þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ætli nokkur nenni að tefla við páfann næstu árin!

Magnað með þetta páfakjör. Þarna er kosinn maður sem er svo út úr kú að það hálfa væri nóg. Hann er algjörlega úr tengslum við samfélagið eins og reyndar kaþólska kirkjan sem stofnun. Fólkið náttúrlega finnur sem betur fer sínar leiðir en þó ekki nægilega.

Ein vel valin samsæriskenning er sú að vegna þess að kaþólska kirkjan sé ekki tilbúin í breytingar (Ekki tilbúin að skipta á lífi nokkurra milljóna alnæmissjúklinga og smokknum...fóstureyðingar...hommar...kvenprestar og aðrir skelfingarþættir sem ógnað gætu heiminum...) þá hafi verið fenginn þarna háaldraður ofurharðlínumaður sem mun þess vegna haga sér extra ansalega næstu árin og fá alla upp á móti sér.

Fyrsta skrefið í breytingastjórnun er að sannfæra lýðinn um að það sé yfirhöfuð nauðsynlegt að breyta einhverju. Þetta tryggi vonandi að þegar hann geyspar golunni (sem væntanlega verður eftir skikkanlega stuttan tíma þar sem hann er jú 78 ára gamall) þá verði kaþólska kirkjan búin að fá endanlega nóg af þessari vitleysu og verði loksins til í breytingar.

Hann olli ekki heldur vonbrigðum í fyrstu messunni sinni þegar hann hvatti alla kristna menn á sinn ofurdiplómatíska máta til að sameinast. Það eina sem þeir þyrftu að gera væri að hugsa eins og hann sjálfur og safnast allir undir hans eigin stjórn. Vá! ...og svei mér þá ef manninum var ekki bara alvara!

1 Comments:

At 27.4.2005, 17:11, Anonymous Nafnlaus said...

Það er eitthvað við þýskan mann predikandi orðið yfir stórum hópi fólks sem vekur hjá mér ugg...

= Y =

 

Skrifa ummæli

<< Home