Gaman að sjá gamla vini í afmælinu. Anna Guðrún var þarna með Kristjönu Alladóttur, Sigrún og Freyja. Einnig Björn úr Málbjörg sem ég kynntist á Snæfellsnesinu í haust. Skemmtilegt! Kristjönu hef ég ekki séð síðan hún var lítil. Er þar öflug og klár stelpa á ferðinni sem á án efa eftir að láta að sér kveða í framtíðinni.

Prófaði að bjalla í Möggu Völu þegar ég var búinn í afmælinu. Magga Vala og Logi eru semsagt búin að kaupa íbúð á Selfossi. Var boðið í heimsókn og vildi svo til að Logi var að elda páskamáltíðina í þann mund sem ég renndi í hlað. Mér var því óvænt boðið í svakalega þríréttaða veislu og prófaði þar akurhænu í fyrsta sinn. Skemmtilegt og spennandi og alltaf gott að hitta þau bæði. Góðir vinir.

Náði fínum skoðanakönnunardegi á sunnudaginn. Er búinn með Excelhlutann. Nú er næst að henda öllu upp í skýrslur í Word og skrifa texta. Tekst vonandi að klára sem mest í vikunni.

Tónfræði í dag, Siggi söngkennari veikur - aftur! Fór hins vegar í tónfræðina. Tónfræðipróf 1. stig á mánudaginn næsta. Verður vonandi í þetta skiptið. Síðan var hún að tala um hvort ég vildi ekki bara taka 2. stigið líka hálfum mánuði seinna, 25. apríl. Ég sagði að sjálfsögðu "Jújú - ekki málið!". Maður verður bara að tækla þetta og standa við stóru orðin!!!

Hitti líka Kristveigu stórsöngkonu úr Sárum og súrum fótum. Hlakka til að skella mér í Skagafjörðinn með þeim í júlí.

Svo erum við Birna að skipuleggja ættarmót 8.-10. júlí við Vesturhópsvatn í Húnavatnssýslu. Actionsumar í vændum!

Var að spjalla við Badda skáta í kvöld. Þau eru nokkrir krakkar á leiðinni á skátamót í Mozambique um næstu áramót. Algjör snilld!!! Það væri nú ekki mjög slæm hugmynd að skella sér með þeim...neeeeiiii...klára Landsbankann fyrst!

Á meðan lætur maður sig dreyma með því að lesa bloggið hans Hugins. Kappinn er nú staddur í Suður-Ameríku á hraðri leið inn í Amazon (ekki bókabúðina) og ætlar að eyða þar 10 dögum með indjánum. Svona eiga menn að vera!!!

föstudagur, apríl 01, 2005

Úlfarsfell & 1. apríl!

Við Birna og Ásta Bjarney erum á leiðinni á Úlfarsfell klukkan 18! Áhugasamir hvattir til að hafa samband eða mæta á bílastæðið við suðurhlíðina.Besta aprílgabbið var á mbl.is í dag...

Fann upp málið í tilefni dagsins
Norska-íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software ASA ákvað að bregða á leik í tilefni dagsins og sendi frá sér tilkynningu um, að náðst hefði stórmerkur áfangi í þróun samskipta. Hefði fyrirtækið uppgötvað óháða raddtæknilausn fyrir fjarskipti milli einstaklinga sem ekki eru í mikilli fjarlægð hver frá öðrum.

Þegar lesið er í gegnum tækniorðaflauminn í tilkynningunni kemur í ljós, að fyrirtækið sagðist hafa uppgötvað talmálið.

Opera segir í tilkynningunni, að þessi merka uppgötvun, sem nefndist Opera SoundWave, dragi 30 metra og hægt sé að beita henni án sérstaks búnaðar, t.d. með því spyrja einhvern nærstaddan spurningar eins og: Er 1. apríl í dag?

Ef lesendur eru engu nær eftir að hafa lesið þetta er upplýst í tilkynningunni, að einkaréttarvarða P2P taltæknin noti hliðræn merki sem berist gegnum loftið og þannig geti notendur átt samskipti í rauntíma án aðstoðar tölva eða farsíma.

Síðan er því lýst hvernig SoundWave tæknin hafi verið uppgötvuð þegar tæknimaður hjá Opera sagði eitthvað og gerði sér grein fyrir því að félagar hans skildu hann.

„Eins og flestir aðrir hef ég notað tölvupóst sem aðalsamskiptaleið í mörg ár og komist að raun um að hún er ekki 100% örugg," segir Trond Werner Hansen, tæknimaður, í tilkynningunni. „SoundWave hefur opnað fyrir mér nýjan heim, mér tekst að vinna störfin hraðar og betur en áður - og það er ótrúlega auðvelt að nota þessa tækni."

Í lokin er lesendum boðið að smella á nettengil til að skoða Opera SoundWave betur. Þá opnast netsíða þar sem eftirfarandi tilkynning birtist: „Til að fá sýnishorn af SoundWave P2P rauntímaraddartækni er nóg að spyrja einhvern í nágrenninu eftirfarandi spurningar: „Hvaða dagur er í dag?" SoundWave-síða Opera