laugardagur, janúar 29, 2005

Hornstrandir, heitt vatn, hitt og þetta!

Skemmtilegur dagur.

Mikið að gera í vinnunni þar sem Skúli samdi við stéttarfélag korter fyrir útborgun og það þarf að koma því inn í kerfið. Um er að ræða að endurreikna launin þeirra aftur til 1. desember 2002 og nota ég við það Excelskjal dauðans! Er búinn að nota það á fleiri stéttarfélög lítið breytt. Mögnuð græja þótt ég segi sjálfur frá þar sem aldrei þarf að breyta sama atriðinu nema einu sinni. Þá sækist það í öll hin 30 sheetin! VLOOKUPað í bak og fyrir. Þeir sem ekki kunna að nota VLOOKUP í Excel og vinna með lista hvet ég til að öðlast þekkingu á þessu falli hið snarasta!

Guðmundur forstjóri hélt starfsmannafund í hádeginu þar sem hann kynnti hvað stendur til næsta árið. Fyrirtækið mun fjárfesta fyrir 12 MILLJARÐA á árinu. Úff, maður er ekki alveg að ná utan um þessar tölur. Hann taldi upp ljósleiðarann og fleiri liði sem kostuðu ca. hálfan milljarð hver og síðan Hellisheiðarvirkjun sem verður fjárfest í upp á 6 milljarða á árinu. Skyndilega varð hálfi milljarðurinn bara klink! Sveitarfélögin í kringum Reykjavík selja OR veiturnar sínar í löngum bunum, mörg til þess að eiga möguleika á að fá til sín ljósleiðarann í nánustu framtíð. Mögnuð græja - Ótrúleg bylting - Ótrúlegir möguleikar.

Orkuveitan á líka hlut í fyrirtækinu ENEX sem sérhæfir sig í markaðssetningu á hæfileikum Íslendinga tengdum virkjunum um víða veröld. ENEX er nú að fara að vinna verkefni tengd virkjanagerð í Kína, Þýskalandi, Perú og víðar. Mjög spennandi dæmi. Þarna erum við að selja einstakt hugvit.

Orkuveitan á líka hluta í Djúpborun sem er að rannsaka hvort hægt er að bora mun dýpra eftir vatni og fá það kannski 500 gráðu heitt, margfaldan þrýsing, margfalda orku o.s.frv. pr. borholu. Þetta er svona framtíðarmúsík og verður kannski farið að skila einhverju eftir ca. 10 ár. Það ánægjulega er hins vegar að þarna eru Íslendingar að leiða mjög merkilegt verkefni á heimsvísu með samvinnu við rannsóknarstofur víða um heim sem mun hafa grundvallaráhrif á heitavatnsöflun um allan heim á komandi áratugum.

Heilsaði upp á Gunnu í smá stund í dag svo hún gæti skrifað upp á ársreikningana vegna blómabúðarinnar. Gott að sjá hana aftur.

Setti myndir inn í myndasafnið frá því á Hornströndum í sumar. Algerlega framúrskarandi ferð þar sem allt lék saman...einstakur hópur, einstakt umhverfi og veðrið engu líkt. Ferð sem fékk tíu af tíu mögulegum. Hlakka ekkert smávegis til næsta sumars þegar ferðinni er heitið í Skagafjörðinn. Þarf reyndar að sleppa hálfu landsmóti vegna þessa en það verður að hafa það. Kíkið á...!

Félagi Árni var fyrstur til að kvitta í gestabókina. Hvet ykkur til að koma þar við. Alltaf gaman að heyra í góðu fólki!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home