miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Lilja Ósk Prinsessa

Þá er hún búin að eignast sitt eigið nafn. Prinsessan hér að neðan var í gær skírð Lilja Ósk og er náttúrlega Árnadóttir. Fallegt nafn, stutt og laggott.

Til hamingju Lilja Ósk, Árni og Guðbjörg ;o)

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Prinsessa ÁrnadóttirÁrni og Guðbjörg eignuðust litla fallega prinsessu í júlí. Kíkið á síðuna hjá henni og heilsið upp á familíuna. :)

Flott fólk á flakki!

Endilega kíkið á bloggsíðuna hjá Gísla, Sonju og hinum fimm fræknu krakkalökkum. Þau eru á ferð þvert yfir Bandaríkin og aftur til baka. Geri aðrir betur sjö manna fjölskyldan. Fullt af myndum og skemmtilegheitum. Eru bara með GPRS síma sem þau tengja við tölvuna hjá sér og fara á netið og blogga á meðan þau eru að keyra, þ.e.a.s. á meðan hitt er að keyra. Snilld! Maður verður að skella sér á svona Road Trip einhvern tímann...mmmmm.....


Annar hópur eru íslenskir skátar á Eurojamb. Það er semsagt í gangi núna Evrópumót skáta sem er nokkurs konar æfingamót fyrir Heimsmót skáta - World Jamboree - sem haldið verður á sama stað í Bretlandi á 100 ára afmæli skátahreyfingarinnar árið 2007. Einar Elí og félagar eru á staðnum og halda úti skemmtilegri bloggsíðu.


Fullt af fólki á fleygiferð!

mánudagur, ágúst 08, 2005

Bless Marco og Simona!

Kvöddum í gær Marco Cherry og Simonu kærustuna hans sem hafa verið á flakki um Frónið á hálfan mánuð. Marco kom á Nordjamb 2000 þar sem ég sá um útlendingana og kynntist honum ágætlega. Hann hafði síðan samband aftur í sumar og sagðist vera á leiðinni. Alltaf skemmtilegt þegar maður hittir fólk aftur!

Hann kom með þá hugmynd að fara á Þjóðhátíð í Eyjum og verður honum seintþökkuð sú hugmyndaauðgi enda helgin fádæma skemmtileg.

Þau fóru hringinn þegar þau komu frá Eyjum, gistu í Vík að ég held eða á Klaustri, síðan á Seyðisfirði sem þeim fannst frekar lásí staður. Þaðan héldu þau til Akureyrar sem heillaði þau og loks út í Grímsey sem þau kylliféllu fyrir. Skiptu þar lundarnir höfuðmáli enda Simona meira fyrir það að horfa á lunda en borða hann - eins og hún tilkynnti okkur í Eyjum. Hey, var ekki málið að "nýta og njóta" þegar svona dýr eru annars vegar???

Að norðan fóru skötuhjúin til Grundarfjarðar. Ég veit ekki alveg af hverju en af einhverjum ástæðum urðu þau ástfanginn af nafninu þegar þau voru að skoða Ísland fyrir ferðina og ákváðu að gista þar yfir nótt. Já, margt er skrítið í kýrhausnum! Voru svo á Geysi í tvær nætur áður en þau komu í mat heim til Ingu í gærkvöldi þar sem við skelltum í þau svolitlu rauðvíni og dýrindis kjúklingarétti a la Inga og skoðuðum myndir. Frábært kvöld og gaman að eiga vini héðan og þaðan. Nú fer Ítalía síðan á listann yfir þau lönd sem maður þarf að kíkja við í á næstu árum þegar maður er búinn að styðja við bakið á Björgúlfi og félögum í Landsbankanum.

Marco er annars framarlega í samtökum sem vilja sameina öll neyðarnúmer á Ítalíu í eitt 112 - Einn-Einn-Tveir eins og á Íslandi og víðar. Hann heldur úti þessari fínu heimasíðu um það mál. Simona er líka með blogg ef einhvern langar að æfa sig í ítölskunni.

Ætlaði að fara að skokka í fyrrakvöld og endaði á slysó. Frekar fúlt. Var varla byrjaður að hlaupa þegar ég fékk í hnéð. Ákvað að láta skoða þetta. Fékk þetti nokkrum sinnum í fyrra líka. Það virðist eins og hnénu sé ekkert um það gefið að ég skokki úti undir beru. Get gengið með og án bakpoka og hlaupið á bretti en ekki úti takk fyrir.
Fékk kannski áfall þegar ég fór allt í einu að hlaupa 10 kílómetra upp úr þurru í fyrrasumar og er staðráðið í að hafa nú hemil á karlinum. Beið í tvo og hálfan tíma á slysó en fékk að launum stórglæsilegan kvenkyns læknanema til að skoða mig. Stefni læknastéttin í þessa átt erum við í góðum málum strákar! Niðurstaðan var hins vegar sú að það eru engin bönd slitin og allt í góðu en gæti verið smá vökvi í hnénu en ekkert sem heita má. Ljóskan henti mér því bara út, sagði mér að taka því rólega næstu daga og fara síðan bara rólega af stað í skokkinu.

Ég held ég geti því kvatt Reykjavíkurmaraþonið þetta árið. Er að leggja af stað í vikugönguferð daginn eftir maraþonið og tek ekki sénsinn fyrst það er eitthvað tæpt. Svekkelsi því þetta var mjög gaman í fyrra.

Nú er farið að styttast í söngskólann. Mér skylst að ég verði kallaður í eitthvað viðtal þegar líða tekur á mánuðinn þar sem ég kemst vonandi að því hvað ég sé að fara að gera þarna. Ætti líklega að hafa samband af fyrra bragði og athuga hvort ég eigi þá ekki auðveldara með að velja mér tíma sem henta vinnunni o.þ.h. Troða mér nett fram fyrir í röðinni. Maður verður að bjarga sér.

Dagfinnur Dagmar dýralæknir er flutt upp í sveit við Elliðavatn. Til hamingju með það Dagmar! Verður örugglega ljúft að búa þarna. Maður þarf að kíkja í kaffi einhvern tímann í hjólatúr. Þarf þá reyndar fyrst að fara í hjólatúr!

Jamm, svona getur maður blaðrað. Gamla settið á Íslendingaslóðum í Kanada. Þangað hefur maður nú aldrei komið. Mikið er til af spennandi stöðum.

Hey! Eitt að lokum: Kíkið á http://earth.google.com Ferlega flott. Maður getur hlaðið niður græju sem að gerir manni kleypt að fljúga um dali og fjöll í þrívíddarumhverfi eftir hæðarlínum. Ofursvallt.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Að gera ekki neitt...

Er að reyna að einbeita mér að því að gera ekki neitt í nokkra daga...

...ætla að halda því áfram. :)

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Við erum öll einstök...

...en sum einstakari en aðrir.

Rakst á þessa mynd í Mogganum á yfirferð minni um fjölmiðla júlímánaðar.

Myndin er tekin á Snoop Dogg tónleikunum. Strákarnir dýrka goðið af miklum móð og í kraftmiklum rokkgír

EN

...stelpan í miðjunni...tja...hún dýrkar það ekki minna en er í besta falli í svolítið öðrum gír. ;)

Kominn til byggða!

Jæja, þá er maður kominn aftur til byggða og sumarfríið á enda í bili. Það er athygliverð öfugþróun að maður skuli ekki hafa tíma til að blogga akkúrat þegar maður er í sumarFRÍI. Þannig var það nú samt.
Fór í frí mánudaginn 3. júlí þegar ég var kominn í bæinn úr Básum aðra helgina í röð. Var þó með verkefni á öxlunum út þá viku þannig að hún endaði sem vinnuvika en ekki sumarfrí. Leikið með Kristó á daginn og tölvunni fram eftir nóttu.

Síðan héldum við Birna systir "Litla ættarmótið" helgina 8.-10. júlí sem varð nú reyndar ekki svo lítið og vorum síðan áfram í sumarbústað við Vesturhópsvatn út þá viku. Mætti á hádegi fimmtudaginn 14. júlí í Varmahlíð tilbúinn í fjögurra daga óvissuferð um Skagafjörð með Sárum og súrum fótum. Óvissuferð reyndist réttnefni því þær systur Kristbjörg og Kristveig höfðu heldur betur platað okkur og byrjuðu á því að keyra okkur norður fyrir Ólafsfjörð í norðanverðum Eyjafirði þaðan sem gengið var yfir í Héðinsfjörð, Siglufjörð, yfir í Fljótin, keyrt upp á Lágheiði, gengið yfir í Svarfaðardal og þaðan yfir í Kolbeinsdal ofan við Hóla í Hjaltadal. Tröllaskaginn var semsagt tekinn með trompi 14.-18. júlí.
Brennt í bæinn og haldið þann 19. júlí á landsmót skáta á Úlfljótsvatni með viðkomu á sjónvarpsstöðinni Sirkus þar sem við Huldu mössuðum kvöldþátt með Guðmundi Steingrímssyni. Fyndið, vegna þess að ég hafði aldrei horft á sjónvarpsstöðina Sirkus áður en ég kom fram á henni!

Costa del Úlfljótsvatn leyfði okkur að njóta unaðssemda sinna til 26. júlí þegar við feðgar héldum í bæinn og voru í bænum fram á föstudaginn 29. þegar sá stutti hélt til Danaveldis en sá langi á vit lunda og brekkusöngs í Eyjum. Komum frá Eyjum í gær, þriðjudag - alveg óvart - kíkti svo í vinnuna í dag massaði tölvupóstinn og svoleiðis.

Eftir stutta talningu segir mér svo hugur um að ég hafi frá byrjun júlí gist 13 nætur í tjaldi auk staða eins og tæpa viku í sumarbústað við Vesturhópsvatn, nótt í skátaheimilinu í Eyjum, nótt í innsta bæ í Svarfaðardal, nótt í Fljótum, nótt í gagnamannakofa í Kolbeinsdal í Skagafirði svo fátt eitt sé nefnt.

Já og vitiði hvað? Ég kynni hérmeð Ingu Jónu til leiks. Okkur tókst að rugla saman reitum okkar í fríinu...sem telst nú nokkuð vel að verki staðið svona með tilliti til upptalningarinnar hér að ofan. Þeir sem voru í Eyjum vita við hverja er átt. Hinir hefðu betur verið í Eyjum! :)

Já...það liggur við að maður þurfi að sækja um aukasumarfrí til að hvíla sig eftir sumarfríið. Er þó búinn að ákveða að eyða helginni í bænum. Datt í hug að skella mér í fiskiveislu á Dalvík en ákvað þess í stað að gæða mér á hinsegin veislu í Reykjavík. Já, margt í boði!

Næsti hluti sumarfrísins er síðan í lok ágúst þegar óbyggðirnar kalla og gengið verður frá Sveinstindi í Bása endað á fyrirtaks afmælishelgi Útivistar í fyrirheitna landinu í faðmi jöklanna þriggja...

og spáið í það ... þá ég ennþá rúma viku eftir af sumarfríinu!!!! Þetta er nú alveg yndislegt líf!