Hrútar, plussklæddir veggir og himnaríki!
Það er sumt fólk sem er alveg ótrúlega fært í mannlegum samskiptum. Svo gott að vinna með því og umgangast það að maður þarf algjörlega að setja sig í verulega stellingar til að geta sagt nei við það. Lenti í því á fundi í dag. Er reyndar kominn í svolitla æfingu með þessa. Maður stillir sig í mjúka "líka ofurgóður í mannlegum samskiptum"-gírinn og segir síðan undurblítt - "Nei".
Viðkomandi er hins vegar eldklár og MJÖG fylgin sér þannig að þessi einstaklingur heldur áfram og kemur sínu máli eins langt og fræðilega er mögulegt. En maður segir bara aftur undurblítt - "Nei"....og svo aftur "Nei, það er því miður ekki hægt"... og þarna sitjum við bæði haus í haus eins og hrútar sem lenda á vegg...sem þrátt fyrir það að vera bæði bólstraður og plussklæddur er ekki að færast sentimeter!
Maður þarf að vera mjög vel undirbúinn fyrir svona fólk og vera með möguleg ágreiningsmál og forsendur ansi vel skilgreindar því annars getur maður ekki annað en lent undir valtaranum. Stórskemmtilegt og mjög þroskandi að fylgjast með svona fólki að störfum.
Sem betur fer er skoðanakönnunin búin. Nú fer púlsinn í vinnunni að hækka all verulega. Tvö samkomulög við sitt hvort stéttarfélagið sem bæði á að borga út um mánaðarmótin og enn ekki búið að skrifa undir annað þeirra. Innihalda launaleiðréttingar aftur til desember 2002, samanlagt til handa næstum þrjú hundruð manns. Er reyndar kominn töluvert af stað með þetta í Excel. Við erum að tala um Excelskjöl dauðans...! 30 sheet hvort skjal, þúsundir og jafnvel tugþúsundir lína og VLOOKUPPUÐ í bak og fyrir. Já, sjaldan er ein báran stök í sjö vindstigum!
Sumardagurinn fyrsti á morgun. Mæti klukkan 9 í skátamessu í Hallgrímskirkju. Messan byrjar klukkan 11 en kórinn þarf að undirbúa sig svolítið áður. Gaman en síðan tekur enn meiri hamingja við!
Klukkan tólf er ég nefnilega boðinn í matveislu aldarinnar!!!!! Hlakka ekkert smávegis til! Hvorki meira né minna en æfing hjá kokkalandsliðinu...ég er ekki að grínast, gott fólk! Við erum að tala um hreint himnaríki fyrir Sigurð matmann! Segi ykkur meira frá því á morgun!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home