miðvikudagur, janúar 26, 2005

Passið ykkur, andvökunætur geta verið dýrar!

Lá andvaka fyrir helgi. Dýrt spaug því fljótlega var ég farinn að skipuleggja heimreisu. Já, ferðagenið er á stærð við bowlingkúlu og tekur heljarstökk við að lesa frásagnir eins og hjá Gylfa, Óla og Ásdísi á Nýja Sjálandi.

Ég væri alveg til í að kýla á svoleiðis pakka sem fyrst. Er alveg farinn að þurfa á ferðalagaskammtinum mínum að halda. Þarf hins vegar að bíða með það eitthvað lengur. Nauðsynlegt að halda áfram að styðja við bakið á bankakerfinu svo aumingja Björgúlfur þurfi nú ekki að selja fötin sín aftur!

Alvöru ferðalög þurfa því að bíða fram á þarnæsta ár, 2007. Hins vegar gæti meira en verið að veturinn og vorið 2007 kæmi sterkt inn. Er búinn að reikna það út að með þokkalegri fjármálastjórn verð ég búinn að sarga af mér halann í lok árs 2006 eða þar um bil. Þá væri nú hreint ekki slæm hugmynd að renna hringinn...þ.e. kringum hnöttinn. Hægt að fá hérna fargjöld á 100-200 þús. allan hringinn og má maður þá lenda ákveðið oft og fljúga ákveðið langt. Síðan væri bara ódýr gisting og action. Væri örugglega hægt að sleppa með ca. 400 þús. allan hringinn.
Númer eitt væri að komast til Kúbu. Þaðan væri Ríó de Jainero og Buenos Aires áhugaverðir áningarstaðir sem og Amazon - ekki bókabúðin!

Svo gæti maður komið við á einhverjum Kyrrahafseyjum, Tahiti eða Páskaeyjum á leiðinni til Nýja Sjálands að heimsækja Ásdísi, Svövu og Hilmar og Ástralíu í öl og óbyggðir. Þaðan er það svo Kína sem heillar.

Kína og Kúba eru þau lönd sem mig langar mest til. Daginn eftir að Kastró geyspar golunni verður Kúba eins og hún er í dag fokin út í veður og vind og orðin að úthverfi í Florida. Kína er svipaður pakki. Að breytast alveg ótrúlega hratt þannig að fari maður núna og síðan aftur eftir 10 ár verða það tvö ólík lönd sem við blasa. Væri til í að skoða stíflurnar á Yangtze fljóti, Peking og Hong kong. Ekki væri heldur amalegt ef maður kæmist einhvern veginn yfir til Mongólíu í nokkra daga. Langar svolítið mikið þangað. Alltaf heillast af þeim. Slava vinur minn í Rússlandi á vin í Mongólíu. Gæti hugsanlega náð tengingu þannig og reynt að komast í útreiðartúr um slétturnar og jafnvel gista einhvers staðar úti í buska. Mjög merkileg þjóð Mongólar.

Frá Kína væri síðan ferðinni heitið til norðurhluta Indlands. Delhí eða þar um bil, skoða Taj Mahal. Tíbet væri líka heillandi. Væri hugsanlega hægt að koma þar við um leið með innanlandsflugi eða einhverju svoleiðis. Athugandi.

Frá Norður-Indlandi væri ég til í að enda í Kenía og klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. Það er ekkert óyfirstíganlegt og örugglega mögnuð upplifun. Þekki menn sem hafa verið þarna uppi og lýsa ferðinni sem einstakri. - Afríka er náttúrlega einstök hvert sem maður fer.

Já, heimurinn er snilld. Ráðlegg ykkur að kíkja á "Nammipoka ferðamannsins" hérna hægra megin á síðunni. Topp 100 staðir í heiminum. Ég hef komið á 16 plús að þrír eru svona á gráu svæði þar sem ég stoppaði ekki nægilega lengi við eða komst ekki alveg alla leið. Hef til dæmis komið í Versali en bara um garðana - ekki inn í höllina. Garðarnir eru reyndar full ástæða til að komast á þennan lista!

Já, 2007 væri flott ár til að ferðast fyrri hlutann og jafnvel skella sér erlendis í framhaldsnám um haustið. Hvað á maður að læra? Það er til svo mikið af skemmtilegum hlutum í heiminum. Á maður að taka markaðsmálin, tölvu og upplýsingatæknimálin, almenna stjórnun eða hvað?

Allt er þetta mjög spennandi. Maður þarf að líta í kringum sig.

Jæja, þetta var svona draumórablogg. Þó ekki meira draumóra en svo að allir þessir staðir eru spurning um hvenær ekki hvort. Vonandi tekst það sem fyrst.

Góða nótt...zzzzzzzz

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home