þriðjudagur, mars 22, 2005

Clint Eastwood & sumarbústaður um páskana

Fór á "Million Dollar Baby" með Clint Eastwood í gær. Mjög flott mynd og gerði mikið meira en að standa undir væntingum, alla vega hjá mér. Þau voru þarna þrjú sem málið snérist um leikin af Clint sjálfum, Hillary Swank sem lék box stelpuna og Morgan Freeman sem lék aðstoðarmanninn í boxgymminu. Þau voru frábær enda hrepptu þau öll óskarinn fyrir frammistöðu sína minnir mig. Handritið er snilld og tekur margar óvæntar beygjur og teygjur er í senn mannlegt og spennandi. Þetta er mjög góð mynd og ég mæli eindregið með henni. Ef þið ætlið á eina mynd á næstunni þá er þessi mjög góður kostur! Clint verður alltaf betri og betri leikstjóri og alveg eins og í vestrunum í gamla daga þá veit hann að það er ekki alltaf hvað er sagt heldur hvernig hlutirnir eru sagðir sem skiptir máli. Hann er snillingur í að nota þagnir sem margfalda áhrif augnabliksins. Meistari! Ég þarf auðsjáanlega að finna fleiri myndir með honum. Held ég sé t.d. ekki búinn að sjá Mystic River. Langar líka að sjá fleiri myndir t.d. Ray um Ray Charles. Ef ÞÚ ert ekki búin(n) að sjá Ray en langar bjallaðu þá og kýlum á það!

Fer einn í sumarbústað í Straumnesi við Úlfljótsvatn (við hliðina á Steingrímsstöð) um páskana. Vinnubúðir - Einbeitingarbúðir (Concentration Camps) eins og Hitler kallaði þetta. Ætla að nota tímann þessa daga til að klára skoðanakannanirnar báðar. Þeir ættu að duga til þess. Verður mikið ljúft að vera búinn með þær. Unnur og hugsanlega fleiri mæta á svæðið seinni partinn á laugardaginn og verður þá grillað af miklum móð. Mér er sagt að verði ég ekki búinn með skoðanakönnunina þá fái ég ekkert að borða. Eins gott að standa sig!

Allir velkomnir að kíkja við um helgina og skella sér í pottinn!

Er að spá í að renna annað kvöld (miðvikudagskvöld) á Úlfljótsvatn í páskaútilegu Skjöldunga, borða með þeim góðan mat, fylgjast með litlu englunum vígjast inn í skátafjölskyldu heimsins og vera á kvöldvökunni með þeim áður en ég renni í bústaðinn við hinn enda vatnsins. Væri nú skemmtilegt - ótrúlega mikil orka alltaf í kringum unglinga í action!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home