föstudagur, apríl 14, 2006

Kominn frá Kastró

Sæl verið þið!

Blogg númer tvö á árinu!!!! Strákurinn alveg að standa sig! Hey...það er nú bara april!

Síðustu mánuðir hafa snúist með hraðasta móti eins og venjulega. Brjálað að gera í vinnunni. Hef verið á kafi í því að vera reiknimeistari OR í tengslum við kjarasamninga undanfarna tvo mánuði eða svo og lítið geta gert annað. Þetta gengur út á að leika sér í Excel og velta fyrir sér hvað vinnufélagarnir eigi nú að fá í laun næstu árin án þess að kostnaðurinn fari úr böndunum. Athyglisverð aðstaða að vinna við að reyna að koma í veg fyrir að vinir manns fái of mikla launahækkun. Merkilegt að maður skuli þó ekki vera óvinsælli en raun ber vitni.

Kristófer kom í heimsókn til okkar í febrúar í eina viku á meðan hann var í vetrarfríi. Hann eignaðist litla systur í byrjun febrúar og er að sjálfsögðu duglegasti bróðir í heimi. Þar sem við Inga vorum að byrja saman um það leyti sem hann fór út í fyrrasumar þá höfðu þau aldrei sést fyrr. Hlýnaði manni heldur betur um hjartaræturnar þegar við sóttum hann út á Keflavíkurflugvöll því við vorum varla komin í gegnum Keflavík þegar þau voru farin að spjalla eins og þú hefðu þekkst alla ævi. Vikan var frábær og tengslin milli þeirra styrktust með hverjum deginum. Mitt frábæra fólk hjá OR reyndu eins og þau gátu að gefa mér frí þessa viku og vann ég bara heima snemma á morgnana og seint á kvöldin auk þess að mæta á nokkra fundi. Prinsinn varð síðan 8 ára núna 30. mars. Time flies when you're having fun!!!

Hvað tónlistina varðar er ég á fullu í Söngskólanum þótt ég hafi ekki náð að sinna því sem skyldi undanfarinn mánuð eða svo út af vinnunni. Skylst að ég fari í grunnprófið 1. maí og tek þá 1.-3. stig í söng og um svipað leyti 3. stigið í tónfræði svo eitthvað sé nefnt. Lifi það vonandi af.

Í Skátakórnum er ég að leika formann og erum við með skemmtilegasta prógram ever. Syngjandi Tragedy með Bee Gees, Bohemian Raphsody með Queen og fleira skemmtilegt. Tónleikarnir verða 27. maí og verða örugglega frábærir.

Þá er ég aðallega í tveimur verkefnum þessa dagana: Annars vegar hluti af RAP-hópi Bandalags íslenskra skáta ásamt fjórum snillingum og erum við að vinna í því risavaxna verkefni að endurskoða dagskrárgrunn skátastarfs í landinu (nokkurs konar námsskrá). Því mun svo fylgja endurskoðun á öllu stuðningsefni, merkjum, búningum, námskeiðum o.s.frv. þannig að um er að ræða heildarendurskoðun á sviði dagskrármála. Mjög spennandi verkefni.

Hitt verkefnið er að ég leiði fyrir hönd MND-félagsins vinnu við geisladisk sem kemur út í sumar áfastur glæsilegri bók þar sem forsetinn skrifar inngangsorð. Um er að ræða styrktarverkefni fyrir MND-félagið þar sem við fengum fjölda málverka og ljóða frá þekktum listamönnum, tókum mynd af málverkunum og munum setja þau inn í bók ásamt ljóðunum. Buðum loks upp málverkin um daginn og rann ágóðinn, á þriðju milljón, til MND-félagsins. Verkefnið hefur vinnuheitið Ljóð í sjóð og verður yfirskrift bókarinnar “Við veljum lífið” og disksins “Óður til lífsins”. Jón Ólafsson framleiðir fyrir okkur diskinn og er okkur innan handar. Á diskinn erum við búin að fá listamenn eins og Hörð Torfason, Sálina hans Jóns míns, Ragnheiði Gröndal, Pál Óskar og Móniku, Rúnar Júlíusson og fleiri snillinga. Síðast í kvöld heyrði ég í Guðmundi Jónssyni úr Sálinni sem bauð okkur lag með sér tileinkað Rabba heitnum og þáði ég það með þökkum. Það er svo mikið af góðu fólki til í heiminum.

Í janúar fór ég til Svíþjóðar á Oracle-ráðstefnu með vinnunni. Mjög fín ráðstefna sem við fengum mikið út úr. Leigði bíl og kíkti í heimsókn til Árna, Guðbjargar og Lilju í Skövde. Glæsilegur túr og gott að hitta þau.

Núna 4. apríl var síðan komið að stóru ferðinni. Við skötuhjúin skelltum okkur til Kúbu. Draumaferðin sem ég hef verið að bíða eftir undanfarin fjögur til fimm ár. Kúba hefur verið efst á listanum þar sem mér fannst ég verða að komast þangað áður en Kastró karlinn geispar golunni. Ferðin stóð algerlega undir væntingum og var frábær frá upphafi til enda. Okkur tókst að gera allt sem við ætluðum að gera nema að dansa salsa á kúbverskum salsastað með fullt af Kúbverjum. Það voru þrumur og eldingar síðasta kvöldið þegar við ætluðum loks að láta verða af því og þess vegna fundum við ekki staðinn enda örugglega enginn þar á mánudagskvöldi í þrumuveðri. Skelltum okkur í dansskóla í vetur og höfum því æft stíft. :) Tökum þetta næst með trompi!!!

Vorum þarna úti ásamt pabba og mömmu sem verða viku í viðbót...eru farin að sækja svolítið í sig veðrið þau gömlu!

Jæja, úps...klukkan orðin fjögur og ég ætla að vakna klukkan hálf tíu til að skella mér til tengdó á Akureyri um páskana og á skíði. Hlakka til að komast norður. Stefni að því að það líði styttra á milli bloga næst. Hef ákveðið að stefna að því að skrifa a.m.k. einu sinni í viku. Kemur í ljós hvernig það gengur....

Sigginn

Ps. Settum upp hrikalega flotta klukku í eldhúsinu í dag. Erum búin að bíða eftir þessari klukku í nokkra mánuði. Fannst allar hinar ljótar og ákváðum að bíða eftir þessari. Glæsileg! Allir velkomnir á Miklubrautina til að skoða gripinn!

1 Comments:

At 15.4.2006, 13:10, Blogger imyndum said...

Veit ekki hvaða bjartsýni þetta var að kíkja inn á bloggið þitt ;) en eins og þú sagðir, menn bara að standa sig. Havana-Akureyri, smá munur á veðurfari ? Hlakka til að sjá myndir. Páskakveðjur, Rósa

 

Skrifa ummæli

<< Home