sunnudagur, mars 06, 2005

Eldmóður...lafmóður...Úlfljótsvatn...dans og Gulla á öxlina!

Úff, önnur vika og engin frammistaða í bloggmálum. Stefni að betrumbót!

Vitlaust að gera alla vikuna. Atvinnuumsóknarsíðan hjá okkur var að ergja okkur fyrri hluta vikunnar með forritunarvillum og veseni en nú er það vonandi að baki. Síðan tók við skipulagning Eldmóðs 2005, stefnumótunardaga starfsmannahaldsins sem haldnir voru á fimmtudag og föstudag niðri í stöðvarstjórahúsi í Elliðaárdal. Við Sólrún sáum um þá og vorum búin að stefna að skipulagningu þessa viðburðar með vikulegum fundum frá því um áramót. Héldum tvo fundi í janúar, ýttum restinni á undan okkur sökum annarra anna. Ætluðum síðan heldur betur að taka á því fyrri hluta vikunnar, tókum frá allan mánudaginn og allan þriðjudaginn en náðum síðan ekki að losa okkur fyrr en klukkan þrjú seinni part þriðjudags. Var þar meðal annars ákveðið að skýra viðburðinn "Eldmóður 2005", þar sem okkur þóttu "Stefnumörkunardagar" frekar leiðinlegt og lítt uppörvandi nafngift. Sannaðist þarna hið fornkveðna að maður er jafnlengi að skipuleggja svona hluti og maður hefur tíma til! Eitthvað af miðvikudeginum fór í þetta einnig og síðan fram á kvöldið í þátttakendamöppugerð. Skapaði ég þar vin okkar "Eldmóð snögga" sem bauð alla velkomna á staðinn á forsíðu möppunnar. Var þar kominn Flamboree karlinn frá mótinu í Belgíu 2003 sem ég Photoshoppaði út úr íslenska fararmerkinu. Hann er nefnilega með eldhöfuð og því kjörinn persónugervingur "Eldmóðs 2005". Maður er nú stundum óttalegur leikskólakennari!

Fyrri hluti fimmtudagsins fór í það að finna hlutverk(mission) og framtíðarsýn(vision) fyrir sviðið, þ.e. starfsmannahald OR. Gekk það samkvæmt áætlun og var klárt á hádegi. Niðurstaðan varð sú að hlutverk okkar er (svona nokkurn veginn eftir minni) að styðja, leiða og upplýsa starfsmenn með það að markmiði að hámarka nýtingu þess tíma sem starfsmenn selja Orkuveitunni. Mæltist þetta vel fyrir þótt nokkrar umræður spynnust um "selja" hlutann og það hvort starfsmenn upplifðu sig "að selja". Við ákváðum að það væru þeir að gera hvort sem þeim líkaði það betur eða verr og því þyrftu þeir að tryggja hver og einn að þeir væru söluhæf vara. Okkar er að aðstoða þá við það. Það varð niðurstaðan því við vildum hafa þetta svolítið beitt. Mun þetta örugglega vekja viðbrögð innanhúss - sem er gott.

Eftir hádegi komu Ingibjörg og Halli, samstarfsaðilar Þekkingarmiðlunar sem sérhæfa sig í hópeflisæfingum og tóku okkur á hópeflisnámskeið seinni partinn. Gekk það frábærlega, fór fram utandyra og innan með leikjum, verkefnum, viðræðum o.fl. Var þarna um að ræða nokkra velþekkta "skátaleiki" eins og t.d. að koma hópnum yfir "brennandi hraun" á nokkrum plönkum án þess að snerta jörð. Endaði það með því að við vorum tveir sem bundum plankana undir skóna okkar með skóreimum og héldum á öllum hinum, háum sem lágum, yfir hraunið. Gulla vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar ég vippaði henni upp á öxlina í brunamannataki þannig að skyndilega stóð hún, rúmlega fimmtug konan, með hausinn niður og fæturna upp í loft og ég arkaði með hana yfir hraunið. Algjör snilld, ekkert smá skemmtilegt og þjappaði saman hópnum.

Seinna var okkur m.a. skipt í hópa, tvö og tvö, bundið fyrir augun á öðru, farið út að labba og hitt látið stjórna. Traust og skýr stjórnun lykilatriði. Ekki mátti segja orð og aðeins stjórna með vísifingrinum. Gekk glymrandi vel hjá okkur Heiðu en Skúli missti Gullu einhvert út í buskan. Tær snilld. Svona var haldið áfram fram eftir degi auk ýmissa verkefna um styrkleika okkar, veikleika sem og athyglisverðar og hreinskiptar umræður. Það er ekki spurning að þetta var mjög gott fyrir hópinn að fara í gegnum svona pakka, þrátt fyrir að hann hafi verið frábær fyrir. Þessum tíma var mjög vel varið, jók traust milli manna, við rannsökuðum hvernig við leysum verkefni sem hópur og greindum hvar við værum að standa okkur vel og hvað við mættum bæta á hreinskilinn hátt auk þess sem í lokin var okkur falið að hrósa hverju öðru. Það er ekki vandamál í þessum hópi en var þó athyglisvert að fara svona hringinn og hrósa fólki. Mættum gera það oftar þótt við séum nokkuð dugleg að því.

Mættum aftur á föstudaginn og héldum áfram vinnunni þar sem frá var horfið. Ingibjörg og Halli byrjuðu með okkur, fóru yfir atburði gærdagsins og könnuðu hvernig við hefðum sofið á niðurstöðunum. Fórum síðan aftur í stefnumótunarvinnuna. Settum upp markmið og verkefnalista sem síðan verður fylgt eftir á næstu dögum og vikum og vorum að því til að verða fimm.

Dagarnir tókust því með mikilli prýði og öll markmið náðust sem að var stefnt. Þetta var mjög gaman, krefjandi en jafnframt mjög fræðandi, bæði um hópinn og þau verkefni sem framundan eru. Hópurinn er samstilltari og heilsteyptari og var þó góður fyrir.

Á föstudagskvöldið var mökum síðan boðið að bætast í hópinn og djammað framyfir miðnætti. Kom endingin og kraftur djammsins mér nokkuð á óvart þar sem fólk var alveg búið á því eftir stanslausa vinnutörn frá 8 til 17. Við fengum hins vegar gott að borða sem gaf okkur aukinn kraft. Var haft á orði um daginn að djammið yrði líklega kallað "Lafmóður 2005" eftir þennan actiondag!

Unnur og Ásta komu eftir miðnætti og við renndum ásamt Heiðu og Jóni í nýja húsið þeirra í Seljahverfinu. Þar var spjallað og tekið því rólega fram eftir nóttu áður en haldið var heim á leið.

Tók því rólega á laugardaginn. Vann svolítið í skoðanakönnuninni (já hún er enn til staðar...) og fór síðan austur á Úlfljótsvatn og spilaði á Gilwellkvöldvöku með Björgvini Magnússyni um kvöldið. Það er alltaf krefjandi enda allt allt önnur lög en maður er að spila allt árið um kring. Mjög skemmtilegt og gaman að hitta góða vini og fá smá smakk af Gilwell. Eftir kvöldvökuna var síðan næturleikur sem fram fór á blöndu af skátadulmáli og ungversku og var ég staðsettur uppi í KSÚ. Þar var brunakerfið á fullu þegar ég kom þannig að ég nýtti það ástand þegar ég bjó mér til karakter til að leika þegar ég tók á móti krökkunum. Sat þarna með risastórt sigti á hausnu, umvafinn garðslöngum sem ég blés í og spilaði lúðrasveitartakta í takt við brunabjölluna sem alltaf vældi. Talaði við þau í sama tóni og brunabjallan og lét þau meira að segja dansa vals eftir henni. Mjög skemmtilegt. Það er alveg magnað hvað maður getur verið steiktur!

Síðan var brælt í bæinn og komst ég meðal annars að því að nýja Fiestan tekur hinni gömlu verulega út þegar maður er að drífa sig á djammið. Sú gamla slapp í 120 en var orðin leiðinleg þar fyrir ofan. Það var hins vegar staðfest að sú nýja kemst töluvert yfir 130 án þess að maður finni neitt fyrir því. Dugleg stelpa! Ég myndi hins vegar aldrei keyra svona hratt þannig að ég hef líklega enga þörf fyrir þessa þekkingu. ;)

Þegar í bæinn var komið skipti ég eldsnökkt um föt og fór á Players. Þar voru Unnur, Ásta og Héðinn og Svava vinir þeirra dansandi sem aldrei fyrr. Þangað var ég kominn um hálftvö og dansaði til klukkan að ganga fjögur. Glæsileg lok á fínu kvöldi.

Í dag ætlaði ég að vera í skoðanakönnuninni en veðrið var of gott. Baðaði bílinn minn (enda ekki vanþörf á) og síðan sjálfan mig í sundi. Lá í diskinum í Laugardalslauginni rúma þrjá klukkutíma og glápti út í loftið í góða veðrinu áður en ég var farinn að hafa áhyggjur af því að kjötið færi að leysast af beinunum bráðlega. Synti þá 500 metra og fór heim í skoðanakönnun.

Já, stórskemmtileg, fróðleg og spennandi vika að baki. Fékk víst úthlutað sumarbústað sem við ætlum að skella okkur í um páskana. Síðan minni ég á Stykkishólmsferð næstkomandi fimmtudag, 10. mars þar sem við systkinin auk annarra (t.d. þín lesandi góður) sem vilja koma með, ætlum að heiðra meistara Hörð Torfa með nærveru okkar á tónleikum hans í Stykkishólmi. Það verður þrusutúr!

2 Comments:

At 7.3.2005, 22:16, Anonymous Nafnlaus said...

Komstu einhvern tímann upp til að anda?

ÞYG

 
At 8.3.2005, 14:17, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Sjaldan og stutt í einu! :)

 

Skrifa ummæli

<< Home