föstudagur, mars 11, 2005

Hólmurinn, fellið og fleira!

Já, við Birna systir renndum í Stykkishólm í gær. Frábær túr og nýja Fiestan stóð sig með miklum sóma. Það er ótrúlega auðvelt að renna þarna vestur. Þetta eru ca. 170 km. hvora leið og vorum við ca. klukkutíma og þrjúkorter hvora leið, allt á malbiki, breiðir og góðir vegir, gott veður, góður félagsskapur, Hörður Torfa í spilaranum og síðan var bara sungið út í eitt! Alltaf gaman þegar við systkinin ferðumst saman.

Komum til Stykkishólms um klukkan hálfátta og tókum hring um svæðið. Stykkishólmur er mjög fallegur bær, mikið af fallegum, gömlum, nýuppgerðum húsum, fallegt bæjarstæði og gaman yfir að líta. Alltaf með gönguskóna í skottinu löbbuðum við upp á Hólminn sjálfan eða "grjótið" sem vinnufélagar Birnu, ættaðir úr Hólminum, kölluðu "fjallið" sem við gengum á. Fallegt útsýni og ágætis tuttugumínútna labbitúr í góðu veðri með útsýni yfir bæinn. Voða fínt.

Fórum síðan á Narfeyrarstofu. Þangað var Hörður mættur og búinn að stilla upp. Þetta er notalegt kaffihús í gömlu og fallegu húsi. Hluti af því að ferðast um landið er að borða lókalinn og fengum við okkur "Narfeyring", hamborgara hússins. Stórmerkilegur réttur. Þarna var kominn burger með beikoni, gráðosti og hvítlauk. Hverjum hefði dottið í hug að setja þetta saman á hamborgara? Bragðið var því algerlega framandi og er þetta með betri borgurum sem ég hef smakkað lengi! Á eftir var síðan komið að kakó og súkkkulaðiköku - nett sykursjokk! Þjónustan á staðnum var líka afslöppuð og skemmtileg. Hvet landann til að fjölmenna í Narfeyrarstofu - verður ekki svikinn af því!

Spjölluðum við Hörð þangað til hann fór á svið. Þaðan raðaði hann niður snilldinni. Tók fullt af Ælandssöngvum og bland við ný og gömul lög úr öðrum áttum. Alveg frábært og í raun enn betra því við vorum komin svo langt að. Hörður er náttúrlega snillingur á sviði. Hann er leikari og leikstjóri að mennt og er því í rauninni að keyra þarna lítið farandleikhús með sjálfum sér og gítarnum. Æland er eyja sem Hörður hefur skapað. Hún er hvergi en er þó til. Þetta er staðurinn sem fýlupokarnir og leiðindaliðið hlýtur að koma frá því ekki á það svipaðan uppruna og við hin - nema hvað? Stjórnarskrá Ælendinga má finna hér. Þeir hafa alltaf rétt fyrir sér, vita allt best o.s.frv.

Hörður vatt sér t.d. í hlutverk Kalla kropps sem er hustler á níræðisaldri sem fjallar um það hvernig hann heillar dömurnar á elliheimilinu. Alveg óbroganlegur texti og bregður Hörður sér í karakter þessa gamla manns af mikilli snilld. Þau hjónin Karl R. emba og Kven R. emba komu við sögu sem og Per vinur þeirra sem ber ættarnafnið Vert. Já, það er mikið um athyglisvert fólk á Ælandi. Titillinn á blogginu mínu er einmitt frá Karl komið og má finna textann í bloggi frá því í janúar.

Síðan tók hann náttúrlega standarda eins og Dé Lappé og Ég leitaði blárra blóma sem og fullt fullt af öðrum lögum.

Tónleikarnir voru búnir milli ellefu og hálf tólf og renndum við Birna þá af stað í bæinn, enn með Hörð í spilaranum, allt í botni og sungum svo glumdi í bílnum. Komum í bæinn upp úr eitt eftir þennan líka fína bíltúr.

Það gefur lífinu tilgang að skella sér í bíltúr út á land á tónleika og síðan aftur í bæinn eins og ekkert hefði í skorist. Svona á að gera þetta!


Fórum síðan systkinin áðan upp á Úlfarsfell. Sendi Birnu sms: "Úlfarsfell í sólinni?" og það þurfti náttúrlega ekki meira. Upp fórum við og er maður að sjálfsögðu endurnærður á eftir. Alltaf svo gott að komast út!


Já, lífið er jafnskemmtilegt og fjölbreytt og maður ákveður að það sé!

2 Comments:

At 17.3.2005, 21:47, Anonymous Nafnlaus said...

Þú fávísi grindvíkingur. Farðu niður í bæ og pantaðu borgara á Vitabar. Þar eru bestu hamborgarar í heimi, einmitt með hvítlauk og gráðosti.
Geeegt.

Búinn að smella þér á Vox? Sushi:ið þar er fjaahandi gott.

= Y = kominn heim frá Berlín

 
At 17.3.2005, 23:12, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Vitabar??? uuuhhh...hljómar grindvískt og sjóaralegt og einhvern veginn ekki burger með gráðosti! Meira svona gömlum brauðosti sem nú er orðinn...tja...má svosem líkja honum við gráðost...

Við ættum kannski að skella okkur á einn Gríndvíking félagarnir...!

Ekki búinn að fara á Vox...stendur þó til bóta.

Berlín já...tók Berlín á einum degi á sínum tíma...short but sweet!

 

Skrifa ummæli

<< Home