fimmtudagur, mars 31, 2005

Verzlókönnun númer eitt loksins búin!

Aaahhhhh....þvílíkur léttir! Búinn að vera með þetta á öxlunum síðan í janúar! Alltaf gott þegar maður tekur svona bakpoka af öxlunum og leggur hann frá sér vitandi það að maður þarf ekki að taka hann upp aftur...alla vega ekki á næstunni.

Var reyndar kominn með nýtt verkefni, Verzlókönnun númer tvö, áður en númer eitt lauk. Er nú oftast reyndin. Merkilegt hvað þetta gerist bara einhvern veginn sjálfvirkt!

Þó smáminnkun í bili. Er búinn að segja mig úr starfsráði BÍS frá og með skátaþingi núna í apríl. Líklega kominn tími til, búinn að vera í ráðinu síðan 1996...og geri aðrir betur! Mjög spennandi tími og maður hefur lært mjög margt um mjög margt. Skoðar þetta kannski einhvern tímann seinna...þegar maður hefur lítið að gera!

Reyndi í gær að reyna að panta mér flug til Köpen og áfram til Álaborgar fyrrihluta maí. Fékk ekkert flug á minna en 25-30 þúsund, hvori hjá Icelandair né Iceland Express! Fáránlegt! Steini, ég prófaði líka hjá þér og það var ekkert undir 20.900 plús skattar. Eru engin svona "special-price-for-you-my-friend" tilboð á Flugleiðavefnum? Er ekki til eitthvað www.icelandair.is/notasexpensiveasyoumightthink

Föstudagur á morgun...strax...vikan var að byrja! Afmæli hjá Guðbjörgu á Selfossi á laugardaginn. Það verður gaman. Hlakka til að hitta gott fólk...Long time no see.

Áætlun að öðru leyti fyrir helgina: Skoðanakönnun...Hljómar kunnuglega...nema að þessu sinni...númer tvö!

miðvikudagur, mars 30, 2005

Afmælisdagur í Danmörku, páskar, Fischer og fleira...

Í dag eru nákvæmlega 7 ár síðan Kristófer Helgi stórtöffari og þar með lifandi eftirmynd föður síns, kom í heiminn. Heyrði í karlinum áðan. Alltaf gott að heyra röddina. Var sáttur en jafnframt dasaður enda búið að vera afmæli í gangi í fjóra klukkutíma eða svo. Fékk fullt af gjöfum, línuskauta, tjald í garðinn, íþróttagalla, Bionicle karla, Pokemon kúlu og ýmislegt fleira. Þá höfðu hann og Birna systir komist að því samkomulagi að það yrði haldið síðbúið afmæli þegar hann kæmi til Íslands í sumar...ekki málið!

Heyrði líka í Gunnu í dag frá Brussel...allt í fínu formi þar. Var nýbúin að komast að óvæntri sérstöðu sinni, þ.e. að hún væri í blóðflokknum AB mínus. Úff, skyndilega fannst mér ég hræðilega normal verandi bara í A plús eins og allir hinir. Ólíklegt að það standi til bóta.

Gaman að fá comment frá Laufeyju. Komdu fagnandi og til hamingju með tilvonandi Sálaraðdáandann. Það mætti vera svakaleg stökkbreyting á geni eigi barnið ekki eftir að fýla og syngja með Sálinni út í eitt!!

Naut páskanna í sveitinni. Tók bústað á leigu í Straumnesi við Úlfljótsvatn og var þar í einbeitingarbúðum (concentration camps) frá fimmtudegi fram á mánudag við að koma frá mér skoðanakönnununum, þ.e. númer 1 og númer 2. Kláraði loksins númer eitt - Jibbíííí!!!! Held ég hafi lofað því fyrst í janúar einhvern tímann eða í byrjun febrúar. Þvílík skelfileg vinna! Er búinn að prenta út, á eftir að lesa síðustu skýrsluna yfir aftur útprentaða, binda hana inn og senda hana frá mér. Geri það á eftir. Loksins - Úff úff úff! Komst töluvert af stað með skoðanakönnun númer 2. Þarf að reyna að ná að klára hana á næstu viku til tíu dögum. Hún er öll fljótlegri og meðfærilegri...held ég hafi líka sagt þetta um hina - í janúar!

Þetta varð nú ekkert mjög rólegt þótt ég hafi verið þarna einn að mestu leyti til að byrja með. Pabbi og mamma komu í stutt kaffi á föstudaginn langa; Ásta, Unnur og Guðrún komu ásamt tveimur Norðmönnum, Bengt og Daníel, á laugardaginn. Grill, pottur, gítar, rólegheit og fínerí. Frábært! Flestir heim á sunnudag og Nojararnir meira að segja með fyrstu vél til Noregs. Unnur varð eftir fram á mánudag og ég hélt áfram að vinna.

Fórum reyndar út að viðra okkur á sunnudeginum og enduðum úti á bát. Alltaf skemmtileg tilbreyting. Nokkur ár síðan maður hefur farið út á bát á Úlfljótsvatni. Fann þarna óvart bát, mótor og allar græjur í bátaskýlinu. Veðrið var snilld þannig að það var látið vaða og eftir nokkuð brölt var allt farið að fljóta og mótorinn meira að segja kominn í gang! Gekk allt eins og í sögu þangað til mér gekk svolítið illa að drepa á honum aftur. Það lagaðist samt um leið og við STOP-takkinn fórum að fá betri tilfinningu hvor fyrir öðrum. Um kvöldið var önnur ofursteik að hætti hússins þar sem ýmis trix voru prófuð. Mjög gott að grilla kartöflur og bræða gráðost ofan á þær á grillinu. Líka fínt að steikja grænmeti upp úr vatni! Afbragð...föttuðum nefnilega að það var engin matarolía í húsinu. Þetta var líka miklu betra!

Fínt að vera svona einn í bústað þótt það sé auðvitað líka fínt að hafa skemmtilegt fólk í kringum sig. Tók allnokkrar söngskólaaríur um helgina ásamt slatta af gítarsessjónum í bland við skoðanakönnunina. Labbaði einnig yfir að Þingvallavatni og skoðaði Skinnhúfuhelli. Hef líklega ekki komið í hann síðan ég var í sumarbúðunum í gamla daga, líklega 15-20 ár síðan. Vá!

Er búinn að komast að því (svosem ekki í fyrsta sinn) að ég er ekkert sérstaklega góður innkaupastjóri. Keypti inn mat fyrir páskana sem hefði dugað Eþíópíufjölskyldu fram að jólum og kom með stóran hluta af honum í bæinn aftur. Ég hlýt að hafa farið svangur í Bónus! Alveg bannað!

Fór Nesjavallaveginn heim. Gróðurhúsáhrifin virðast hafa opnað hann í mars þetta árið. Það man ég ekki eftir að hafi gerst áður. Við ættum kannski að skoða það mál eitthvað nánar.

Var upptekinn í gærkvöldi. Skátakórinn byrjaði að taka upp disk sem kemur að öllum líkindum út með vorinu fyrir landsmótið í sumar. Tókum upp tvö lög í fríkirkjunni í Hafnarfirði og höldum áfram á þriðjudaginn.


Fischer karlinn er kominn til landsins og þegar farinn að kasta sprengjum. Það er nú reyndar gott að vita af því að hann er ekki lokaður lengur inn í japönsku fangelsi í níu mánuði fyrir það eitt að tefla skák. Veit ekki hvor hafði sig að meira fífli hann eða Wiesenthal stofnunin sem svaraði honum í heimspressunni! Þetta á að heita virt stofnun sem er í fjölmiðlasamskiptum allt árið og því með mikla reynslu á því sviði. Hvernig dettur þeim í hug að svara manni sem allir vita að er fárveikur rugludallur? Maður svarar ekki svoleiðis og málið fellur dautt niður þar sem enginn hlustar á hann hvort eð er vegna þess að hann er jú fársjúkur blessaður maðurinn. Þeir ættu frekar að eyða orkunni í að losa heiminn við útrýmingarbúðirnar á Guantanamo. Þar ætti þeim nú að renna blóðið til skyldunnar og frelsa þá sem þar hafa verið ólöglega í haldi án dóms og laga í þrjú ár...og hananú!!!

Jæja...action paction...nú kýlir maður skoðanakönnun númer 1 á algjöra endastöð og númer 2 nær sinni endastöð! Adíos Amigos!

fimmtudagur, mars 24, 2005

Góðir Íslendingar, til hamingju með nýjasta öryrkjan ykkar!

Já, vegir Davíðs eru órannsakanlegir!

Hugsið ykkur...það er svo mikið góðæri núna að viðskiptahallinn er næstum því orðinn lóðréttur, svo mikið kaupum við inn í landið af ýmiss konar varningi. Á öðru hverju götuhorni eru sprottin upp bílaumboð sem flytja inn Porsche, Benz og BMW, Lexus og aðrar eðalsjálfrennireiðar í áður óþekktu magni. Íbúðaverð hækkar lóðrétt og Íslendingar eru í óða önn með að kaupa upp Bretland. Til að kóróna allt saman, auka notkun á allt of miklu fjármununum okkar og væntanlega draga úr þennslu höfum við nú tekið upp innflutning á öryrkjum frá Japan.

Hvaða húmor er þetta að sækja Fischer rugludall um hálfan hnöttinn? Við erum í stólpavandræðum með að halda utan um alíslenska geðsjúklinga og hef ég sjálfur kynnst sem aðstandandi að þar stöndum við okkur ekki mjög vel. Þá dettur Davíð í hug að flytja einn frægasta geðsjúkling heims til landsins alla leið frá Japan.

Reyndar það sem gerir þetta skemmtilegt er að þetta er í andstöðu við Bandaríkjamenn og okkur finnst alltaf skemmtilegt að skella á nefið á stóru þjóðunum. Munið þið þegar aðstoðarforsætisráðherra Taiwan kom hingað fyrir ekki mjög mörgum árum? Þá mótmæltu Kínverjar harðlega (eins og þeir gera líklega alls staðar þar sem hann fer). Þau mótmæli hleyptu Íslendingum kapp í kinn og við tókum á móti þessum manni eins og hann væri æskuvinur okkar og hann varð skyndilega miklu velkomnari en hann hefði nokkurn tímann orðið án kvartana Kínverja - auðvitað bara til þess að gefa Kínverjum langt nef. Nú gerum við það sama við Fischer.

Þeir sem ekki þekkja sögu Taiwan þá er það lítil eyja undan ströndum Kína sem ákvað upp á sitt einsdæmi að gerast sjálfstæð og stofna "Lýðveldið Kína" (e. Republic of China) í staðinn fyrir "Alþýðulýðveldið Kína" (e. People's Republic of China) sem er formlega nafnið á stóra bróður. Kínverjum var ekki skemmt en þetta var í miðju kalda stríðinu og Bandaríkjamenn tóku Taiwana upp á sína arma af því Kínverjar voru kommar og því "vondi karlinn". Kínverjar létu gott heita en hafa alla tíð verið hundfúlir út í Taiwan. Þeir hafa aldrei viðurkennt Taiwan sem sjálfstætt ríki heldur halda því fram enn þann dag í dag að Taiwan sé í raun og veru hluti af alþýðulýðveldinu Kína.

En aftur að Fischer...af hverju Fischer? Hvað er svona merkilegt við Fischer?

Hann er einn af þessu svokölluðu "Íslandsvinum", fólki sem hefur komið hingað í viðskiptaferð í nokkra daga, haldið tónleika, sýningar, keppt á íþróttaviðburðum o.s.frv. og fengið greitt fullt af peningum fyrir áður en það fór aftur heim. Fischer kom í svona heimsókn 1972 þegar hann keppti við Spassky um heimsmeistaratitilinn í skák, Bandaríkjamaður við Rússa í kalda stríðinu miðju. Þeir hittust síðan aftur félagarnir í Svartfjallalandi eða einhverjum af þessum Balkanlöndum (gömlu Júgóslavíu) árið 1992 til að fagna 20 ára afmæli einvígisins og vekja athygli á stríðsástandinu í Júgó sem þá var. Þá var í gangi viðskiptabann á þetta svæði sem Fischer lét lönd og leið og síðan hefur hann verið á flótta undan Bandaríkjamönnum sem hafa birt á hann kæru fyrir að rjúfa viðskiptabannið með því að keppa þarna 1992. Þvílíkt bull!

Við tökum því við karlinum eins og hann sé þjóðhöfðingi enda er stóri feiti strákurinn í götunni með kúrekahattinn að nýðast á vini okkar og því tökum við hann upp á okkar arma. Þýðir þetta að við ætlum að beila alla Íslandsvini út úr fangelsum um alla heim og enda sem einhvers konar "celebrity fangaeyja"? Fullir hljómsveitarmeðlimir sem komu hingað einhvern tímann á undanförnum áratugum geta hringt í Dabba þegar þeim er stungið inn á fylleríi víðs vegar um heim og beðið hann um að senda þeim passa. "Ekkert mál strákar, þið eruð nú einu sinni Íslandsvinir - ha!", segir Dabbi og afgreiðir málið með forgangshraði.

Fischer er ekkert merkilegri en allir hinir "Íslandsvinirnir". Það er alltaf talað um að hann sé í sérstöku sambandi við land og þjóð - ekki hef ég tekið eftir því! Gæinn hefur alla vega ekki dottið í hug að koma í heimsókn og rækta sambandið í heil 30 ár!!!

Hvað gerist síðan þegar hann kemur til landsins? Þarf þá að greiða honum eins og öðrum stórmeisturum laun frá ríkinu til að hann geti stundað skákina (sem hann hefur ekki stundað í 15 ár). Bíðið bara, hann er kjaftforari en allt sem kjaftfort er og innan nokkurra mánaða verður hann farinn að kvarta yfir lágum örorkubótum á Íslandi. Það er kannski ástæðan fyrir því að Garðar, fyrrverandi framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins og óvinur Davíðs nr. 1 er í vinahóp Fischers. Hann hugsar sér gott til glóðarinnar að fá til landsins háværan "celebrity" öryrkja sem gæti orðið öflugur fyrir málstaðinn. Já, það eru margar athyglisverðar hliðar á þessu máli - og engin eðlileg eða skiljanleg.

Úr því sem komið er verðum við bara að vona að karlgreyinu eigi eftir að líða hér þokkalega vel með sinni japönsku konu en að hann verði ekki bara til vandræða.

En hver skyldi vera næstur? Kannski við ættum að bjóða Karli Bretaprins og nýju konunni hæli eða Michael Jackson!

Svo er náttúrlega enn einn möguleiki; Kannski ætlar Dabbi bara að lokka hann til landsins og skipta síðan á honum við Bandaríkjamenn og nokkrum F15 þotum í Keflavík...Vegir Davíðs eru órannsakanlegir!

miðvikudagur, mars 23, 2005

Bloggið komið í lag...Sumarbústaðaferð frestað til morguns...

Nú virðist bloggið mitt vera komið aftur í lag. Hægri vængurinn hafði dottið niður fyrir textaboddýið en er nú kominn aftur á sinn stað. Veit ekki hverju ég á að þakka þennan óvænta bata en ég sendi Hr. Blogger.com póst og bað hann um að aðstoða mig. Gef mér að hann hafi kippt þessu í liðinn. Sé svo verð ég nú að hrósa þeim fyrir snilldarþjónustu. Hlýtur að vera ansi mikil vinna að svara öllum póstum sem þeir fá í inboxið sitt alls staðar að úr heiminum!

Skrítið annars þetta bloggdæmi. Hvar er gróðinn við það að láta mig og milljón aðra hafa aðgang að fríu vefsvæði? Þeir hafa ekki einu sinni klínt auglýsingu inn á bloggið hjá manni eins og þeir íslensku gera á folk.is. Þar sér maður mögulega viðskiptahugmynd en ég skil ekki alveg hver borgar brúsann í þessu www.blogger.com. Þarf væntanlega engan smá server til að halda þessu dæmi gangandi út um allan heim. Skilst að þetta hafi byrjað sem eitthvað fikt en óboj óboj þetta er sko ekkert fikt í dag heldur meiriháttar dæmi með kostnaði upp á tugi eða hundruð milljóna á ári. Ef þið vitið hvar herra blogger.com fær tekjurnar sýnir deilið því með okkur. Örugglega athyglisvert.

Seinkaði sumarbústaðarferð til morguns. Þarf að grunnvinna gagnaskránna fyrir Verzlókönnun 2 og það er miklu betra að gera það í bænum þannig að hægt sé að keyra hana í gegnum SPSS áður en ég fer með allt saman austur og vinn úr því. Er með SPSS hérna í bænum en ekki á fartölvunni. Fyrsta verk á morgun, eftir sturtu og Cheerios, verður því að þeysast út á landsbyggðina í bústað 4 í Straumnesi við Úlfljótsvatn. Hlakka til - Það verður ljúft!

Skellti mér annars á skátakóræfingu í gær. Upptaka á nýjum diski hefst næstkomandi þriðjudag í fríkirkjunni í Hafnarfirði. Þá verður maður...tja...upptekinn.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Clint Eastwood & sumarbústaður um páskana

Fór á "Million Dollar Baby" með Clint Eastwood í gær. Mjög flott mynd og gerði mikið meira en að standa undir væntingum, alla vega hjá mér. Þau voru þarna þrjú sem málið snérist um leikin af Clint sjálfum, Hillary Swank sem lék box stelpuna og Morgan Freeman sem lék aðstoðarmanninn í boxgymminu. Þau voru frábær enda hrepptu þau öll óskarinn fyrir frammistöðu sína minnir mig. Handritið er snilld og tekur margar óvæntar beygjur og teygjur er í senn mannlegt og spennandi. Þetta er mjög góð mynd og ég mæli eindregið með henni. Ef þið ætlið á eina mynd á næstunni þá er þessi mjög góður kostur! Clint verður alltaf betri og betri leikstjóri og alveg eins og í vestrunum í gamla daga þá veit hann að það er ekki alltaf hvað er sagt heldur hvernig hlutirnir eru sagðir sem skiptir máli. Hann er snillingur í að nota þagnir sem margfalda áhrif augnabliksins. Meistari! Ég þarf auðsjáanlega að finna fleiri myndir með honum. Held ég sé t.d. ekki búinn að sjá Mystic River. Langar líka að sjá fleiri myndir t.d. Ray um Ray Charles. Ef ÞÚ ert ekki búin(n) að sjá Ray en langar bjallaðu þá og kýlum á það!

Fer einn í sumarbústað í Straumnesi við Úlfljótsvatn (við hliðina á Steingrímsstöð) um páskana. Vinnubúðir - Einbeitingarbúðir (Concentration Camps) eins og Hitler kallaði þetta. Ætla að nota tímann þessa daga til að klára skoðanakannanirnar báðar. Þeir ættu að duga til þess. Verður mikið ljúft að vera búinn með þær. Unnur og hugsanlega fleiri mæta á svæðið seinni partinn á laugardaginn og verður þá grillað af miklum móð. Mér er sagt að verði ég ekki búinn með skoðanakönnunina þá fái ég ekkert að borða. Eins gott að standa sig!

Allir velkomnir að kíkja við um helgina og skella sér í pottinn!

Er að spá í að renna annað kvöld (miðvikudagskvöld) á Úlfljótsvatn í páskaútilegu Skjöldunga, borða með þeim góðan mat, fylgjast með litlu englunum vígjast inn í skátafjölskyldu heimsins og vera á kvöldvökunni með þeim áður en ég renni í bústaðinn við hinn enda vatnsins. Væri nú skemmtilegt - ótrúlega mikil orka alltaf í kringum unglinga í action!

mánudagur, mars 21, 2005

Kruss, Kross og páskaegg!

Kröftug helgi að baki og fullt af óvenjulegum uppákomum.

Skellti mér á félagsvist með Hönnunardeildinni hjá OR á föstudagskvöldið. Þetta er árlegur viðburður; spil, öl og matur. Rúmlega 55 manns mætti í félagsheimilið niður í Elliðaárdal og var spilað á 13 borðum. Þetta var mjög skemmtilegt. Maður hitti fullt af fólki af því maður flyst á milli borða og spilar eiginlega við alla. Ég mundi nú ekki alveg hvernig þetta var þegar ég mætti enda held ég að ég hafði seinast spilað félagsvist þegar ég fór ca. 11 ára með pabba og mömmu á félagsvist hjá starfsmannafélagi ÁTVR þegar pabbi vann þar. Það var, já líklega í kringum 1985. Það er skemmst frá því að segja að yðar einlægur fór með sigur af hólmi í þessari merku keppni og var það vegsemd sem kom mér VERULEGA á óvart enda ekki mikill spilamaður. Mun því koma sterkur inn í félagsstarf aldraðra þegar þar að kemur! Verðlaunin voru forláta páskaegg af stærstu gerð og var þess neitt á staðnum. Páskaeggið rann ljúflega niður með gítarspili og söng. Sátum nokkur hópur og sungum í svolítinn tíma og tókst með því að hrekja ótrúlegan fjölda fólks út á ótrúlega skömmum tíma. Maður ætti að taka að sér að gerast útkastari!

Hannes bróðir hafði beðið mig um að skutla þeim í sumarbústaðinn þeirra í Húsafelli á laugardaginn og sækja þau á sunnudaginn. "Ekkert mál" sagði ég en það má eiginlega segja að helgin hafi farið í þetta! Tók sex klukkutíma með öllu á laugardeginum og aðra sex á sunnudagskvöldinu, samtals tæpa 600 kílómetra. Fékk þó glæsilegan hamborgarahrygg a la Rósa hans Hannesar í matinn á laugardaginn. Maður keyrir nú 600 km fyrir það! Bústaðurinn þeirra er hins vegar hin hlýlegasti og ágætt að eiga hann inni ef í harðbakkan slær í sumarbústaðarmálum.

Náði í bæinn fyrir kvöldmat á laugardaginn og skellti mér með Ástu á tónleika um kvöldið. Þar var maður heldur betur að stíga inn í tja...athyglisverðan heim því tónleikarnir voru í Krossinum í Kópavogi. Úff, alltaf athyglisvert að prófa eitthvað nýtt. Reyndar var þetta nú ekki jafnskelfilegt og maður var búinn að búa sig undir enda um að ræða opna tónleika en ekki samkomu. Maður hoppar út í djúpu laugina einhvern tímann seinna og athugar hvort maður lifi það af. Um var að ræða útgáfutónleika Írisar Verudóttur sem var að gefa út gospeldisk. Stelpan er þrususöngkona og mikið af þessum lögum voru mjög flott. Tónleikarnir var því mjög góðir og Írisi tókst að skapa mjög heimilislega og þægilega stemningu þar sem hún hálfsat kasólétt uppi á sviði, án þess þó að slaka nokkuð á tónlistarlegu kröfunum eða frammistöðunni. Semsagt mjög fínt og ekki að sakaði að Haffi, starfsmaður hagmála OR spilaði á bassa og gerði það með glans.

Eftir tónleikana fengum við okkur svo ís, rúntuðum, fundum Unni niðri í bæ og fórum á kaffihús. Fínt kvöld.

Fyrri hluti sunnudagsins (fyrir sumarbústaðaferð) fór í að kaupa afmælisgjöf handa Kristófer sem ég þarf að koma í póst til Danaveldis en kappinn fyllir sjöunda árið þann 30. mars. Það sem ég keypti var....nei....má ekki segja!

Annars gaman að heyra í Bryndís Ösp í gestabókinni. Endilega skiljið eftir skilaboð ef þið eigið leið hjá!

Var annars að boða HR-hitting í hádeginu þann 7. apríl á Sjanghæ við Laugaveginn. Það verður gaman að hitta hópinn, þ.e. þá sem ekki eru á fæðingardeildinni eða í útlöndum akkúrat þann daginn. Hópurinn er að standa sig með prýði við uppbyggingu á framtíð landsins enda gerir hann flest almennilega sem hann gerir á annað borð.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Verzlókönnun - Part II Ný Vaka komin í heiminn!

Þá hefur nú stór-Skjöldungunum fjölgað um einn. Vaka vinkona Ágústsdóttir skáti og Orkuveitupía eignaðist 14 marka stelpu á mánudaginn. Nú spretta börn fram úr öllum hornum hjá vinum og kunningjum. Fullt af þeim komin og fullt af þeim á leiðinni allt í kringum mann. Skemmtilegt - Væntanlega aldurinn. Eftir slatta af árum verða allir vinir manns haldandi fermingarveislur, þá giftingarveislur, farnir að tala um barnabörnin og loks farnir að mæta í jarðafarir 15 sinnum á ári. Já, að sumu leyti er lífið svolítið fyrirsjáanlegt...og þó ekki!

Eyddi annars fyrri hluta kvölds í að slá inn Verzlókönnun númer 2 í ár. Ekki það að ég sé ekki kominn með upp í kok af Verzlókönnun númer 1 en þar sem ég er að klára seinustu skýrsluna þar þá tók ég að mér aðra. Jibbíííí... Þessi er hins vegar verulega meðfærilegri en hin stóra. Verður þó fullt af vinnu. Merkilegt hvað Mammon getur dregið mann úti í!
Reyndar alltaf mjög gaman að koma upp í Verzló. Ofsalega góður kraftur í því húsi og krökkunum þar. Enda eru þeir ánægðir með skólann sinn. Skamkvæmt könnuninni voru 77,8% Verzlinga frekar eða mjög ánægðir með námið....geri aðrir skólar betur.
Var með eitthvað á bilinu 10-15 manns áðan sem sló inn hátt á fimmtánda hundrað spurningalista inn í fína Accessformið mitt á fjórum tímum eða svo. Verulega vel að verki staðið.

Jæja, best að rumpa Verzlókönnun nr. 1 af...!

Kíkið á þetta...stjórnmálaflokkarnir ættu kannski að fá þessa til að sjá um kynningarmálin fyrir sig.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Sumarið er tíminn!

Nú er sumarið smám saman að taka á sig mynd, alla vega svona stærri viðburðir.

Maður verður væntanlega samkvæmt hefð í Jónsmessugöngu Útivistar yfir Fimmvörðuháls um Jónsmessuna sem er seinasta helgin í júní með tilheyrandi varðeldum og gleði.

Þá erum við systkinin, ég og Birna, að ýta af stað undirbúningi fyrir "lítið" ættarmót með afkomendum afa og ömmu og verður það vætanlega haldið í Húnavatnssýslunni í fyrstu eða aðra helgina í júlí.

Gönguhópurinn "Sárir og súrir fætur" munu leggja undir sig Skagafjörð og nágrenni frá 14.-19. júlí og verði sú ferð eitthvað í líkingu við Hornstrandaferðina í fyrra þá er von á góðu. Ferðin er óvissuferð og treystum við þeim Kristbjörgu og -veigu til þess að leiða okkur í hæfilegar ógöngur en tryggja það jafnframt að þær leiði okkur út úr þeim aftur.

Þá er ferðinni heitið beinustu leið á Úlfljótsvatn þar sem landsmót skáta verður haldið 19.-26. júlí. Það er náttúrlega bara snilld og verður án efa um að ræða stórkostlega viku.

Lokahnykkurinn í núþegarskipulögðum stórviðburðum sumarsins verður 30 ára afmælisferð Útivistar og er ég búinn að skrá mig í samsetta ferð frá 21.-28. ágúst þar sem byrjað verður að ganga gönguleiðina Sveinstind-Skælinga, haldið áfram Strútsstíg að Strút og að lokum áfram niður í Bása þar sem afmælishátíð Útivistar verður í hámarki þegar við komum á svæðið. Þetta verður náttúrlega stórkostleg ferð um stórkostleg svæði þar sem byrjað verður við Sveinstind nálægt Langasjó og endað í Básum.

Fyrir utan þetta verður Kristófer á landinu meira og minna í allt sumar og því ótæmandi tilefni til skemmtilegheita.

...og það er bara mars ennþá! Stefnir allt í snilldarsumar!

Ísland - sækjum það heim!

Gildur limur...loksins!!!

Skellti mér í ræktina í morgun!!! Jibbbíííí...Það þýðir að nú er fjöldi heimsókna næstum því orðinn jafn hár og fjöldi mánaða sem ég hef greitt af kortinu! Nú er bara málið að halda dampi...kannski þó ekki sama dampi og áður. :) Ég er því hægt og bítandi að verða "gildur limur í sportamannafjelaginu" eins og Færeyingarnir myndu orða það í stað þess að vera bara styrktarmeðlimur - sem er þó vissulega göfugt hlutskipti.

Fyrstastigsprófið í tónfræði féll hins vegar niður á mánudaginn...átti reyndar held ég aldrei að vera. Við vorum tveir og skildum báðir orð kennarans þannig að það ætti að vera próf á mánudaginn. Ég held hins vegar að hún hafi bara verið að blekkja okkur til að læra heima og beitt fyrir sér tungumálamisskilningi...hún er nefnilega Tékki að ég held og talar svolítið bjagaða íslensku.
Var hins vegar ágætlega undirbúinn og hefði alveg tæklað þetta próf. Bíð því spenntur eftir því að vera þrykkt í prófið eftir páska. Byrja bara á 2. stigi strax og klára 1. stigsprófið þegar kennaranum dettur í hug.

mánudagur, mars 14, 2005

Úff próf á eftir...

Próf á eftir. Leið eins og í gamla daga þegar ég settist loks niður klukkan tíu í gærkvöldi, fór að lesa yfir dótið og komst að því að þetta var nú AÐEINS meira heldur en mér hafði minnt!

Komst þó í gegnum allt og í rúmið um tvöleytið. Um er að ræða tónfræði, 1. stig í söngskólanum. Bara nokkuð skemmtilegt. Ætla að reyna að vera duglegri að læra á 2. stiginu....hljómar kunnuglega....en einhvern veginn slampaðist maður nú í gegnum þetta. Hefði þó viljað standa mig betur og almennt sofa meira fyrir próf á minni skólagöngu. Læri það vonandi þegar maður fer í masterinn!

Jæja, best að fara að skella sér...þið hrækið á eftir mér ef ég mæti ykkur á Miklubrautinni!...en þó ekki á nýja fína bílinn minn!

föstudagur, mars 11, 2005

Hefur bloggið mitt fitnað?

Segið mér...birtist bloggið mitt á skjánum hjá ykkur eins og hjá mér. Þ.e. að linkalistinn og allt sem á að vera hægra megin dettur niður fyrir skrifaða "body" svæðið í staðinn fyrir að vera á sínum stað á hægri vængnum?

Er þetta af því að bodysvæðið hefur breikkað og þess vegna dettur hitt niður eða af því að heildarsvæðið hefur mjókkað og þess vegna datt þetta niður? Vitið þið hvernig þetta gerist? Hjálp eða ráðleggingar varðandi lagfæringar væru vel þegnar.

Hólmurinn, fellið og fleira!

Já, við Birna systir renndum í Stykkishólm í gær. Frábær túr og nýja Fiestan stóð sig með miklum sóma. Það er ótrúlega auðvelt að renna þarna vestur. Þetta eru ca. 170 km. hvora leið og vorum við ca. klukkutíma og þrjúkorter hvora leið, allt á malbiki, breiðir og góðir vegir, gott veður, góður félagsskapur, Hörður Torfa í spilaranum og síðan var bara sungið út í eitt! Alltaf gaman þegar við systkinin ferðumst saman.

Komum til Stykkishólms um klukkan hálfátta og tókum hring um svæðið. Stykkishólmur er mjög fallegur bær, mikið af fallegum, gömlum, nýuppgerðum húsum, fallegt bæjarstæði og gaman yfir að líta. Alltaf með gönguskóna í skottinu löbbuðum við upp á Hólminn sjálfan eða "grjótið" sem vinnufélagar Birnu, ættaðir úr Hólminum, kölluðu "fjallið" sem við gengum á. Fallegt útsýni og ágætis tuttugumínútna labbitúr í góðu veðri með útsýni yfir bæinn. Voða fínt.

Fórum síðan á Narfeyrarstofu. Þangað var Hörður mættur og búinn að stilla upp. Þetta er notalegt kaffihús í gömlu og fallegu húsi. Hluti af því að ferðast um landið er að borða lókalinn og fengum við okkur "Narfeyring", hamborgara hússins. Stórmerkilegur réttur. Þarna var kominn burger með beikoni, gráðosti og hvítlauk. Hverjum hefði dottið í hug að setja þetta saman á hamborgara? Bragðið var því algerlega framandi og er þetta með betri borgurum sem ég hef smakkað lengi! Á eftir var síðan komið að kakó og súkkkulaðiköku - nett sykursjokk! Þjónustan á staðnum var líka afslöppuð og skemmtileg. Hvet landann til að fjölmenna í Narfeyrarstofu - verður ekki svikinn af því!

Spjölluðum við Hörð þangað til hann fór á svið. Þaðan raðaði hann niður snilldinni. Tók fullt af Ælandssöngvum og bland við ný og gömul lög úr öðrum áttum. Alveg frábært og í raun enn betra því við vorum komin svo langt að. Hörður er náttúrlega snillingur á sviði. Hann er leikari og leikstjóri að mennt og er því í rauninni að keyra þarna lítið farandleikhús með sjálfum sér og gítarnum. Æland er eyja sem Hörður hefur skapað. Hún er hvergi en er þó til. Þetta er staðurinn sem fýlupokarnir og leiðindaliðið hlýtur að koma frá því ekki á það svipaðan uppruna og við hin - nema hvað? Stjórnarskrá Ælendinga má finna hér. Þeir hafa alltaf rétt fyrir sér, vita allt best o.s.frv.

Hörður vatt sér t.d. í hlutverk Kalla kropps sem er hustler á níræðisaldri sem fjallar um það hvernig hann heillar dömurnar á elliheimilinu. Alveg óbroganlegur texti og bregður Hörður sér í karakter þessa gamla manns af mikilli snilld. Þau hjónin Karl R. emba og Kven R. emba komu við sögu sem og Per vinur þeirra sem ber ættarnafnið Vert. Já, það er mikið um athyglisvert fólk á Ælandi. Titillinn á blogginu mínu er einmitt frá Karl komið og má finna textann í bloggi frá því í janúar.

Síðan tók hann náttúrlega standarda eins og Dé Lappé og Ég leitaði blárra blóma sem og fullt fullt af öðrum lögum.

Tónleikarnir voru búnir milli ellefu og hálf tólf og renndum við Birna þá af stað í bæinn, enn með Hörð í spilaranum, allt í botni og sungum svo glumdi í bílnum. Komum í bæinn upp úr eitt eftir þennan líka fína bíltúr.

Það gefur lífinu tilgang að skella sér í bíltúr út á land á tónleika og síðan aftur í bæinn eins og ekkert hefði í skorist. Svona á að gera þetta!


Fórum síðan systkinin áðan upp á Úlfarsfell. Sendi Birnu sms: "Úlfarsfell í sólinni?" og það þurfti náttúrlega ekki meira. Upp fórum við og er maður að sjálfsögðu endurnærður á eftir. Alltaf svo gott að komast út!


Já, lífið er jafnskemmtilegt og fjölbreytt og maður ákveður að það sé!

Meistarinn!

Ég vil sjá og sigra.
Ég sættist ekki á minna.
Hugurinn ber mig hálfa leið
hitt er bara vinna.
[Brekkan; Hörður Torfa]

Meistarinn var flottastur í kvöld! Meira um það á morgun...

fimmtudagur, mars 10, 2005

Hjörtur & Hólmurinn

Heyrði aðeins í félaga Hirti von London á MSN í morgun. Gaman að því. Kappinn þrítugur í dag! Been there - done it! Ég spurði hann hvernig hann væri að fýla það að vera kominn á fertugsaldurinn. Hann var ekki nægilega sáttur, sagðist vera þunnur, þreyttur og hálf illa fyrirkallaður enda mikið og krefjandi vinnudjamm í gær! :) Sagði því að fjórði áratugurinn virkaði því frekar strembinn svona enn sem komið er! :)

Söngur í Söngskólanum á mánudag, söngur með Skátakórnum á þriðjudag, söngur með Orkuveitukórnum á miðvikudag, söngur með Herði Torfa á tónleikum í Stykkishólmi í kvöld... Glæsilegt!

Heyrði í meistaranum í fyrradag og var hann mikið sáttur að við systkinin skyldum ætla að láta sjá okkur Vestur. Alltaf gaman í ferðalögum og á tónleikum! Verða haldnir á Narfeyrarstofu í Stykkishólmi sem lítur alla vega mjög vel út á netinu.

Kíkti við hjá Steina hjá Flugleiðum á mánudaginn í stutt brainstorming varðandi Flugleiðavefinn. Lét þar móðan mása með aðstoðarbeibunum hans Steina og hafði bara nokkuð gaman af. Stal síðan gestapassanum og fattaði það ekki fyrr en ég var kominn upp í vinnu. Sendi Steina hann. Ertu búinn að fá hann karlinn?

Er síðan á leiðinni á Pilobolus í Laugardalshöllinni á laugardagskvöldið með STOR (Starfsmannafélagi OR). Verður örugglega skrítið og skemmtilegt. Getur einnig verið að ég skelli mér á dansnámskeið um helgina en það er þó ekki alveg öruggt ennþá. Síðan er það bara gamla góða skoðanakönnunin sem kemur ennþá sterkt inn. Er að byrja á annarri í næstu viku þannig að það væri mjög jákvætt að ná að klára þá fyrri núna næstu daga. Mmm...

Er annars búinn að fá sumarbústað í Straumnesi yfir páskana. Allt skemmtilegt fólk velkomið á svæðið.

Semsagt, lífið bara rólegt, afslappað og yfirvegað eins og venjulega!!! ;)

sunnudagur, mars 06, 2005

Eldmóður...lafmóður...Úlfljótsvatn...dans og Gulla á öxlina!

Úff, önnur vika og engin frammistaða í bloggmálum. Stefni að betrumbót!

Vitlaust að gera alla vikuna. Atvinnuumsóknarsíðan hjá okkur var að ergja okkur fyrri hluta vikunnar með forritunarvillum og veseni en nú er það vonandi að baki. Síðan tók við skipulagning Eldmóðs 2005, stefnumótunardaga starfsmannahaldsins sem haldnir voru á fimmtudag og föstudag niðri í stöðvarstjórahúsi í Elliðaárdal. Við Sólrún sáum um þá og vorum búin að stefna að skipulagningu þessa viðburðar með vikulegum fundum frá því um áramót. Héldum tvo fundi í janúar, ýttum restinni á undan okkur sökum annarra anna. Ætluðum síðan heldur betur að taka á því fyrri hluta vikunnar, tókum frá allan mánudaginn og allan þriðjudaginn en náðum síðan ekki að losa okkur fyrr en klukkan þrjú seinni part þriðjudags. Var þar meðal annars ákveðið að skýra viðburðinn "Eldmóður 2005", þar sem okkur þóttu "Stefnumörkunardagar" frekar leiðinlegt og lítt uppörvandi nafngift. Sannaðist þarna hið fornkveðna að maður er jafnlengi að skipuleggja svona hluti og maður hefur tíma til! Eitthvað af miðvikudeginum fór í þetta einnig og síðan fram á kvöldið í þátttakendamöppugerð. Skapaði ég þar vin okkar "Eldmóð snögga" sem bauð alla velkomna á staðinn á forsíðu möppunnar. Var þar kominn Flamboree karlinn frá mótinu í Belgíu 2003 sem ég Photoshoppaði út úr íslenska fararmerkinu. Hann er nefnilega með eldhöfuð og því kjörinn persónugervingur "Eldmóðs 2005". Maður er nú stundum óttalegur leikskólakennari!

Fyrri hluti fimmtudagsins fór í það að finna hlutverk(mission) og framtíðarsýn(vision) fyrir sviðið, þ.e. starfsmannahald OR. Gekk það samkvæmt áætlun og var klárt á hádegi. Niðurstaðan varð sú að hlutverk okkar er (svona nokkurn veginn eftir minni) að styðja, leiða og upplýsa starfsmenn með það að markmiði að hámarka nýtingu þess tíma sem starfsmenn selja Orkuveitunni. Mæltist þetta vel fyrir þótt nokkrar umræður spynnust um "selja" hlutann og það hvort starfsmenn upplifðu sig "að selja". Við ákváðum að það væru þeir að gera hvort sem þeim líkaði það betur eða verr og því þyrftu þeir að tryggja hver og einn að þeir væru söluhæf vara. Okkar er að aðstoða þá við það. Það varð niðurstaðan því við vildum hafa þetta svolítið beitt. Mun þetta örugglega vekja viðbrögð innanhúss - sem er gott.

Eftir hádegi komu Ingibjörg og Halli, samstarfsaðilar Þekkingarmiðlunar sem sérhæfa sig í hópeflisæfingum og tóku okkur á hópeflisnámskeið seinni partinn. Gekk það frábærlega, fór fram utandyra og innan með leikjum, verkefnum, viðræðum o.fl. Var þarna um að ræða nokkra velþekkta "skátaleiki" eins og t.d. að koma hópnum yfir "brennandi hraun" á nokkrum plönkum án þess að snerta jörð. Endaði það með því að við vorum tveir sem bundum plankana undir skóna okkar með skóreimum og héldum á öllum hinum, háum sem lágum, yfir hraunið. Gulla vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar ég vippaði henni upp á öxlina í brunamannataki þannig að skyndilega stóð hún, rúmlega fimmtug konan, með hausinn niður og fæturna upp í loft og ég arkaði með hana yfir hraunið. Algjör snilld, ekkert smá skemmtilegt og þjappaði saman hópnum.

Seinna var okkur m.a. skipt í hópa, tvö og tvö, bundið fyrir augun á öðru, farið út að labba og hitt látið stjórna. Traust og skýr stjórnun lykilatriði. Ekki mátti segja orð og aðeins stjórna með vísifingrinum. Gekk glymrandi vel hjá okkur Heiðu en Skúli missti Gullu einhvert út í buskan. Tær snilld. Svona var haldið áfram fram eftir degi auk ýmissa verkefna um styrkleika okkar, veikleika sem og athyglisverðar og hreinskiptar umræður. Það er ekki spurning að þetta var mjög gott fyrir hópinn að fara í gegnum svona pakka, þrátt fyrir að hann hafi verið frábær fyrir. Þessum tíma var mjög vel varið, jók traust milli manna, við rannsökuðum hvernig við leysum verkefni sem hópur og greindum hvar við værum að standa okkur vel og hvað við mættum bæta á hreinskilinn hátt auk þess sem í lokin var okkur falið að hrósa hverju öðru. Það er ekki vandamál í þessum hópi en var þó athyglisvert að fara svona hringinn og hrósa fólki. Mættum gera það oftar þótt við séum nokkuð dugleg að því.

Mættum aftur á föstudaginn og héldum áfram vinnunni þar sem frá var horfið. Ingibjörg og Halli byrjuðu með okkur, fóru yfir atburði gærdagsins og könnuðu hvernig við hefðum sofið á niðurstöðunum. Fórum síðan aftur í stefnumótunarvinnuna. Settum upp markmið og verkefnalista sem síðan verður fylgt eftir á næstu dögum og vikum og vorum að því til að verða fimm.

Dagarnir tókust því með mikilli prýði og öll markmið náðust sem að var stefnt. Þetta var mjög gaman, krefjandi en jafnframt mjög fræðandi, bæði um hópinn og þau verkefni sem framundan eru. Hópurinn er samstilltari og heilsteyptari og var þó góður fyrir.

Á föstudagskvöldið var mökum síðan boðið að bætast í hópinn og djammað framyfir miðnætti. Kom endingin og kraftur djammsins mér nokkuð á óvart þar sem fólk var alveg búið á því eftir stanslausa vinnutörn frá 8 til 17. Við fengum hins vegar gott að borða sem gaf okkur aukinn kraft. Var haft á orði um daginn að djammið yrði líklega kallað "Lafmóður 2005" eftir þennan actiondag!

Unnur og Ásta komu eftir miðnætti og við renndum ásamt Heiðu og Jóni í nýja húsið þeirra í Seljahverfinu. Þar var spjallað og tekið því rólega fram eftir nóttu áður en haldið var heim á leið.

Tók því rólega á laugardaginn. Vann svolítið í skoðanakönnuninni (já hún er enn til staðar...) og fór síðan austur á Úlfljótsvatn og spilaði á Gilwellkvöldvöku með Björgvini Magnússyni um kvöldið. Það er alltaf krefjandi enda allt allt önnur lög en maður er að spila allt árið um kring. Mjög skemmtilegt og gaman að hitta góða vini og fá smá smakk af Gilwell. Eftir kvöldvökuna var síðan næturleikur sem fram fór á blöndu af skátadulmáli og ungversku og var ég staðsettur uppi í KSÚ. Þar var brunakerfið á fullu þegar ég kom þannig að ég nýtti það ástand þegar ég bjó mér til karakter til að leika þegar ég tók á móti krökkunum. Sat þarna með risastórt sigti á hausnu, umvafinn garðslöngum sem ég blés í og spilaði lúðrasveitartakta í takt við brunabjölluna sem alltaf vældi. Talaði við þau í sama tóni og brunabjallan og lét þau meira að segja dansa vals eftir henni. Mjög skemmtilegt. Það er alveg magnað hvað maður getur verið steiktur!

Síðan var brælt í bæinn og komst ég meðal annars að því að nýja Fiestan tekur hinni gömlu verulega út þegar maður er að drífa sig á djammið. Sú gamla slapp í 120 en var orðin leiðinleg þar fyrir ofan. Það var hins vegar staðfest að sú nýja kemst töluvert yfir 130 án þess að maður finni neitt fyrir því. Dugleg stelpa! Ég myndi hins vegar aldrei keyra svona hratt þannig að ég hef líklega enga þörf fyrir þessa þekkingu. ;)

Þegar í bæinn var komið skipti ég eldsnökkt um föt og fór á Players. Þar voru Unnur, Ásta og Héðinn og Svava vinir þeirra dansandi sem aldrei fyrr. Þangað var ég kominn um hálftvö og dansaði til klukkan að ganga fjögur. Glæsileg lok á fínu kvöldi.

Í dag ætlaði ég að vera í skoðanakönnuninni en veðrið var of gott. Baðaði bílinn minn (enda ekki vanþörf á) og síðan sjálfan mig í sundi. Lá í diskinum í Laugardalslauginni rúma þrjá klukkutíma og glápti út í loftið í góða veðrinu áður en ég var farinn að hafa áhyggjur af því að kjötið færi að leysast af beinunum bráðlega. Synti þá 500 metra og fór heim í skoðanakönnun.

Já, stórskemmtileg, fróðleg og spennandi vika að baki. Fékk víst úthlutað sumarbústað sem við ætlum að skella okkur í um páskana. Síðan minni ég á Stykkishólmsferð næstkomandi fimmtudag, 10. mars þar sem við systkinin auk annarra (t.d. þín lesandi góður) sem vilja koma með, ætlum að heiðra meistara Hörð Torfa með nærveru okkar á tónleikum hans í Stykkishólmi. Það verður þrusutúr!