miðvikudagur, mars 30, 2005

Afmælisdagur í Danmörku, páskar, Fischer og fleira...

Í dag eru nákvæmlega 7 ár síðan Kristófer Helgi stórtöffari og þar með lifandi eftirmynd föður síns, kom í heiminn. Heyrði í karlinum áðan. Alltaf gott að heyra röddina. Var sáttur en jafnframt dasaður enda búið að vera afmæli í gangi í fjóra klukkutíma eða svo. Fékk fullt af gjöfum, línuskauta, tjald í garðinn, íþróttagalla, Bionicle karla, Pokemon kúlu og ýmislegt fleira. Þá höfðu hann og Birna systir komist að því samkomulagi að það yrði haldið síðbúið afmæli þegar hann kæmi til Íslands í sumar...ekki málið!

Heyrði líka í Gunnu í dag frá Brussel...allt í fínu formi þar. Var nýbúin að komast að óvæntri sérstöðu sinni, þ.e. að hún væri í blóðflokknum AB mínus. Úff, skyndilega fannst mér ég hræðilega normal verandi bara í A plús eins og allir hinir. Ólíklegt að það standi til bóta.

Gaman að fá comment frá Laufeyju. Komdu fagnandi og til hamingju með tilvonandi Sálaraðdáandann. Það mætti vera svakaleg stökkbreyting á geni eigi barnið ekki eftir að fýla og syngja með Sálinni út í eitt!!

Naut páskanna í sveitinni. Tók bústað á leigu í Straumnesi við Úlfljótsvatn og var þar í einbeitingarbúðum (concentration camps) frá fimmtudegi fram á mánudag við að koma frá mér skoðanakönnununum, þ.e. númer 1 og númer 2. Kláraði loksins númer eitt - Jibbíííí!!!! Held ég hafi lofað því fyrst í janúar einhvern tímann eða í byrjun febrúar. Þvílík skelfileg vinna! Er búinn að prenta út, á eftir að lesa síðustu skýrsluna yfir aftur útprentaða, binda hana inn og senda hana frá mér. Geri það á eftir. Loksins - Úff úff úff! Komst töluvert af stað með skoðanakönnun númer 2. Þarf að reyna að ná að klára hana á næstu viku til tíu dögum. Hún er öll fljótlegri og meðfærilegri...held ég hafi líka sagt þetta um hina - í janúar!

Þetta varð nú ekkert mjög rólegt þótt ég hafi verið þarna einn að mestu leyti til að byrja með. Pabbi og mamma komu í stutt kaffi á föstudaginn langa; Ásta, Unnur og Guðrún komu ásamt tveimur Norðmönnum, Bengt og Daníel, á laugardaginn. Grill, pottur, gítar, rólegheit og fínerí. Frábært! Flestir heim á sunnudag og Nojararnir meira að segja með fyrstu vél til Noregs. Unnur varð eftir fram á mánudag og ég hélt áfram að vinna.

Fórum reyndar út að viðra okkur á sunnudeginum og enduðum úti á bát. Alltaf skemmtileg tilbreyting. Nokkur ár síðan maður hefur farið út á bát á Úlfljótsvatni. Fann þarna óvart bát, mótor og allar græjur í bátaskýlinu. Veðrið var snilld þannig að það var látið vaða og eftir nokkuð brölt var allt farið að fljóta og mótorinn meira að segja kominn í gang! Gekk allt eins og í sögu þangað til mér gekk svolítið illa að drepa á honum aftur. Það lagaðist samt um leið og við STOP-takkinn fórum að fá betri tilfinningu hvor fyrir öðrum. Um kvöldið var önnur ofursteik að hætti hússins þar sem ýmis trix voru prófuð. Mjög gott að grilla kartöflur og bræða gráðost ofan á þær á grillinu. Líka fínt að steikja grænmeti upp úr vatni! Afbragð...föttuðum nefnilega að það var engin matarolía í húsinu. Þetta var líka miklu betra!

Fínt að vera svona einn í bústað þótt það sé auðvitað líka fínt að hafa skemmtilegt fólk í kringum sig. Tók allnokkrar söngskólaaríur um helgina ásamt slatta af gítarsessjónum í bland við skoðanakönnunina. Labbaði einnig yfir að Þingvallavatni og skoðaði Skinnhúfuhelli. Hef líklega ekki komið í hann síðan ég var í sumarbúðunum í gamla daga, líklega 15-20 ár síðan. Vá!

Er búinn að komast að því (svosem ekki í fyrsta sinn) að ég er ekkert sérstaklega góður innkaupastjóri. Keypti inn mat fyrir páskana sem hefði dugað Eþíópíufjölskyldu fram að jólum og kom með stóran hluta af honum í bæinn aftur. Ég hlýt að hafa farið svangur í Bónus! Alveg bannað!

Fór Nesjavallaveginn heim. Gróðurhúsáhrifin virðast hafa opnað hann í mars þetta árið. Það man ég ekki eftir að hafi gerst áður. Við ættum kannski að skoða það mál eitthvað nánar.

Var upptekinn í gærkvöldi. Skátakórinn byrjaði að taka upp disk sem kemur að öllum líkindum út með vorinu fyrir landsmótið í sumar. Tókum upp tvö lög í fríkirkjunni í Hafnarfirði og höldum áfram á þriðjudaginn.


Fischer karlinn er kominn til landsins og þegar farinn að kasta sprengjum. Það er nú reyndar gott að vita af því að hann er ekki lokaður lengur inn í japönsku fangelsi í níu mánuði fyrir það eitt að tefla skák. Veit ekki hvor hafði sig að meira fífli hann eða Wiesenthal stofnunin sem svaraði honum í heimspressunni! Þetta á að heita virt stofnun sem er í fjölmiðlasamskiptum allt árið og því með mikla reynslu á því sviði. Hvernig dettur þeim í hug að svara manni sem allir vita að er fárveikur rugludallur? Maður svarar ekki svoleiðis og málið fellur dautt niður þar sem enginn hlustar á hann hvort eð er vegna þess að hann er jú fársjúkur blessaður maðurinn. Þeir ættu frekar að eyða orkunni í að losa heiminn við útrýmingarbúðirnar á Guantanamo. Þar ætti þeim nú að renna blóðið til skyldunnar og frelsa þá sem þar hafa verið ólöglega í haldi án dóms og laga í þrjú ár...og hananú!!!

Jæja...action paction...nú kýlir maður skoðanakönnun númer 1 á algjöra endastöð og númer 2 nær sinni endastöð! Adíos Amigos!

2 Comments:

At 31.3.2005, 00:00, Anonymous Nafnlaus said...

Tjahh... ég er líka AB mínus... sem þýðir að af þessum 0,085% eða álíka fáráðnlega litla hluta þjóðarinnar ertu farinn að þekkja meirihlutann...

Jamm jamm... innihaldslausar og óáhugaverðar samræður... það held ég ... o sei sei... :-)

= Y =

 
At 31.3.2005, 19:08, Blogger Sigurður Viktor Úlfarsson said...

Það er ágætt að vita af því ef það þarf einhvern tímann að dæla á milli.

Er Blóðbankinn ekki hlaupandi með gylliboð á eftir svona "raríteti"?

 

Skrifa ummæli

<< Home