miðvikudagur, mars 16, 2005

Sumarið er tíminn!

Nú er sumarið smám saman að taka á sig mynd, alla vega svona stærri viðburðir.

Maður verður væntanlega samkvæmt hefð í Jónsmessugöngu Útivistar yfir Fimmvörðuháls um Jónsmessuna sem er seinasta helgin í júní með tilheyrandi varðeldum og gleði.

Þá erum við systkinin, ég og Birna, að ýta af stað undirbúningi fyrir "lítið" ættarmót með afkomendum afa og ömmu og verður það vætanlega haldið í Húnavatnssýslunni í fyrstu eða aðra helgina í júlí.

Gönguhópurinn "Sárir og súrir fætur" munu leggja undir sig Skagafjörð og nágrenni frá 14.-19. júlí og verði sú ferð eitthvað í líkingu við Hornstrandaferðina í fyrra þá er von á góðu. Ferðin er óvissuferð og treystum við þeim Kristbjörgu og -veigu til þess að leiða okkur í hæfilegar ógöngur en tryggja það jafnframt að þær leiði okkur út úr þeim aftur.

Þá er ferðinni heitið beinustu leið á Úlfljótsvatn þar sem landsmót skáta verður haldið 19.-26. júlí. Það er náttúrlega bara snilld og verður án efa um að ræða stórkostlega viku.

Lokahnykkurinn í núþegarskipulögðum stórviðburðum sumarsins verður 30 ára afmælisferð Útivistar og er ég búinn að skrá mig í samsetta ferð frá 21.-28. ágúst þar sem byrjað verður að ganga gönguleiðina Sveinstind-Skælinga, haldið áfram Strútsstíg að Strút og að lokum áfram niður í Bása þar sem afmælishátíð Útivistar verður í hámarki þegar við komum á svæðið. Þetta verður náttúrlega stórkostleg ferð um stórkostleg svæði þar sem byrjað verður við Sveinstind nálægt Langasjó og endað í Básum.

Fyrir utan þetta verður Kristófer á landinu meira og minna í allt sumar og því ótæmandi tilefni til skemmtilegheita.

...og það er bara mars ennþá! Stefnir allt í snilldarsumar!

Ísland - sækjum það heim!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home