Kruss, Kross og páskaegg!
Kröftug helgi að baki og fullt af óvenjulegum uppákomum.
Skellti mér á félagsvist með Hönnunardeildinni hjá OR á föstudagskvöldið. Þetta er árlegur viðburður; spil, öl og matur. Rúmlega 55 manns mætti í félagsheimilið niður í Elliðaárdal og var spilað á 13 borðum. Þetta var mjög skemmtilegt. Maður hitti fullt af fólki af því maður flyst á milli borða og spilar eiginlega við alla. Ég mundi nú ekki alveg hvernig þetta var þegar ég mætti enda held ég að ég hafði seinast spilað félagsvist þegar ég fór ca. 11 ára með pabba og mömmu á félagsvist hjá starfsmannafélagi ÁTVR þegar pabbi vann þar. Það var, já líklega í kringum 1985. Það er skemmst frá því að segja að yðar einlægur fór með sigur af hólmi í þessari merku keppni og var það vegsemd sem kom mér VERULEGA á óvart enda ekki mikill spilamaður. Mun því koma sterkur inn í félagsstarf aldraðra þegar þar að kemur! Verðlaunin voru forláta páskaegg af stærstu gerð og var þess neitt á staðnum. Páskaeggið rann ljúflega niður með gítarspili og söng. Sátum nokkur hópur og sungum í svolítinn tíma og tókst með því að hrekja ótrúlegan fjölda fólks út á ótrúlega skömmum tíma. Maður ætti að taka að sér að gerast útkastari!
Hannes bróðir hafði beðið mig um að skutla þeim í sumarbústaðinn þeirra í Húsafelli á laugardaginn og sækja þau á sunnudaginn. "Ekkert mál" sagði ég en það má eiginlega segja að helgin hafi farið í þetta! Tók sex klukkutíma með öllu á laugardeginum og aðra sex á sunnudagskvöldinu, samtals tæpa 600 kílómetra. Fékk þó glæsilegan hamborgarahrygg a la Rósa hans Hannesar í matinn á laugardaginn. Maður keyrir nú 600 km fyrir það! Bústaðurinn þeirra er hins vegar hin hlýlegasti og ágætt að eiga hann inni ef í harðbakkan slær í sumarbústaðarmálum.
Náði í bæinn fyrir kvöldmat á laugardaginn og skellti mér með Ástu á tónleika um kvöldið. Þar var maður heldur betur að stíga inn í tja...athyglisverðan heim því tónleikarnir voru í Krossinum í Kópavogi. Úff, alltaf athyglisvert að prófa eitthvað nýtt. Reyndar var þetta nú ekki jafnskelfilegt og maður var búinn að búa sig undir enda um að ræða opna tónleika en ekki samkomu. Maður hoppar út í djúpu laugina einhvern tímann seinna og athugar hvort maður lifi það af. Um var að ræða útgáfutónleika Írisar Verudóttur sem var að gefa út gospeldisk. Stelpan er þrususöngkona og mikið af þessum lögum voru mjög flott. Tónleikarnir var því mjög góðir og Írisi tókst að skapa mjög heimilislega og þægilega stemningu þar sem hún hálfsat kasólétt uppi á sviði, án þess þó að slaka nokkuð á tónlistarlegu kröfunum eða frammistöðunni. Semsagt mjög fínt og ekki að sakaði að Haffi, starfsmaður hagmála OR spilaði á bassa og gerði það með glans.
Eftir tónleikana fengum við okkur svo ís, rúntuðum, fundum Unni niðri í bæ og fórum á kaffihús. Fínt kvöld.
Fyrri hluti sunnudagsins (fyrir sumarbústaðaferð) fór í að kaupa afmælisgjöf handa Kristófer sem ég þarf að koma í póst til Danaveldis en kappinn fyllir sjöunda árið þann 30. mars. Það sem ég keypti var....nei....má ekki segja!
Annars gaman að heyra í Bryndís Ösp í gestabókinni. Endilega skiljið eftir skilaboð ef þið eigið leið hjá!
Var annars að boða HR-hitting í hádeginu þann 7. apríl á Sjanghæ við Laugaveginn. Það verður gaman að hitta hópinn, þ.e. þá sem ekki eru á fæðingardeildinni eða í útlöndum akkúrat þann daginn. Hópurinn er að standa sig með prýði við uppbyggingu á framtíð landsins enda gerir hann flest almennilega sem hann gerir á annað borð.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home