föstudagur, apríl 29, 2005

Action helgi...

Síðasta helgi var nokkuð í fyllri kantinum, í alla vega tveimur mismunandi merkingum.

Fór með Unni og innheimtudeildinni í óvissuferð á föstudagskvöldinu. Fórum í Gvendarbrunna og skoðuðum dælustöðina þar. Stórglæsilegt. Man þegar við settum evrópuráðstefnu skáta þar í fyrra. 600 útlendingar sem áttu ekki orð yfir þessum stað! Þá var haldið austur á Stokkseyri og snæddur humar af miklum móð, spilað á gítar og haldið heim á leið í dúndrandi gítaraction megnið af leiðinni. Þaðan var farið í eftirpartý í Grafavogi sem aldrei þessu vant var bara mjög skemmtilegt - sem er nú ekki alltaf málið með eftirpartý.

Kóræfing á laugardagsmorguninn. Var aðeins "þreyttur" svona svolítið frameftir degi. Æfðum nokkur lög og fórum síðan yfir í Fríkirkjuna í Hafnarfirði þar sem lögin voru tekin upp. Gekk ágætlega og alltaf gaman enda eldsprækur hópur.

Um kvöldið var aðalfundur og hittist hópurinn í sal uppi í Mjódd. Allir mættu með eitthvað á hlaðborð og úr varð þessi líka rosalega veisla. Flottara en nokkur veitingastaður, algjörlega óskipulagt en algjör snilld! Borðuðum, héldum aðalfund þar sem mál voru afgreidd hratt og örugglega, kosið í stjórn, nefndir og ýmislegt lauslegt. Síðan var djammað af krafti fram eftir nóttu...aðra nóttina í röð! Raggi lét af störfum sem formaður en var varandlega skipaður forseti og fær að halda þeim titli eitthvað fram eftir öldinni. Raggi hefur náttúrlega staðið sig feykilega vel sem formaður kórsins undanfarin 9 ár. Það var hann sem kom skátakórnum í Reykjavík á koppinn sem síðar var sameinaður skátakór Hafnarfjarðar í það sem heitir í dag einfaldlega Skátakórinn. Hann hefur leitt hópinn allan þennan tíma af mikilli snilld. Verðskuldað rigndi því yfir hann og Kiddý heiðursmerkjum, þökkum og gjöfum fram eftir öllu kvöldi.

Já, það er þetta með litla puttann og handlegginn. Ég bauð mig fram í stjórnina fyrir einhverjum vikum en endaði sem formaður kórsins á laugardaginn. Já, það er ekkert grín að taka við af Ragga. Maður verður bara að reyna að standa sig. Gleði - Söngur - Árangur eru lykilþættirnir þrír sem mér finnst vera í starfi kórsins. Ekkert þessara þriggja atriða getur án hins verið. Frábær hópur og alltaf skemmtilegt.

Við Ásta Bjarney, sem á laugardaginn var kosin sérlegur prótókollmeistari hópsins sem og skemmtinefndarfulltrúi, mættum síðan á sunnudaginn og gengum frá. Mjög lítið var eftir því við gengum frá næstum öllu áður en við fórum heim á laugardagskvöldið. Skrapp í vinnuna seinni partinn og þaðan á tónleika.

Fór á tónleika með Borgarkórnum. Mjög skemmtileg tónlist og alltaf jafn innilegur og hlýr hópur. Var í Borgarkórnum veturinn 2003 til 2004 og á þaðan góðar minningar. Tónleikarnir voru skemmtilega blandaðir og gaman af þeim. Sigvaldi kórstjóri og stofnandi kórsins er að hætta sem kórstjóri en ætlar í staðinn að færa sig yfir í bassann og syngja þar. Það er nú ekki lítill fengur fyrir bassana.

Sunnudagskvöldið fór síðan í próflestur fyrir tónfræðipróf 2. stig, þangað til ég datt inn í Dirty Harry með Clint Eastwood. Það gerði það að verkum að ég las megnið af efninu til prófs á 20 mínútum á bílastæðinu fyrir utan Söngskólann á mánudaginn. Komst að því að ég hafði fengið eitthvað milli 9 og 10 í 1. stigsprófinu hálfum mánuði áður. Held mér hafi gengið ágætlega í þessu prófi. Lítið og auðvelt efni. Finnst samtlíklegt að úr þessu fari málin að flækjast svolítið meira. Þarf líka að öðlast meiri þjálfun en ekki bara raða inn stigum og taka próf.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home