miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Kominn til byggða!

Jæja, þá er maður kominn aftur til byggða og sumarfríið á enda í bili. Það er athygliverð öfugþróun að maður skuli ekki hafa tíma til að blogga akkúrat þegar maður er í sumarFRÍI. Þannig var það nú samt.
Fór í frí mánudaginn 3. júlí þegar ég var kominn í bæinn úr Básum aðra helgina í röð. Var þó með verkefni á öxlunum út þá viku þannig að hún endaði sem vinnuvika en ekki sumarfrí. Leikið með Kristó á daginn og tölvunni fram eftir nóttu.

Síðan héldum við Birna systir "Litla ættarmótið" helgina 8.-10. júlí sem varð nú reyndar ekki svo lítið og vorum síðan áfram í sumarbústað við Vesturhópsvatn út þá viku. Mætti á hádegi fimmtudaginn 14. júlí í Varmahlíð tilbúinn í fjögurra daga óvissuferð um Skagafjörð með Sárum og súrum fótum. Óvissuferð reyndist réttnefni því þær systur Kristbjörg og Kristveig höfðu heldur betur platað okkur og byrjuðu á því að keyra okkur norður fyrir Ólafsfjörð í norðanverðum Eyjafirði þaðan sem gengið var yfir í Héðinsfjörð, Siglufjörð, yfir í Fljótin, keyrt upp á Lágheiði, gengið yfir í Svarfaðardal og þaðan yfir í Kolbeinsdal ofan við Hóla í Hjaltadal. Tröllaskaginn var semsagt tekinn með trompi 14.-18. júlí.
Brennt í bæinn og haldið þann 19. júlí á landsmót skáta á Úlfljótsvatni með viðkomu á sjónvarpsstöðinni Sirkus þar sem við Huldu mössuðum kvöldþátt með Guðmundi Steingrímssyni. Fyndið, vegna þess að ég hafði aldrei horft á sjónvarpsstöðina Sirkus áður en ég kom fram á henni!

Costa del Úlfljótsvatn leyfði okkur að njóta unaðssemda sinna til 26. júlí þegar við feðgar héldum í bæinn og voru í bænum fram á föstudaginn 29. þegar sá stutti hélt til Danaveldis en sá langi á vit lunda og brekkusöngs í Eyjum. Komum frá Eyjum í gær, þriðjudag - alveg óvart - kíkti svo í vinnuna í dag massaði tölvupóstinn og svoleiðis.

Eftir stutta talningu segir mér svo hugur um að ég hafi frá byrjun júlí gist 13 nætur í tjaldi auk staða eins og tæpa viku í sumarbústað við Vesturhópsvatn, nótt í skátaheimilinu í Eyjum, nótt í innsta bæ í Svarfaðardal, nótt í Fljótum, nótt í gagnamannakofa í Kolbeinsdal í Skagafirði svo fátt eitt sé nefnt.

Já og vitiði hvað? Ég kynni hérmeð Ingu Jónu til leiks. Okkur tókst að rugla saman reitum okkar í fríinu...sem telst nú nokkuð vel að verki staðið svona með tilliti til upptalningarinnar hér að ofan. Þeir sem voru í Eyjum vita við hverja er átt. Hinir hefðu betur verið í Eyjum! :)

Já...það liggur við að maður þurfi að sækja um aukasumarfrí til að hvíla sig eftir sumarfríið. Er þó búinn að ákveða að eyða helginni í bænum. Datt í hug að skella mér í fiskiveislu á Dalvík en ákvað þess í stað að gæða mér á hinsegin veislu í Reykjavík. Já, margt í boði!

Næsti hluti sumarfrísins er síðan í lok ágúst þegar óbyggðirnar kalla og gengið verður frá Sveinstindi í Bása endað á fyrirtaks afmælishelgi Útivistar í fyrirheitna landinu í faðmi jöklanna þriggja...

og spáið í það ... þá ég ennþá rúma viku eftir af sumarfríinu!!!! Þetta er nú alveg yndislegt líf!

3 Comments:

At 4.8.2005, 10:21, Anonymous Nafnlaus said...

Siggi, hver í ósköpunum er Inga Jóna? Ég veit bara um 2... þarf ég að hitta þá þriðju eða er þetta a) Inga sem var með okkur í bekk eða b)eiginkona fjármálaráðherra?

 
At 4.8.2005, 13:40, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Allt er þegar þrennt er!

Þekki líka hinar tvær og bætti við mig einni - Færri nöfn að muna... ;)

 
At 5.8.2005, 14:12, Anonymous Nafnlaus said...

Sem er náttlega kannski bara gott á okkar aldri!

 

Skrifa ummæli

<< Home