fimmtudagur, mars 24, 2005

Góðir Íslendingar, til hamingju með nýjasta öryrkjan ykkar!

Já, vegir Davíðs eru órannsakanlegir!

Hugsið ykkur...það er svo mikið góðæri núna að viðskiptahallinn er næstum því orðinn lóðréttur, svo mikið kaupum við inn í landið af ýmiss konar varningi. Á öðru hverju götuhorni eru sprottin upp bílaumboð sem flytja inn Porsche, Benz og BMW, Lexus og aðrar eðalsjálfrennireiðar í áður óþekktu magni. Íbúðaverð hækkar lóðrétt og Íslendingar eru í óða önn með að kaupa upp Bretland. Til að kóróna allt saman, auka notkun á allt of miklu fjármununum okkar og væntanlega draga úr þennslu höfum við nú tekið upp innflutning á öryrkjum frá Japan.

Hvaða húmor er þetta að sækja Fischer rugludall um hálfan hnöttinn? Við erum í stólpavandræðum með að halda utan um alíslenska geðsjúklinga og hef ég sjálfur kynnst sem aðstandandi að þar stöndum við okkur ekki mjög vel. Þá dettur Davíð í hug að flytja einn frægasta geðsjúkling heims til landsins alla leið frá Japan.

Reyndar það sem gerir þetta skemmtilegt er að þetta er í andstöðu við Bandaríkjamenn og okkur finnst alltaf skemmtilegt að skella á nefið á stóru þjóðunum. Munið þið þegar aðstoðarforsætisráðherra Taiwan kom hingað fyrir ekki mjög mörgum árum? Þá mótmæltu Kínverjar harðlega (eins og þeir gera líklega alls staðar þar sem hann fer). Þau mótmæli hleyptu Íslendingum kapp í kinn og við tókum á móti þessum manni eins og hann væri æskuvinur okkar og hann varð skyndilega miklu velkomnari en hann hefði nokkurn tímann orðið án kvartana Kínverja - auðvitað bara til þess að gefa Kínverjum langt nef. Nú gerum við það sama við Fischer.

Þeir sem ekki þekkja sögu Taiwan þá er það lítil eyja undan ströndum Kína sem ákvað upp á sitt einsdæmi að gerast sjálfstæð og stofna "Lýðveldið Kína" (e. Republic of China) í staðinn fyrir "Alþýðulýðveldið Kína" (e. People's Republic of China) sem er formlega nafnið á stóra bróður. Kínverjum var ekki skemmt en þetta var í miðju kalda stríðinu og Bandaríkjamenn tóku Taiwana upp á sína arma af því Kínverjar voru kommar og því "vondi karlinn". Kínverjar létu gott heita en hafa alla tíð verið hundfúlir út í Taiwan. Þeir hafa aldrei viðurkennt Taiwan sem sjálfstætt ríki heldur halda því fram enn þann dag í dag að Taiwan sé í raun og veru hluti af alþýðulýðveldinu Kína.

En aftur að Fischer...af hverju Fischer? Hvað er svona merkilegt við Fischer?

Hann er einn af þessu svokölluðu "Íslandsvinum", fólki sem hefur komið hingað í viðskiptaferð í nokkra daga, haldið tónleika, sýningar, keppt á íþróttaviðburðum o.s.frv. og fengið greitt fullt af peningum fyrir áður en það fór aftur heim. Fischer kom í svona heimsókn 1972 þegar hann keppti við Spassky um heimsmeistaratitilinn í skák, Bandaríkjamaður við Rússa í kalda stríðinu miðju. Þeir hittust síðan aftur félagarnir í Svartfjallalandi eða einhverjum af þessum Balkanlöndum (gömlu Júgóslavíu) árið 1992 til að fagna 20 ára afmæli einvígisins og vekja athygli á stríðsástandinu í Júgó sem þá var. Þá var í gangi viðskiptabann á þetta svæði sem Fischer lét lönd og leið og síðan hefur hann verið á flótta undan Bandaríkjamönnum sem hafa birt á hann kæru fyrir að rjúfa viðskiptabannið með því að keppa þarna 1992. Þvílíkt bull!

Við tökum því við karlinum eins og hann sé þjóðhöfðingi enda er stóri feiti strákurinn í götunni með kúrekahattinn að nýðast á vini okkar og því tökum við hann upp á okkar arma. Þýðir þetta að við ætlum að beila alla Íslandsvini út úr fangelsum um alla heim og enda sem einhvers konar "celebrity fangaeyja"? Fullir hljómsveitarmeðlimir sem komu hingað einhvern tímann á undanförnum áratugum geta hringt í Dabba þegar þeim er stungið inn á fylleríi víðs vegar um heim og beðið hann um að senda þeim passa. "Ekkert mál strákar, þið eruð nú einu sinni Íslandsvinir - ha!", segir Dabbi og afgreiðir málið með forgangshraði.

Fischer er ekkert merkilegri en allir hinir "Íslandsvinirnir". Það er alltaf talað um að hann sé í sérstöku sambandi við land og þjóð - ekki hef ég tekið eftir því! Gæinn hefur alla vega ekki dottið í hug að koma í heimsókn og rækta sambandið í heil 30 ár!!!

Hvað gerist síðan þegar hann kemur til landsins? Þarf þá að greiða honum eins og öðrum stórmeisturum laun frá ríkinu til að hann geti stundað skákina (sem hann hefur ekki stundað í 15 ár). Bíðið bara, hann er kjaftforari en allt sem kjaftfort er og innan nokkurra mánaða verður hann farinn að kvarta yfir lágum örorkubótum á Íslandi. Það er kannski ástæðan fyrir því að Garðar, fyrrverandi framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins og óvinur Davíðs nr. 1 er í vinahóp Fischers. Hann hugsar sér gott til glóðarinnar að fá til landsins háværan "celebrity" öryrkja sem gæti orðið öflugur fyrir málstaðinn. Já, það eru margar athyglisverðar hliðar á þessu máli - og engin eðlileg eða skiljanleg.

Úr því sem komið er verðum við bara að vona að karlgreyinu eigi eftir að líða hér þokkalega vel með sinni japönsku konu en að hann verði ekki bara til vandræða.

En hver skyldi vera næstur? Kannski við ættum að bjóða Karli Bretaprins og nýju konunni hæli eða Michael Jackson!

Svo er náttúrlega enn einn möguleiki; Kannski ætlar Dabbi bara að lokka hann til landsins og skipta síðan á honum við Bandaríkjamenn og nokkrum F15 þotum í Keflavík...Vegir Davíðs eru órannsakanlegir!

1 Comments:

At 28.3.2005, 09:43, Blogger Laufey Jörgensdóttir said...

Er ekki bara Úlfurinn kominn með blogg - það var lagið.

Heyrðu takk fyrir kveðjuna á síðuna mína :-) Þetta gat stelpan sko.

Kær kveðja, Laufey

 

Skrifa ummæli

<< Home